Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

388/2022

Reglugerð um kjörgögn, atkvæðakassa o.fl. við kosningar.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um gerð, afhendingu, móttöku og varðveislu kjörgagna og atkvæðakassa í almennum kosningum til að tryggja samræmda og örugga framkvæmd kosninga.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um kjörgögn og atkvæðakassa í kosningum til Alþingis, sveitarstjórna, í forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum, auk afhendingar kjörgagna fyrir kjörfund og frágang kjörgagna eftir að kjörfundi hefur verið slitið.

3. gr. Orðskýringar.

Atkvæðaílát: Ílát úr haldgóðu efni sem hægt er að loka eða umslag úr haldgóðum pappír af þeirri stærð að í það komist ónotaðir kjörseðlar eftir að kjörfundi hefur verið slitið.

Atkvæðaumslög: Umslög úr haldgóðum pappír fyrir utankjörfundaratkvæði sem vafi er um hvort taka eigi til greina, óvistuð atkvæði, ónýta kjörseðla og önnur umslög sem landskjörstjórn ákveður, af þeirri stærð að atkvæðisbréf og kjörseðlar komist í viðkomandi umslag.

Blindraspjald: Spjald jafnstórt kjörseðli á kjörfundi með upphleyptum valkostum á blindraletri, með glugga framan við hvern valkost og vasa á bakhlið þannig að kjósandi geti í gegnum gluggann sett kross framan við þann lista, frambjóðanda eða svarkost sem hann velur.

Kjörfundargögn: Kjörseðlar við atkvæðagreiðslu á kjörfundi, kjörskrá, atkvæðaílát og atkvæðaumslög.

Óvistuð atkvæði: Utankjörfundaratkvæði sem berst fyrir lok kjörfundar í aðra kjördeild en kjósandi tilheyrir.

Stimplar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar: Stimplar með listabókstöfum framboðslista við kosningar til Alþingis og sveitarstjórna og stimplar með nöfnum forsetaefna við forsetakjör.

Umdæmiskjörstjórn: Kjörstjórn skipuð af yfirkjörstjórn kjördæmis við alþingiskosningar, forsetakjör eða þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka á móti atkvæðakössum og annast talningu atkvæða fyrir afmarkaðan hluta kjördæmisins á öðrum stað en aðsetri yfirkjörstjórnar.

Utankjörfundargögn: Kjörseðill við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag.

Önnur kjörgögn: Kosningaleiðbeiningar, þar með talin kosningalög og reglugerðir í handhægu broti, blindraspjöld, tilkynningar um framboðslista eða forsetaefni og tilkynning um þá sem beðist hafa undan endurkjöri í óbundinni kosningu.

4. gr. Ábyrgð og verkefni landskjörstjórnar.

Landskjörstjórn ber ábyrgð á því að útbúa og afhenda þau kjörgögn sem kveðið er á um í reglugerð þessari að undanskildum þeim kjörgögnum sem yfirkjörstjórn sveitarfélags skal útbúa við kosningar til sveitarstjórnar skv. 20. gr. reglugerðar þessarar.

5. gr. Ábyrgð og verkefni yfirkjörstjórna kjördæma.

Yfirkjörstjórn kjördæmis ber ábyrgð á móttöku, varðveislu og dreifingu kjörfundargagna og annarra kjörgagna til yfirkjörstjórna sveitarfélaga fyrir upphaf kjörfundar.

Ákveði yfirkjörstjórn að í kjördæmi skuli vera umdæmiskjörstjórn, sbr. 3. mgr. 16. gr. kosningalaga, ber hún ábyrgð og fer með verkefni yfirkjörstjórnar samkvæmt reglugerð þessari innan síns umdæmis.

