Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 26. jan. 2022

Brottfallin reglugerð felld brott 1. jan. 2022

650/2021

Reglugerð um skyldu flugrekenda til að kanna vottorð vegna COVID-19 í millilandaflugi.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla flugrekendur/umráðendur loftfara og farþega með loftförum í millilandaflugi til íslensks yfirráðasvæðis, að undanskildum loftförum í yfirflugi, loftförum í flutningaflugi með farm, loftförum í neyð og loftförum sem eiga viðkomu án þess að farþegar fari frá borði.

2. gr. Skyldur flugrekanda/umráðanda loftfars.

Öllum flugrekendum/umráðendum loftfara er skylt að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 (SARS-CoV-2), vottorð um að COVID-19 (SARS-CoV-2) sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs á COVID-19 (SARS-CoV-2) áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga, sbr. reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, eins og hún er á hverjum tíma. Vottorð eða staðfesting á neikvæðri niðurstöðu COVID-19 prófs skal vera kjarnsýrupróf (PCR-próf) sem er ekki eldra en 72 klst. Skyldur flugrekenda/umráðenda loftfara til að kanna hvort farþegi hafi framangreind vottorð eða staðfestingu nær aðeins til þess að staðreyna nafn farþega á vottorði eða staðfestingu og gildis- og útgáfutíma skjals, ef við á, og kanna hvort vottorð eða staðfesting beri með sér yfirbragð þess að vera vottorð eða staðfesting í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda.

Geti farþegi ekki framvísað vottorði eða staðfestingu skv. 1. mgr. ber að synja farþega um flutning.

Þrátt fyrir 2. mgr. tekur skylda til að synja farþega um flutning ekki til íslenskra ríkisborgara.

Synjun skv. 2. mgr. felur ekki í sér neitun um far á grundvelli 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 261/2004, sbr. reglugerð um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum, nr. 1048/2012.

3. gr. Stjórnvaldssekt.

Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssekt á einstakling eða lögaðila eins og hér segir:

  1. Brot gegn skyldu til að kanna hvort farþegi hafi tilskilið vottorð eða staðfestingu skv. 1. mgr. 2. gr. varðar stjórnvaldssekt kr. 200.000 fyrir hvert brot vegna sérhvers farþega.
  2. Brot gegn skyldu til að synja farþega um flutning skv. 2. mgr. 2. gr., sbr. þó 3. mgr. 2. gr., varðar stjórnvaldssekt kr. 200.000 fyrir hvert brot vegna sérhvers farþega.

Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 2. gr. óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekið fyrirsvarsfólk lögaðilans, starfsfólk hans eða annan aðila sem starfar á vegum hans.

Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á stjórnvaldssekt eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför og er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.

4. gr. Viðurlög.

Ítrekuð eða stórfelld brot gegn 1. mgr. 2. gr. varða sektum eða fangelsi skv. 1. mgr. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum. Gera má lögaðila sekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir slík brot. Brot samkvæmt ákvæði þessu sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Samgöngustofu.

5. gr. Kæra.

Ákvörðun um stjórnvaldssekt má skjóta til ráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í bráðabirgðaákvæði, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 145. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, og tekur gildi frá og með 5. júní 2021 kl. 00.00 að alþjóðlegum staðaltíma (UTC) og gildir til 31. desember 2021 kl. 23.59 að alþjóðlegum staðaltíma (UTC).

Ef ákvæðum reglugerðar þessarar lýstur saman við ákvæði reglugerðar um flugvirkt, nr. 1025/2012, skulu ákvæði reglugerðar þessarar ganga framar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.