Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 26. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. okt. 2015

535/2011

Reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

Birta efnisyfirlit

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að skilgreina aðferðir til að flokka vatnshlot, meta eiginleika þeirra og álagsgreina þau. Einnig er markmið reglugerðarinnar að samræma aðferðafræði við skiptingu í vatnshlot og vatnshlotagerðir og setja mælanleg viðmið til að hægt sé að meta vistfræðilegt ástand vatnshlota til að tryggja verndun vatns, vatnavistkerfa og vistkerfa sem tengjast þeim að vatnabúskap. Ennfremur er það markmið reglugerðarinnar að setja vöktunaráætlun fyrir vatnshlot.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um yfirborðsvatn og grunnvatn, sbr. kort í I. viðauka.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Aðgerðavöktun: reglubundin vöktun til að fylgjast með álagi á vatnshlot vegna losunar til að meta umfang og áhrif hennar.
  2. Álagsbreytur: sérstakir mengunarvaldar, atvik, framkvæmdir og annað sem veldur álagi á vatnaumhverfi, svo sem vistkerfi og vatnabúskap.
  3. Árósavatn: vatn í nágrenni ármynnis, ísalt vegna nálægðar við strandsjó en undir verulegum áhrifum af aðstreymi ferskvatns.
  4. Bakgrunnsgildi: styrkur efnis eða gildi fyrir mengunarvísi í grunnvatnshloti sem samsvarar ýmist engum eða aðeins smávægilegum breytingum af mannavöldum við náttúrulegt ástand.
  5. Eðlisefnafræðilegir þættir: eðlis- og efnafræðilegir þættir sem hafa áhrif á lífríki vatna, svo sem sjóndýpi, hitastig, köfnunarefni, heildar fosfór og súrefni.
  6. Efnafræðilegt ástand: niðurstaða vöktunar á forgangsefnum í vatnshloti.
  7. Flokkunareining lífvera: tiltekin flokkunareining fyrir lagarlífverur innan "undirfylkingar", "flokks" eða samsvarandi flokkunareininga.
  8. Forgangsefni: hættuleg og þrávirk efni sem valda alvarlegri mengun eða eitrun í vatni eða út frá því og raðað er í forgangsröð eftir hættu sem af þeim stafar.
  9. Fylki: hólf í vatnaumhverfinu, þ.e. vatn, set eða lífríki.
  10. Færibreytur: endurteknar mælingar á tilteknu viðfangsefni yfir tiltekinn tíma sem bornar eru saman við ákveðin viðmiðunargildi.
  11. Gott efnafræðilegt ástand: efnafræðilegt ástand yfirborðs- eða grunnvatnshlots sem uppfyllir umhverfismarkmið fyrir vatn.
  12. Greiningarmörk: lægsta gildi frálagsmerkis eða styrks sem nota má við tilgreind öryggismörk til að staðfesta að tiltekið sýni sé frábrugðið blanksýni sem inniheldur ekki viðkomandi mæliþátt.
  13. Grunnlínugildi: meðalgildi sem mældist á viðmiðunarárunum 2010 og 2011 á grundvelli vöktunaráætlana eða þegar um er að ræða efni sem greinast eftir viðmiðunarárin, skal miða við fyrsta tímabilið með vöktunargögnum sem telst lýsandi fyrir tímabilið.
  14. Grunnvatn: vatn, kalt eða heitt, sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.
  15. Gæðakrafa fyrir grunnvatn: umhverfisgæðakrafa, sem ekki má fara yfir, til að vernda heilbrigði manna og umhverfið, gefin upp sem styrkur tiltekins mengunarvalds, hóps mengunarvalda eða mengunarvísa í vatni.
  16. Gæðamarkmið: mörk tiltekinnar mengunar í umhverfi, svo sem í lofti, vatni, jarðvegi, seti eða lífverum, og/eða lýsing á ástandi sem ákveðið er að gildi fyrir svæði í því skyni að draga enn frekar úr áhrifum mengunar, umfram umhverfismörk, og til að styðja tiltekna notkun og/eða viðhalda tiltekinni notkun umhverfisins til lengri tíma.
  17. Gæðaþættir: vatnaformfræðilegir þættir og eðlis- og efnafræðilegir þættir sem styðja líffræðilega þætti, svo sem tegundasamsetningu og þéttleika vatnalífvera.
  18. Íkoma mengunarvalda í grunnvatn: bein eða óbein viðbót mengunarvalda í grunnvatn af mannavöldum.
  19. Lýsir: einkennisþáttur sem notaður er til að lýsa ákveðnu ástandi, s.s. hæð yfir sjó (m.y.s.) eða selta sjávar (%).
  20. Magngreiningarmörk: tilgreint margfeldi greiningarmarka við styrk mæliþáttarins sem sanngjarnt er að ætla að megi ákvarða með viðunandi nákvæmni og samkvæmni. Reikna má magngreiningarmörkin með því að nota viðeigandi staðal eða sýni og þau má finna út frá lægsta kvörðunarpunkti á kvörðunarferlinum, að undanskildu blanksýninu.
  21. Magnstaða: mælikvarði á það hversu mikil áhrif, bein eða óbein, vatnstaka hefur haft á grunnvatnshlot.
  22. Manngert vatnshlot: vatnshlot sem hefur orðið til vegna athafna manna.
  23. Mikið breytt vatnshlot: yfirborðsvatnshlot sem hefur tekið verulegum breytingum af mannavöldum og hefur ekki gott vistmegin.
  24. Mælióvissa: breyta, sem er ekki neikvæð og einkennir dreifingu mæligildanna sem eiga við um tiltekinn mæliþátt, byggt á þeim upplýsingum sem stuðst er við.
  25. Náttúrulegt ástand: er mjög gott vistfræðilegt ástand.
  26. Neysluvatn: vatn ætlað til manneldis, í náttúrulegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna.
  27. Persónueining (pe.): er magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring. Ein pe. af lífrænu efni er það magn lífrænna efna í skólpi sem getur brotnað niður líffræðilega með 60 g súrefnis á dag mælt með 5 sólarhringa lífefnafræðilegri súrefnisnotkun.
  28. Rannsóknavöktun: vöktun til að komast að t.d. umfangi og áhrifum mengunaróhappa.
  29. Sérstakir mengunarvaldar: mengun af völdum einstakra forgangsefna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið losað út í tiltekið vatnshlot og mengun af völdum annarra efna sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið losað út í umtalsverðu magni í vatnshlotið. Aðrir sérstakir mengunarvaldar geta verið veirur eða bakteríur.
  30. Skipting í gerðir: skipting vatnshlota í mismunandi gerðir sem hafa ákveðin einkenni sem eru sameiginleg með mörgum vatnshlotum.
  31. Strandsjór: yfirborðsvatn landmegin við línu sem dregin er einni sjómílu utan grunnlínu landhelginnar og nær inn að ytri mörkum árósavatns.
  32. Umhverfisbreytur: breytilegir umhverfisþættir sem hafa áhrif á gæðaþætti svo sem vatnsbúskapur, hitaskilyrði, súrefnisskilyrði, selta, sýrustig og leiðni.
  33. Umhverfisgæðakrafa: tiltekinn styrkur tiltekins mengunarefnis eða hóps mengunarefna í vatni, seti eða lífríki sem ekki ætti að fara yfir, í því skyni að vernda heilbrigði manna og umhverfið.
  34. Umhverfismörk: viðmiðunargildi sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess.
  35. Umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni: öll marktæk aukning á styrk mengunarvalds, hóps mengunarvalda eða mengunarvísa í grunnvatni sem hefur tölfræðilega þýðingu eða þýðingu fyrir umhverfið og vegna hennar er talið nauðsynlegt að snúa slíkri leitni við í samræmi við skilgreindan upphafspunkt.
  36. Vatn: grunnvatn og yfirborðsvatn.
  37. Vatnaáætlun: samræmt stjórnsýslufyrirkomulag innan vatnaumdæmisins.
  38. Vatnasvið: aðrennslissvæði straumvatns, stöðuvatns, grunnvatnsstraums eða vatnsbóls.
  39. Vatnasvæði: landsvæði með einu eða fleiri vatnasviðum.
  40. Vatnaumdæmi: stjórnsýslueining sem nær til íslenskra vatnasvæða ásamt árósavatni og strandsjó sem þeim tengjast.
  41. Vatnsformfræðilegir eiginleikar vatnshlots: vatnsmagn vatnshlots og breytingar á rennsli og vatnsborði ásamt gerð og undirlagi botns og eðlisefnafræðilegum þáttum vatnshlotsins.
  42. Vatnshlot: eining vatns, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó.
  43. Vatnstökusvæði: landsvæði þar sem nytjavatn er tekið og aðrennslissvæði vatnsbóla á því.
  44. Verndarsvæði: afmarkað svæði ásamt einstökum vistkerfum sem nauðsynlegt er talið að vernda til að ná fram markmiðum laga um stjórn vatnamála.
  45. Viðmiðunargildi: gæðakrafa sem tölugildi, fyrir grunnvatn sem sett er til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns.
  46. Vistfræðilegt ástand: ástand lífríkis í vatnshloti samkvæmt skilgreindri gæðaflokkun í mjög gott, gott, ekki viðunandi, slakt og lélegt ástand.
  47. Vistfræðilegt gæðahlutfall: gæðahlutfall í vöktunarkerfi á milli fimm vistfræðilegra ástands flokka þar sem einn táknar mjög gott ástand og núll táknar versta ástand (EQR).
  48. Vistmegin: ástand lífríkis í manngerðu eða mikið breyttu vatnshloti samkvæmt gæðaflokkun í besta vistmegin, gott vistmegin og ekki viðunandi vistmegin.
  49. Vöktun: kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.
  50. Vöktunarnet: heildstætt mælikerfi til vöktunar á samræmdum umhverfisþáttum á fyrirfram völdum stöðum.
  51. Yfirborðsvatn: kyrrstætt eða rennandi vatn, straumvötn, stöðuvötn, lón, árósavatn og strandsjór, auk jökla.
  52. Yfirlitsvöktun: vöktun kerfisbundinna og síendurtekinna breytilegra þátta í umhverfinu og skráning þeirra.

