Prentað þann 22. nóv. 2024
605/2010
Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Aldursmörk, aksturstími, hlé og hvíldartími.
- 5. gr. Aldursmörk.
- 6. gr. Aksturstími.
- 7. gr. Sérstök undanþága frá aksturstíma.
- 8. gr. Hlé frá akstri.
- 9. gr. Sérstök undanþága vegna hlés frá akstri.
- 10. gr. Daglegur hvíldartími.
- 11. gr. Undantekningar frá daglegum hvíldartíma.
- 12. gr. Vikulegur hvíldartími.
- 13. gr. Undantekningar frá vikulegum hvíldartíma.
- III. KAFLI Ábyrgð flytjanda.
- IV. KAFLI Undanþágur.
- V. KAFLI Ábyrgð flytjanda og ökumanns á réttri notkun ökurita.
- 24. gr. Ökuriti.
- 25. gr. Ástand ökurita.
- 26. gr. Ökuritaskífur.
- 27. gr. Gögn á ökumannskorti.
- 28. gr. Meðferð gagna.
- 29. gr. Notkun ökumannskorts og ökuritaskífu.
- 30. gr. Tákn fyrir þau atriði sem skráð eru í ökurita.
- 31. gr. Upplýsingar sem skrá skal.
- 32. gr. Gögn sem framvísa skal úr skífuökurita.
- 33. gr. Gögn sem framvísa skal úr rafrænnum ökurita.
- 34. gr. Heimildir eftirlitsmanns og verkstæðismanns.
- 35. gr. Skráning og meðferð upplýsinga þegar ökuriti eða ökumannskort er ónothæft.
- 36. gr. Gallað og týnt ökumannskort.
- VI. KAFLI Ökuritakort.
- VII. KAFLI Flytjandakort, verkstæðiskort og eftirlitskort.
- VIII. KAFLI Eftirlit.
- IX. KAFLI Viðurlög, innleiðing og gildistaka.
- Athugasemdir ritstjóra
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Markmið reglugerðar þessarar er að auka umferðaröryggi og bæta vinnuskilyrði ökumanna sem stunda farþega- og farmflutninga á vegum sem 3. gr. tekur til, svo og að stuðla að bættu eftirliti, eftirfylgni og betra verklagi í slíkum flutningum.
Í reglugerðinni er mælt fyrir um:
- hámarks aksturstíma ökumanna sem reglugerðin tekur til hvern dag, hverja viku og hverja 14 daga, svo og um skyldu þeirra til að gera hlé á akstri og til að taka daglega og vikulega hvíld frá akstri,
- að ökuriti skuli vera í bifreið, sem reglugerðin tekur til, notkun ökurita og skyldur flytjanda og ökumanna þar að lútandi, þar á meðal skyldu þeirra til að skrá aksturs- og hvíldartíma ökumanns og varðveita skráningargögn,
- eftirlit með því að fylgt sé reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og um notkun ökurita.
Reglugerðin gildir einnig eftir því sem við á um þann sem er í bifreið til þess að leysa ökumanninn af.
2. gr. Flutningar sem reglugerðin tekur til.
Reglugerðin tekur, með þeim undantekningum sem greinir í 3. og 20. gr., til eftirfarandi flutninga á vegum:
- farmflutninga þegar leyfilegur hámarksmassi bifreiðar, að meðtöldum eftirvögnum er meiri en 3.500 kg, eða
- farþegaflutninga með bifreið sem er hönnuð eða varanlega útbúin til að flytja fleiri en níu farþega, að ökumanni meðtöldum, og ætluð er til slíkra flutninga.
Reglugerðin tekur ekki til flutninga sem eru ekki í atvinnuskyni utan farmflutninga með vörubifreið eða annarri bifreið sem dregur eftirvagn eða tengitæki enda sé leyfð heildarþyngd bifreiðar eða vagnlestar meiri en 7.500 kg.
Reglugerðin tekur til bifreiðar hvort sem hún er skráð hér á landi eða annars staðar.
3. gr. Flutningar sem reglugerðin tekur ekki til.
Reglugerðin tekur ekki til flutninga á vegum með bifreið:
- sem notuð er til farþegaflutninga í reglubundnum ferðum, sé leiðin ekki lengri en 50 km,
- sem fer ekki yfir 40 km hámarkshraða á klukkustund þó unnt sé að aka henni hraðar,
- sem lögregla slökkvilið, sjúkralið eða almannavarnir eiga eða leigja án ökumanns, ef flutningar eru vegna verkefna þeirra og undir stjórn þeirra,
- sem notuð er í neyðartilvikum eða við björgunarstörf, þ.m.t. bifreið sem notuð er við flutninga vegna hjálparstarfs og ekki eru í atvinnuskyni,
- sem er sérstaklega útbúin til nota við læknisþjónustu,
- sem er sérstaklega útbúin til að nota við aðstoð á vegum innan við 100 km radíus frá bækistöð sinni,
- sem reynsluekið er á vegi vegna tækniþróunar, viðgerðar eða viðhalds eða þegar bifreið er ný eða hefur verið endurbyggð en ekki verið tekin í notkun,
- eða vagnlest sem ekki er notuð til farmflutninga í atvinnuskyni og leyfð heildarþyngd er ekki meiri en 7.500 kg,
- hóp- eða vörubifreið, sem er skráð sem fornbifreið og notuð er til farþega- eða farmflutninga sem ekki eru í atvinnuskyni.
4. gr. Skilgreiningar.
- Farstarfsmaður: Starfsmaður sem er hluti af ferðastarfshópnum, þ.m.t. lærlingur og nemi sem eru í þjónustu fyrirtækis sem stundar flutningaþjónustu á vegum fyrir farþega eða farm gegn gjaldi eða á eigin vegum.
- Flytjandi: Skráður eigandi (umráðamaður) bifreiðar eða sá sem hefur hana að láni og notar til farþega- eða farmflutninga á vegum í atvinnuskyni, ekur henni sjálfur eða ökumaður í hans þjónustu.
- Flutningur á vegum: Allur akstur bifreiðar til farþega- eða farmflutninga á vegum, sem opnir eru almennri umferð, með eða án farms.
- Vagnlest: Tengd ökutæki, þ.e. bifreið sem dregur eftirvagn eða tengitæki.
-
Önnur vinna: Vinna ökumanns að undanskildum akstri eins og hún er skilgreind í reglugerð um skipulag vinnutíma farstarfsmanna nr. 690/2006, þ.m.t. vinna fyrir sama eða annan vinnuveitanda, innan eða utan flutningsgeirans, svo sem:
- lestun og losun farms,
- aðstoð við farþega til að fara í og úr bifreið,
- hreinsun og viðhald bifreiðar (vagnlestar) og búnaðar,
- vinna sem er ætlað að tryggja öryggi bifreiðar (vagnlestar), farms og farþega, eða til að uppfylla lagalegar skyldur sem tengjast beinlínis tilteknum flutningi, þ.m.t. eftirlit með lestun og losun farms, formsatriði á sviði stjórnsýslu sem snúa að lögreglu, tolli o.s.frv.
- sá tími þegar ökumaður skal vera á vinnustað, reiðubúinn til að hefja vinnu, t.d. þegar hann bíður eftir að geta lestað eða losað bifreið (vagnlest).
- Almanaksdagur: Sólarhringur frá miðnætti til miðnættis (kl. 00.00-24.00).
- Vika: Sjö dagar frá byrjun mánudags (kl. 00.00) til loka næsta sunnudags (kl. 24.00).
- Aksturstímabil: Samanlagður aksturstími frá því að ökumaður hefur akstur eftir hvíld eða hlé þar til hann tekur hvíld eða hlé á ný. Aksturstími getur verið samfelldur eða rofinn.
- Daglegur aksturstími: Samanlagður aksturstími milli tveggja daglegra hvíldartíma eða milli daglegs hvíldartíma og vikulegs hvíldartíma.
- Aksturstími: Sá tími sem akstur er skráður sjálfvirkt, hálfsjálfvirkt og handvirkt.
- Vikulegur aksturstími: Samanlagður aksturstími á einni viku.
- Vinnuhlé: Tími sem ökumanni er ekki heimilt að aka eða stunda aðra vinnu og er eingöngu nýttur til hvíldar.