6. gr. Ábyrgð og verkefni yfirkjörstjórna sveitarfélaga.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags ber ábyrgð á varðveislu og afhendingu kjörfundargagna og annarra kjörgagna til hverfiskjörstjórna eða undirkjörstjórna í viðkomandi sveitarfélagi. Yfirkjörstjórn sveitarfélags ber ábyrgð á afhendingu kjörfundargagna til yfirkjörstjórnar kjördæmis eftir slit kjörfundar við kosningar til Alþingis, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags ber ábyrgð á því að útbúin séu kjörfundargögn við sveitarstjórnarkosningar í viðkomandi sveitarfélagi skv. 20. gr. reglugerðar þessarar.

7. gr. Ábyrgð og verkefni hverfis- og undirkjörstjórna sveitarfélaga.

Hverfiskjörstjórn ber ábyrgð á afhendingu kjörfundargagna og annarra kjörgagna til undirkjörstjórna. Hverfiskjörstjórn ber ábyrgð á móttöku kjörgagna frá undirkjörstjórnum eftir slit kjörfundar og afhendingu þeirra til yfirkjörstjórnar.

Undirkjörstjórn ber ábyrgð á móttöku og varðveislu kjörfundargagna, utankjörfundaratkvæða og annarra kjörgagna meðan á kjörfundi stendur og frágangi kjörgagna eftir að kjörfundi hefur verið slitið.

II. KAFLI Utankjörfundargögn.

8. gr. Gerð og afhending utankjörfundargagna.

Landskjörstjórn lætur útbúa utankjörfundargögn sem skulu jafnan vera fyrir hendi hjá kjörstjórum.

Landskjörstjórn ber ábyrgð á því að til staðar sé nægilegt magn utankjörfundargagna til notkunar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á hverjum tíma.

Landskjörstjórn skal láta sýslumönnum í té utankjörfundargögn en sýslumenn skulu annast afgreiðslu þeirra til kjörstjóra og annarra trúnaðarmanna innanlands, sbr. 69. gr. kosningalaga.

Landskjörstjórn skal láta utanríkisráðuneytinu í té utankjörfundargögn sem skal afhenda þau til kjörstjóra erlendis, sbr. 70. gr. kosningalaga.

Landskjörstjórn skal láta sýslumönnum og öðrum kjörstjórum innanlands í té stimpla við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

9. gr. Kjörseðill við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Kjörseðill við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skal vera af stærðinni A5, brotinn í miðju þannig að báðar framhliðar falli saman.

Kjörseðillinn skal vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum a.m.k. 160 g/m² að þyngd í tveimur litum.

Efst fyrir miðju á efri framhlið kjörseðilsins skal standa með skýru letri: KJÖRSEÐILL.

Þar fyrir neðan skal vera rammi í ljósari lit en aðrir hlutar framhliðar kjörseðilsins.

Bakhlið kjörseðils skal vera greinilega auðkennd svo sem með áprentuðu mynstri.

10. gr. Kjörseðilsumslag (innra umslag).

Kjörseðilsumslag (innra umslag) skal vera af stærðinni C6 úr haldgóðum pappír sem skal vera a.m.k. 100 g/m² að þyngd og í þeim gæðum að ekki sé unnt að lesa það sem á kjörseðil er ritað.

Á umslagið skal vera ritað ofarlega með skýru letri: Kjörseðilsumslag.

Á umslaginu skal landskjörstjórn útbúa stuttar og skýrar leiðbeiningar um það hvernig skuli fylla kjörseðil út við kosningar.

Umslagi skal vera unnt að loka með sjálflímandi rönd sem skal vera hulin borða.

11. gr. Fylgibréf.