4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun, í samráði við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

5. gr. Flokkun yfirborðsvatns í vatnshlot og skipting í gerðir.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á flokkun vatna í vatnshlot. Vatnshlot eru flokkuð í ár, stöðuvötn, árósa og strandsjó eða manngerð og mikið breytt vatnshlot og síðan er hverjum vatnshlotaflokki skipt í gerðir samkvæmt 3. mgr.

Heimilt er að heimfæra mæliniðurstöður í einu vatnshloti yfir á annað vatnshlot ef þau eru sambærileg að gerð, sbr. 3. mgr. Einnig má sameina lítil vatnshlot undir tilgreindum stærðarmörkum við vatnshlot aðliggjandi vatnakerfis. Jafnframt má skipta vatnshlotum upp, ef rík ástæða er til, svo sem vegna álags.

Skipting í mismunandi gerðir vatnshlota skal ákvörðuð af landfræðilegri stærð svæðisins, vatnasviði þess og jarðfræði. Skipting í gerðir vatnshlota skal vera í samræmi við kafla 1.2 í II. viðauka. Upplýsingar um skiptingu skal birta í landfræðilegu upplýsingakerfi ásamt skrá þar sem fram kemur:

  1. Fyrir ár; staðsetning, jarðfræðilegir eiginleikar, heildarlengd og flatarmál vatnasviðs og einnig lengd og flatarmál miðað við hæð yfir sjávarmáli.
  2. Fyrir stöðuvötn; staðsetning, hæð yfir sjávarmáli, dýpt, flatarmál og jarðfræðilegir eiginleikar.
  3. Fyrir árósa; staðsetning, selta og sjávarföll.
  4. Fyrir strandsjó; staðsetning, sjávarföll, selta, dýpi og strandgerð.

6. gr. Lýsing á vistfræðilegu ástandi yfirborðsvatnshlota.

Til þess að skilgreina gæðamarkmið og viðmið fyrir líffræðilega gæðaþætti í vatnshlotagerðum skal Umhverfisstofnun tryggja að gerð sé lýsing á líffræðilegum þáttum vatnshlota sem lýsa mjög góðu, góðu, ekki viðunandi, slöku og lélegu vistfræðilegu ástandi viðkomandi vatnshlotagerðar, sbr. kafla 1.2 í III. viðauka. Upplýsingar um ástand vatnshlota skal birta í landfræðilegu upplýsingakerfi og skal það sett fram í samræmi við litakóða í kafla 1.4.2 í III. viðauka, sbr. 16. og 17. gr.

Lýsinguna skal gera eftir fyrirliggjandi gögnum og skal eftir því sem við á fyrir hverja vatnshlotagerð koma fram í lýsingunni:

  1. Fyrir ár; tegundasamsetning og þéttleiki vatnaplantna, þar með talið botnþörunga, botnhryggleysingja sem og tegundasamsetning, þéttleiki og aldursdreifing fiska.
  2. Fyrir stöðuvötn; tegundasamsetning og þéttleiki svifþörunga, vatnaplantna og botnhryggleysingja sem og tegundasamsetning, þéttleiki og aldursdreifing fiska.
  3. Fyrir árósavatn; tegundasamsetning og þéttleiki svifþörunga, botnhryggleysingja og vatnaplantna sem og tegundasamsetning og þéttleiki og aldursdreifing fiska.
  4. Fyrir strandsjó; tegundasamsetning og þéttleiki svifþörunga, vatnaplantna og botnþörunga.

Umhverfisstofnun, í samvinnu við fagaðila, skal við gerð gæðamarkmiða og viðmiða, til að lýsa vistfræðilegu ástandi vatnshlota, nota aðferðafræði sem byggir á tölulegum mælikvörðum frá einum niður í núll, svokallað vistfræðilegt gæðahlutfall (EQR). Þessir mælikvarðar eru fundnir með útreikningum á líffræðilegum gögnum. Fyrir hverja gerð vatnshlota skal fara að viðmiðunargildum, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns. Mjög gott vistfræðilegt ástand er á bilinu einn til 0,8, gott ástand er á bilinu 0,8 til 0,6, ekki viðunandi ástand er undir 0,6 þar sem slakt ástand er á bilinu 0,6 til 0,4 og lélegt ástand er undir 0,2.

