Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 2. júlí 2008
Sýnir breytingar gerðar 2. júlí 2008 af rg.nr. 634/2008

630/2008

Reglugerð um ýmis tollfríðindi.

I. KAFLI Tollfrjáls farangur.

Gildissvið kaflans.

1. gr.

Kafli þessi gildir um tollfrjálsan farangur ferðamanna og annarra sem koma til landsins frá útlöndum.

Með farangri er átt við ferðabúnað og annan varning sem hafður er með í ferð, auk varnings að tilteknu hámarki sem fenginn er erlendis, í fari eða í tollfrjálsri verslun hér á landi.

Kafli þessi tekur ekki til skráningarskyldra ökutækja.

Ferðamenn.

2. gr. Ferðabúnaður og annar farangur.

Ferðamönnum, búsettum hér á landi, er heimilt að flytja eftirtalinn varning inn tollfrjálst:

  1. Ferðabúnað og annan farangur sem þeir höfðu með sér í ferð til útlanda.
  2. Varning sem fenginn er erlendis, í fari eða í tollfrjálsri verslun hér á landi, að verðmæti allt að kr. 65.000, miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera kr. 32.500. Börn innan 12 ára skulu njóta að hálfu réttinda samkvæmt þessum tölulið.

Ferðamönnum, búsettum erlendis, er heimilt að flytja inn tollfrjálst ferðabúnað og annan farangur sem er hæfilegur miðað við tilgang ferðar og dvalartíma viðkomandi hér á landi, enda verði hann fluttur úr landi á ný við brottför eiganda.

Magn tollfrjálsra matvæla í farangri ferðamanna takmarkast af 1. mgr. 3. gr.

Um tollfrjálsan innflutning ferðamanna á áfengi og tóbaki fer eftir 4. gr.

3. gr. Matvæli.

Magn matvæla, þ.m.t. sælgæti, sem ferðamönum er heimilt að flytja inn tollfrjálst skal takmarkast við kr. 18.500 hámarksverðmæti, miðað við smásöluverð á innkaupsstað, og vera að hámarki 3 kg að þyngd.

Matvæli skulu talin með varningi skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr.

4. gr. Áfengi og tóbak.

Auk varnings skv. 2. gr. er ferðamönnum heimilt að flytja tollfrjálst inn áfengi og tóbak sem hér segir:

  1. Áfengi.

    1. 1 lítra af sterku áfengi og 1 lítra af léttvíni eða
    2. 3 lítra af léttvíni eða
    3. 1 lítra af sterku áfengi ogeða 1,5 lítra af léttvíni eða 1 lítra af sterku áfengi og 6 lítra af öli.
  2. Tóbak.

    1. 200 vindlinga eða
    2. 250 g af öðru tóbaki.

Miða skal við að sterkt áfengi sé áfengi sem í er meira en 21% af vínanda að rúmmáli og að léttvín sé áfengi, annað en öl, sem í er minna af vínanda.

Tollfrjáls farangur skipverja og flugverja í millilandaferðum.

5. gr. Ferðabúnaður og annar farangur.

Skipverjum og flugverjum, búsettum hér á landi, er heimilt að flytja eftirtalinn varning inn tollfrjálst:

  1. Ferðabúnað og annan farangur sem þeir höfðu með sér í ferð til útlanda.
  2. Varning sem fenginn er erlendis, í fari eða í tollfrjálsri verslun hér á landi, að verðmæti allt að kr. 24.000, miðað við smásöluverð á innkaupsstað, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð, en kr. 48.000, samkvæmt sömu viðmiðun, hafi þeir verið lengur í ferð. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera kr. 24.000.

Skipverjum og flugverjum, búsettum erlendis, er heimilt að flytja inn tollfrjálst ferðabúnað og annan farangur sem er hæfilegur miðað við tilgang ferðar og dvalartíma viðkomandi hér á landi, enda verði hann fluttur úr landi á ný við brottför eiganda.

Magn tollfrjálsra matvæla í farangri skipverja og flugverja takmarkast af 1. mgr. 3. gr.

Um tollfrjálsan innflutning skipverja og flugverja á áfengi og tóbaki fer eftir 6. gr.

6. gr. Áfengi og tóbak.

Auk varnings skv. 5. gr. er skipverjum og flugverjum heimilt að flytja tollfrjálst inn áfengi og tóbak sem hér segir:

  1. Skipverjum á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila sem eru 15 daga eða lengur í ferð:

    1. 1,5 lítra af sterku áfengi og 3 lítra af léttvíni eða
    2. 1,5 lítra af sterku áfengi eða léttvíni og 24 lítra af öli.
    3. 400 vindlinga eða 500 g af öðru tóbaki.
  2. Skipverjum á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila sem eru skemur en 15 daga í ferð:

    1. 0,75 lítra af sterku áfengi og 1,5 lítra af léttvíni eða
    2. 0,75 lítra af sterku áfengi eða léttvíni og 12 lítra af öli.
    3. 200 vindlinga eða 250 g af öðru tóbaki.
  3. Flugverjum, þ.m.t. flugverjum í aukaáhöfn, sem eru 15 daga eða lengur í ferð:

    1. 1 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni eða
    2. 1 lítra af sterku áfengi eða 0,75 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli.
    3. 200 vindlinga eða 250 g af öðru tóbaki.
  4. Flugverjum, þ.m.t. flugverjum í aukaáhöfn, sem eru skemur en 15 daga í ferð:

    1. 0,375 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni eða
    2. 0,375 lítra af sterku áfengi eða 0,75 lítra af léttvíni og 3 lítra af öli.
    3. 100 vindlinga eða 125 g af öðru tóbaki.

Um styrkleikamörk sterks áfengis og léttvíns skv. 1. mgr. fer eftir 2. mgr. 4. gr.

Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra og bryta, svo og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum, er heimilt að taka tollfrjálst aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir mega hafa tollfrjálst skv. 1. mgr.

Ýmis ákvæði.

7. gr. Almenn skilyrði tollfrelsis skv. 1.-6. gr.

Tollfrelsi skv. 1.-6. gr. er háð þeim skilyrðum að innflytjandi hafi varninginn í eigin vörslu við komu til landsins og geti þá framvísað honum til tollskoðunar og að varningurinn sé fluttur inn til persónulegra nota viðkomandi, fjölskyldu hans eða til smágjafa.

Lágmarksaldur til innflutnings áfengis er 20 ár og 18 ár að því er varðar tóbak.

Einungis skal heimilt að njóta tollfríðinda samkvæmt kafla þessum einu sinni á hverjum 3 sólarhringum.

8. gr.

Réttindi sem menn eiga samkvæmt þessum kafla verða ekki framseld.

Ef verðmæti varnings er meira en sem nemur tollfríðindum skv. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 5. gr. getur viðkomandi sjálfur ákveðið af hvaða hlutum verði greidd aðflutningsgjöld. Ef verðmæti einstakra hluta er meira en þar greinir, getur viðkomandi notið undanþágu og greitt aðflutningsgjöld af þeim verðmætum sem eru umfram þargreindar fjárhæðir.

Tveir eða fleiri aðilar geta ekki lagt saman heimildir sínar til tollfríðinda til þess að flytja tollfrjálst inn hlut sem er verðmeiri en um ræðir í tilvitnuðum ákvæðum í 2. mgr.

Flytji einstaklingar í ferðahópi inn sameiginlegar matarbirgðir til nota í ferð til landsins, skal það ekki girða fyrir að þeir fái notið tollfríðinda, enda sé það magn matvæla sem tilheyrir hverjum þeirra innan þeirra marka sem um ræðir í 1. mgr. 3. gr.

9. gr. Tollfrjáls innflutningur farangurs vegna atvinnu eða náms.

Þeir sem hyggjast dvelja hér á landi tímabundið vegna atvinnu eða náms geta flutt tollfrjálst inn farangur í samræmi við reglur sem gilda um ferðamenn, búsetta erlendis, eftir því sem við getur átt.

10. gr. Veiting tóbaks undan innsigli í skipum í utanlandsferðum.

Ef skip í utanlandsferðum hefur viðdvöl hér samfleytt í sjö daga skal tollstjóri að beiðni útgerðar veita skipverjum undan innsigli, án greiðslu aðflutningsgjalda, 200 vindlinga eða 250 g af öðru tóbaki til hverra sjö daga, enda sé greiddur kostnaður vegna þeirrar afgreiðslu.

11. gr. Tollfrjáls innflutningur farangurs sem verður viðskila við eiganda.

Tollstjóra er heimilt að leyfa tollfrjálsan innflutning farangurs sem verður viðskila við eiganda, enda sé um að ræða varning sem hefði verið tollfrjáls samkvæmt kafla þessum ef eigandi hefði haft hann í sinni vörslu við komu til landsins.

12. gr. Upplýsingagjöf vegna farangurs.

Þeir sem koma til landsins frá útlöndum skulu ótilkvaddir gera tollstjóra grein fyrir tollskyldum vörum sem þeir hafa meðferðis svo og þeim hlutum sem eru háðir sérstökum innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni.

Þar sem rauð og græn hlið eru notuð við tollafgreiðslu komufarþega skulu þeir sem eru með tollskyldar vörur eða vörur sem eru háðar sérstökum innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni fara um rautt hlið og framvísa þar varningnum til tollskoðunar. Þeim sem ekki eru með neinn slíkan varning er heimilt að fara um grænt hlið. Farþegar sem velja grænt hlið teljast með því gefa til kynna að þeir hafi engan varning meðferðis sem þeim ber að gera grein fyrir.

Þeir sem eru í áhöfn aðkomufars skulu gera grein fyrir varningi skv. 1. mgr. á sérstöku eyðublaði, hvort sem flytja á hann í land eða nota hann um borð í fari, og jafnframt framvísa vörum sem eru háðar innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni.

13. gr. Upplýsingagjöf vegna reiðufjár.

Þeir sem koma til landsins og þeir sem fara frá landinu og eru með meira reiðufé í íslenskum eða erlendum gjaldmiðli en sem nemur 15.000 evrum skulu ótilkvaddir gera tollstjóra grein fyrir reiðufénu á sérstöku eyðublaði eða framvísa því. Sama skal gilda um ferðatékka og önnur handhafabréf sem ganga manna á milli í viðskiptum.

II. KAFLI Tollfrjálsar búslóðir.

14. gr. Gildissvið kaflans.

Kafli þessi gildir um tollfríðindi vegna búslóða manna sem flytja búferlum til landsins.

15. gr. Hugtakið búslóð.

Til búslóða teljast í þessu sambandi hvers kyns hreyfanlegir innanstokksmunir og húsbúnaður, húsgögn, búsáhöld og heimilistæki, útvarps- og sjónvarpstæki, hljómflutningstæki, tölvur, málverk, skrautmunir, bækur, hljóðfæri og aðrir heimilismunir. Sama gildir um reiðhjól, búnað og hluti til íþróttaiðkunar, útivistar, veiða eða annarrar tómstundaiðju; söfn ýmiss konar, svo sem frímerkjasöfn og myntsöfn, og muni til persónulegra nota, svo sem fatnað.

Eftirtaldar vörur falla ekki undir undanþágu samkvæmt þessum kafla:

  1. Hlutir og búnaður til nota í atvinnuskyni.
  2. Skráningarskyld ökutæki, vélknúin farartæki og farartæki til siglinga eða flugs.
  3. Hlutir sem jafnan eru vegg- eða gólffastir í híbýlum manna, t.d. innréttingar og parket.
  4. Mat- og drykkjarvörur, þ.m.t. áfengi, auk tóbaks.