Fylgibréf skal útbúið á þann veg að á það megi auðveldlega skrifa þær upplýsingar sem kveðið er á um í ákvæðum kosningalaga og reglugerð þessari eða reglum sem ráðherra setur. Fylgibréf skal að minnsta kosti innihalda:

  1. Reiti fyrir fullt nafn kjósanda, kennitölu, lögheimili og sveitarfélag kjósanda.
  2. Yfirlýsingu um að kjósandi hafi án aðstoðar og án þess að nokkur annar hafi séð, ritað eða stimplað atkvæði á kjörseðil, sett atkvæði í umslag og límt umslag aftur.
  3. Reiti fyrir undirritun kjósanda, stað og dagsetningu.
  4. Reit þar sem merkt skal við í hvaða kosningum atkvæði er greitt.
  5. Yfirlýsingu kjörstjóra um að atkvæðagreiðsla hafi átt sér stað án þess að nokkur annar hafi séð.
  6. Reiti þar sem hægt er að merkja við að atkvæðagreiðsla hafi farið fram með aðstoð og tilgreint hvort hún hafi verið veitt af kjörstjóra eða aðstoðarmanni kjósanda.
  7. Yfirlýsingu um að kjósandi hafi gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt.
  8. Reiti fyrir undirritun kjörstjóra, stöðu, dagsetningu og embættisstimpil þar sem kjörstjóri vottar atkvæðagreiðsluna.

Á fylgibréfi skulu vera stuttar og skýrar leiðbeiningar um atkvæðagreiðslu, frágang kjörgagna og vottorð kjörstjóra sem landskjörstjórn ákveður.

Landskjörstjórn getur ákveðið að prentaðar upplýsingar á fylgibréfi séu jafnframt þýddar á ensku eða önnur erlend tungumál.

Kjörstjórum er heimilt að nota skráningarkerfi Þjóðskrár Íslands fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar (utankjörfundarkerfi) til sjálfvirkar útfyllingar fylgibréfs með innslætti kennitölu kjósanda.

12. gr. Sendiumslag (ytra umslag).

Sendiumslag (ytra umslag) skal vera af stærðinni C5, úr haldgóðum pappír a.m.k. 100 g/m² að þyngd. Á framhlið umslagsins skal vera forprentaður texti með áritun til kjörstjórnar í því sveitarfélagi þar sem kjósandi telur sig vera á kjörskrá auk póstnúmers. Á bakhlið umslagsins skal vera reitur fyrir kennitölu. Heimilt er að prenta á bakhlið sendiumslags sérstakt merki sem geymir kennitölu kjósandans (strikamerki). Umslagi skal vera unnt að loka með sjálflímandi rönd sem skal vera hulin borða.

13. gr. Kjörseðlar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Með reglum ráðherra á grundvelli tillögu landskjörstjórnar samkvæmt 66. gr. kosningalaga, má kveða nánar á um útlit og frágang kjörseðla við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við þjóðaratkvæðagreiðslur.

III. KAFLI Kjörfundargögn við kosningar til Alþingis, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslu.

14. gr. Gerð kjörfundargagna.

Landskjörstjórn sér um gerð og prentun kjörfundargagna með nægum fyrirvara og skulu kjörseðlar að jafnaði vera fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag.

Miða skal fjölda prentaðra kjörseðla að lágmarki við áætlaðan fjölda kjósenda á kjörskrá á kjördag að viðbættu 1%.

15. gr. Gerð kjörseðla.

Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, a.m.k. 160 g/m² að þyngd, sem skal brjóta saman í prentsmiðju með þeim hætti að óprentaða hliðin snúi út.

Landskjörstjórn skal skipta um lit á kjörseðlum við hverjar kosningar til Alþingis og við forsetakjör.

16. gr. Kjörseðlar við kosningar til Alþingis.

Kjörseðla við kosningar til Alþingis skal útbúa þannig:

Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina með skýru letri að um sé að ræða kosningar til Alþingis, dagsetningu þeirra og ártal en þar fyrir neðan skal vera þverstrik sem nær yfir allan kjörseðilinn.

Prenta skal framboðslistana með skýru letri hvern við annars hlið, í röð eftir bókstöfum þeirra, og skal ætla hverjum lista að jafnaði um 6 cm breidd en lengd skal miðuð við tölu frambjóðenda á framboðslistum.