Fyrir hverja gerð vatnshlota skal taka saman lýsingu á umhverfisbreytum og álagsbreytum sem hafa áhrif á líffræðilega þætti, sbr. 2. mgr. og lið 1.1 í III. viðauka.

Flokkun á vistfræðilegu ástandi hverrar gerðar yfirborðsvatnshlots skal vera í samræmi við kafla 1.2 í III. viðauka.

Við flokkun á vistfræðilegu ástandi vatnshlota skal nota viðmið um náttúrulegt ástand sem kemur fram í umhverfismarkmiðum í reglugerðum um varnir gegn mengun vatns og þar sem vötn hafa verið flokkuð og náttúrulegt ástand þeirra skilgreint.

7. gr. Álagsgreining yfirborðs- og grunnvatnshlota.

Umhverfisstofnun skal, í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, álagsgreina vatnshlot út frá íbúðabyggð og starfsleyfisskyldri starfsemi sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun skal ennfremur gera álagsgreiningu sem byggir á dreifðri losun, svo sem frá landbúnaði, skógrækt, landgræðslu og frístundabyggð og setja viðmið fyrir mat á álagi.

Álagsgreining skal meðal annars byggð á flokkun vatna sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gera í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns.

Umhverfisstofnun skal leita til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga um upplýsingar um álag á vötn sem gert er ráð fyrir í skipulagsáætlunum og líklegt er að valdi breytingum á ástandi vatna. Greina skal álag frá öðrum aðilum sem nota vatn sem viðtaka og ekki falla undir 1. og 2. mgr. og hugsanlega geta valdið mengun í vatnsumhverfinu.

Ákvarða skal hvort manngerðar breytingar valdi marktækum breytingum á gæðum vatns í samræmi við 12. gr. Gæðaþættir fyrir manngerð og mikið breytt vatnshlot skulu vera þeir sem eiga við um hvern hinna fjögurra flokka náttúrulegra yfirborðsvatnshlota sem helst líkist breytta eða manngerða vatnshlotinu sem um ræðir.

Við álagsgreiningu á grunnvatnshlotum skal tekið tillit til nýtingar og magnstöðu neysluvatns og jarðhitavatns, sbr. kafla 2.4 og 2.5 í II. viðauka.

Meta skal álag út frá aðgengilegum gögnum í þrjá hópa eftir því hvort þau standist umhverfismarkmið. Tilgreina skal þau vatnshlot sem eru:

  1. undir álagi og uppfylla ekki gæðamarkmið,
  2. mögulega í hættu á að uppfylla ekki gæðamarkmið og
  3. þau sem eru ekki undir álagi.

Greina skal nánar þau vatnshlot sem lenda í flokknum "mögulega í hættu" með því að afla frekari upplýsinga um þau síðar í ferlinu, sbr. vöktunaráætlun samkvæmt 13. og 14. gr. Ef umtalsvert álag er á vatnshloti skal það flokkast í "undir álagi".

Nota skal fyrirliggjandi gögn um umhverfisvöktun til að leggja mat á ástand sambærilegra vatnshlota svo hægt sé að meta líkurnar á því hvort tiltekið yfirborðsvatnshlot sé í samræmi við þau umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt reglugerðum.

Álagsgreining skal vera í samræmi við kafla 1.4 í II. viðauka.

8. gr. Viðmið fyrir efnafræðilegt ástand yfirborðsvatnshlota og grunnvatnshlota.

Til að greina efnafræðilegt ástand vatns í hverri vatnshlotagerð skal Umhverfisstofnun, í samvinnu við viðeigandi fagaðila, setja fram viðmiðunarmörk fyrir þungmálma og forgangsefni fyrir hverja gerð vatnshlota. Mat á ástandi og viðmið skulu studd vistfræðilegri flokkun í samræmi við 9. gr.

Til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota samkvæmt lið 2.3. í III. viðauka skal nota eftirfarandi viðmiðanir:

a) Gæðakröfur fyrir grunnvatn sem um getur í lið 2.3.3 í III. viðauka.
b) Viðmiðunargildi sem ráðherra setur í reglugerð í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í A-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka fyrir mengunarvalda, hópa mengunarvalda og mengunarvísa sem staðfest hefur verið að stuðli að því að grunnvatnshlot eða hópar grunnvatnshlota séu talin í áhættu, þar sem a.m.k. er tekið tillit til skrárinnar í B-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka.

8. gr. a Viðmiðanir til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns.

Viðmiðunargildin fyrir gott, efnafræðilegt ástand skulu byggjast á verndun grunnvatnshlotsins í samræmi við 1., 2. og 3. lið í A-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka og sérstakt tillit skal tekið til áhrifa á og innbyrðis tengsla þess við yfirborðsvatn og þau landvistkerfi og votlendi sem eru beint háð því og skal m.a. taka tillit til þekkingar varðandi visteiturefnafræði.

Eigi síðar en 22. desember 2013 skal fastsetja viðmiðunargildi samkvæmt b-lið 2. mgr., í fyrsta sinn. Birta skal öll fastsett viðmiðunargildi í vatnaáætlun, þ.m.t. samantekt með upplýsingunum sem koma fram í C-hluta í lið 2.3.4 í III. viðauka.

Til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfið skal Umhverfisstofnun breyta skránni yfir viðmiðunargildi þegar nýjar upplýsingar um mengunarvalda, hópa mengunarvalda eða mengunarvísa benda til þess að setja skuli viðmiðunargildi fyrir fleiri efni eða að setja skuli aftur inn viðmiðunargildi fyrir efni sem var áður í skránni.

Unnt er að fjarlægja viðmiðunargildi úr skránni þegar viðkomandi mengunarvaldar, hópur mengunarvalda eða mengunarvísar skapa ekki lengur áhættu fyrir umrætt grunnvatnshlot.

Allar slíkar breytingar á skránni yfir viðmiðunargildi skal tilkynna í tengslum við reglubundna endurskoðun á vatnaáætlun.

8. gr. b Verklag við mat á efnafræðilegu ástandi grunnvatns.

Grunnvatnshlot eða hópur grunnvatnshlota skal teljast í góðu, efnafræðilegu ástandi ef:

a) viðeigandi vöktun leiðir í ljós að skilyrðin sem sett eru fram í töflu 2.3.2 í III. viðauka eru uppfyllt eða
b) ekki er farið yfir gildi gæðakrafnanna fyrir grunnvatn, sem eru tilgreindar í lið 2.3.3 í III. viðauka, og viðeigandi viðmiðunargildi, sem eru fastsett í reglugerð um varnir gegn mengun vatns, í samræmi við 8. gr. a og lið 2.3.4 í III. viðauka, á neinum vöktunarstað í grunnvatnshlotinu eða hópi grunnvatnshlota eða
c) farið er yfir gildi gæðakrafna fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi á einum eða fleiri vöktunarstöðum en viðeigandi rannsókn, í samræmi við lið 2.3.5 í III. viðauka, staðfestir að:
  1. á grundvelli matsins, sem um getur í 3. mgr. í lið 2.3.5 í III. viðauka, er ekki talið að styrkur mengunarvalda, sem fer yfir gildi í gæðakröfum fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi, skapi verulega áhættu fyrir umhverfið, að teknu tilliti til umfangs grunnvatnshlotsins sem hefur orðið fyrir áhrifum eftir því sem við á,
  2. önnur skilyrði varðandi gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem sett eru fram í töflu 2.3.2 í III. viðauka, hafa verið uppfyllt í samræmi við 4. mgr. í lið 2.3.5 í III. viðauka,
  3. kröfurnar í reglugerð um neysluvatn hafa verið uppfylltar í samræmi við 4. mgr. í lið 2.3.5 í III. viðauka að því er varðar grunnvatnshlot sem eru tilgreind í samræmi við 24. og 25. gr. laga um stjórn vatnamála,
  4. grunnvatnshlotið, eða eitthvert þeirra grunnvatnshlota sem eru í hópi anna, er ekki svo mengað að notkunarmöguleikar í þágu manna hafi rýrnað umtalsvert.

