Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Breytingareglugerð

376/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum, nr. 1037/2018.

1. gr.

Við 9. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Sveitarfélag skal tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu um samninga sem það gerir við einkaaðila um þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 38/2018 og fjallað er um í ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr.

Á eftir 9. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein, 9. gr. a, svohljóðandi:

Rekstrarleyfisskylda.

Einkaaðilum, sem hyggjast veita þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og reglugerðar þessarar er skylt að afla rekstrarleyfis Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála áður en byrjað er að veita þjónustuna.

Um málsmeðferð leyfisveitinga fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

3. gr.

10. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Eftirlit.

Sveitarfélög sem veita þjónustu á grundvelli reglugerðar þessarar skulu hafa virkt innra eftirlit með starfsemi skammtímadvalarstaða á sínum vegum, svo sem í formi úttekta á gæðum sem byggjast á kröfulýsingum, þar sem aðstæður eru skoðaðar, og með viðræðum við aðila sem tengjast úrræðinu, svo sem barn, forsjáraðila, aðra nákomna eftir því sem við á, starfsfólk og forstöðumann.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefur eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli reglugerðar þessarar, sbr. lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 17. gr. og 5. tölul. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 30. mars 2023.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.