16. gr. Almenn skilyrði tollfrelsis búslóða.

Tollfrelsi búslóða er háð eftirtöldum almennum skilyrðum:

  1. Innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins.
  2. Innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili í landinu í samræmi við lög um lögheimili.
  3. Búslóðarmunir séu notaðir, hafi verið í eigu innflytjanda og fjölskyldu hans eigi skemur en í eitt ár og eingöngu ætlaðir til nota við heimilishald viðkomandi hérlendis. Undanþágan tekur þó til ónotaðra búslóðarmuna og búslóðarmuna sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma og ætlar að nota hér á landi, enda sé verðmæti þeirra eigi meira en kr. 140.000.- miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Fjárhæðin gildir fyrir hvern fjölskyldumeðlim 18 ára og eldri en helmingi lægri fjárhæð fyrir þá sem yngri eru.
  4. Viðkomandi hafi búslóðina með sér er hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en innan 6 mánaða frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlaðist hér lögheimili. Tollstjóri getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á, svo sem ef dvöl manns hér hefur upphaflega verið ákveðin um skemmri tíma en framlengist síðan til varanlegrar búsetu.

Tollstjóri getur áskilið að innflytjandi sýni fram á að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. með skjalfestum hætti, t.d. með því að framvísa dvalarleyfi eða starfssamningi.

III. KAFLI Tímabundin tollfríðindi vegna ökutækja.

Gildissvið kaflans.

17. gr.

Kafli þessi gildir um tollfríðindi þegar ökutæki, skráð erlendis, eru flutt inn til tímabundinnar notkunar og þegar óskráð ökutæki eru keypt hér á landi til notkunar um stundarsakir.

Undanþága frá greiðslu aðflutningsgjalda.

18. gr. Aðilar sem koma hingað til lands tímabundið.

Þeim sem hyggst dvelja hér á landi í ár eða styttri tíma vegna atvinnu eða ferðalaga er heimilt að flytja inn bifreið, skráða erlendis, án greiðslu aðflutningsgjalda, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Innflytjandi sé með eða hafi verið með fasta búsetu erlendis.
  2. Bifreiðin sé ætluð til persónulegra nota innflytjanda og fjölskyldumeðlima hans og annarra sem eru með honum í för og eru búsettir erlendis. Bifreið sem grein þessi tekur til er óheimilt að nota til fólks- eða vöruflutninga í atvinnuskyni.
  3. Bifreiðin sé flutt til landsins innan eins mánaðar frá komu viðkomandi til tímabundinnar dvalar.
  4. Bifreiðin verði flutt úr landi við lok dvalar viðkomandi í landinu, en þó eigi síðar en innan eins árs frá komu innflytjanda til landsins. Ekki skal hafa áhrif í þessu sambandi þó viðkomandi fari um stundarsakir af landi brott, t.d. í leyfi frá vinnu eða námi, enda vari slík fjarvera eigi lengur en í 6 vikur á 12 mánaða tímabili.

Ferðamönnum er jafnframt heimilt að flytja inn með sömu skilyrðum og um getur í 1. mgr. önnur ökutæki en bifreiðar, s.s. bifhjól, fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna.

Tollstjóri getur áskilið að innflytjandi bifreiðar samkvæmt þessari grein sýni fram á það með skjalfestum hætti að hann hyggist dvelja tímabundið í landinu eigi lengur en eitt ár, t.d. með því að framvísa tímabundnum starfssamningi eða tímabundnum leigusamningi um íbúðarhúsnæði, eftir því sem við getur átt.

19. gr. Kaup bifreiðar hér á landi til persónulegra nota um stundarsakir og endurútflutnings.

Þeim sem um ræðir í 18. gr. er heimilt að festa kaup á nýrri, óskráðri bifreið, hér á landi, sem skal með sömu skilyrðum, að breyttu breytanda, vera undanþegin aðflutningsgjöldum.

20. gr. Ferðaþjónustuaðilar.

Ferðaskrifstofum og öðrum sem hafa atvinnu af skipulagningu hópferðalaga um landið, er heimilt að flytja inn hópbifreið, skráða erlendis, án greiðslu aðflutningsgjalda, til nota vegna ferðar tiltekins hóps ferðamanna, búsettra erlendis, hingað til lands, enda verði hún flutt úr landi á ný við brottför viðkomandi ferðamannahóps.

21. gr. Tímabundinn innflutningur eftirvagns vegna vöruflutninga milli landa.

Þeim sem flytja vörur milli Íslands og annarra landa er heimilt að flytja inn um stundarsakir, án greiðslu aðflutningsgjalda, eftirvagn, skráðan erlendis, til nota við flutningana.

22. gr. Eldsneyti og varahlutir.

Uppfylli innflytjandi skilyrði 18. og 20. gr. til tímabundins tollfrjáls innflutnings ökutækis er honum heimilt að flytja til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda:

  1. eldsneyti sem rúmast í innbyggðum eldsneytisgeymum ökutækisins þó að hámarki 200 lítra.
  2. varahluti í ökutækið ef það bilar eða verður fyrir tjóni.

Ýmis ákvæði.

23. gr. Aðflutningsgjöld af leigu eða áætlaðri leigu.

Greiðsla aðflutningsgjalda að hluta skv. 6. tölul. 7. gr. tollalaga er háð því skilyrði að ökutæki verði notað hér á landi að hámarki í 12 mánuði. Ákveði innflytjandi að nota ökutækið hér á landi lengur en í eitt ár skal hann þá þegar gefa sig fram við tollstjóra. Skal þá uppgjör aðflutningsgjalda eiga sér stað. Greidd aðflutningsgjöld skv. 6. tölul 7. gr. tollalaga skulu koma til frádráttar álögðum aðflutningsgjöldum.

