Prentað þann 22. des. 2024
524/2008
Reglugerð um afmörkun siglingaleiða, svæði sem ber að forðast og tilkynningaskyldu skipa fyrir Suðvesturlandi.
1. gr. Markmið.
Reglugerð þessi og viðaukar hennar miða að því að auka öryggi við siglingar og vernda efnahagslega og líffræðilega mikilvægar slóðir á því hafsvæði sem ákvæði hennar ná til með því að beina skipaumferð á afmarkaðar öruggar siglingaleiðir og takmarka umferð skipa yfir þeim stærðarmörkum sem tiltekin eru í reglugerðinni og skipa sem flytja hættulegan og mengandi farm um viðkvæmt hafsvæði.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi og viðaukar hennar ná til allra skipa sem falla undir ákvæði alþjóðasamnings um öryggi mannslífa á hafinu, SOLAS, frá 1. nóvember 1974 með síðari breytingum, þ.e. allra farþega- og flutningaskipa stærri en 500 brúttótonn í millilandasiglingum. Undanskilin eru herskip, hjálparskip herflota, eða önnur skip í eigu eða útgerð ríkisstjórnar samningsaðila sem eru eingöngu starfrækt í þjónustu hins opinbera og ekki í atvinnuskyni, sbr. reglu 1.1 í V. kafla alþjóðasamningsins um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS).
Ákvæði um aðskildar siglingaleiðir gilda um öll skip.
Tilkynningaskyldukerfið (TRANSREP) tekur ekki til fiskiskipa með veiðiheimild í efnahagslögsögu Íslands og rannsóknarskipa.
3. gr. Skilgreiningar.
Í þessari reglugerð er merking orðanna hættuleg efni og eiturefni með eftirfarandi hætti:1
-
Öll efni, hráefni og vörur sem eru flutt með skipi sem farmur og um getur í 1. til 7. tölulið:
- olía sem fellur undir I. viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 með breytingum frá 1978 og áorðnum breytingum (MARPOL 73/78)
- fljótandi eiturefni sem falla undir II. viðauka MARPOL 73/78
- hættuleg fljótandi efni sem falla undir ákvæði 17. kafla alþjóðakóða frá 1983 um smíði og búnað skipa sem flytja hættuleg efni í búlka, með áorðnum breytingum (IBC CODE)
- varasöm, hættuleg og skaðleg efni, hráefni og vörur sem falla undir alþjóðakóða um siglingu með hættulegan farm, með áorðnum breytingum (IMDG CODE)
- lofttegundir í fljótandi formi sem taldar eru upp í alþjóðakóða frá 1983 um smíði og búnað skipa sem flytja fljótandi lofttegundir, með áorðnum breytingum (IGC CODE)
- fljótandi efni sem hafa kveikjumark undir 60°C
- föst efni sem hafa í för með sér hættu af efnafræðilegum toga og falla undir kóða um örugga meðhöndlun búlkafarma í föstu formi að því marki sem þessi efni falla einnig undir ákvæði IMDG-kóðans þegar þau eru flutt í pökkuðu formi.
- Leifar efna í búlka sem vísað er til í 1. til 3. og 5. til 7. tölul. í a-lið.
Flutningur í búlka er flutningur á efni í lausu formi í farmgeymum skipa. Búlki nær ekki yfir vörur í pökkuðu formi, þar með taldir lausir geymar og gámar í farmi skipa, né heldur yfir leifar af farmi sem áður var fluttur í skipi.
________
1 Stuðst er við skilgreiningu í alþjóðasamningi um bótaskyldu og skaðabætur í tengslum við flutning hættulegra efna og eiturefna sjóleiðis frá 1996 (International Convention on Liability and Compensation for Damage in Connection with the Carriage of Hazardous and Noxious Substances by Sea, 1996 - HNS Convention).
4. gr. Leiðastjórnunarráðstafanir.
Afmörkuð eru þrjú hafsvæði sem ber að forðast (areas to be avoided): Selvogsbankasvæðið, Fuglaskerjasvæðið og Syðra-Hraunssvæðið, sbr. mörk svæða í I. viðauka.
Einungis skal siglt fyrir Reykjanes að og frá höfnum við Faxaflóa um eftirfarandi afmarkaðar siglingaleiðir:
- Innri siglingaleið til og frá Faxaflóa liggur milli Selvogsbankasvæðis og Fuglavskerjasvæðis. Leiðin er tvístefnuleið (two way route). Norður af Garðskaga eru aðskildar siglingaleiðir (traffic separation scheme). Stjórnendum allra skipa, án tillits til stærðar þeirra eða notkunar, er skylt að haga siglingu í samræmi við fyrirmæli 10. reglu alþjóðasiglingareglna þar sem aðskildar siglingaleiðir eru í gildi. Siglingaleiðin er 3 sjómílur á breidd. Skip í siglingaleiðinni skulu ætíð hafa leiðarmiðjuna á bakborða.