Ef fjöldi framboðslista, eða frambjóðenda á hverjum lista, er með þeim hætti að uppsetning og umfang kjörseðils valdi erfiðleikum við atkvæðagreiðslu eða meðhöndlun seðilsins getur landskjörstjórn ákveðið að prenta framboðslista í láréttum röðum. Þess skal gætt að í röðunum sé sem jafnastur fjöldi lista.

Fyrir framan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skal vera ferningur.

Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi … (nafn stjórnmálasamtakanna).

Niður undan bókstafnum skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð. Listarnir skulu aðgreindir með langstrikum og skal að jafnaði 0,5 cm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.

17. gr. Kjörseðlar við forsetakjör.

Kjörseðla við forsetakjör skal útbúa þannig:

Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina með skýru letri að um sé að ræða forsetakjör, dagsetningu þess og ártal en þar fyrir neðan skal vera þverstrik sem nær yfir allan kjörseðilinn.

Prenta skal nöfn forsetaefna með skýru letri í lóðréttri stafrófsröð, inndregin og jöfnuð vinstra megin sem skulu vera aðgreind með þverstrikum yfir allan kjörseðilinn.

Á spássíu vinstra megin fyrir framan nafn hvers forsetaefnis skal vera ferningur.

18. gr. Kjörseðlar við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Um frágang og útlit kjörseðla við þjóðaratkvæðagreiðslu skal kveðið á í reglum sem ráðherra setur.

19. gr. Blindraspjöld.

Landskjörstjórn skal útvega yfirkjörstjórnum sveitarfélaga blindraspjöld þannig að eitt blindraspjald að lágmarki sé tiltækt í hverri kjördeild.

IV. KAFLI Kjörfundargögn við sveitarstjórnarkosningar.

20. gr. Gerð kjörfundargagna.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags sér um gerð og prentun kjörfundargagna að undanskildum þeim gögnum sem landskjörstjórn lætur í té samkvæmt 3. mgr. og skulu kjörseðlar að jafnaði vera fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag.

Miða skal fjölda prentaðra kjörseðla að lágmarki við áætlaðan fjölda kjósenda á kjörskrá á kjördag að viðbættu 1%.

Landskjörstjórn skal útbúa og láta yfirkjörstjórnum sveitarfélaga í té atkvæðaílát og atkvæðaumslög auk annarra kjörgagna með nægum fyrirvara fyrir kjördag.

21. gr. Gerð kjörseðla.

Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, a.m.k. 160 g/m² að þyngd, og þá skal brjóta saman í prentsmiðju með þeim hætti að óprentaða hliðin snúi út.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal skipta um lit á kjörseðlum við hverjar sveitarstjórnarkosningar.

22. gr. Kjörseðlar við listakosningu í sveitarfélagi.

Kjörseðla við listakosningu í sveitarfélagi skal útbúa þannig:

Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina með skýru letri að um sé að ræða kosningar til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal en þar fyrir neðan skal vera þverstrik sem nær yfir allan kjörseðilinn.

Prenta skal framboðslistana með skýru letri hvern við annars hlið, í stafrófsröð eftir bókstöfum þeirra, og skal ætla hverjum lista að jafnaði um 6 cm breidd en lengd skal miðuð við fulla tölu frambjóðenda á framboðslistum.

Ef fjöldi framboðslista, eða fjöldi frambjóðenda á hverjum lista, er með þeim hætti að uppsetning og umfang kjörseðils valdi erfiðleikum við atkvæðagreiðslu eða meðhöndlun seðilsins má yfirkjörstjórn sveitarfélags ákveða að prenta listana í láréttum röðum. Þess skal gætt að í röðunum sé sem jafnastur fjöldi lista.

Fyrir framan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skal vera ferningur.

Niður undan bókstafnum skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð. Listarnir skulu aðgreindir með langstrikum og skal að jafnaði um 0,5 cm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.

Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi … (nafn stjórnmálasamtakanna).