- Hvíld: Samfellt tímabil sem ökumanni er frjálst að ráðstafa að eigin vild.
- Daglegur hvíldartími: Reglubundinn daglegur hvíldartími og styttur daglegur hvíldartími. Reglubundinn daglegur hvíldartími er a.m.k. 11 klst. Styttur daglegur hvíldartími er a.m.k. 9 klst. en styttri en 11 klst.
- Vikulegur hvíldartími: Reglubundinn vikulegur hvíldartími og styttur vikulegur hvíldartími: Reglubundinn vikulegur hvíldartími er a.m.k. 45 klst. Styttur vikulegur hvíldartími er a.m.k. 24 klst. en styttri en 45 klst.
- Leyfð heildarþyngd bifreiðar (vagnlestar): Sú heildarþyngd, sem leyfð er við skráningu ökutækis.
- Flutningur gagna: Afritun, ásamt stafrænni undirskrift, af gagnamengi í heild eða að hluta, sem geymt er í gagnaminni ökurita eða í minni ökuritakorts.
-
Ökuriti, skífuökuriti og rafrænn ökuriti: Búnaður ætlaður til þess að setja upp í bifreið til flutninga á vegum til að skrá, sýna og geyma upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns, hraða bifreiðar og fleira.
Skífuökuriti í skilningi þessarar reglugerðar skal að því er smíði, uppsetningu, notkun og prófun varðar uppfylla kröfur reglugerðar nr. 3821/85/EBE og I. viðauka og II. viðauka við hana.
Rafrænn ökuriti í skilningi þessarar reglugerðar skal að því er smíði, uppsetningu, notkun og prófun varðar uppfylla kröfur reglugerðar nr. 3821/85/EBE, sbr. reglugerð nr. 1360/2002/EB, og I. viðauka B við hana.
- Ökuritaskífa: Skráningarblað sem komið er fyrir í skífuökurita og á eru skráðar upplýsingar sem ritunaroddar í ökuritanum skrá viðstöðulaust á ökuritaskífuna.
-
Ökuritakort: Samheiti korta sem eru rafrænn lykill að rafrænum ökurita, þ.e. ökumannskort, flytjandakort, verkstæðiskort og eftirlitskort.
Með ökuritakorti er gert kleift að nota ökurita til að greina sérstök auðkenni handhafa kortsins og til að flytja gögn og geyma þau.
-
Ökumannskort: Ökuritakort sem gefið er út handa ökumanni til staðfestingar þess hver hann er og veitir kortið ökumanni aðgang að rafrænum ökurita.
Ökumannskort geymir rafrænar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumannsins og aðrar upplýsingar sem færðar eru sjálfvirkt af ökuritanum á kortið.
Ökumannskort tengir persónulegar upplýsingar um ökumanninn, nafn o.fl., upplýsingum um akstur hans og hvíld og eru þær geymdar á kortinu og í ökuritanum.
-
Flytjandakort: Ökuritakort sem gefið er út handa flytjanda vegna bifreiðar sem búin er ökurita og með kortinu fær flytjandi aðgang að upplýsingum sem skráðar eru í ökurita.
Með flytjandakorti er flytjanda gert kleift að birta, flytja og prenta upplýsingar sem geymdar eru í ökurita. Flytjandi notar kortið einnig til þess að merkja sér þau tímabil þegar akstur bifreiðarinnar er á hans vegum.
-
Verkstæðiskort: Ökuritakort sem gefið er út handa framleiðanda ökurita, ísetningarstofu, framleiðanda bifreiðar eða viðurkenndu verkstæði.
Með verkstæðiskorti fær viðgerðar- og prófunarmaður aðgang að ökurita til þess að prófa kvarða og stilla ökuritann og/eða flytja upplýsingar úr ökurita.
-
Eftirlitskort: Ökuritakort sem gefið er út vegna eftirlits.
Með eftirlitskorti fær eftirlitsmaður aðgang að upplýsingum í ökurita og aðgang að gögnum sem geymd eru í gagnaminni ökurita eða á ökumannskorti, til aflestrar, útprentunar eða flutnings.
- Höfuðborgarsvæðið: Reykjavík, Kjalarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Álftanes og Mosfellsbær.
-
Föst búseta: Með fastri búsetu er í reglugerð þessari átt við þann stað þar sem hlutaðeigandi býr að jafnaði a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári, vegna persónu- eða atvinnutengsla eða, þegar um er að ræða þann sem hefur engin atvinnutengsl, vegna persónulegra tengsla sem sýna náið samband milli hlutaðeigandi og staðarins þar sem hann býr.
Föst búseta telst vera komin á þegar hlutaðeigandi tekur sér búsetu hér á landi í þeim tilgangi að fullnægja a.m.k. einu þeirra skilyrða sem tilgreind eru í 1. mgr.
Sá sem eingöngu hefur atvinnutengsl hér á landi telst hafa fasta búsetu í því landi þar sem hann hefur persónuleg tengsl, enda snúi hann þangað með reglubundnu millibili. Síðastnefnda skilyrðinu þarf ekki að fullnægja ef hlutaðeigandi dvelur hér vegna tímabundinna verkefna.
Námsdvöl við menntastofnun felur ekki sjálfkrafa í sér að viðkomandi teljist hafa fasta búsetu hér á landi.
II. KAFLI Aldursmörk, aksturstími, hlé og hvíldartími.
5. gr. Aldursmörk.
Lágmarksaldur þeirra sem veita má ökuskírteini til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni er í samræmi við ákvæði reglugerðar um ökuskírteini.
Lágmarksaldur aðstoðarmanns ökumanns skal vera 18 ár.
6. gr. Aksturstími.
Aksturstími hvern dag skal ekki vera lengri en 9 klst. Heimilt er að lengja daglegan aksturstíma í allt að 10 klst., þó ekki oftar en tvisvar í viku.
Aksturstími í hverri viku má ekki vera lengri en 56 klst. Aksturstíminn og tími, sem varið er til annarrar vinnu, sbr. e-lið 4. gr. má þó ekki vera lengri en hámarks vikulegur vinnutími samkvæmt reglugerð um skipulag vinnutíma farstarfsmanna. Samkvæmt ákvæðum hennar getur hámarksfjöldi vinnustunda á viku því aðeins orðið 60 klst. að meðalfjöldi vinnustunda á viku fari ekki yfir 48 klst. í fjóra mánuði.
Aksturstími í heild á hverjum samfelldum tveimur vikum má þó ekki vera lengri en 90 klst.
Ökumaður skal skrá þann tíma sem hann notar til að sinna annarri vinnu, sbr. d-lið 4. gr. með þeim tíma sem hann notar til aksturs í atvinnuskyni og sem ekki fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar sem önnur vinna. Þessar upplýsingar skal annað hvort skrá handvirkt á ökuritaskífu, útprentun eða með því að nota búnað til handvirkrar innfærslu í ökurita.
7. gr. Sérstök undanþága frá aksturstíma.
Þegar ekið er með ferskvöru á áætlunarleiðunum höfuðborgarsvæðið - Ísafjörður, höfuðborgarsvæðið - Neskaupstaður eða höfuðborgarsvæðið - Egilsstaðir og til baka á tímabilinu 30. október 2010 til 15. apríl 2011 er heimilt að lengja daglegan aksturstíma skv. 1. mgr. 6. gr. í allt að 11 klst. fjórum sinnum í viku.
Nýti ökumaður sér undanþáguheimild skv. grein þessari ber ökumanni að prenta út úr rafrænum ökurita upplýsingar um viðkomandi akstur og skrá upphafsstað og lokastað.
8. gr. Hlé frá akstri.
Ökumaður skal gera hlé á akstri í að minnsta kosti samfelldar 45 mín. eftir akstur í 4,5 klst. nema hvíldartími hans sé að hefjast.
Ökumaður má í stað hlés samkvæmt 1. mgr., gera hlé á akstri í a.m.k. 15 mín. og síðan hlé sem er a.m.k. 30 mín., þannig að heildarhlé frá akstri verði a.m.k. 45 mín.
9. gr. Sérstök undanþága vegna hlés frá akstri.