24. gr. Tímabundin dvöl framlengd eða tekin upp varanleg búseta.

Tollfríðindi samkvæmt þessum kafla, sem eru bundin skilyrði um að dvöl rétthafa í landinu sé tímabundin og vari ekki lengur en í eitt ár, skulu falla niður ákveði aðili að dvelja hér á landi lengur en í eitt ár eða að taka hér upp varanlega búsetu. Þegar ákvörðun um slíkt liggur fyrir, skal aðili þá þegar gefa sig fram við tollstjóra á dvalarstað og gera honum grein fyrir ákvörðuninni. Skal þá uppgjör aðflutningsgjalda eiga sér stað, nema ökutækið sé flutt úr landi.

25. gr. Skráning, ábyrgðartrygging o.fl.

Um skráningu ökutækja samkvæmt þessum kafla fer eftir reglugerðum um skráningu, ábyrgðartryggingu og önnur skilyrði varðandi notkun erlendra ökutækja og um sérstaka skráningu bifreiða til notkunar um stundarsakir hér á landi sem samgönguráðherra setur samkvæmt umferðarlögum.

IV. KAFLI Annar tímabundinn innflutningur.

26. gr. Gildissvið.

Kafli þessi gildir um tollfríðindi þegar vörur eru fluttar inn tímbundið, sem 7. gr. tollalaga tekur til og falla ekki undir III. kafla reglugerðar þessarar.

Tollfríðindi samkvæmt þessum kafla taka ekki til matar- og drykkjarvara.

27. gr. Vörusvið.

Heimilt er að flytja eftirtaldar vörur inn tímabundið og án greiðslu aðflutningsgjalda, enda sé magn þeirra eðlilegt og hæfilegt miðað við tilgang innflutningsins:

  1. Vörur til sýningar, s.s. á viðskipta- eða iðnsýningum, þ.m.t. sýningarbásar og skreytingar.
  2. Tæki og annar búnaður, prentað efni, ritföng o.þ.u.l. til notkunar á ráðstefnum, fundum eða til hátíðahalda. Ákvæði þetta tekur m.a. til:

    1. Tölva og tækjabúnaðar.
    2. Búnaðar sem ætlaður er til þess að tryggja öryggi þátttakenda.
    3. Prentaðs efnis, dúka og borðbúnaðar sem t.d. ber merki viðkomandi fyrirtækis.
    4. Vara að óverulegu verðmæti sem ætlaðar eru sem viðurkenningar til þátttakenda.
  3. Keppnisbúnað íþróttamanna, sem koma hingað til lands til æfinga eða keppni, s.s. ökutækja og varahluta í þau, íþróttabúninga o.þ.u.l.
  4. Hljóðfæri, leikmuni og annan búnað listamanna, sem koma hingað til lands til þátttöku í hljómleikum eða listsýningum.
  5. Tæki og annan búnað vísindamanna sem koma hingað til lands vegna rannsókna.
  6. Búnað kvikmyndagerðar- og fjölmiðlamanna, sem koma hingað til lands til kvikmyndagerðar eða efnisöflunar.
  7. Björgunartæki og -búnað aðila sem koma hingað til lands til björgunarstarfa.
  8. Atvinnutæki og annan búnað verktaka sem koma hingað til lands til að vinna tiltekið verk. Vörusvið þessa töluliðar er sama vörusvið og gildir um verktaka samkvæmt auglýsingu nr. 25/1970, um aðild Íslands að tollasamningi varðandi innflutning um stundarsakir á atvinnutækjum.
  9. Vélar, tæki og önnur áhöld sem flutt eru til landsins til reynslu um stuttan tíma.
  10. Vörur sem fluttar eru til landsins til viðgerðar eða annarrar aðvinnslu, þ.m.t. aðvinnslu til þess að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum.
  11. Vörur sem A.T.A. ábyrgðarskjal tekur til, sbr. auglýsingu nr. 24/1970, um aðild Íslands að tollasamningi varðandi hlunnindi vegna innflutnings á vörum til kynningar eða notkunar á sýningum, vörusýningum, fundum og við svipuð tækifæri og auglýsingu nr. 25/1970, um aðild Íslands að tollasamningi varðandi innflutning um stundarsakir á atvinnutækjum.

28. gr. Aðflutningsgjöld af leigu eða áætlaðri leigu.

Heimilt er að flytja inn tímabundið stærri tæki, m.a. ökutæki til fólks- og/eða vöruflutninga eða sérstakra nota, s.s. vélar og tæki til byggingarstarfsemi eða jarðvegsflutninga, gegn greiðslu aðflutninsgjalda af leigu fyrir tækin. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir skal reikna aðflutningsgjöld af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/60 hluti tollverðs eins og það er ákveðið skv. V. kafla tollalaga, sbr. VII. kafla reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru, fyrir hvern byrjaðan mánuð frá lokum hins fyrsta mánaðar frá komudegi þess til landsins.

Ákveði innflytjandi að nota tækið hér á landi lengur en í eitt ár skal hann þá þegar gefa sig fram við tollstjóra. Skal þá uppgjör aðflutningsgjalda eiga sér stað. Greidd aðflutningsgjöld skv. 6. tölul. 7. gr. tollalaga skulu koma til frádráttar álögðum gjöldum.

29. gr. Tryggingar.

Innflytjendur skulu setja ríkissjóði tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem fluttar eru inn tímabundið samkvæmt þessum kafla, nema annað leiði af ákvæðum 2. mgr. Trygging má vera fjártrygging, skilyrðislaus ábyrgð viðskiptabanka, sparisjóðs eða vátryggingafélags eða A.T.A. ábyrgðarskjal, ef um slíkt er að ræða.

