Fara beint í efnið

Prentað þann 17. jan. 2022

Stofnreglugerð

642/2018

Reglugerð um styrkveitingar ráðherra.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að við veitingu tilfallandi styrkja og framlaga til verkefna á grundvelli 42. gr. laga um opinber fjármál sé gætt að vandaðri og samræmdri málsmeðferð.

2. gr. Gildissvið.

Með styrk eða framlagi í reglugerð þessari er átt við fjárstuðning sem einstakir ráðherrar veita til annarra en ríkisaðila, vegna kostnaðar við tiltekin verkefni, án skuldbindingar um beint endurgjald frá móttakanda.

Reglugerð þessi gildir ekki um ráðstöfunarfé einstakra ráðherra eða framlög og styrki sem veittir eru af hálfu ríkisstjórnar.

Reglugerð þessi gildir ekki um tilfallandi framlög eða styrki undir 200 þús. krónum.

3. gr. Meginreglur um veitingu styrkja og framlaga.

Við úthlutun einstakra ráðherra á styrkjum og framlögum skal gæta jafnræðis, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða.

Styrkir eða framlög skulu vera í samræmi við gildandi stefnu, markmið og áherslur þess málaflokks sem hlutaðeigandi ráðherra ber ábyrgð á.

Snúi styrktar- eða framlagsbeiðni að málaflokki annars ráðherra skal hann framsenda beiðnina til meðferðar hjá þeim ráðherra sem ábyrgð ber á þeim málaflokki, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

4. gr. Skuldbindingargildi samninga um styrki og framlög.

Fjárhagsleg skuldbinding ráðherra vegna styrkja eða framlaga samkvæmt reglugerð þessari skal byggja á fyrirliggjandi fjárheimild til viðeigandi málaflokks í fjárlögum.

Veiti ráðherra styrk eða framlag til lengri tíma en fjárlagaársins skal gerður samningur við móttakanda þar sem fram kemur skýr og bindandi fyrirvari um að áframhaldandi fjárstuðningur við verkefnið sé háður því að fyrir hendi verði fjárheimildir í fjárlögum þeirra ára sem samningur tekur til.

5. gr. Úthlutunarreglur vegna styrkja og framlaga.

Einstakir ráðherrar veita styrki og framlög á grundvelli skriflegra úthlutunarreglna þar sem kveðið er á um málsmeðferð í samræmi við reglugerð þessa.

Úthlutunarreglurnar skulu vera skýrar og hlutlægar og birtar opinberlega, m.a. á heimasíðu ráðuneytis.

6. gr. Auglýsing um styrki og framlög.

Þegar um er að ræða tiltekna flokka styrkja eða framlaga sem ráðuneyti hyggjast veita á grundvelli 42. gr. laga um opinber fjármál skal ráðherra, a.m.k. einu sinni á ári, með opinberri auglýsingu á heimasíðu ráðuneytis, í fjölmiðlum eða opinni samráðsgátt ráðuneyta, vekja athygli á þeim fyrirhuguðu styrkveitingum og kalla þannig eftir umsóknum frá styrkhæfum aðilum. Í auglýsingu skal m.a. vísa til úthlutunarreglna sem settar eru skv. 5. gr. reglugerðar þessarar og úthlutunarskilmála skv. 7. gr.

Í auglýsingu um styrki og framlög skal að lágmarki gerð grein fyrir markmiðum og áherslum með veitingu umræddra styrkja eða flokkum styrkja, þeim styrkfjárhæðum sem í boði eru, hvaða skilyrði umsækjandi þarf að uppfylla til að eiga rétt til styrks eða framlags, á hvaða formi skuli skila inn umsókn, þeim gögnum sem fylgja skulu umsókn, tímafresti til að skila inn umsókn auk áætluðum afgreiðslutíma umsóknar.

Farið skal fram á að umsækjandi um styrk eða framlag lýsi með greinargóðum hætti markmiðum verkefnis sem liggur til grundvallar umsókn, áætlun um framkvæmd og kostnað við verkefnið, tímaáætlun þess, auk annarra upplýsinga sem metnar eru nauðsynlegar. Njóti umsækjandi annarra styrkja eða framlaga vegna verkefnisins skal hann gera grein fyrir slíkum framlögum eða styrkjum.

Taka skal fram að umsókn sem ekki uppfyllir skilyrði auglýsingar og úthlutunarskilmála verði ekki tekin til greina.

7. gr. Úthlutunarskilmálar og úthlutunarsamningar.

Þegar um er að ræða tiltekna flokka styrkja og framlaga sem ráðuneyti veita að undangenginni auglýsingu, sbr. 6. gr., skulu styrkir og framlög veitt á grundvelli skriflegra úthlutunarskilmála.

Í úthlutunarskilmálum skal kveða á um markmið sem ætlast er til að verkefni þjóni, sbr. 3. mgr. 6. gr., kröfur um framkvæmd og framvindu verkefnis, sérstök eða almenn skilyrði um ráðstöfun fjárins, greiðslutilhögun styrks eða framlags, upplýsingaskyldu um árangur verkefnis eða lok þess, eftirlit með ráðstöfun styrksins eða framlagsins, meðferð ágreiningsmála auk úrræða verði skilmálar styrksins eða framlagsins ekki efndir, þ.m.t. að halda eftir greiðslum og krefjast endurgreiðslu fjárins við vanefndir.

Sé fjárhæð styrks eða framlags veruleg skal gerður skriflegur samningur um styrk eða framlag á grundvelli úthlutunarskilmála, þar sem tryggð er fullnægjandi skýrslugjöf um framvindu þess og reikningsskil.

8. gr. Greinargerð um styrki og framlög.

Gera skal grein fyrir fyrirhuguðum útgjöldum einstakra ráðherra vegna styrkja og framlaga í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga, skv. 19. gr. laga um opinber fjármál og í árskýrslu viðkomandi ráðherra skv. 62. gr. sömu laga.

Í árskýrslu skal fjallað um helstu tilefni veittra styrkja og framlaga og mat lagt á ávinning af ráðstöfuninni með tilliti til stefnu, markmiða eða áherslna þeirra málaflokka sem hlutaðeigandi ráðherra ber ábyrgð á.

9. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015 og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 1. júní 2018.

Bjarni Benediktsson.

Guðmundur Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.