23. gr. Kjörseðlar við óbundnar kosningar í sveitarfélagi.

Ef um óbundnar kosningar er að ræða skal kjörseðill vera tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags getur ákveðið að efst á kjörseðli við óbundna kosningu skuli vera fyrirsögn þar sem tilgreint er að um sveitarstjórnarkosningar sé að ræða í viðkomandi sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal.

24. gr. Blindraspjöld.

Við listakosningu í sveitarfélagi skal yfirkjörstjórn sveitarfélagsins láta útbúa blindraspjöld þannig að lágmarki sé eitt blindraspjald tiltækt í hverri kjördeild í sveitarfélaginu.

V. KAFLI Önnur kjörgögn.

25. gr. Kosningaleiðbeiningar.

Landskjörstjórn skal útbúa kosningaleiðbeiningar fyrir hverjar kosningar sem skulu m.a. hafa að geyma upplýsingar um það hvernig kjósandi skuli gera grein fyrir sér, kosningarrétt, hvernig greiða skuli atkvæði, aðstoð við atkvæðagreiðslu og skyldur og ábyrgð þess sem veitir kjósanda aðstoð. Landskjörstjórn gefur út í handhægu broti helstu lög og reglugerðir sem kosningaframkvæmd varða og afhenda yfirkjörstjórnum kjördæma og sveitarfélaga í nægilegu upplagi fyrir allar kjörstjórnir sem starfa í viðkomandi umdæmi, starfsmenn þeirra og umboðsmenn.

Kosningaleiðbeiningar skulu vera til staðar þar sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram. Ef slík atkvæðagreiðsla fer fram á þeim stöðum sem tilgreindir eru í 1.-2. tölul. 1. mgr. 69. gr. og 70. gr. kosningalaga skulu slíkar kosningaleiðbeiningar að jafnaði festar upp á áberandi stað.

Kosningaleiðbeiningar skulu festar upp á áberandi stað í kjörfundarstofu og á kjörstað.

26. gr. Upplýsingar um framboð eða forsetaefni.

Þegar framboðslistar hafa verið auglýstir samkvæmt 47. gr. kosningalaga, eða þegar landskjörstjórn hefur auglýst hvaða forsetaefni eru í kjöri samkvæmt 3. mgr. 50. gr. kosningalaga, skal landskjörstjórn láta sýslumönnum og utanríkisráðuneyti þegar í té upplýsingar um þá framboðslista eða þau forsetaefni sem eru í kjöri.

Landskjörstjórn skal útbúa og láta yfirkjörstjórnum kjördæma í té upplýsingar um framboðslista við kosningar til Alþingis í hverju kjördæmi eða forsetaefni með nægum fyrirvara fyrir kjördag.

Við sveitarstjórnarkosningar þar sem fram fer listakosning útbýr yfirkjörstjórn lista yfir þá sem eru í framboði í viðkomandi sveitarfélagi.

Upplýsingar um framboðslista eða forsetaefni skulu vera til staðar þar sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram. Ef slík atkvæðagreiðsla fer fram á þeim stöðum sem tilgreindir eru í 1.-2. tölul. 1. mgr. 69. gr. og 70. gr. kosningalaga skulu slíkar kosningaleiðbeiningar að jafnaði festar upp á áberandi stað.

Upplýsingar um framboðslista eða forsetaefni skal hengja upp á áberandi stað á kjörstað.

VI. KAFLI Atkvæðakassar.

27. gr. Gerð atkvæðakassa.

Landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum sveitarfélaga í té atkvæðakassa samkvæmt beiðni.

Atkvæðakassi skal vera úr haldgóðum krossvið, eða sambærilegu efni, með loki á hjörum af hæfilegri stærð og þannig búinn að unnt sé að læsa honum. Lok skal vera úr sama efni, með nægjanlega langri rifu þannig að unnt sé að koma atkvæðaseðli þar ofan í. Rifa skal formuð með þeim hætti að ekki sé unnt að ná seðli upp úr kassanum. Landskjörstjórn ákveður stærð atkvæðakassa.