Aðilar sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum þurfa ekki að setja tryggingu skv. 1. mgr.

30. gr. Tímalengd heimildar til tímabundins innflutnings.

Tollstjóra er heimilt að veiti leyfi til tímabundins innflutnings í allt að 12 mánuði.

V. KAFLI Tollfríðindi vegna gjafa, arfs o.fl.

Gildissvið.

31. gr.

Kafli þessi gildir um tollfríðindi vegna gjafa og annars tiltekins varnings sem fluttur er inn án endurgjalds.

Undanþágur samkvæmt þessum kafla taka ekki til skráningarskyldra ökutækja, vélknúinna farartækja eða áfengis og tóbaks.

Gjafir.

32. gr. Tækifærisgjafir.

Tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefna sem tengjast einkalífi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 10.000 miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Sé verðmætið meira skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram þá fjárhæð. Brúðargjafir eru undanþegnar aðflutningsgjöldum án tillits til verðmætismarkanna, enda séu þær eðlilegar og hæfilegar að mati tollstjóra og fluttar inn eigi síðar en 6 mánuðum frá brúðkaupi.

Hver gjöf skal metin sérstaklega með tilliti til framangreindra skilyrða ef í vörusendingu eru gjafir til tveggja eða fleiri aðila eða gjafir frá tveimur eða fleiri aðilum til sama aðila sem sýnt þykir að hafi af hagkvæmnisástæðum verið pakkað saman til flutnings.

33. gr. Gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi.

Tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar eru til nota í starfssemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, slysavarnarfélaga, björgunarsveita, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum. Undanþágan er háð því skilyrði að ekki séu fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og gjafþega.

Við tollafgreiðslu gjafar sem grein þessi tekur til skal liggja fyrir skrifleg yfirlýsing gefanda um gjöfina og tilgang hennar, ásamt staðfestingu gjafþega um að hún verði nýtt í viðkomandi starfsemi.

34. gr. Gjafir til opinberra aðila.

Gjafir sem ríki, sveitarfélögum eða opinberum stofnunum eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða á grundvelli menningartengsla við erlend ríki skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda beri fylgigögn með sér að um sé að ræða gjöf og fyrirsvarsmaður gjafþega staðfesti viðtöku hennar.

35. gr. Tæki og búnaður til vísindarannsókna.

Tæki og búnaður til vísindarannsókna sem vísindastofnanir kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum til láns eða eignar skal undanþeginn aðflutningsgjöldum, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Tækin og búnaðurinn verði nýttur beint til rannsóknarstarfa hjá viðkomandi stofnun.
  2. Fyrir liggi formleg staðfesting á styrkveitingu, láni eða gjöf, eftir því sem við á, og yfirlýsing viðkomandi vísindastofnunar um viðtöku vörunnar.
  3. Nemi styrkur hluta af verðmæti vöru, skal reikna aðflutningsgjöld af því verðmæti sem er umfram styrkfjárhæð.
  4. Sé um að ræða gjöf skulu ekki vera fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og gjafþega.

Arfur.

36. gr.

Notaðir munir sem aðilar búsettir hér á landi fá í arf erlendis eru undanþegnir aðflutningsgjöldum, enda hafi arfláti verið búsettur þar. Tollstjóri getur áskilið að innflytjandi leggi fram vottorð skiptaráðanda.

Undanþága samkvæmt þessari grein nær ekki til arfs sem greiddur er fyrirfram og ekki til varnings sem notaður hefur verið í atvinnuskyni.

Farangur þeirra sem látist hafa erlendis.

37. gr.

Fatnaður og aðrar ferðanauðsynjar hér búsettra manna sem látist hafa erlendis eru undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda sé um að ræða notaða muni.

Heiðursmerki og verðlaun.

38. gr.

Heiðursmerki veitt af erlendum ríkjum eru undanþegin aðflutningsgjöldum, sem og verðlaun sem aðilar búsettir hér á landi vinna til erlendis, svo sem vegna íþróttaafreka. Tekur undanþágan til verðlaunagripa og annarra verðlauna sem eru að verðmæti allt að kr. 100.000.

Undanþága skv. 1. mgr. tekur hvorki til vinninga í happdrættum eða getraunum né vara sem tengjast markaðssetningu eða söluátaki.

VI. KAFLI Vörur undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning.

39. gr.

Eftirfarandi vörur skulu undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning:

  1. Loftför og skip. Undanþága þessi nær ekki til loftfara til einkanota, skipa undir 6 metrum að lengd eða skemmtibáta.
  2. Listaverk sem flokkast undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn eða flutt eru inn á hans vegum.
  3. Ritað mál sem sent er án endurgjalds til vísindastofnana, bókasafna og annarra opinberra stofnana, án tillits til í hvaða formi efnið er, enda sé innflutningurinn ekki í viðskiptaskyni.
  4. Vörur, þó ekki áfengi eða tóbak, sem skráðir aðilar skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, flytja inn, enda sé fob-verð sendingar að hámarki kr. 1.500. Skilyrði undanþágu er að um sé að ræða vöru sem heimilt væri að innskatta virðisaukaskatt af, ef hann væri lagður á, skv. 16. gr. laga nr. 50/1988.

VII. KAFLI Tollfríðindi vegna stjórnmála- og ræðissambands.

40. gr.

Eftirtaldar vörur skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum við innflutning:

Vörur sem fluttar eru inn fyrir sendiráð erlendra ríkja, sendierindreka og heimilisfólk hans, skrifstofu- og tæknistarfsmenn sendiráðs og heimilisfólk þeirra í samræmi við 36. gr. og 37. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband, sbr. fylgiskjal I við lög nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband.