Á tímabilinu 30. október 2010 til 15. apríl 2011 má ökumaður lengja aksturstímann skv. 8. gr. um hálfa klst. þannig að hann geri hlé á akstri eftir allt að 5 klst. þegar ekið er frá höfuðborgarsvæðinu til Freysness, Austur-Skaftafellssýslu og frá Freysnesi til Egilsstaða.
Nýti ökumaður sér undanþáguheimild skv. grein þessari ber ökumanni að prenta út úr rafrænum ökurita upplýsingar um viðkomandi akstur og skrá upphafsstað og lokastað.
10. gr. Daglegur hvíldartími.
Ökumaður skal fá nýjan daglegan hvíldartíma innan sólarhrings frá lokum síðasta daglegs eða vikulegs hvíldartíma, í a.m.k. 11 klst. (reglubundinn daglegan hvíldartíma) eða í a.m.k. 9 klst. (styttan daglegan hvíldartíma).
Daglegan hvíldartíma má lengja til þess að unnt sé að ná reglubundnum vikulegum hvíldartíma eða styttum vikulegum hvíldartíma.
Reglubundinn daglegan hvíldartíma má taka í tveimur hlutum að því tilskildu að hvíldartíminn verði lengdur þannig að fyrra tímabilið sé a.m.k. 3 klst. samfellt og það síðara a.m.k. 9 klst., samfellt.
Ökumaður má ekki taka styttan reglubundinn daglegan hvíldartíma oftar en þrisvar milli tveggja vikulegra hvíldartíma.
Þegar auk ökumanns eru einn eða fleiri í bifreið til þess að leysa ökumanninn af, skal hver ökumaður, án tillits til 2. mgr., taka nýjan daglegan hvíldartíma sem er a.m.k. 9 klst. innan 30 klst. frá lokum síðasta daglegs eða vikulegs hvíldartíma.
11. gr. Undantekningar frá daglegum hvíldartíma.
Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. má rjúfa daglegan hvíldartíma, fylgi ökumaður bifreið sem flutt er með ferju, þó ekki oftar en tvisvar og ekki lengur en í eina klst. hvern dag og að uppfylltu því skilyrði að ökumaður skal, þegar svo stendur á, hafa aðgang að svefnaðstöðu þegar hann hvílist.
Tími, sem ökumaður notar til þess að komast að og frá bifreið sem staðsett er annars staðar en við heimili ökumannsins, eða bækistöð flytjanda þar sem ökumaðurinn að jafnaði hefur aðsetur skal ekki telja sem hlé frá akstri eða hvíldartíma nema ökumaðurinn ferðist með ferju þar sem hann hefur aðgang að svefnaðstöðu.
Sá tími, sem ökumaður ver til að aka bifreið, sem ekki fellur undir reglugerð þessa, á leið til eða frá bifreið, sem fellur undir reglugerðina, og er annars staðar en við heimili ökumannsins eða bækistöð flytjanda þar sem ökumaðurinn að jafnaði hefur aðsetur, skal skrá sem aðra vinnu, sbr. e-lið 4. gr.
12. gr. Vikulegur hvíldartími.
Á hverjum tveimur samfelldum vikum skal ökumaður fá hvíldartíma:
- a.m.k tvisvar sinnum vikulegan hvíldartíma (reglubundinn vikulegan hvíldartíma) í a.m.k. 45 klst. hvort sinn, eða
- a.m.k. 45 klst. hvíld (reglulegan vikulegan hvíldartíma) og hvíld í a.m.k. 24 klst. (styttan vikulegan hvíldartíma). Slíka styttingu skal bæta upp með samfelldri jafn langri hvíld innan þriggja vikna frá lokum þeirrar viku þegar hvíldartíminn var styttur.
Vikulegur hvíldartími skal hefjast eigi síðar en 6 sólarhringum frá lokum síðustu vikulegrar hvíldar.
Hvíld, sem kemur í stað styttri vikulegrar hvíldar, skal bætast við aðra hvíld sem er a.m.k. 9 klst.
Hvíld, sem er uppbót vegna styttingar daglegs eða vikulegs hvíldartíma, má ökumaður taka í bifreiðinni þegar hann er fjarri bækistöð, sé viðunandi svefnaðstaða í bifreiðinni og hún er ekki í akstri.
Binda má vikulegan hvíldartíma, sem byrjar í einni viku og heldur áfram í næstu viku, við aðra hvora vikuna en ekki báðar.
13. gr. Undantekningar frá vikulegum hvíldartíma.
Heimilt er í farþegaflutningum, öðrum en reglubundnum flutningum, að fresta vikulegum hvíldartíma ökumanns fram í næstu viku og bæta hvíldartímanum við vikulegan hvíldartíma þeirrar viku enda fari heildaraksturstími á vikunum tveimur ekki yfir 90 klukkustundir, sbr. regluna í 3. mgr. 6. gr. Heimildin gildir um ferð sem tekur lengri tíma en sex daga en þó ekki lengri en tólf daga. Ökumaður skal þannig eftir mest tólf akstursdaga fá samfelldan hvíldartíma í 90 klukkustundir.
III. KAFLI Ábyrgð flytjanda.
14. gr. Bann við launatengingu við ekna vegalengd o.fl.
Flytjanda er óheimilt er að miða laun ökumanns, sem annast fólks- og farmflutninga á vegum í atvinnuskyni samkvæmt þessari reglugerð, við ekna vegalengd eða flutt magn af farmi, séu greiðslur þess eðlis að þær geti ógnað umferðaröryggi og/eða hvatt til brota á ákvæðum reglugerðarinnar. Jafnframt er óheimilt að veita ökumanni kaupauka eða launauppbót í framangreindum tilvikum.
15. gr. Skipulag vinnutíma.
Flytjandi skal skipuleggja störf ökumanns þannig að honum sé kleift að fara eftir reglugerð þessari. Skal flytjandi gefa ökumanni nauðsynlegar leiðbeiningar og hafa reglulega eftirlit með því að ökumaður fylgi ákvæðum reglugerðarinnar.
Hafi brot verið framið skal flytjandi gera viðeigandi ráðstafanir, eftir því sem unnt er, til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.
16. gr. Ábyrgð flytjanda á brotum ökumanns.
Flytjandi ber ábyrgð á brotum ökumanns í þjónustu hans, sem falla undir 14. og 15. gr., jafnvel þótt brotið hafi verið framið á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða þriðja lands. Taka skal tillit til allra hugsanlegra sannana um að ekki sé réttmætt að draga flytjanda til ábyrgðar fyrir brotið.
17. gr. Samningsbundnar tímaáætlanir.
Flytjandi og aðrir sem koma að flutningi farms skulu, eftir því sem við á sjá til þess að samningsbundnar tímaáætlanir flutninga séu í samræmi við þessa reglugerð.
18. gr. Rafrænn ökuriti.
Flytjandi skal, þegar bifreið er búin rafrænum ökurita, tryggja að allar upplýsingar, sem:
-
skráðar eru í ökurita og ökumannskort, séu halaðar niður og skal hámarksfrestur fyrir niðurhal viðeigandi gagna ekki vera lengri en:
- 90 dagar að því er varðar gögn af skráningarhluta ökurita,
- 28 dagar að því er varðar gögn af ökumannskorti.
- halaðar eru niður af skráningarhluta ökurita og af ökumannskorti, séu varðveittar í a.m.k. 12 mánuði eftir að þær voru skráðar og skulu upplýsingarnar vera aðgengilegar þeim sem hefur heimild til að krefjast þess að fá að skoða þær í bækistöð flytjanda eða með því að fá rafrænan aðgang frá bækistöð sinni eða senda eftirlitsaðila að hans ósk.
Samgöngustofa setur verklagsreglur um tilhögun flutnings á gögnum skv. þessari grein.
IV. KAFLI Undanþágur.
19. gr. Ná þarf hentugum áfangastað til að tryggja öryggi.
Ökumanni er heimilt að víkja frá ákvæðum 6.-10. gr. að því tilskildu að umferðaröryggi sé ekki teflt í tvísýnu, þurfi hann að ná hentugum áfangastað enda sé það nauðsynlegt til að tryggja öryggi fólks, eða til þess að koma í veg fyrir tjón á bifreið eða farmi. Ökumaðurinn skal tilgreina ástæðu slíkra frávika handvirkt á ökuritaskífu skráningarbúnaðarins eða á útprentun skráningarbúnaðarins eða í vaktaskrá, í síðasta lagi við komu á áningarstað.