Tryggja skal að ekki sé unnt að koma pappír á milli loks og kassa á atkvæðakössum. Atkvæðakassar sem teknir eru í notkun eftir gildistöku reglugerðar þessarar skulu hafa innfelldan ramma þannig að ekki sé unnt að koma pappír milli loks og kassa.

28. gr. Ábyrgð yfirkjörstjórnar sveitarfélags.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags ber ábyrgð á því að til staðar sé nægilegur fjöldi atkvæðakassa fyrir kosningar í sveitarfélaginu hverju sinni.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags ber ábyrgð á því að útvega sýslumanni í umdæmi viðkomandi yfirkjörstjórnar, samkvæmt 1. mgr. 76. gr. kosningalaga, nægilegan fjölda atkvæðakassa við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, samkvæmt nánara samkomulagi við viðkomandi kjörstjóra.

29. gr. Varðveisla atkvæðakassa milli kosninga.

Sveitarfélag skal geyma atkvæðakassa milli kosninga með tryggum hætti.

VII. KAFLI Aðföng í kjörklefa.

30. gr.

Í hverjum kjörklefa skal vera borð sem skrifa má við. Á borðinu skulu vera skriffæri sem kjörstjórn lætur í té.

VIII. KAFLI Afhending kjörfundargagna og annarra kjörgagna fyrir upphaf kjörfundar og frágangur kjörgagna að loknum kjörfundi.

31. gr. Alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Landskjörstjórn skal með öruggum hætti senda yfirkjörstjórnum kjördæma kjörfundargögn og önnur kjörgögn með nægum fyrirvara fyrir kjördag.

Við það skal að jafnaði miða að yfirkjörstjórn kjördæmis séu að lágmarki afhentir kjörseðlar miðað við áætlaðan fjölda kjósenda á kjörskrá á kjördag að viðbættu 1%. Yfirkjörstjórn kjördæmis skal með öruggum hætti senda yfirkjörstjórnum sveitarfélags umdæmisins kjörfundargögn og önnur kjörgögn með nægum fyrirvara fyrir kjördag samkvæmt því sem yfirkjörstjórn umdæmisins ákveður.

Við það skal að jafnaði miða að yfirkjörstjórn sveitarfélags séu að lágmarki afhentir kjörseðlar miðað við áætlaðan fjölda kjósenda á kjörskrá á kjördag að viðbættu 1%.

32. gr. Afhending yfirkjörstjórna sveitarfélaga.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags skal afhenda hverri undirkjörstjórn með öruggum hætti kjörfundargögn og önnur kjörgögn. Yfirkjörstjórn ákveður og ber ábyrgð á því að hverri undirkjörstjórn sé sendur nægilegur fjöldi kjörseðla fyrir atkvæðagreiðslu í viðkomandi kjördeild.

Hafi hverfiskjörstjórnir verið kjörnar er yfirkjörstjórn sveitarfélags heimilt að afhenda í einu lagi kjörfundargögn, önnur kjörgögn og blindraspjöld fyrir viðkomandi kjördeild og skulu þá hverfiskjörstjórnir annast afgreiðslu og afhendingu til undirkjörstjórna á viðkomandi kjörstað.

33. gr. Varðveisla kjörseðla.

Ónotaðir kjörseðlar skulu sendir í vönduðum umbúðum sem skulu innsiglaðar af þeirri kjörstjórn sem sendir þá.

Séu ónotaðir kjörseðlar afhentir í órofinni vörslu þ.e. afhentir af fulltrúa einnar kjörstjórnar í hendur fulltrúa annarrar kjörstjórnar, er heimilt að afhenda kjörseðla í órofnum umbúðum frá prentsmiðjum eða innsigluðum umbúðum.