Vörur sem fluttar eru inn fyrir ræðisskrifstofur erlendra ríkja, sendiræðiserindreka og heimilisfólk hans, ræðisstarfsmenn og ræðisskrifstofur kjörræðismanna erlendra ríkja í samræmi við 50. gr. og 62. gr. Vínarsamningsins um ræðissamband, sbr. fylgiskjal I við lög nr. 4/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband.

VIII. KAFLI Sýnishorn verslunarvara, hugbúnaðargögn og auglýsingaefni.

41. gr.

Eftirtaldar vörur eru undanþegnar aðflutningsgjöldum við innflutning:

  1. Sýnishorn verslunarvara, þó ekki áfengi eða tóbak, og auglýsingaefnis, að verðmæli allt að kr. 5000, enda beri sendingin með sér að um sé að ræða sýnishorn vöru. Þó skal slík vara undanþegin aðflutningsgjöldum þótt uppgefið verðmæti sé meira, hafi varan verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara. Verðlítil sýnishorn og auglýsingaefni fyrir innflutta sýningarvöru, sem ætlað er til ókeypis dreifingar á sýningu, skal jafnframt undanþegið framangreindum verðmætismörkum.
  2. Hugbúnaðargögn sem send eru hingað til lands án endurgjalds og ætluð eru til þróunar eða hönnunar hugbúnaðar, prófunar, leiðréttingar, uppfærslu eða eru eingöngu nothæf til kynningar.
  3. Verðlaus bréf, bæklingar og prentuð gögn sem ekki hafa neitt viðskiptalegt gildi og ekki eru fallin til endurdreifingar.

IX. KAFLI Búnaður björgunarsveita.

42. gr.

Björgunarbúnaður og björgunartæki, önnur en ökutæki, sem björgunarsveitir eða viðurkennd heildarsamtök þeirra flytja inn eru undanþegin aðflutningsgjöldum enda verði þau eingöngu nýtt í starfsemi björgunarsveitar. Tollstjóri getur áskilið að viðurkennd heildarsamtök björgunarsveita lýsi því yfir að um sé að ræða björgunartæki og -búnað sem verða eingöngu nýtt til starfsemi björgunarsveitar.

Ökutæki, sérútbúin til björgunarstarfa, sem björgunarsveitir eða viðurkennd heildarsamtök þeirra flytja inn, eru undanþegin virðisaukaskatti enda séu skilyrði niðurfellingar vörugjalds skv. 17. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, uppfyllt.

Tæki og búnaður sem er undanþeginn aðflutningsgjöldum samkvæmt þessari grein skal auðkenndur sérstaklega með nafni heildarsamtakanna eða viðkomandi björgunarsveitar.

X. KAFLI Undanþágur frá greiðslu tolla og vörugjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi.

Gildissvið kaflans.

43. gr.

Kafli þessi gildir um undanþágu tolls og vörugjalds, eftir því sem við á, af aðföngum til atvinnustarfsemi á eftirtöldum sviðum:

  1. Við framleiðslu iðnaðarvara. Undanþágan gildir ekki um skipasmíðar og skipaviðgerðir.
  2. Við framleiðslu garðyrkjuafurða.
  3. Við kvikmyndagerð og hljóðvinnslu.
  4. Til flugrekstrar.

Um undanþágur vörugjalds af hráefni, efnivörum og hlutum í framleiðsluvörur gilda ákvæði 5. og 10. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

Almenn skilyrði.

44. gr.

Almenn skilyrði undanþágu gjalda samkvæmt þessum kafla eru:

  1. Að aðföngin falli undir vörusvið viðkomandi atvinnustarfsemi eins og því er lýst í þessum kafla.
  2. Aðföngin séu ætluð aðilum sem:

    1. stunda atvinnurekstur sem veitir rétt til undanþágu samkvæmt þessum kafla,
    2. hafa tiltekin starfs- og rekstrarleyfi, t.d. iðnaðarleyfi eða flugrekstrarleyfi, og
    3. hafa tilkynnt atvinnureksturinn til skráningar hjá skattstjóra sé það áskilið, skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
  3. Að aðföngin verði eingöngu notuð í viðkomandi atvinnustarfsemi.

Framleiðsla iðnaðarvara.

45. gr.

Tollur skal felldur niður eða endurgreiddur af eftirtöldum aðföngum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara:

  1. Hráefni, efnivörum og hlutum í iðnaðarvörur, þó ekki vörum sem bera magntoll samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög.
  2. Umbúðum fyrir framleiðsluvörur.
  3. Vélum, vélarhlutum og varahlutum til vinnslu á framleiðsluvörum.

Vörugjald skal ennfremur fellt niður eða endurgreitt af vörum sem falla undir 3. tölul. 1. mgr.

Til iðnaðar í þessu sambandi telst framleiðsla vöru sem fellur undir iðnaðarlög, nr. 42/1978, með síðari breytingum, ef frá er talin óveruleg aðvinnsla aðfanga, s.s. pökkun, umbúðaskipti, átöppun, blöndun, flokkun, einföld samsetning vöruhluta, festing merkja eða annarra auðkenna á vörur.

Þyki vafi leika á því hvort starfsemi teljist vera framleiðsla iðnaðarvöru, skal tollstjóri leita álits iðnaðarráðuneytisins.

Kvikmyndagerð og hljóðvinnsla.

46. gr.

Tollur og vörugjald skulu felld niður eða endurgreidd af tækjum og miðlum til kvikmyndagerðar og hljóðupptöku.