20. gr. Undanþágur vegna tiltekins flutnings.
Undanþeginn frá ákvæðum reglugerðar þessarar er flutningur með bifreið:
- sem ríki eða sveitarfélag á eða leigir án ökumanns og notar til flutninga á vegum og ekki eru í samkeppni við einkarekin flutningafyrirtæki,
- sem fyrirtæki notar eða leigir án ökumanns á sviði landbúnaðar, garðyrkju, skógræktar, eldis eða fiskvinnslu, til að flytja vörur í tengslum við eigin rekstur innan við 100 km radíus frá bækistöð fyrirtækisins,
-
vagnlest, þegar leyfð heildarþyngd er ekki meira en 7.500 kg:
- og í hlut á sá sem veitir póstþjónustu (alþjónustu), hús úr húsi, og hefur rekstrarleyfi til þess að starfrækja slíka þjónustu samkvæmt lögum um póstþjónustu,
- sem ökumaður notar til að flytja efni eða búnað, vegna sérstakra verkefna sinna innan 50 km radíuss frá bækistöð, enda sé aksturinn ekki aðalstarf ökumannsins,
- sem eingöngu er notuð til aksturs á eyju sem ekki er stærri en 2.300 km² og er ekki tengd meginlandinu með brú, vaði eða göngum sem opin eru fyrir umferð vélknúinna ökutækja,
- eða vagnlest þegar leyfð heildarþyngd er ekki meiri en 7.500 kg og notuð er til vöruflutninga á svæði innan 50 km radíuss frá bækistöð flytjanda og notar gas eða rafmagn sem orkugjafa,
- sem notuð er til ökukennslu eða í ökuprófi að því tilskildu að bifreiðin sé ekki notuð til farþega- eða farmflutninga í atvinnuskyni,
- sem notuð er í tengslum við störf við fráveitu, flóðavernd, vatns-, gas- og rafmagnsveitu, sorphreinsun hús úr húsi, skeyta- og símaþjónustu, útvarps- og sjónvarpssendingar og við að miða út útvarps- eða sjónvarpssenda eða móttökutæki. Jafnframt flutningur með bifreið sem notuð er við viðhald á vegum og eftirlit, m.a. við snjómokstur og hálkuvarnir,
- skráðri fyrir 10-17 manns að ökumanni meðtöldum sem ekki er notuð til farþegaflutninga í atvinnuskyni,
- sérbúinni til flutninga á búnaði fyrir fjölleikahús og skemmtigarða,
- sérstaklega útbúinni vegna farandverkefna sem eru einkum notuð sem kennsluaðstaða þegar bifreiðin er kyrrstæð,
- sem notuð er til að safna mjólk frá búum og flytja til baka mjólkurílát eða mjólkurafurðir vegna dýraeldis,
- sem sérbúin er til flutninga á peningum og ígildi þeirra,
- sem notuð er til að flytja fisk- og skepnuúrgang eða skrokka sem ekki eru ætlaðir til manneldis,
- sem notuð eru til að flytja lifandi dýr frá búum á heimamarkað og til baka eða frá markaði til næsta sláturhúss innan 50 km radiuss.
21. gr. Undanþágur á fyrirfram afmörkuðu svæði.
Að því tilskildu að ekki verði raskað markmiðum reglugerðar þessarar sbr. 1. gr. og með samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA er heimilt að veita bifreiðum, sem notaðar eru innan fyrirfram afmarkaðra svæða þar sem búa færri en fimm íbúar á ferkílómetra, minni háttar undanþágur á eigin yfirráðasvæði frá þessari reglugerð í eftirtöldum tilvikum:
- í reglubundnum farþegaflutningum vegna undanþágu frá reglum um vinnuhlé sbr. l-lið 4. gr., ef yfirvöld staðfesta akstursáætlun þeirra og
- í farmflutningum á vegum fyrir eigin reikning eða gegn gjaldi, sem ekki hafa áhrif á innri markaðinn og eru nauðsynlegir til að unnt sé að starfrækja tilteknar atvinnugreinar á viðkomandi yfirráðasvæði og þegar kveðið er á um í undanþáguákvæðum reglugerðar þessarar að radíus skuli vera allt að 100 km.
Flutningar á vegum, þar sem þessi undanþága tekur til, mega eingöngu taka til aksturs inn á svæði þar sem búa fimm eða fleiri íbúar á ferkílómetra, að því tilskildu að ferðin hefjist eða endi þar. Eðli og umfang slíkra ráðstafana skal vera í réttu hlutfalli við markmiðið.
22. gr. Undanþágur vegna sérstakra aðstæðna.
Að fenginni heimild Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA má veita undanþágur frá ákvæðum 6.-10. gr. reglugerðarinnar vegna sérstakra aðstæðna, að því tilskildu að það hafi ekki áhrif á markmið 1. gr. reglugerðarinnar.
23. gr. Tímabundin undanþága.
Samgöngustofa getur í brýnum tilvikum veitt tímabundna undanþágu frá ákvæðum 6.-10. gr. reglugerðarinnar til allt að 30 daga og skal tilkynna Eftirlitstofnun EFTA, ESA tafarlaust um hana.
V. KAFLI Ábyrgð flytjanda og ökumanns á réttri notkun ökurita.
24. gr. Ökuriti.
Bifreið, sem reglugerð þessi tekur til, skal búin ökurita.
25. gr. Ástand ökurita.
Flytjandi og ökumaður skulu ganga úr skugga um að ökuriti vinni rétt og skrái hverju sinni réttar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og upplýsingar, sem sýni hraða bifreiðarinnar og fleira, á ökuritaskífu í skífuökurita eða í rafrænan ökurita og á rafrænt ökumannskort. Sama gildir um ökumannskortið ef í bifreiðinni er rafrænn ökuriti.
Flytjandi skal sjá til þess að allar tengingar milli aflrásar bifreiðar og ökurita séu innsiglaðar. Hann skal fela verkstæði, sem hefur faggildingu til prófunar á ökuritum að prófa og innsigla ökurita samkvæmt reglugerð um prófun ökurita.
Við almenna skoðun bifreiðar skal skoðunarmaður kanna hvort ökuriti starfi eðlilega, hvort uppsetningarplatan sé vel fest, hvort innsigli séu órofin og hvort á ökuritanum sé merki með staðfestingu um gerðarviðurkenningu. Skoðunarmaður skal mæla ummál hjólbarða.
26. gr. Ökuritaskífur.
Flytjandi skal úthluta ökumanni nægilega mörgum ökuritaskífum og taka tillit til þess að ökuritaskífurnar eru persónulegs eðlis, til lengdar þjónustutíma og hugsanlega þeirrar skyldu að setja ökuritaskífur í stað þeirra sem eyðileggjast eða eftirlitsmaður hefur fjarlægt. Flytjandi skal eingöngu úthluta ökumanni ökuritaskífum sem eru í samræmi við samþykkta fyrirmynd og henta fyrir búnaðinn sem er í bifreiðinni.
Flytjandi skal varðveita ökuritaskífur og útprentun, sem gerð er í samræmi við 28. gr., í tímaröð og á læsilegan hátt í a.m.k. ár eftir að ökuritaskífurnar og útprentunin hefur verið notuð og skal láta hlutaðeigandi ökumanni í té afrit óski hann þess.
27. gr. Gögn á ökumannskorti.
Flytjandi skal láta viðkomandi ökumanni í té afrit af gögnum sem hafa verið flutt af ökumannskorti. Gögn skulu flutt mánaðarlega af ökumannskorti og rafrænum ökurita til öruggrar vörslu. Ökuritaskífur, útprentun og gögn, sem flutt hafa verið skulu sýnd eða þau afhent að beiðni viðurkennds eftirlitsmanns.
Flytjandi og ökumaður bera ábyrgð á því að ökumaður hafi ökumannskort þegar hann ekur bifreið sem búin er rafrænum ökurita.
28. gr. Meðferð gagna.
Ökumaður skal gæta þess að ökumannskort, ökuritaskífur og önnur gögn, sem hann notar og varða skráningu og geymslu upplýsinga um aksturs- og hvíldartíma, séu vel læsileg, hrein og óskemmd.