Yfirkjörstjórnir kjördæma og yfirkjörstjórnir sveitarfélaga skulu varðveita ónotaða seðla, sem þær móttaka og ekki hafa verið afhentir kjörstjórnum, með tryggilegum hætti, svo sem í innsigluðu íláti eða fyrir luktum dyrum sem jafnframt skulu innsiglaðar.

Yfirkjörstjórn skal gera grein fyrir ónotuðum kjörseðlum sem ekki eru afhentir til undirkjörstjórna í uppgjöri við talningu atkvæða.

34. gr. Frágangur kjörgagna að loknum kjörfundi.

Þegar kjörfundi hefur verið slitið skal hver undirkjörstjórn ganga frá kjörgögnum til afhendingar yfirkjörstjórnar sem annast talningu atkvæða.

Þegar öll kjörseðilsumslög, sem enginn ágreiningur er um að séu gild, hafa verið sett óopnuð í atkvæðakassann samkvæmt 96. gr. kosningalaga, skal rauf kassans innsigluð. Umboðsmönnum framboða er heimilt að setja eigin innsigli á atkvæðakassa og atkvæðarauf.

Undirkjörstjórn skal ganga frá kjörseðlum þeim sem hafa ónýst í þar til gert atkvæðaumslag, sem skal innsiglað, og í annað umslag þeim utankjörfundaratkvæðum sem ágreiningur er um hvort taka skuli til greina sem skal einnig innsiglað.

Hafi undirkjörstjórn borist óvistuð atkvæði fyrir lok atkvæðagreiðslu skulu þau sett í þar til gert atkvæðaumslag sem skal innsiglað.

Undirkjörstjórn skal setja ónotaða kjörseðla í þar til gert atkvæðaílát sem skal innsiglað.

Að því loknu skal gerðabók undirkjörstjórnar undirrituð.

Undirkjörstjórn skal að því loknu ganga frá atkvæðaumslögum, gerðabók, auk allra eintaka af kjörskrá, ef kjörskrá er ekki rafræn, með tryggum hætti svo sem í einu umslagi sem skal lokað eða samkvæmt nánari fyrirmælum sem yfirkjörstjórn setur um frágang kjörgagna.

Þá skal undirkjörstjórn, eða hverfiskjörstjórn, ganga frá skýrslum eða öðrum upplýsingum samkvæmt fyrirmælum yfirkjörstjórnar sem þarf vegna talningar atkvæða.

35. gr. Afhending kjörgagna að loknum kjörfundi.

Undirkjörstjórn skal afhenda kjörgögn samkvæmt 34. gr. með þeim hætti sem hverfiskjörstjórn, sé hún til staðar, eða yfirkjörstjórn sveitarfélags ákveður.

Hverfiskjörstjórn ber ábyrgð á að afhenda kjörgögn til yfirkjörstjórnar sveitarfélags.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags ber samkvæmt 34. gr. ábyrgð á, við aðrar kosningar en sveitarstjórnarkosningar, að afhenda kjörgögn úr öllum kjördeildum sveitarfélags, auk ónotaðra seðla í vörslum yfirkjörstjórnar (ef við á), til yfirkjörstjórnar kjördæmis við talningu.

36. gr. Varsla kjörfundargagna.

Kjörfundargögn skulu aldrei vera í vörslum færri en tveggja kjörstjórnarfulltrúa eða annarra tveggja einstaklinga sem kjörstjórn ákveður eða hafa að öðru leyti aðkomu að meðhöndlun kjörgagna starfs síns vegna.

IX. KAFLI Lokaákvæði.

37. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 3. mgr. 62. gr., 65. gr., 3. mgr. 81. gr. og 2. mgr. 97. gr. kosningalaga nr. 112/2021, að fengnum tillögum landskjörstjórnar, og tekur þegar gildi.

Dómsmálaráðuneytinu, 31. mars 2022.

F. h. r.

Haukur Guðmundsson.

Hjördís Stefánsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.