Prentað þann 23. nóv. 2024
414/2019
Reglugerð um breytingu á reglugerð um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála, nr. 220/2017.
1. gr.
2. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, hafi verið brotin.
2. gr.
3. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Kærunefnd jafnréttismála hefur aðsetur í forsætisráðuneytinu.
Starfsmaður forsætisráðuneytisins undirbýr fundi nefndarinnar, annast skjalastjórnun og sinnir skrifstofuhaldi fyrir nefndina.
3. gr.
2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Öll innkomin erindi og útsend bréf skulu varðveitt í forsætisráðuneytinu í samræmi við lög og reglur sem um það gilda á hverjum tíma.
4. gr.
11. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Jafnréttisstofa getur óskað eftir því við nefndina að mál verði tekið til meðferðar hjá nefndinni, hafi stofan fengið rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 eða lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, sem og fengið upplýsingar sem renni stoðum undir slíkt. Það er hlutverk Jafnréttisstofu að tilkynna hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum skriflega um þá ákvörðun. Jafnréttisstofa telst þá vera kærandi og setur fram kröfugerð þá sem til úrlausnar verður um viðkomandi álitaefni í umræddu máli.
5. gr.
12. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Erindi skal berast kærunefnd skriflega innan sex mánaða frá því að ætlað brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 eða lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018 lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Nefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir.
Erindi telst nægjanlega snemma fram komið ef bréf sem hefur það að geyma hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn.
6. gr.
15. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Kæra skal vera skrifleg og skal þar greint nafn, heimilisfang og kennitala þess er kærir. Í kæru skal lýst meintu broti á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 eða lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Kæru skal fylgja rökstuðningur og þau sönnunargögn um málsatvik sem tiltæk eru.
Nefndin útbýr sérstakt eyðublað sem unnt er að skila kæru á. Ekki er skylt að nota eyðublaðið.
Málsmeðferð fyrir nefndinni skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund. Ef ástæða þykir til getur nefndin heimilað málsaðilum að gera munnlega grein fyrir meginsjónarmiðum á fundi með nefndinni. Heimilt er að hljóðrita fundinn en kynna skal viðstöddum að upptaka fari fram.
7. gr.
4. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Séu lögð fyrir nefndina gögn sem varða laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga, annarra en málsaðila, skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi að þessar upplýsingar hafi verið veittar nefndinni. Nefndin skal fara með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál og takmarka aðgang að gögnunum svo sem kostur er.
8. gr.
21. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Sé fyrirsjáanlegt að málsmeðferð tefjist ber að upplýsa málsaðila um það og tilgreina ástæður þess að mál muni tefjast. Gerð skal grein fyrir ástæðu dráttar á málsmeðferð í úrskurði.
9. gr.
Við 2. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar bætist: sbr. 12. gr.
10. gr.
26. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Nefndin fylgir ekki eftir úrskurðum sínum en Jafnréttisstofa skal að beiðni kæranda fylgja því eftir að úrskurðum nefndarinnar sé framfylgt eftir því sem við getur átt, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, 5. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 og 5. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018.
11. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 5., 6. og 33. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, 18. gr. laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 og 18. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 113/2018, um breytingu á reglugerð um málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála, nr. 220/2017.
Forsætisráðuneytinu, 15. apríl 2019.
Katrín Jakobsdóttir.
Ragnhildur Arnljótsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.