Óski ökumaður að endurnýja ökumannskort sitt, skal hann sækja um það til Umferðarstofu eigi síðar en 15 virkum dögum áður en kortið fellur úr gildi.
Skemmist ökuritaskífa eða ökumannskort, sem skráð hefur verið á, skal ökumaður skrá á varaeintak (ökuritaskífu eða blað) og festa skemmdu ökuritaskífuna eða ökumannskortið við varaeintakið sem kemur í staðinn.
Sé ökumannskort gallað, ónothæft eða týnt eða því hefur verið stolið, skal ökumaður sækja um til Umferðarstofu að því verði skipt út fyrir annað.
Skemmist ökumannskort, sé það í ólagi eða ökumaður hefur það ekki undir höndum, skal ökumaðurinn:
-
í upphafi ferðar, prenta út upplýsingar um bifreiðina, sem hann ekur, og á útprentunina skal hann skrá:
- upplýsingar sem gerir kleift að bera kennsl á ökumanninn (nafn, númer ökumannskorts eða ökuskírteinis), þ.m.t. undirskrift hans,
- tímabilin sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 30. gr.,
- við lok ferðar, prenta út upplýsingar um tímabil sem ökuriti skráði, skrá tíma sem fór í aðra vinnu, tiltækileika og hvíld, sem tekin var eftir að útprentun var gerð í upphafi ferðar, ef ökuritinn skráir hann ekki, og skrá upplýsingar á skjalið sem gera kleift að bera kennsl á ökumanninn (nafn, númer ökumannskorts eða ökuskírteinis), þ.m.t. undirskrift hans.
Flytjandi skal varðveita í a.m.k. ár starfsskýrslur, ökuritaskífur, útprentanir og rafrænar upplýsingar úr ökuritum.
29. gr. Notkun ökumannskorts og ökuritaskífu.
Í skífuökurita eru upplýsingar skráðar á ökuritaskífu, sjálfvirkt eða hálfsjálfvirkt.
Í rafrænan ökurita eru skráðar og geymdar upplýsingar, sbr. 30. og 31. gr. og skulu þær færðar rafrænt á ökumannskort.
Ökumaður skal nota, eftir því sem við á, ökuritaskífu eða ökumannskort við akstur.
Hver ökumaður skal nota eina ökuritaskífu fyrir hvern akstursdag í ökurita og nota sömu ökuritaskífuna í þeim bifreiðum sem hann ekur þann akstursdag. Heimilt er þó að nota aðra ökuritaskífu ef ökuritaskífan, sem notuð hefur verið, er ekki gerð fyrir ökuritann.
Þegar ökumaður yfirgefur bifreiðina og getur þess vegna ekki notað ökurita hennar, skulu tímabilin sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 30. gr.:
- skráð á ökuritaskífuna, annaðhvort handvirkt, sjálfvirkt eða með öðrum hætti, á læsilegan hátt og án þess að ökuritaskífan sé óhreinkuð, eða
- skráð á ökumannskortið með því að nota handvirkan færslubúnað ökuritans.
Ef auk ökumanns er í bifreiðinni sá sem er þar til þess að leysa ökumanninn af þegar hann tekur hvíld, skal hvor um sig sjá um að setja sitt kort í rétta rauf ökuritans.
Þess skal gætt, þegar auk ökumanns er í bifreiðinni sá sem er þar til þess að leysa hann af, að ávallt sé notuð ökuritaskífa eða ökumannskort þess sem ekur svo að eftirfarandi upplýsinga séu skráðar inn á ökuritaskífu eða ökumannskort þess ökumanns sem á hverjum tíma ekur:
- ekin vegalengd bifreiðar,
- hraði bifreiðar og
- aksturstími.
30. gr. Tákn fyrir þau atriði sem skráð eru í ökurita.
Ökumaður skal stilla ökurita, eftir atvikum skífuökurita eða rafrænan ökurita, til að unnt sé að skrá sérhvert eftirfarandi tímabil sérstaklega og greinilega undir merkinu:
a) | aksturstímabil, sbr. skilgreiningu í h-lið 4. gr. | ||
b) | önnur vinna ökumanns, þ.e. önnur vinna en akstur, sbr. skilgreiningu í e- lið 4. gr., ásamt vinnu fyrir sama vinnuveitanda eða annan vinnuveitanda innan eða utan flutningsgeirans. | ||
c) | þegar ökumaður er reiðubúinn til að hefja vinnu, sbr. skilgreiningu í undirlið v) í e-lið 4. gr. |
31. gr. Upplýsingar sem skrá skal.
Ökumaður skal færa eftirfarandi upplýsingar inn á ökuritaskífu í skífuökurita:
a) þegar vinna hefst:
fullt nafn sitt. | ||
staðinn þar sem ökuritaskífan er tekin í notkun. | ||
dagsetningu þegar ökuritaskífan er sett í ökuritann. | ||
skráningarnúmer bifreiðar. | ||
stöðu vegmælis bifreiðar við upphaf fyrstu ferðar. |
b) þegar vinnu lýkur:
staðinn þar sem ökuritaskífan er tekin úr notkun. | ||
dagsetninguna þegar ökuritaskífa er tekin úr ökuritanum, jafnvel þótt það sé sama dagsetning og þegar skífan var sett í ökuritann. | ||
stöðu vegmælis hverrar bifreiðar, sem tiltekin skífa er notuð í, við lok síðustu ferðar. |
Sé fleiri en einni bifreið ekið sama daginn skal skrá eftirfarandi upplýsingar um það á bakhlið ökuritaskífunnar (hið mesta um þrjár bifreiðar á sömu ökuritaskífu):
tímann þegar skipt er um bifreið. | ||
skráningarnúmer bifreiðar. | ||
stöðu vegmælis við byrjun aksturs. | ||
stöðu vegmælis við lok aksturs. |
Ökumaður skal færa inn á rafrænan ökurita:
staðinn þar sem aksturstími hefst. | ||
staðinn þar sem aksturstíma lýkur. |
32. gr. Gögn sem framvísa skal úr skífuökurita.
Sé bifreið búin skífuökurita, verður ökumaður að geta framvísað, óski eftirlitsmaður þess:
- ökuritaskífum fyrir yfirstandandi dag og ökuritaskífum sem hann notaði næstliðna 28 daga,
- ökumannskortinu sé hann handhafi slíks korts, og
- handskrifuðum skráningum og útprentun yfirstandandi dags og næstliðinna 28 daga.
33. gr. Gögn sem framvísa skal úr rafrænnum ökurita.
Sé bifreið búin rafrænum ökurita, verður ökumaður að geta framvísað, óski eftirlitsmaður þess:
- ökumannskorti sínu,
- handskrifuðum blöðum og útprentum yfirstandandi dags og næstliðinna 28 daga eins og krafist er samkvæmt þessari reglugerð,
- ökuritaskífunum frá því tímabili, sem um getur í 1. mgr. 32. gr., hafi hann á því tímabili ekið bifreið með skífuökurita,
- útprentun með upplýsingum um akstur þann sem fellur undir 7. og 9. gr. reglugerðar þessarar.
34. gr. Heimildir eftirlitsmanns og verkstæðismanns.
Eftirlitsmaður hefur heimild til að skoða ökuritaskífur, gögn á skjá, útprentun úr ökurita eða ökumannskorti og önnur fylgiskjöl sem renna stoðum undir að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.
Verkstæðismanni sem starfar á verkstæði sem hefur til þess starfsleyfi er heimilt þegar nauðsynlegt er vegna viðgerðar á bifreiðinni, að rjúfa innsigli ökurita og skal innsigla ökuritann að lokinni viðgerð.
35. gr. Skráning og meðferð upplýsinga þegar ökuriti eða ökumannskort er ónothæft.
Þjóni ökuriti ekki hlutverki sínu eða sé hann bilaður, skal ökumaður færa inn á ökuritaskífu eða varaeintak eða blað upplýsingar um þau tímabil sem ökuriti skráir ekki lengur eða prentar út með réttum hætti. Varaeintakið skal festa við ökuritaskífuna eða ökumannskortið og ökumanni ber að útfylla það til þess að unnt sé að bera kennsl á hann ásamt númeri ökumannskorts, nafni eða númeri ökuskírteinis og undirskrift hans.