Val á vöktunarstöðunum fyrir grunnvatn verður að vera í samræmi við kröfurnar í lið 2.4 í III. viðauka um að tilhögun þeirra sé þannig að þeir gefi samfellda heildarsýn yfir efnafræðilegt ástand grunnvatnsins og að vöktunargögn frá þeim séu lýsandi.

Birta skal samantekt á mati á efnafræðilegu ástandi grunnvatns í vatnaáætlun. Í samantektinni skulu einnig koma fram skýringar á því með hvaða hætti hefur verið tekið á þeim tilvikum, þar sem farið er yfir gildin sem varða gæðakröfur fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi á einstaka vöktunarstöðum.

Ef grunnvatnshlot er flokkað þannig að það sé í góðu, efnafræðilegu ástandi í samræmi við c-lið 1. mgr. skal grípa til þeirra ráðstafana sem kunna að reynast nauðsynlegar til að vernda vatnavistkerfi, landvistkerfi og notkun manna á grunnvatni, sem er háð þeim hluta grunnvatnshlotsins þar sem vöktunarstaðurinn eða -staðirnir eru, þegar farið hefur verið yfir gildi í gæðakröfu fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi.

8. gr. c Greining á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni og skilgreining á upphafspunktum til að snúa slíkri leitni við.

Umhverfisstofnun skal tilgreina alla umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda, hópa mengunarvalda eða mengunarvísa sem finnast í grunnvatnshlotum eða hópum grunnvatnshlota, sem talin eru í áhættu, og skilgreina upphafspunkt til að snúa þeirri leitni við, í samræmi við lið 2.4.4 í III. viðauka.

Í samræmi við B-hluta í lið 2.4.4 í III. viðauka, skal snúa við leitni, sem skapar umtalsverða áhættu á að skaða gæði vatnavistkerfa, landvistkerfa, heilbrigði manna eða raunverulega eða hugsanlega réttmæta notkun á vatnsumhverfinu, sem um getur í aðgerðaráætlun til þess að draga jafnt og þétt úr mengun og koma í veg fyrir að grunnvatn spillist.

Umhverfisstofnun skal skilgreina upphafspunkt til að snúa við leitni sem nemur tilteknum hundraðshluta af gildum í gæðakröfum fyrir grunnvatn, sem settar eru fram í lið 2.3.3 í III. viðauka, og af viðmiðunargildum, sem eru fastsett skv. 8. gr. a, á grundvelli greindrar leitni og umhverfisáhættunnar sem tengist henni í samræmi við 1. lið B-hluta í lið 2.4.4 í III. viðauka.

Í vatnaáætlun skal gera samantekt á eftirfarandi:

a) hvernig mat á leitni frá einstökum vöktunarstöðum innan grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota hefur átt þátt í því að greina að í þessum vatnshlotum sé umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni í styrk einhvers mengunarvalds eða viðsnúningur á þeirri leitni og
b) ástæðunum sem liggja að baki upphafspunktunum sem eru skilgreindir skv. 3. mgr.

Ef þörf er á að meta áhrif mengunarslóða sem fyrir eru í grunnvatnshlotum, sem kunna að stefna uppfyllingu umhverfismarkmiða III. kafla laga um stjórn vatnamála í hættu, og einkum mengunarslóða frá punktupptökum og menguðu landi skal Umhverfisstofnun vinna frekara mat á leitni, að því er varðar mengunarvalda sem greinst hafa, til þess að staðfesta að slóðar frá menguðum stöðum breiðist ekki út, spilli ekki efnafræðilegu ástandi grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota og skapi hvorki áhættu fyrir heilbrigði manna né umhverfið. Umhverfisstofnun skal taka saman niðurstöður þessa mats í vatnaáætlun.

8. gr. d. Umhverfisgæðakröfur.

Umhverfisgæðakröfur, sem mælt er fyrir um í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, gilda fyrir yfirborðsvatnshlot og skal umhverfisgæðakröfunum beitt í samræmi við B-hluta lista III í sama viðauka. Sé ekki mælt fyrir um annað skulu umhverfisgæðakröfur, sem mælt er fyrir um í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, koma til framkvæmda eins og hér segir:

  1. endurskoðuðu umhverfisgæðakröfurnar fyrir efni nr. 2, 5, 15, 20, 22, 23 og 28 í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, sem taka gildi 22. desember 2015 og eru settar með það fyrir augum að ná góðu efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns fyrir umrædd efni fyrir 22. desember 2021 með því að beita þeirri aðgerðaáætlun sem er hluti af vatnaáætlun sem gerð er fyrir árið 2024;
  2. umhverfisgæðakröfur fyrir nýtilgreindu efnin nr. 34-45 á A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, sem taka gildi 22. desember 2018 og eru settar með það fyrir augum að ná fram góðu efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns fyrir umrædd efni fyrir 22. desember 2027 og að koma í veg fyrir hnignun á efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatnshlota af völdum þessara efna. Í þeim tilgangi skal Umhverfisstofnun, fyrir 22. desember 2018, gera bæði viðbótarvöktunaráætlun og bráðabirgðaaðgerðaáætlun fyrir umrædd efni. Gerð endanlegrar aðgerðaáætlunar, í samræmi við 21. gr. laga um stjórn vatnamála, skal lokið fyrir 1. janúar 2030 og skal áætlunin koma til framkvæmda eins fljótt og auðið er eftir þá dagsetningu og eigi síðar en 1. janúar 2033.

Ákvæði 15.-18. gr. laga um stjórn vatnamála skulu gilda um efnin sem getið er í i.- og ii.-lið 1. mgr.

Fyrir efnin sem bera númerin 5, 15, 16, 17, 21, 28, 34, 35, 37, 43 og 44 í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns skal beita umhverfisgæðakröfum fyrir lífríki sem mælt er fyrir um í listanum. Hvað varðar önnur efni en þau sem getið er í 1. málsl. skal beita umhverfisgæðakröfum fyrir vatn sem mælt er fyrir um í framangreindum lista III.