Aðföng sem undanþága gjalda skv. 1. mgr. nær til eru m.a. eftirfarandi:

  1. Hátalarar og magnarar (úr vörul. nr. 8518).
  2. Hljóðflutnings- og hljóðupptökutæki o.þ.h. (úr vörul. nr. 8519).
  3. Myndflutnings- og myndupptökutæki o.þ.h. án móttökubúnaðar (úr vörul. nr. 8521).
  4. Óáteknir miðlar til hljóðupptöku og kvikmyndafilmur (úr vörul. nr. 8523 og 3702).
  5. Myndskjáir án móttökubúnaðar (úr vörul. nr. 8528).
  6. Kvikmyndavélar (úr vörul. nr. 9007).
  7. Lampar og ljósabúnaður og perur í þann búnað (úr vörul. nr. 8539 og 9405).
  8. Loftnet og myndlyklar (úr vörul. nr. 8528 og 8529).

Framleiðsla garðyrkjuafurða.

47. gr.

Tollur og vörugjald skulu felld niður eða endurgreidd af hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða.

Aðföng sem undanþága gjalda skv. 1. mgr. nær til eru m.a. eftirfarandi:

  1. Græðlingar, gróðurkvistir án róta, sáðplöntur og aðrar smáplöntur, sem ætlaðar eru til framhaldsræktunar hér á landi (úr 6. kafla tollskrár).
  2. Kartöfluútsæði flutt inn á tímabilinu 1. mars til 30. apríl (úr tollskrárnr. 0701.1000).
  3. Háþrýstiperur til lýsingar í gróðurhúsum (úr tollskrárnr. 8539.3900).
  4. Háþrýstilampar til lýsingar í gróðurhúsum (úr tollskrárnr. 9405.1009).
  5. Forsmíðuð gróðurhús (úr tollskrárnr. 9406.0009).

Tollstjóri getur áskilið að rétthafi afli staðfestingar Landbúnaðarstofnunnar á því að vörur sem undanþága nær til séu ætlaðar eða hafi verið notaðar til framleiðslu garðyrkjuafurða.

Flugrekstur.

48. gr.

Tollur og vörugjald skulu felld niður eða endurgreidd af aðföngum sem ætluð eru til nota um borð í flugvélum, þ.m.t. þyrlum, til viðgerða eða annarrar aðvinnslu þeirra.

Vörur sem undanþága gjalda skv. 1. mgr. nær til eru m.a. eftirfarandi:

  1. Varahlutir, dekk, rafmagnsvörur til nota um borð í flugvélum, hvers kyns fylgifé og búnaður sem nýttur er um borð í flugvélum, þ.m.t. björgunarbúnaður.
  2. Verkfæri og annar búnaður sem nýttur er við viðgerðir og viðhald flugvéla.
  3. Smurolía, bón- og hreinsiefni, þéttiefni og málning á flugvélar.
  4. Bréfsefni sem nýtt er í tengslum við flug, s.s. flugvéladagbækur og merkimiðar.

Ýmis ákvæði.

49. gr. Skráðir rétthafar.

Sá sem á rétt á undanþágu tolls og/eða vörugjalds samkvæmt þessum kafla skal senda tollstjóra í því umdæmi þar sem hann á lögheimili sérstaka tilkynningu til skráningar, þar sem fram koma upplýsingar um þá starfsemi sem um ræðir og þau aðföng sem hann hyggst afla sér.

Tollstjóri gefur út staðfestingu til skráningarskylds aðila uppfylli hann skilyrði til undanþágu samkvæmt kaflanum. Staðfesting tollstjóra veitir honum heimild til þess að flytja aðföngin til landsins án greiðslu gjalda eða til þess að fá gjöldin endurgreidd eftirá í samræmi við efni staðfestingarinnar.

50. gr. Viðskiptamenn skráðra rétthafa.

Aðili, sem selur skráðum rétthafa skv. 49. gr. aðföng, sem eru undanþegin tolli og/eða vörugjaldi samkvæmt staðfestri tilkynningu tollstjóra, á rétt til niðurfellingar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda eftir því sem við á af aðföngunum, gegn staðfestingu skráðs rétthafa skv. 49. gr. um kaupin.

51. gr. Bókhald.

Rétthöfum skv. 49. gr. og aðilum sem selja þeim aðföng ber að haga bókhaldi sínu með þeim hætti að unnt sé að staðreyna að sala eða nýting vöru, sem gjöld hafa verið felld niður eða endurgreidd af, sé í samræmi við heimildir rétthafa.

XI. KAFLI Undanþágur vegna endursendingar vöru til útlanda eða hingað til lands.

52. gr. Gildissvið kaflans.

Kafli þessi gildir um undanþágu aðflutningsgjalda vegna endursendingar vöru, annað hvort hingað til lands eða til útlanda.

53. gr. Ráðstöfun vöru til útlanda, í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði.

Tollstjóri skal fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem er seld til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði, innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama gildir um ótollafgreidda vöru, sem send er ónotuð til útlanda.

Beiðni um undanþágu skv. 1. mgr. skal látin tollstjóra í té innan 6 mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu hennar í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Nauðsynleg staðfestingarskjöl skulu liggja til grundvallar beiðni, s.s. staðfesting tollstjóra á sölureikningi, staðfesting þess að tollskoðun vöru hafi farið fram, kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni og viðeigandi gögn til staðfestingar á útflutningi vörunnar.

54. gr. Endursending vara, þ.m.t. umbúða, hingað til lands.

Vörur, þ.m.t. umbúðir, sem eru endursendar hingað til lands frá útlöndum skulu vera undanþegnar aðflutningsgjöldum, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Aðflutningsgjöld hafi ekki verið endurgreidd við útflutning þeirra.
  2. Vara sé flutt á ný til landsins innan árs talið frá útflutningsdegi hennar, nema tollstjóri heimili lengri frest.

Beiðni um undanþágu skv. 1. mgr. skal látin tollstjóra í té innan 6 mánaða frá komu flutningsfars til landsins.