Sé ökumannskortið gallað, ónothæft eða týnt eða því hefur verið stolið skal ökumaðurinn, í lok ferðar prenta út upplýsingar um tímabilin sem ökuritinn skráði og færa inn á útprentunina upplýsingar sem gera kleift að bera kennsl á hann ásamt númeri ökumannskorts, nafni eða númeri ökuskírteinis, og undirskrift hans.
36. gr. Gallað og týnt ökumannskort.
Sé ökumannskortið gallað eða ónothæft skal ökumaður skila því til Umferðarstofu. Sé ökumannskorti stolið eða það týnt ber að tilkynna það með formlegum hætti til Umferðarstofu.
VI. KAFLI Ökuritakort.
37. gr. Útgáfa ökuritakorts.
Samgöngustofa gefur út ökuritakort og heldur skrá yfir þau, þar með talin stolin, týnd og gölluð kort. Gerð ökuritakorta, tæknilegir eiginleikar og áletrun þeirra, skal vera í samræmi við I. viðauka B reglugerðar ráðsins nr. 3821/85/EBE, sbr. reglugerð ráðsins nr. 1360/2002/EB.
38. gr. Útgáfa ökumannskorts.
Ökumaður, sem hefur fasta búsetu hér á landi, gilt ökuskírteini og réttindi til þess að aka bifreið sem reglugerð þessi tekur til, getur fengið ökumannskort sem gefið skal út til 5 ára í senn.
39. gr. Gögn með umsókn um ökumannskort.
Umsækjandi um ökumannskort skal færa sönnur á hvar hann hefur fasta búsetu.
Umferðarstofu er heimilt að óska eftir viðbótarupplýsingum eða sönnunargögnum þyki vafi leika á um gildi yfirlýsingar um fasta búsetu, sem er gefin í samræmi við 1. mgr. eða sé slíkt nauðsynlegt vegna sérstaks eftirlits.
Með umsókn um ökumannskort skal fylgja ljósmynd, 35x45 mm að stærð. Á kort skal rita nafn, fæðingardag og ár og heimilisfang korthafa, svo og útgáfunúmer.
Hver ökumaður má einungis hafa eitt ökumannskort.
Þegar sótt er um ökumannskort skal Samgöngustofa ganga úr skugga um eftir því sem unnt er hvort umsækjandi hafi gilt ökumannskort fyrir.
40. gr. Endurútgáfa ökumannskorts.
Ökumanni er eingöngu heimilt að nota ökumannskort sem er auðkennt með nafni hans. Hann má ekki nota ökumannskort sem er gallað, fallið úr gildi eða hefur verið tilkynnt um sem týnt eða stolið.
Sé nýtt ökumannskort gefið út, skal það hafa sama útgáfunúmer og gamla ökumannskortið en raðnúmerið hækkar um einn. Samgöngustofa skal halda skrá yfir útgefin, stolin, týnd eða gölluð ökumannskort.
Sé ökumannskort gallað, ónothæft, týnt eða því hefur verið stolið eða komið er að endurnýjun, skal Samgöngustofa gefa út nýtt kort í stað þess innan 15 daga frá því að Umferðarstofu berst beiðni þar um.
41. gr. Óheimilt framsal eða afturköllun ökumannskorts.
Ökumannskortið skal bundið tilteknum ökumanni. Óheimilt er, meðan gildistími kortsins varir, að afturkalla það eða nema tímabundið úr gildi af nokkurri ástæðu nema sannreynt sé að kortið hafi verið falsað eða ökumaður noti kort sem hann er ekki handhafi að eða að kort, sem er í notkun hafi verið fengið með ósönnum yfirlýsingum og/eða fölsuðum skjölum.
Sé gripið til slíkrar tímabundinnar niðurfellingar eða afturköllunar vegna ökuritakorts sem gefið er út í öðru landi, skal skila kortinu aftur til viðkomandi yfirvalda þar sem það var gefið út og tilgreina ástæður þess að því er skilað.
42. gr. Gagnkvæm viðurkenning.
Ökumannskort, gefið út í öðru landi Evrópska efnahagssvæðins, gildir hér á landi. Umferðarstofu er heimilt að gefa út ökumannskort í stað slíks korts, hafi umsækjandi fasta búsetu hér á landi. Sannreyna skal, þyki þess þörf, hvort erlenda ökumannskortið sé enn í gildi. Samgöngustofa skal sjá um að erlenda kortinu verði skilað til viðkomandi yfirvalda í útgáfuríkinu með tilkynningu um hvers vegna kortinu er skilað.
VII. KAFLI Flytjandakort, verkstæðiskort og eftirlitskort.
43. gr. Útgáfa korta.
Samgöngustofa gefur út flytjandakort, verkstæðiskort og eftirlitskort og heldur skrá yfir þau, þar með talin stolin, týnd og gölluð kort. Ekki má nota kort sem er fallið úr gildi, er gallað eða hefur verið tilkynnt um að sé týnt eða stolið.
44. gr. Útgáfa flytjandakorts.
Flytjandakort er gefið út til fimm ára í senn á nafn flytjanda sem hefur fast aðsetur hér á landi. Heimilt er að gefa út fleiri en eitt flytjandakort fyrir hvern umsækjanda.
45. gr. Útgáfa verkstæðiskorts.
Verkstæðiskort er gefið út til eins árs á nafn framleiðanda ökurita, ísetningarstofu, framleiðanda bifreiðar eða verkstæða og annarra sem hafa B-faggildingu til að setja upp, prófa, stilla og gera við rafræna ökurita, sbr. reglugerð um prófun á ökuritum og hafa fast aðsetur hér á landi.
Heimilt er að gefa út fleiri en eitt verkstæðiskort fyrir hvern umsækjanda. Heimilt er að gefa verkstæðiskort út á nafn prófunarmanns.
46. gr. Útgáfa eftirlitskorts.
Eftirlitskort er gefið út til lögreglustjóra og Vegagerðarinnar til fimm ára. Heimilt er að gefa út fleiri en eitt eftirlitskort fyrir hverja eftirlitsstofnun.
VIII. KAFLI Eftirlit.
47. gr. Inntak eftirlits.
Samgöngustofa skal á vegum og í bækistöð flytjanda hafa reglubundið eftirlit með því að fylgt sé reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og reglum um notkun ökurita sem a.m.k. fullnægi lágmarksskilyrðum um eftirlit samkvæmt reglugerð þessari.
Eftirlit skal árlega ná til breiðs og dæmigerðs þversniðs ökumanna, flytjenda og bifreiða sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar.
Eftirlitsmenn Vegagerðarinnar skulu hafa eftirlit með að ökuriti sé í bifreið, sem búin skal ökurita, að hann vinni eðlilega, sé innsiglaður og rétt upp settur og að hann sé notaður eins og til er ætlast.
Við eftirlit skv. reglugerð þessari skulu eftirlitsmenn Vegagerðarinnar hafa meðferðis:
- gátlista yfir helstu atriði sem eftirlit skal haft með og yfirlit á íslensku og ensku um algengustu tækniorð og hugtök sem notuð eru í tengslum við flutningastarfsemi á vegum,
- búnað til að færa upplýsingar úr ökurita bifreiðarinnar og ökumannskorti stafræns ökurita til að lesa upplýsingarnar og greina þær eða flytja þær í miðlægan gagnagrunn til greiningar,
- búnað til að greina ökuritaskífur.
48. gr. Umfang eftirlits.
Fyrir byrjun hvers árs skal gera áætlun um eftirlitsstarfsemi ársins. Eftirlitið skal skipulagt þannig að ár hvert sé könnun beint að a.m.k. 3% vinnudaga ökumanna þeirra bifreiða sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar.
Við eftirlitið skal þess gætt að minnst 30% af heildarfjölda kannaðra vinnudaga felist í eftirliti á vegum og a.m.k. 50% sé eftirlit í bækistöð flytjanda.
49. gr. Staðlað eyðublað.
Nota skal staðlað eyðublað til að senda Eftirlitsstofnun EFTA, ESA þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að hún geti, á tveggja ára fresti, tekið saman skýrslu um beitingu reglugerðarinnar og um þróun á viðkomandi sviði.