Beita má, fyrir einn eða fleiri flokka yfirborðsvatns, umhverfisgæðakröfu fyrir annað fylki en það sem er tilgreint í 2. mgr. eða, ef við á, fyrir aðra flokkunareiningu lífvera en þær sem eru tilgreindar í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Ef þessi valkostur er nýttur skal beita viðeigandi umhverfisgæðakröfu, sem mælt er fyrir um í framangreindum lista III, eða, ef engin slík krafa er til fyrir fylkið eða flokkunareiningu lífvera, koma á umhverfisgæðakröfu sem býður upp á a.m.k. sama verndarstig og umhverfisgæðakrafan sem mælt er fyrir um í listanum. Einungis má nota valkostinn, sbr. 1. málsl., ef greiningaraðferðin, sem er notuð fyrir fylkið eða flokkunareiningu lífveru, uppfyllir lágmarksviðmiðanir um nothæfi þ.e. sem grundvallist á mælióvissu, sem er ekki yfir 50% (k = 2), reiknað við gildi viðkomandi umhverfisgæðakrafna, og að magngreiningarmörkin séu ekki yfir 30% af gildinu fyrir viðkomandi umhverfisgæðakröfur. Þegar þessar viðmiðanir eru ekki uppfylltar fyrir neitt fylki skal sjá til þess að vöktun sé framkvæmd með bestu, fáanlegri tækni sem ekki felur í sér óhóflegan kostnað og að greiningaraðferðin virki a.m.k. jafn vel og sú sem er í boði fyrir fylkið sem er tilgreint í 2. mgr., að því er varðar viðkomandi efni:

  1. Þegar mælingar eða áætlanir á styrk í umhverfinu eða á losun benda til hugsanlegrar áhættu vegna bráðra váhrifa sem steðjar að vatnsumhverfinu eða kemur fram í gegnum vatnsumhverfið og umhverfisgæðakröfum vegna lífríkis eða sets er beitt, skal Umhverfisstofnun sjá til þess að yfirborðsvatn sé einnig vaktað og skal stuðst við leyfilegan hámarksstyrk umhverfisgæðakröfunnar, hafi hann verið fastsettur.
  2. Ef styrkur eðlisefnafræðilegra eða efnafræðilegra mæliþátta í tilteknu sýni er undir magngreiningarmörkum skal nota hálft gildi viðkomandi magngreiningarmarka sem mæliniðurstöður við útreikning á meðalgildum og tilgreina það sem "undir magngreiningarmörkum". Ákvæðið gildir ekki um mæliþætti sem eru heildarsumma tiltekins hóps eðlisefnafræðilegra þátta eða efnafræðilegra mæliþátta, þ.m.t. þau umbrotsefni og niðurbrotsefni og myndefni sem skipta máli. Í þessum tilvikum skulu niðurstöður, sem eru undir magngreiningarmörkum fyrir einstök efni, fá gildið núll. Ef þess er getið að reiknað meðalgildi mælingar, sem er gerð með bestu, fáanlegu tækni sem ekki felur í sér óhóflegan kostnað, sé "undir magngreiningarmörkum" og magngreiningarmörk þeirrar tækni eru hærri en viðkomandi gildi í umhverfisgæðakröfunni skal ekki nota niðurstöðuna fyrir efnið sem var mælt til að meta efnafræðilegt heildarástand þess vatnshlots.

Efni sem umhverfisgæðakröfu fyrir set og/eða lífríki er beitt fyrir, skal vakta í viðeigandi fylki a.m.k. einu sinni það ár sem vöktun fer fram, nema tækniþekking og sérfræðimat réttlæti aðra tímaviðmiðun.

Við endurskoðun á vatnaáætlun, í samræmi við 19. gr. laga um stjórn vatnamála, skal taka inn eftirfarandi upplýsingar:

a) töflu þar sem fram koma magngreiningarmörk efnagreiningaraðferðarinnar sem beitt var og upplýsingar um frammistöðu þessara aðferða m.t.t. lágmarksviðmiðananna um nothæfi sem mælt er fyrir um í 3. málsl. 3. mgr.,
b) fyrir efnin sem valkosturinn í 3. mgr. er valin fyrir:
  1. ástæðurnar fyrir beitingu þess valkostar og á hvaða grundvelli honum er beitt,
  2. ef við á, aðrar umhverfisgæðakröfur sem er komið á fót, sannanir fyrir því að þessar umhverfisgæðakröfur bjóði upp á a.m.k. sama verndarstig og umhverfisgæðakröfurnar sem mælt er fyrir um í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, þ.m.t. gögnin og aðferðirnar sem beitt er til að leiða út umhverfisgæðakröfuna, og þeir flokkar yfirborðsvatns sem þeim er ætlað að gilda um,
  3. magngreiningarmörk greiningaraðferðanna fyrir fylkin sem eru tilgreind í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, þ.m.t. upplýsingar um gagnsemi þessara aðferða í tengslum við lágmarksviðmiðanirnar um nothæfi sem mælt er fyrir um í 3. málsl. 3. mgr., til samanburðar við upplýsingarnar sem um getur í a-lið,
c) rökstuðning fyrir tíðni vöktunar sem er beitt í samræmi við 4. mgr., ef bil á milli vaktana er lengra en eitt ár.

Vatnaáætlun, sem hefur verið endurskoðuð í samræmi við 19. gr. laga um stjórn vatnamála og hefur að geyma niðurstöður og upplýsingar um áhrif ráðstafananna sem gerðar voru til að koma í veg fyrir efnamengun yfirborðsvatns, skal gerð aðgengileg á vefsetri Umhverfisstofnunar, sbr. 27. gr. laga um stjórn vatnamála.

Umhverfisstofnun skal láta vinna langtímaleitnigreiningu á styrk þeirra forgangsefna, sem tilgreind eru til vöktunar í A-hluta lista III í viðauka við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og sem hafa tilhneigingu til að safnast fyrir í seti og/eða lífríki, með sérstakri áherslu á efni sem skráð eru í ofangreindan lista með númerunum 2, 5, 6, 7, 12, 15, 16, 17, 18, 20, 21, 26, 28, 30, 34, 35, 36, 37, 43 og 44. Leitnigreininguna skal vinna á grundvelli vöktunar á ástandi yfirborðsvatns, í samræmi við 22. gr. laga um stjórn vatnamála. Með hliðsjón af umhverfismarkmiðum laga um stjórn vatnamála skal í aðgerðaáætlun skilgreina ráðstafanir til að koma í veg fyrir marktæka aukningu í styrk þessara efna í seti og/eða viðkomandi lífríki. Tíðni vöktunar skal vera nægileg til að fá fullnægjandi gögn til áreiðanlegrar langtímaleitnigreiningar í seti og/eða lífríki og skal tiltekin í vöktunaráætlun. Til viðmiðunar skal hafa að slík vöktun fari fram á þriggja ára fresti, nema tækniþekking og sérfræðimat réttlæti aðra tímaviðmiðun.

9. gr. Viðmið vegna vistfræðilegrar flokkunar yfirborðsvatnshlota.

Umhverfisstofnun, í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og aðra viðeigandi fagaðila, svo sem sérfræðinga í vatnavistfræði, skal skilgreina samræmda gæðaþætti og mælanleg viðmið til flokkunar á vistfræðilegu ástandi vatna í samræmi við ákvæði í III. viðauka. Í þeim tilfellum sem slík viðmið eru ekki til staðar skal nota vísindalegt mat, byggt á líf-, efna- og eðlisfræðilegum þáttum sbr. 6. gr. eða byggt á öðrum þáttum, svo sem greiningu mynda.

