Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2015
Sýnir breytingar gerðar 1. jan. 2015 af rg.nr. 1152/2014

203/2003

Reglugerð um dreifingu ösku utan kirkjugarðs.

Almennt ákvæði.

1. gr.

Sækja má um leyfi til dreifingar á ösku látins manns utan kirkjugarðs til sýslumannsins á SiglufirðiNorðurlandi eystra.

Umsóknir.

2. gr.

Umsókn um leyfi til að dreifa ösku skal vera skrifleg á þar til gerðu eyðublaði sem sýslumaður leggur til. Í umsókninni skal koma fram:

1. Fullt nafn, kennitala og lögheimili þess sem sækir um leyfi til að dreifa ösku.
2. Fullt nafn, kennitala og dánardagur hins látna.
3. Heiti og/eða lýsing á þeim stað sem dreifa á öskunni á.
4. Skrifleg beiðni eða samþykki hins látna, ef fyrir liggur.
5. Ef ekki liggur fyrir skrifleg beiðni skv. lið 4, er nægilegt að lögð sé fram skrifleg staðfesting nánustu aðstandenda um að það hafi verið vilji hins látna að ösku hans yrði dreift.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu.

3. gr.

Þess er krafist að fyrir liggi skrifleg beiðni eða samþykki hins látna fyrir dreifingu öskunnar eða a.m.k. skrifleg staðfesting aðstandenda um að það hafi verið vilji hins látna að ösku hans yrði dreift.

4. gr.

Aðeins er heimilt að dreifa ösku látinna manna yfir haf og óbyggðir. Með þessu er verið að koma í veg fyrir að ösku látinna manna sé dreift yfir byggð, væntanlega byggð eða stöðuvötn.

5. gr.

Ekki er heimilt að setja upp minnisvarða, minningarplötu eða annars konar minnismerki á þeim stað þar sem öskunni er dreift eða annars staðar nálægt þeim stað.

6. gr.

Þegar aska hefur verið afhent úr líkhúsi til dreifingar er óheimilt að geyma hana og ber þeim sem leyfið hefur fengið að dreifa aðeins á þann stað sem samþykktur hefur verið.

7. gr.

Að öskudreifingu lokinni skal duftkeri tafarlaust skilað til bálstofunar í Reykjavík.

8. gr.

Sé sótt um leyfi til að dreifa ösku einhvers sem nú þegar hvílir í kirkjugarði, skal afla samþykkis biskups Íslands og héraðslæknis, sbr. 46. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, áður en unnt verður að framkvæma öskudreifinguna.

Skrifleg staðfesting.

9. gr.

Eftir að dreifing ösku hefur farið fram skal sá sem fengið hefur leyfið, leggja fram skriflega staðfestingu á þar til gerðu eyðublaði sem sýslumaður leggur til, um að dreifing hafi átt sér stað í samræmi við reglugerð þessa. Skrifleg staðfesting skal berast ráðuneytinu eigi síðar en einu ári eftir að leyfi til dreifingar var veitt.

Upplýsingar til legstaðaskrár.

10. gr.

Þegar sýslumaður hefur borist staðfesting þess efnis að dreifing hafi átt sér stað í samræmi við settar reglur og tilkynning um nákvæma staðsetningu dreifingar, skal sýslumaður upplýsa legstaðaskrá Kirkjugarðasambands Íslands um það hvar öskunni hafi verið dreift.

11. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 7. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36 frá 4. maí 1993, sbr. lög nr. 32 frá 16. apríl 2002, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.