Upplýsingarnar skulu m.a. vera um fjölda ökumanna sem eftirlit er haft með á vegum, umfang eftirlits sem fram fer á athafnasvæði flytjanda, fjölda vinnudaga sem eftirlit nær til og fjölda og tegund brota sem sönnun liggur fyrir um, ásamt upplýsingum um hvort um er að ræða farþega- eða vöruflutninga.
Eftir að tveggja ára tímabilinu sem skýrslan tekur til lýkur, skulu þessar upplýsingar berast Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Í skýrslunni skal tilgreina hvernig undanþágum skv. reglugerðinni hefur verið beitt.
50. gr. Tölfræðilegar upplýsingar.
Samgöngustofa skal safna saman tölulegum upplýsingum um framkvæmd eftirlits sem fram fer samkvæmt reglugerðinni og senda Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, annað hvert ár.
Samgöngustofa skal geyma í ár þau gögn sem safnað hefur verið. Flytjandi skal varðveita í ár skjöl, eftirlitsgögn og aðrar mikilvægar upplýsingar sem Samgöngustofa hefur afhent honum um eftirlit sem fram hefur farið hjá honum eða ökumanni í hans þjónustu.
51. gr. Vegaeftirlit.
Eftirlit á vegum skal fara fram á mismunandi tíma og sem víðast til þess að fá glöggar upplýsingar um hversu vel reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna er fylgt. Eftirlitsstaðir skulu valdir af handahófi og sem jafnast miðað við vegakerfið í heild. Þjónustustöðvar og aðrir öruggir staðir við vegina geta þjónað sem eftirlitsstaðir.
Eftirlit á vegum skal einkum beinast að:
- hve lengi ökumaður ekur hvern akstursdag, og í hverri viku á hverjum 14 dögum,
- hve lengi og hve oft ökumaður tekur hlé eða hvíld frá akstri, daglegan og vikulegan hvíldartíma, samkvæmt upplýsingum sem skráðar eru á ökuritaskífu eða ökumannskort og í rafrænan ökurita í samræmi við ákvæði reglugerðar um ökurita og notkun hans,
- hvort fram kemur, að því er varðar tímabilið sem um getur í a-lið 1. mgr. 32. gr., að hraði vörubifreiðar hafi verið meiri en 90 km á klst. eða hraði hópbifreiðar meiri en 105 km á klst. lengur en mínútu í senn,
- þar sem það á við, upplýsingum um hámarkshraða bifreiðar sem skráðar eru á síðustu 24 klukkustundum,
- hvort ökuriti starfi rétt og hvort ökumannskortið eða eftir atvikum ökuritaskífur hafi verið notaðar rétt,
- sannprófun skráningarbúnaðar sem settur hefur verið upp í ökutæki til að greina hvort komið hafi verið fyrir búnaði til að spilla gögnum eða trufla hvers konar skipti á rafrænum gögnum á milli íhluta skráningarbúnaðar eða sem er ætlað að rugla eða breyta gögnum með þeim hætti áður en dulkóðun á sér stað.
52. gr. Eftirlit í bækistöð flytjanda.
Skipuleggja skal eftirlit í bækistöð flytjanda í ljósi reynslu sem fengist hefur í eftirliti áður hjá aðilum í mismunandi flutningum og rekstri. Ennfremur fer eftirlit fram hafi alvarleg brot á ákvæðum reglugerðarinnar komið í ljós við vegaeftirlit.
Auk þess sem tilgreint er í 2. mgr. 51. gr. tekur eftirlit í bækistöð flytjanda til eftirfarandi atriða:
- vikulegs hvíldartíma og aksturstíma milli hvíldartímabila,
- takmörkun á akstri á hverju tveggja vikna tímabili,
- notkun ökumanna á ökuritaskífum, upplýsingum og útprentunum frá ökurita bifreiðar og ökumannskorti.
Eftirlit sem fer fram í bækistöð eftirlitsmanns, og byggt er á viðeigandi skjölum og öðrum upplýsingum sem flytjandi lætur í té að beiðni eftirlitsmanns, hefur sama gildi og eftirlit sem fram fer í bækistöð flytjanda.
53. gr. Bann við mismunun.
Með fyrirvara um ákvæði 54. gr. mega starfsmenn vegaeftirlitsins ekki láta eftirfarandi þætti hafa áhrif á framkvæmd þess:
- í hvaða landi bifreið er skráð,
- í hvaða landi ökumaður er búsettur,
- í hvaða landi flytjandi er skráður,
- hvar ferð hefst og lýkur, og
- hvort í bifreið er skífuökuriti eða rafrænn ökuriti.
Ef vegaeftirlit nær til ökumanns bifreiðar sem skráð er í öðru landi Evrópska efnahagssvæðisins, og ástæða er til að ætla að um brot sé að ræða á ákvæðum reglugerðar þessarar, er heimilt að óska upplýsinga frá þar til bærum yfirvöldum í viðkomandi landi, ef nauðsynleg gögn vantar.
54. gr. Áhættumatskerfi.
Samgöngustofa skal koma upp áhættumatskerfi varðandi fyrirtæki. Skal reiknireglan sem kerfið byggir á vera til samræmis við það sem fram kemur í framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/695 frá 2. maí 2022 um reglur um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/22/EB að því er varðar sameiginlega formúlu til að reikna út áhættumat flutningafyrirtækja, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2023, 17. mars 2023, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30 frá 20. apríl 2023, bls. 454-457.
IX. KAFLI Viðurlög, innleiðing og gildistaka.
55. gr. Viðurlög.
Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.
56. gr. Innleiðing.
Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í 20. tölulið XIII. viðauka við hann skulu gilda hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun eitt um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.
Með reglugerð þessari eru innleiddar og öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir:
-
reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 561/2006/EB, frá 15. mars 2006 um samhæfingu tiltekinna ákvæða félagsmálalöggjafarinnar er varða flutninga á vegum og um breytingu á reglugerðum ráðsins nr. 3821/85/EBE og reglugerð nr. 2135/98/EB og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins nr. 3820/85/EBE, sem vísað er til í 20. og 21. tölul. XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, og birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 78, 18. desember 2008, bls. 113-125.
Á grundvelli ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, dags. 21. júní 2010, mál nr. 67088 voru Íslandi veittar eftirfarandi undanþágur frá reglugerð 561/2006/EB:
- undanþága frá 6. gr. reglugerðarinnar sem kemur fram í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar,
- undanþága frá 7. gr. reglugerðarinnar sem kemur fram í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar þessarar.
- tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/22/EB frá 15. mars 2006 um lágmarksskilyrði fyrir framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 561/2006/EB og reglugerðar ráðsins nr. 3821/85/EBE, með áorðnum breytingum, varðandi félagsmálalöggjöf er varðar flutningastarfsemi á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins nr. 88/599/EBE, sem vísað er til í 21a. tölul. XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
- tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2009/4/EB frá 23. janúar 2009 um gagnaðgerðir til að koma í veg fyrir og greina hvort átt hafi verið við ökuritaskrár og um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/22/EB um lágmarksskilyrði fyrir framkvæmd reglugerða ráðsins (EBE) nr. 3820/85 og (EBE) nr. 3821/85 varðandi félagsmálalöggjöf er varðar flutningastarfsemi á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins nr. 88/599/EBE, sem vísað er til í 21. hefti EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, dags. 29. apríl 2010, bls. 108-110.
- tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2009/5/EB frá 30. janúar 2009 um breytingu á III. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/22/EB um lágmarksskilyrði fyrir framkvæmd reglugerða ráðsins (EBE) nr. 3820/85 og (EBE) nr. 3821/85 varðandi félagsmálalöggjöf er varðar flutningastarfsemi á vegum, sem vísað er til í 21. hefti EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, dags. 29. apríl 2010, bls. 110-116.
- Reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (EB) nr. 68/2009 frá 23. janúar 2009 um níundu aðlögun að tækniframförum á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp aðlögunarbúnað vegna skráningarbúnaðar í ökutækjum í flutningum á vegum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 143, 4. desember 2009, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 50, bls. 8, 16. september 2010.
- reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1266/2009/EB frá 16. desember 2009 um tíundu aðlögun að tækniframförum á reglugerð ráðsins nr. 3821/85/EBE sem varðar breytingu á I. viðauka B við reglugerð nr. 3821/85/EBE samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 132/2010 sem birt er í EES-viðbæti nr. 17, 31. mars 2011.
- reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 581/2010/ESB frá 1. júlí 2010 um hámarksfrest fyrir niðurhal viðeigandi gagna af skráningarhluta ökurita og af ökumannskortum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16 sem birt er í EES-viðbæti nr. 37, 30. júní 2011.
- Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1013 frá 30. mars 2017 um útlit staðlaðs eyðublaðs sem um getur í 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 2006/561, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242, 15. desember 2017, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7, frá 1. febrúar 2018, bls. 523-530.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1161/2014 frá 30. október 2014 um aðlögun að tækniframförum á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 107, 30. apríl 2015, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 34, frá 18. júní 2015. bls. 335.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/130 frá 1. febrúar 2016 um aðlögun að tækniframförum í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 93, 29. apríl 2016, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44, frá 18. ágúst 2016, bls. 212-213.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 165/2014 frá 4. febrúar 2014 um ökurita í flutningum á vegum, niðurfellingu reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3821/85 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum og breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 561/2006 um samhæfingu tiltekinna ákvæða félagsmálalöggjafarinnar er varða flutninga á vegum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2016 frá 3. júní 2016, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52, frá 22. september 2016, bls. 594-626.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/68 frá 21. janúar 2016 um sameiginlegar verklagsreglur og forskriftir sem nauðsynlegar eru fyrir samtengingu rafrænna skráa yfir ökumannskort, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2016 frá 23. september 2016, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 57, frá 13. október 2016, bls. 989-1006.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/799 frá 18. mars 2016 um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 165/2014 þar sem mælt er fyrir um kröfur um smíði, prófun, uppsetningu, virkni og viðgerðir ökurita og íhluta þeirra, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 211/2016 frá 28. október 2016, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 31, frá 18. maí 2017, bls. 1027-1532.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/548 frá 23. mars 2017 um staðlað eyðublað fyrir skriflega yfirlýsingu um að innsigli ökurita hafi verið fjarlægt eða rofið, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 145/2017 frá 7. júlí 2017, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48, frá 3. ágúst 2017, bls. 962-964.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/1503 frá 25. ágúst 2017 um breytingu framkvæmdarreglugerð (ESB) 2016/68 um sameiginlegar verklagsreglur og forskriftir sem nauðsynlegar eru fyrir samtengingu rafrænna skráa yfir ökumannskort, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 241, 15. desember 2017, birt í EES‑viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7, frá 1. febrúar 2018, bls. 641-652.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/502 frá 28. febrúar 2018 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2016/799 þar sem mælt er fyrir um kröfur um smíði, prófun, uppsetningu, virkni og viðgerðir ökurita og íhluta þeirra, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 264, 25. október 2019, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 90 frá 7. nóvember 2019, bls. 277-347.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/158 frá 5. febrúar 2020 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2016/799 að því er varðar innbyggðan vigtunarbúnað.
- Með reglugerð þessari er innleidd reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/698 frá 25. maí 2020 um sértækar og tímabundnar ráðstafanir með tilliti til útbreiðslu COVID-19 faraldursins að því er varðar endurnýjun eða framlengingu gildistíma tiltekinna vottorða, skírteina og heimilda og frestun á tilteknu reglubundnu eftirliti og reglubundinni þjálfun á tilteknum sviðum löggjafar um flutninga, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2020 frá 18. júní 2020 sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 62 frá 24. september 2020, bls. 239-253.
- Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1057 frá 15. júlí 2020 um sértækar reglur að því er varðar tilskipun 96/71/EB og tilskipun 2014/67/ESB um útsendingu ökumanna á sviði flutninga á vegum og um breytingu á tilskipun 2006/22/EB að því er varðar kröfur um framfylgd og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2022 frá 10. júní 2022, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 66, frá 13. október 2022, bls. 37-38.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/695 frá 2. maí 2022 um reglur um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/22/EB að því er varðar sameiginlega formúlu til að reikna út áhættumat flutningafyrirtækja, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 66/2023, 17. mars 2023, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30 frá 20. apríl 2023, bls. 454-457.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/1228 frá 16. júlí 2021 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2016/799 að því er varðar kröfur um smíði, prófun, uppsetningu, virkni og viðgerðir snjallökurita og íhluta þeirra, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 339/2022, 9. desember 2022, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 11. maí 2023, bls. 403-542.
Með reglugerð nr. 661/2006 og reglugerð nr. 136/1995 voru innleiddar eftirtaldar gerðir:
reglugerð ráðsins nr. 3821/85/EBE frá 20. desember 1985 um að setja ökurita í bifreið sem notuð er í flutningum á vegum, sem vísað er til í 21. tölulið XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, og birt er í Sérritinu EES-gerðir S40, bls. 179-199, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda og breytingar á reglugerð nr. 3821/85/EBE:
- Reglugerð nr. 3314/90/EBE frá 16. nóvember 1990, sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 338-343,
- Reglugerð nr. 3572/90/EBE frá 4. desember 1990 sem vísað er til í Sérritinu EES-gerðir S40, bls. 312-315,
- Reglugerð ráðsins nr. 3688/92/EBE frá 21. desember 1992, sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 17. hefti 28. júní 1994, bls. 68-69,
- reglugerð ráðsins nr. 2479/95/EBE frá 25. október 1995 sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 18. hefti, 25. apríl 1996, bls. 24,
- reglugerð nr. 1056/97/EB frá 11. júní 1997, sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 42. hefti, 8. október 1998, bls. 10,
- reglugerð nr. 2135/98/EB frá 24. september 1998, sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 50. hefti, 9. nóvember 2000, bls. 50,
- reglugerð nr. 1360/2002/EB frá 13. júní 2002, sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 29. hefti, 1. ágúst 2003, bls. 23,
- reglugerð nr. 432/2004/EB frá 5. apríl 2004, sem vísað er til í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 20. hefti, 21. apríl 2005, bls. 16.
57. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 44. gr. a, 60. gr. og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 með síðari breytingum, tekur gildi við birtingu. Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma reglugerðir nr. 661/2006, 662/2006 og 777/2006.
Ákvæði til bráðabirgða:
Bifreið, skráð fyrir 1. september 2006 má vera búin skífuökurita, en bifreið skráð frá og með 1. september 2006 skal búin rafrænum ökurita.
Heimilt er að nota hópbifreið til farþegaflutninga í atvinnuskyni, sem skráð hefur verið hér á landi fyrir 10-17 manns að ökumanni meðtöldum, þó hún sé ekki búin ökurita samkvæmt reglugerð þessari, hafi skráning farið fram fyrir 1. júlí 2011. Í stað skráningar vinnutíma í ökurita skal flutningafyrirtæki semja tímaáætlun og vaktaskrá þar sem tilgreina skal, fyrir hvern ökumann, nafn hans, bækistöð og fyrirfram ákveðna tímaáætlun fyrir mismunandi aksturstímabil, aðra vinnu, vinnuhlé og tiltækileika ökumanns. Hver ökumaður, sem starfar við flutninga, sem um getur í 1. mgr., skal hafa undir höndum útdrátt úr vaktaskránni og afrit af tímaáætluninni.
Vaktaskráin skal:
- hafa að geyma allar upplýsingar, sem tilgreindar eru í 2. mgr., sem taka til a.m.k. næstliðinna 28 daga og skal uppfæra þessar upplýsingar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði,
- undirrituð af yfirmanni flutningafyrirtækisins eða fulltrúa hans,
- vera í vörslu flutningafyrirtækisins í eitt ár eftir að tímabilið, sem hún tekur til, rennur út. Flutningafyrirtækið skal láta viðkomandi ökumönnum, sem þess æskja, í té afrit af vaktaskránni,
- sýnd og afhent að beiðni viðurkennds eftirlitsmanns.
Athugasemdir ritstjóra
Metið sem svo að stafliður sem bætist við 2. mgr 56. gr. með reglugerð 1186/2020 bætist við í réttri stafrófsröð og verði q. liður í stað s. liðar sem getið er í breytingu.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.