Líffræðilegu viðmiðin skulu sett fram sem vistfræðilegt gæðahlutfall, sbr. 6. gr., þar sem talan einn táknar besta ástand og núll versta ástand, og notuð eru til flokkunar á vistfræðilegu ástandi í vatnshloti.

Upplýsingar um vistfræðilegt ástand vatnshlota skal birta í landfræðilegu upplýsingakerfi og skulu þau merkt í samræmi við litakóða í kafla 1.4.2 í III. viðauka, sbr. 16. og 17. gr.

10. gr. Skipting grunnvatns í grunnvatnshlot.

Umhverfisstofnun skal, í samvinnu við viðeigandi fagaðila, gera lýsingu á grunnvatnshlotum m.a. byggða á fyrirliggjandi vatnafræðilegum, jarðfræðilegum og jarðvegsfræðilegum gögnum, upplýsingum um landnýtingu, rennslisstefnu, losun mengandi efna og vatnstöku. Fjalla skal um staðsetningu og mörk grunnvatnshlota og álag á þau, þ.m.t. punktupptök mengunar, dreifð upptök mengunar, vatnstöku fyrir neysluvatn og jarðhitavatn og endurnýjun grunnvatns af mannavöldum. Þá skal fjalla um almenna eiginleika berggrunns og jarðvegs sem liggur yfir aðrennslissvæðinu sem grunnvatnshlotið endurnýjast frá. Einnig skal flokka grunnvatnshlot þar sem vistkerfi yfirborðsvatns og landvistkerfi eru beint háð þeim að vatnabúskap.

11. gr. Frekari lýsing á grunnvatnshlotum sem talin eru undir álagi.

Þegar talið er að grunnvatnshlot eða hópur grunnvatnshlota séu undir álagi þá skal gera frekari lýsingu á eiginleikum þeirra þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram, eftir því sem við á:

  1. jarðfræðilegir eiginleikar grunnvatnshlotsins, þ.m.t. umfang þess og berggerðir umhverfis það,
  2. vatnajarðfræðilegir eiginleikar grunnvatnshlotsins, þ.m.t. leiðni, grop og umfang,
  3. eiginleikar yfirborðssets og jarðvegs á aðrennslissvæði grunnvatnshlotsins, þ.m.t. þykkt, grop, leiðni og gleypni sets og jarðvegs,
  4. lagskipting grunnvatnsins innan grunnvatnshlotsins,
  5. skrá yfir yfirborðskerfi sem grunnvatnshlotið er í tengingu við, þ.m.t. landvistkerfi og yfirborðsvatnshlot,
  6. mat á stefnu og umfangi vatnsskipta milli grunnvatnshlotsins og tengdra yfirborðskerfa,
  7. gögn sem nægja til að reikna út árlegt meðaltal heildarendurnýjunar grunnvatns til langs tíma,
  8. lýsing á eiginleikum efnasamsetningar grunnvatnsins, þar sem tilgreint er það sem rekja má til starfsemi manna.

12. gr. Manngerð eða mikið breytt vatnshlot.

Umhverfisstofnun skal ákveða hvort vatnshlot sé manngert eða mikið breytt. Vatnshlot flokkast sem manngert eða mikið breytt séu bæði eftirfarandi skilyrði til staðar:

  1. þegar nauðsynlegar breytingar á vatnsformfræðilegum eiginleikum vatnshlots, til þess að gott vistfræðilegt ástand náist, myndu hafa umtalsverð og skaðleg áhrif á:

    1. umhverfið í heild,
    2. siglingar, hafnir eða afþreyingaraðstöðu,
    3. starfsemi sem hefur í för með sér geymslu, flutning og hjáveitu vatns, t.d. neysluvatnsmiðlun, orkuvinnslu eða áveitu,
    4. stjórnun vatnshæðar og rennslis, flóðavarnir, framræslu eða
    5. önnur sjálfbær umsvif jafn mikilvæg og hin framangreindu,
  2. þegar ekki verður bætt úr framangreindum áhrifum vegna þess að það er ekki tæknilega framkvæmanlegt eða vegna þess að kostnaður við að gera það með öðrum og umhverfisvænni aðferðum er talinn úr hófi fram.

Umhverfisstofnun skal, í samráði við fagaðila, ákvarða ástand manngerðra eða mikið breyttra vatnshlota, sbr. ákvæði 1.2.5 í III. viðauka.

Vatnshlot flokkast ekki sem manngert eða mikið breytt ef það nær góðu vistmegin.

13. gr. Vöktun á vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns.

Umhverfisstofnun skal koma upp vöktunarneti fyrir yfirborðsvatn í samræmi við kröfur í 22. gr. laga um stjórn vatnamála. Vöktunin skal gefa heildarsýn yfir vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand innan hvers vatnasviðs og skal vöktunarnet yfirborðsvatnahlota birt í landfræðilegu upplýsingakerfi.

Umhverfisstofnun skal leggja fram vöktunaráætlun á grundvelli lýsingar á eiginleikum og álagsgreiningu yfirborðsvatns í samræmi við II. viðauka, og skal áætlunin ná yfir hvert sex ára tímabil vatnaáætlunar, ásamt aðgerðaáætlun um úrbætur þar sem þeirra er þörf. Ef vísbendingar eru um að vatnshlot uppfylli ekki gæðamarkmið, sbr. 6. mgr. 7. gr., skal setja fram áætlun um rannsóknavöktun.

Vöktun skal vera skilvirk, árangursrík og nægilega nákvæm til þess að hægt sé að meta álag á vatnshlot, langtímabreytingar á náttúrulegu ástandi og langtímabreytingar sem stafa af umfangsmikilli starfsemi, sbr. kafla 1.3 í III. viðauka.

Við val á vöktunarstöðum skal tryggja að hægt sé að meta heildarástand yfirborðsvatns innan hvers vatnasviðs vatnaumdæmisins og skal vöktunin að lágmarki ná til þeirra vatna sem uppfylla eftirfarandi forsendur eftir því sem við á:

  1. þar sem vatnsrennsli er umtalsvert og vatnasvið er stærra en 2.500 km²,
  2. stór stöðuvötn og miðlunarlón þar sem vatnsmagn er umtalsvert innan vatnaumdæmisins,
  3. ferskvatn sem er viðtaki fyrir skólp frá þéttbýli sem jafngildir 2.000 persónueiningum eða meira, sbr. upplýsingar á vefsetri Umhverfisstofnunar,
  4. strandsjór sem er viðtaki fyrir skólp frá þéttbýli sem jafngildir 10.000 persónueiningum eða meira en það, sbr. upplýsingar á vefsetri Umhverfisstofnunar,
  5. ár og vötn í þéttbýli sem eru undir miklu álagi.

Yfirlitsvöktun skal framkvæma í eitt ár á hverjum völdum vöktunarstað fyrir þann tíma sem vatnaáætlunin fyrir vatnaumdæmið gildir og beinist að færibreytum um alla líffræðilega, vatnsformfræðilega og almenna eðlisefnafræðilega gæðaþætti vatnshlotsins og öðrum mengunarvöldum sem losaðir eru í umtalsverðu magni út í viðkomandi vatnasvið.

Aðgerðavöktun skal framkvæmd til þess að staðfesta ástand vatnshlota sem eru undir álagi og meta árangur aðgerðar sem gripið hefur verið til í samræmi við kröfur um úrbætur í aðgerðaáætlunum. Draga má úr tíðni vöktunar hafi úrbætur verið árangursríkar eða ef viðkomandi álagi hefur verið aflétt.