XII. KAFLI Undanþágur vegna galla, eyðileggingar, rýrnunar, skemmda eða vöntunar.

55. gr. Galli.

Tollstjóri skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem reynist gölluð, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Varan sé ónotuð. Þó er heimilt að veita undanþágu í tilvikum þegar galli kemur fyrst í ljós við notkun, enda sé hann þess eðlis að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um hann fyrr.
  2. Erlendi seljandinn samþykki að varan sé endursend til útlanda eða henni verði fargað undir tolleftirliti.

56. gr. Eyðilegging, rýrnun og skemmdir.

Tollstjóri skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda, á geymslusvæðum fyrir ótollafgreiddar vörur eða í flutningi á milli tollhafna innanlands, fyrir tollafgreiðslu, enda séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:

  1. Vörunni sé framvísað við tollgæslu án tafar eftir að eyðileggingar, rýrnunar eða skemmda verður vart.
  2. Vörunni sé fargað undir tolleftirliti í þeim tilvikum þegar undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda er krafist vegna algerrar eyðileggingar vöru.

57. gr. Vöntun.

Tollstjóri skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vörusendingu eða hluta hennar ef í ljós kemur við affermingu flutningsfars að hana vantar í heild eða að hluta, enda afhendi farmflytjandi tollstjóra skrá um vöntunina innan 16 daga frá komu flutningsfars vöru til landsins eða án tafar eftir að innsigli sendingar var rofið hafi vörusending verið send hingað til lands undir innsigli erlends tollyfirvalds, farmflytjanda eða erlends seljanda hennar, t.d. í innsigluðum gámi. Tollstjóri getur áskilið að farmflytjandi og innflytjandi staðfesti skriflega að vöntun hafi fyrst komið í ljós þegar innsigli var rofið og framvísi innsiglinu.

Þá skal tollstjóri lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld vegna vöntunar vörusendingar, í heild eða að hluta, sem kemur fram á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur enda sýni leyfishafi geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur eða leyfishafi skv. 3. mgr. 69. gr. tollalaga geti fært fullnægjandi sannanir fyrir því að vöntunin sé komin til áður en vörusendingin var flutt inn á tollsvæði ríksins, s.s. með skriflegri staðfestingu sendanda vöru eða vátryggingafélags á því að hún hafi horfið erlendis enda fylgi kreditreikningur eða staðfesting banka eða sparisjóðs á lækkun eða niðurfellingu hinnar erlendu kröfu.

58. gr. Beiðni um undanþágu.

Beiðni um undanþágu samkvæmt þessum kafla skal látin tollstjóra í té eigi síðar en innan 6 mánaða frá komudegi flutningsfars til landsins. Hafi vara verið sett í aðrar geymslur fyrir ótollafgreiddar vörur en afgreiðslugeymslur skal fresturinn þó vera jafnlangur leyfilegum geymslutíma vöru þar, nema kveðið sé á um annað í þessum kafla.

XIII. KAFLI Framkvæmd undanþága.

59. gr. Framkvæmd undanþága.

Tollstjóri í því umdæmi þar sem vara kemur til tollafgreiðslu annast framkvæmd undanþága samkvæmt reglugerð þessari.

Upplýsingar varðandi rétt til undanþága frá greiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt reglugerð þessari skulu veittar í því formi sem tollstjórinn í Reykjavík ákveður.

60. gr. Yfirlýsing innflytjanda.

Sá sem lýsir því yfir að hann eigi rétt til undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt reglugerð þessari er þar með að lýsa því yfir að hann uppfylli öll skilyrði undanþágu og að hann muni hlíta þeim skilyrðum sem lúta að ráðstöfun vörunnar eftir tollafgreiðslu.

61. gr. Sönnun um að skilyrðum tollfríðinda sé fullnægt.

Sá sem nýtur tollfríðinda samkvæmt reglugerð þessari skal á sérhverjum tíma geta sýnt fram á að skilyrði fríðindanna séu uppfyllt, hvort sem er við tollafgreiðslu eða síðar, s.s. með vottorði um endurútflutning vöru ef við á.

62. gr. Innflutningsbann og innflutningstakmarkanir.

Ákvæði reglugerðar þessarar veita hvorki undanþágu frá innflutningsbanni né innflutningstakmörkunum á ýmsum vörum samkvæmt lögum, reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

63. gr. Uppgjör virðisaukaskatts.

Þegar aðflutningsgjöld eru endurgreidd samkvæmt reglugerð þessari skal þó ekki endurgreiddur sá virðisaukaskattur sem skattskyldir aðilar samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt hafa greitt við innflutning þeirrar vöru sem beiðni lýtur að. Við uppgjör á virðisaukaskatti skal innskattur af innfluttri vöru dreginn frá útskatti samkvæmt þeim lögum og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

Endurgreiða skal öðrum aðilum en um ræðir í 1. mgr. þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna innflutnings viðkomandi vöru.

XIV. KAFLI Gildistaka og lagastoð.

64. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 6. gr., 2. mgr. 7. gr., 4. mgr. 27. gr., 2. mgr. 85. gr., 2. mgr. 86. gr. og 193. gr. tollalaga, nr. 88/2005, með síðari breytingum, 13. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum og 28. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi frá og með 1. júlí 2008.

Frá sama tíma falla úr gildi reglugerð nr. 160/1990, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla, með síðari breytingum, reglugerð nr. 526/2000, um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins, með síðari breytingum, reglugerð nr. 719/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi, með síðari breytingum, reglugerð nr. 760/2000, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursendingar til útlanda, reglugerð nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, og reglugerð nr. 798/2000, um tímabundinn innflutning.

 Fjármálaráðuneytinu, 27. júní 2008. 

 F. h. r.

 Baldur Guðlaugsson. 

 Lilja Sturludóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.