- Ytri siglingaleið til og frá Faxaflóa liggur sunnan og vestan Fuglaskerjasvæðis yfir Reykjaneshrygg og til norðurs/suðurs. Aðskildar siglingaleiðir eru í suðurenda tvístefnuleiðarinnar. Skip í siglingaleiðinni skulu ætíð hafa leiðarmiðjuna á bakborða.
Forðast skal að sigla skipum sem falla undir reglur þessar inn á afmörkuð svæði samkvæmt 1. mgr. Það tekur þó ekki til skipa sem taka höfn á Selvogsbankasvæði og skipa allt að 5.000 brúttótonnum sem eru í siglingum milli íslenskra hafna og flytja hvorki hættuleg efni né eiturefni í búlka eða í farmtönkum. Slíkum skipum er heimil sigling um Selvogsbankasvæðið fyrir sunnan 63°45´N.
5. gr. Siglingar um ytri leið.
Öllum skipum stærri en 5.000 brúttótonn og öllum skipum sem flytja hættuleg efni og eiturefni í búlka eða í farmtönkum skal siglt um ytri leið skv. 4. gr. nema heimilt sé að sigla þeim um innri leið samkvæmt 6. gr.
6. gr. Siglingar um innri leið.
Heimilt er að sigla tankskipum allt að 5.000 brúttótonnum að stærð sem flytja gasfarm eða jarðolíu með hámarksseigju2 (kinematic viscosity) 11,0 cSt við 40°C um innri leið skv. a-lið 2. mgr. 4. gr. Skipstjóri skal uppfylla skilyrði sem sett eru í b-lið 2. mgr. þessarar greinar og eru skilyrði um gildi siglingaheimildar hin sömu og þar eru tiltekin.
Heimilt er að sigla skipum frá 5.000 til og með 20.000 brúttótonnum um innri leið að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
- skipið flytji ekki hættuleg efni eða eiturefni í búlka eða í farmtönkum og
- skipstjóri skal hafa sótt námskeið Siglingastofnunar Íslands og fengið siglingaheimild fyrir innri leið. Skilyrði þess að geta sótt slíkt námskeið er að skipstjóri hafi á undangengnum 18 mánuðum siglt sex sinnum áfalla- og athugasemdalaust til hafna við Faxaflóa sem skipstjóri eða yfirstýrimaður. Siglingaheimild skipstjóra fellur úr gildi ef 24 mánuðir líða án þess að skipstjórinn sigli skipi til hafna við Faxaflóa.
________
2 Sbr. ISO 8217:2005.
7. gr. Tilkynningar.
Tilkynna skal vaktstöð siglinga um ferðir skipa sem falla undir reglugerð þessa og sigla inn á Selvogsbankasvæðið og um áætlaða siglingu með minnst fjögurra klukkustunda fyrirvara eða í síðasta lagi þegar látið er úr höfn ef siglt er frá höfnum við Faxaflóa eða höfnum innan Selvogsbankasvæðisins. Undanþegin slíkum tilkynningum eru skip í reglubundnum, daglegum siglingum innan svæðisins.
Vaktstöð siglinga skal tilkynnt um för allra sem hafa undanþágu til siglinga um innri leið skv. 6. gr. með minnst fjögurra klukkustunda fyrirvara eða þegar látið er úr höfn við Faxaflóa eða innan Selvogsbankasvæðisins.
8. gr. Undanþágur.
Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum reglugerðarinnar tímabundið við sérstakar aðstæður, svo sem ef skip þarf að leita neyðarhafnar eða í skipaafdrep, ef skip þarf að leita í var vegna sjóbúnaðar á farmi, ef skip er með biluð siglingatæki eða vegna annarra slíkra atvika.
9. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 13. gr. laga nr. 41/2003 um vaktstöð siglinga, 12. gr. laga um vitamál nr. 132/1999 og lögum nr. 7/1975 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972 með síðari breytingum, tekur gildi 1. júlí 2008 og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli.
Leiðastjórnunarráðstafanir þessar eru í samræmi við fyrirmæli Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í samþykkt hennar A.572 (Ships' Routeing), 10. reglu alþjóðasiglingareglnanna og voru þær samþykktar á 83. fundi siglingaöryggisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (Maritime Safety Committee) í október 2007.
Leiðastjórnunarráðstafanir þessar eru birtar í tilkynningum til sjófarenda (Notices to Mariners).
Samgönguráðuneytinu, 16. maí 2008.
Kristján L. Möller.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.