Prentað þann 22. des. 2024
650/2022
Reglugerð um veiðar á makríl.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til makrílveiða íslenskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) utan lögsögu ríkja og í lögsögu Svalbarða á árinu 2022.
Í lögsögu Svalbarða skal farið að reglum sem norsk stjórnvöld setja um veiðarnar, enda séu þær settar á grundvelli samningsins um Svalbarða frá 9. febrúar 1920 og í samræmi við ákvæði hans.
2. gr. Aflamark.
Aðeins skipum sem hafa aflamark í makríl er heimilt að stunda makrílveiðar.
Á árinu 2022 er leyfilegur heildarafli makríls tilgreindur í tonnum og skipting hans sem hér segir:
Tegund | Leyfilegur heildarafli | Frádráttur skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 (5,3%) | Til ráðstöfunar, skv. 10. gr. b. laga nr. 116/2006 | Til úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 |
Makríll | 131.162 | 6.952 | 4.000 | 120.210 |
Heimilt er hverju skipi að veiða allt að 105% umfram aflamark í makríl á árinu 2022 og dregst sá umframafli frá aflamarki þess á árinu 2023. ÞáHeimilt er heimilt að flytja allt að 1015% af ónýttu aflamarkiaflamarks fiskiskips í makríl frá árinu 2022 til ársins 2023. Flutningsheimildir samkvæmt þessari grein eiga einnig við um aflaheimildir sem dregnar eru frá leyfilegum heildarafla samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 (5,3%) og samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006 (4.000 lestir).
3. gr. A- og B-flokkur.
Aflaheimildir í makríl skiptast í A- og B-flokk. Skip sem eru með aflamark í makríl skiptast í A- og B-flokk og fer um skiptinguna eftir því í hvaða flokki aflaheimildir skipsins eru. Ekki er hægt að skipta um flokk á veiðitímabilinu. Óheimilt er að flytja aflamark úr B-flokki yfir í A-flokk nema í jöfnum skiptum í þorskígildum talið fyrir aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít að því gefnu að slík skipting samræmist reglum um krókaaflamark þ.m.t. að krókaaflamark verður aðeins flutt til skips sem leyfi hefur til veiða með krókaaflamarki. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 9. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2020/2021 er ekki heimilt að flytja aflamark makríls sem flutt hefur verið af skipi í B-flokki og yfir á skip í A-flokki, til annarra skipa í sama flokki.
4. gr. Veiðitilhögun.
Makrílveiðar í flottroll eru ekki heimilar nær landi en 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu.
Þá eru makrílveiðar í flottroll bannaðar á svæði sem afmarkast af línum sem dregnar er milli eftirfarandi hnita:
- 68°30 N - 17°00 V
- 65°30 N - 17°00 V
- 65°30 N - 26°00 V
- 66°00 N - 26°00 V
- 66°55 N - 24°13 V
- 67°40 N - 24°13 V
- 68°30 N - 19°04 V
Makrílveiðar í net eru óheimilar.
5. gr. Sýnataka.
Sé makríll veiddur í flottroll eða nót, skulu tekin sýni úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera að minnsta kosti 50 stk. af makríl, sem valin eru af handahófi. Sýnin skulu fryst um borð, merkt skilmerkilega (veiðiskip, staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnun, þegar að lokinni veiðiferð.
6. gr. Fjarskiptabúnaður.
Fiskiskip sem stunda veiðar á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips á klukkustundar fresti, með sjálfvirkum hætti, til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, sem miðlar gögnum til hlutaðeigandi stofnana.
Óheimilt er að halda til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest að fjarskiptabúnaður starfi eðlilega. Skulu sendingar samkvæmt framangreindu hefjast þegar viðkomandi skip lætur úr höfn og skal þeim ekki ljúka fyrr en skipið kemur til hafnar að nýju til löndunar afla.
Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga bilar skal gert við hann svo fljótt sem mögulegt er, þó eigi síðar en að 30 dögum liðnum. Þar til búnaðurinn verður kominn í lag skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á a.m.k. 4 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar.
7. gr. Tilkynningar.
Um tilkynningar við makrílveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Um tilkynningar varðandi veiðar í lögsögu Svalbarða fer samkvæmt reglum sem norsk stjórnvöld setja enda séu þær settar á grundvelli samningsins um Svalbarða frá 9. febrúar 1920 og í samræmi við ákvæði hans.
Eftir að skip hættir veiðum og í síðasta lagi fjórum klukkustundum áður en áætlað er að það komi til hafnar skal skipstjóri senda Fiskistofu tilkynningu á því formi sem Fiskistofa ákveður um áætlaðan afla skipsins, fyrirhugaðan löndunarstað og fyrirhugaðan löndunartíma. Heimilt er að víkja frá lágmarkstíma t.d. ef fjarlægð milli fiskimiða og löndunarhafnar gefur tilefni til þess, enda sé þá tilkynning send um leið og veiðum er hætt.
8. gr. Vigtun og löndun.
Makrílafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Þó er heimilt með leyfi Fiskistofu að landa makrílafla og makrílafurðum í höfnum erlendis, enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar makríls utan íslenskra hafna til Fiskistofu, skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og hvert er áætlað magn makríls.
Áætli skip komu til hafnar samningsaðila NEAFC með afla af samningssvæði NEAFC, hvort heldur til löndunar, umskipunar eða til að leita þjónustu að öðru leyti, skal tilkynna þar til bæru yfirvaldi í viðkomandi ríki um komu skips til hafnar innan tiltekins frests sem ákveðinn er af hafnarríkinu í samræmi við reglur NEAFC um hafnarríkiseftirlit og framkvæmd þess.
Tilkynningar skal senda með rafrænum hætti á heimasíðu NEAFC https://psc.neafc.org. Frekari upplýsingar má finna á slóðinni https://psc.neafc.org/designated-contacts. Samþykki þar til bærra yfirvalda þarf að liggja fyrir áður en löndun hefst.
Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda makrílsins eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.
Um vigtun á makríl gilda ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla og ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu meðafla á uppsjávarfiski. Draga skal 2% af afla hvers skips vegna vatnsinnihalds í makríl miðað við afla upp úr sjó og reiknast það magn ekki til aflaheimilda þess. Sé makríll veiddur á línu eða handfæri skal afla haldið aðgreindum um borð í veiðiskipi eftir tegundum. Verði slíku ekki við komið vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun.
9. gr. Viðurlög.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands.
10. gr. Lagaheimild og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 3. gr., 7. mgr. 8. gr., 10. gr. b. og 4. mgr. 15. gr. og 16. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, 2. gr., 9. gr. og 30. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, 8. gr., 9. gr. og 14. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og 4. gr., 7. gr., 8. gr. og 19. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 640/2021 um veiðar á makríl.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.