Rannsóknavöktun skal framkvæma ef ástæða þess að farið er yfir viðmiðunarmörk er óþekkt, ólíklegt er að umhverfismarkmið fyrir vatnshlot náist og aðgerðavöktun hefur ekki verið komið á eða til að ganga úr skugga um umfang og áhrif mengunaróhappa.

Vöktun á vernduðum svæðum skal framkvæma á stöðum þar sem taka neysluvatns úr yfirborðsvatnshloti fer fram, samkvæmt ákvæðum reglugerðar um neysluvatn, og skal beinast að forgangsefnum og öðrum efnum sem losuð eru í eða við vatnshlotið og kunna að hafa áhrif á það.

Vöktunaráætlanir yfirborðsvatns eru að öðru leyti í samræmi við kafla 1.3 í III. viðauka og V. viðauka.

Öll vöktun forgangsefna í yfirborðsvatni, í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns, skal vera í samræmi við staðal IST EN ISO/IEC - 17025 eða aðra þá staðla sem tilgreindir eru í III. viðauka, 1.3.6.

14. gr. Vöktunaráætlun fyrir grunnvatn.

Umhverfisstofnun skal, að höfðu samráði við viðeigandi fagaðila, koma á vöktunarneti fyrir grunnvatnsborð til að meta magnstöðu grunnvatns. Koma skal upp vöktunarneti til að gefa heildaryfirsýn yfir efnafræðilegt ástand hvers grunnvatnssviðs, sem geri kleift að greina hvort leitni í styrk mengunarvalda sé stígandi yfir lengri tíma, t.d. áratugi. Nota skal færibreytur eins og rafleiðni, sýrustig og styrk mengunarvalda til að ákvarða efnafræðilegt ástand grunnvatns.

Yfirlitsvöktun grunnvatns skal afla upplýsinga um ástand grunnvatns og meta leitni til langs tíma vegna náttúrulegra breytinga og fyrir tilstuðlan mannsins. Við val á vöktunarstöðum skal taka mið af því hvort grunnvatnshlot sé undir álagi. Ef grunnvatnshlot er ekki undir álagi er ekki gerð krafa um að það sé vaktað.

Aðgerðavöktun grunnvatns skal fara fram árlega og skal ákvarða efnafræðilegt ástand allra grunnvatnshlota eða hópa sem talin eru undir álagi og ákvarða hvort leitni í styrk mengunarvalda af mannavöldum sé stígandi á löngum tíma. Öll vöktun forgangsefna í grunnvatni, í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns, skal vera í samræmi við staðal IST EN ISO/IEC - 17025 eða aðra þá staðla sem tilgreindir eru í III. viðauka, 1.3.6.

Um vöktun grunnvatns fer að öðru leyti samkvæmt kafla 2.2 í III. viðauka og V. viðauka.

14. gr. a Sértæk ákvæði sem varða tiltekin efni.

Í vatnaáætlun er heimilt að sýna á sérstöku viðbótarkorti upplýsingar um efnafræðilegt ástand fyrir eitt eða fleiri eftirtalinna efna af A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, aðskilið frá upplýsingum um hin efnin á listanum:

a) efni með númerin 5, 21, 28, 30, 35, 37, 43 og 44 (efni sem haga sér eins og aldreifð PBT-efni),
b) efni með númer á bilinu 34 til 45 (nýlega tilgreind efni),
c) efni með númerin 2, 5, 15, 20, 22, 23 og 28 (efni sem settar hafa verið endurskoðaðar, strangari umhverfisgæðakröfur fyrir).

Í vatnaáætlun má einnig leggja fram upplýsingar um umfang frávika, ef einhver eru, frá gildinu í umhverfisgæðakröfunum fyrir efnin í stafliðum a - c.

Beita má veigaminni vöktun fyrir forgangsefni en krafist er í samræmi við 4. mgr. 8. gr. d og III. viðauka þegar í hlut eiga efnin sem bera númerin 5, 21, 28, 30, 35, 37, 43 og 44 í A-hluta lista III í viðauka við reglugerð um varnir gegn mengun vatns, að því tilskildu að vöktunin sé dæmigerð og að tölfræðilega sterk grunnlína sé fyrir hendi að því er varðar tilvist þessara efna í vatnsumhverfinu. Til viðmiðunar skal slík vöktun fara fram á þriggja ára fresti, í samræmi við 7. mgr. 8. gr. d, nema tækniþekking og sérfræðimat réttlæti aðra tímaviðmiðun.

15. gr. Skrá yfir vernduð og viðkvæm svæði.

Umhverfisstofnun skal halda skrá yfir vernduð svæði, sbr. IV. viðauka, viðkvæma viðtaka samkvæmt reglugerðum um varnir gegn mengun vatns, um varnir gegn mengun grunnvatns og um fráveitur og skólp, og viðkvæm vatnasvæði samkvæmt reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og annarri starfsemi. Í skránni skulu tilgreind vatnsverndarsvæði og svæði sem njóta heildstæðrar verndar samkvæmt sérlögum eða sem eru friðlýst vegna sérstöðu vatns.

Skráin skal uppfærð reglulega og vera aðgengileg almenningi á vefsetri Umhverfisstofnunar.

16. gr. Flokkun og framsetning vistfræðilegs ástands og vistmegin.

Flokkun vatnshlota eftir vistfræðilegu ástandi skal sett fram á eftirfarandi hátt, í samræmi við umhverfismörk í reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns og niðurstöðu flokkunar í samræmi við ákvæði 5. til 11. gr., sbr. kafla 1.4 í III. viðauka. Við flokkun vistfræðilegs ástands skal miðað við lægsta gildi samkvæmt niðurstöðum vöktunar, sbr. 13. gr. og í samræmi við töflu 1 hér á eftir.

Flokkun vatnshlota eftir vistfræðilegu ástandi þeirra skal birt í landfræðilegu upplýsingakerfi, þar sem fram kemur ástand þess merkt með litakóða, í samræmi við töflu 1 og kafla 1.4.2 í III. viðauka.

Tafla 1.

Litamerking Ástand Aðgerðir
Blátt Mjög gott Náttúrulegt
Grænt Gott ástand Gott vistfræðilegt ástand
Gult Ekki viðunandi Aðgerða þörf
Appelsínugult Slakt Aðgerða þörf
Rautt Lélegt Aðgerða þörf

Við flokkun á manngerðum og mikið breyttum vatnshlotum eftir vistmegin skal nota lægsta gildi úr niðurstöðum vöktunar, sbr. 13. gr. og í samræmi við töflu 2 hér á eftir. Flokkun hvers vatnshlots eftir vistmegni þess skal sett fram í landfræðilegu upplýsingakerfi, merkt með litakóða, að því er varðar manngerð vatnshlot, í samræmi við töflu 2, og að því er varðar mikið breytt vatnshlot, í samræmi við sömu töflu, sbr. kafla 1.4.2 í III. viðauka.

