Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Breytingareglugerð

283/2016

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi.

1. gr.

3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Matvælastofnun skal, áður en rekstrarleyfi í sjókvíaeldi er gefið út, krefja umsækjanda um sönnun þess að hann hafi keypt tryggingu að fjárhæð kr. 3.000 fyrir hvert tonn sem umsækjanda er heimilað að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi. Falli tryggingin niður eða henni sagt upp fellur rekstrarleyfið úr gildi nema rekstrarleyfishafi leggi fram aðra fullnægjandi tryggingu að mati Matvælastofnunar. Framlögð trygging skal gilda áfram í tvö ár eftir að gildistíma tryggingar eða rekstrarleyfis lýkur. Trygging þessi skal nýtast til greiðslu þess kostnaðar sem kann að falla til við það að fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur rekstri, viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu. Matvælastofnun skal eiga rétt til bóta úr tryggingunni vegna kostnaðar sem stofnunin hefur stofnað til með heimild skv. lögum nr. 71/2008 og reglugerðum settum á grundvelli laganna.

2. gr.

Við reglugerðina bætist nýtt bráðabirgðaákvæði IX svohljóðandi:

Rekstrarleyfishafar í sjókvíaeldi sem ekki voru í rekstri fyrir 11. desember 2015 fá frest fram til 1. febrúar 2017 til að skila inn stöðvarskírteini samkvæmt 15. gr. Matvælastofnun er heimilt með þeim fyrirvara sem kveðið er á um í þessu ákvæði að staðfesta gildi rekstrarleyfis án þess að fyrir liggi stöðvarskírteini og rekstrarleyfishöfum er heimilt að hefja starfsemi á grundvelli útgefins rekstrarleyfis án þess að fyrir liggi stöðvarskírteini. Hafi rekstrarleyfishafi í sjókvíaeldi sem ekki var í rekstri fyrir 11. desember 2015 ekki skilað inn stöðvarskírteini samkvæmt 15. gr. fyrir 1. febrúar 2017 fellur leyfi hans úr gildi.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 6. apríl 2016.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Jóhann Guðmundsson.

Ásta Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.