Tafla 2.

litakóðatafla

Sýna skal, með svörtum díl á kortinu, þau vatnshlot þar sem ekki hefur náðst gott ástand eða gott vistmegin vegna þess að þau uppfylla ekki eina eða fleiri kröfur um umhverfismörk sem sett hafa verið fyrir vatnshlotið að því er varðar sérstaka mengunarvalda.

17. gr. Framsetning á efnafræðilegu ástandi grunnvatns.

Ef efnafræðilegt ástand vatnshlots er í samræmi við umhverfismörk, sem sett eru í samræmi við 11. gr. laga um stjórn vatnamála og reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns, uppfyllir það kröfur um gott efnafræðilegt ástand. Ef svo er ekki skal skrá að vatnshlotið fullnægi ekki kröfum um gott efnafræðilegt ástand. Efnafræðilegt ástand hvers vatnshlots skal sett fram í landfræðilegu upplýsingakerfi, merkt með litakóða í samræmi við töfluna hér á eftir.

Efnafræðilegt ástand grunnvatns Litakóði
Gott
Nær ekki góðu efnafræðilegu ástandi

18. gr. Framsetning á magnstöðu grunnvatns.

Niðurstöður vöktunar grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota skulu notaðar til að meta magnstöðu grunnvatnshlota. Magnstaða grunnvatns skal sett fram í landfræðilegu upplýsingakerfi og merkt með eftirfarandi litakóða:

Góð magnstaða grunnvatns
Slök magnstaða grunnvatns

19. gr. Kort.

Kort samkvæmt 16., 17. og 18. gr. skulu vera aðgengileg almenningi á vefsetri Umhverfisstofnunar og uppfylla skilyrði laga nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar.

Upplýsingar um vatnshlot skulu sett fram og birt í landfræðilegu upplýsingakerfi þar sem fram kemur aðgreining þeirra samkvæmt kerfi B í samræmi við lið 1.1 í II. viðauka fyrir ár, stöðuvötn, árósa og strandsjó, ásamt upplýsingum um manngerð og mikið breytt vatnshlot. Kerfi B gerir ráð fyrir sömu aðgreiningu eftir vistsvæðum og gerðum yfirborðsvatnshlota og næst við notkun kerfis A, samanber lið iv í kafla 1.1 í II. viðauka.

19. gr. a Vöktun skv. vaktlista.

Vöktun efna á vaktlista fer fram til að safna gögnum á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er ætlað að styðja ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við ákvarðanatöku um þau efni sem skulu vera á skrá yfir forgangsefni, sbr. A-hluta lista III í viðauka með reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og til að bæta við önnur gögn sem m.a. fást með greiningum og úttektum í tengslum við álagsgreiningu og hættumat skv. 7. gr. og með vöktun skv. 13. gr.

Efni á vaktlista skal vakta á völdum, dæmigerðum vöktunarstöðum í a.m.k. 12 mánuði.

Við ákvörðun á fjölda vöktunarstaða skal velja a.m.k. eina vöktunarstöð að viðbættri einni stöð ef íbúafjöldi þess ríkis er meiri en ein milljón, að viðbættum fjölda stöðva sem samsvarar landfræðilegri stærð landsins í km² deilt með 60.000 (námundað að næstu heilu tölu), auk sama fjölda stöðva og íbúatala Íslands deilt með fimm milljónum (námundað að næstu heilu tölu).

Við val á dæmigerðum vöktunarstöðvum, tíðni vöktunar og tímasetningum fyrir hvert efni skal taka tillit til notkunarmynstra og hugsanlegrar tilvistar efnisins. Vöktun hvers efnis skal taka til 12 mánaða og skal ekki fara fram sjaldnar en einu sinni á ári.

Tímabil vöktunar efna samkvæmt fyrsta vaktlistanum skal hefjast 14. september 2015 eða innan sex mánaða frá stofnun vaktlistans en vöktun hvers efnis samkvæmt síðari listum innan sex mánaða frá því viðkomandi efni var tekið á listann.

Ef lögð eru fram fullnægjandi, sambærileg, dæmigerð og nýleg vöktunargögn um tiltekið efni úr fyrirliggjandi vöktunaráætlun eða rannsóknum er ekki nauðsynlegt að framkvæma viðbótarvöktun fyrir það efni samkvæmt fyrirkomulagi vöktunarskrárinnar, að því tilskildu að efnið hafi einnig verið vaktað með aðferðafræði sem uppfyllir kröfur í tæknilegum viðmiðunarreglum framkvæmdastjórnarinnar.

19. gr. b Skaðleg og þrávirk efni (forgangsefni).

Draga skal í áföngum úr mengun vegna skaðlegra og þrávirkra efna (forgangsefna) í vatni með markvissum aðgerðum með það að markmiði að stöðva losun þeirra.

Raða skal efnunum í forgangsröð og leggja fram tímasetta áætlun um takmörkun á losun þeirra og bann við slíkri losun eftir því hve mikla hættu þau skapa fyrir vatn og landumhverfi þess. Röðunin skal greind með aðferð byggðri á áhættumati.

Skrá yfir forgangsefni er að finna í viðauka VI.

20. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í a., c., d. og f. liðum 29. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi tilskipunum:

  1. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnamálum, sem vísað er til í X. kafla í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 125/2007, frá 28. september 2007,
  2. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB frá 12. desember 2006 um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu, sem vísað er til í II. kafla í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 87/2009, frá 3. júní 2009,
  3. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/105/EB frá 16. desember 2008 um umhverfisgæðastaðla á sviði vatnastjórnunar, sem breytir og fellir úr gildi tilskipanir ráðsins 82/176/EBE, 83/513/EBE, 84/156/EBE, 84/491/EBE, 86/280/EBE og breytir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB,
  4. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/90/EB frá 31. júlí 2009 um tæknilegar skilgreiningar á efnagreiningum og vöktun á vatni, með tilvísun til tilskipunar ráðsins 2000/60/EB.
  5. ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2008/915/EB frá 30. október 2008 um að ákvarða gildi fyrir flokkun í vöktunarkerfi aðildarríkjanna á grundvelli niðurstaðna úr millikvörðun samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Mat á álagi út frá aðgengilegum gögnum í þrjá hópa eftir því hvort þau standist umhverfismarkmið, sbr. 6. mgr. 7. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en 1. janúar 2015.

Þar til viðmið hafa verið sett samkvæmt 7. gr. skal nota viðmið í gildandi reglugerðum um vatn.

II.

Umhverfisstofnun skal eigi síðar en 1. janúar 2015 setja fram ný viðmið fyrir þungmálma og forgangsefni vegna ástands vatnshlota, sbr. 8. gr.

III.

Umhverfisstofnun skal eigi síðar en 1. janúar 2015 leggja fram og kynna tillögu að vistfræðilegri flokkun yfirborðsvatnshlota samkvæmt 9. gr.

IV.

Umhverfisstofnun skal eigi síðar en 31. desember 2014 leggja fram fyrstu vöktunaráætlun, sbr. 13. gr.

V.

Umhverfisstofnun skal eigi síðar en 22. desember 2013 leggja fram fyrstu skrá yfir vernduð og viðkvæm svæði, samkvæmt 15. gr. og vatnshlot sem njóta verndar samkvæmt IV. viðauka.

VI.

Umhverfisstofnun skal sjá til þess að eigi síðar en fyrir árslok 2013 verði birt kort samkvæmt 19. gr.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.