Prentað þann 22. des. 2024
172/2021
Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 248/2001, um ritun dánarvottorða, réttarlæknisfræðilega líkskoðun, réttarkrufningu og tilkynningu til Hagstofu Íslands um andvana fædd börn.
1. gr.
Á eftir orðunum "hér á landi" í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur: , hvort sem það er gefið út á pappír eða rafrænt.
2. gr.
3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Á dánarvottorð skal annars vegar skrá stjórnsýslulegar upplýsingar sem eru forsenda skráningar sýslumanns á andláti, en hins vegar læknisfræðilegar upplýsingar um dánarorsakir og hvernig dauða bar að. Þessar upplýsingar eru ætlaðar til skráningar og úrvinnslu á dánarmeinum hjá landlækni. Eingöngu er heimilt að senda stjórnsýslulegar upplýsingar til sýslumanna og Þjóðskrár. Senda skal bæði stjórnsýslulegar upplýsingar og læknisfræðilegar upplýsingar til landlæknis.
Heimilt er að útfæra dánarvottorð skv. 1. mgr. með rafrænum hætti þannig að útfylling þess og miðlun upplýsinga sé rafræn til annarra stjórnvalda vegna lögmæltra verkefna þeirra. Landlæknir gefur heilbrigðisstofnunum og læknum sem annast útgáfu dánarvottorða fyrirmæli um skráningu upplýsinga í þessu skyni og hvernig staðið skuli að skráningu og miðlun upplýsinganna til embættisins. Dánarvottorð skal ávallt útfyllt eins nákvæmlega og kostur er.
Þegar notað er pappírseyðublað til útfyllingar dánarvottorðs skal rita með prentstöfum. Þegar lokið hefur verið við að fylla út dánarvottorð á pappírsformi, skal brjóta það saman og líma aftur þannig að persónugreinanlegar eða viðkvæmar upplýsingar séu ekki sjáanlegar. Dánarvottorðið má ekki opna fyrr en hjá embætti landlæknis.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:
- 1. mgr. verður svohljóðandi:
Eftirfarandi upplýsingar, sem eru forsendur fyrir stjórnsýslulegri meðferð mála hjá sýslumanni og Þjóðskrá Íslands og síðar úrvinnslu dánarmeina hjá landlækni, þurfa að koma fram á dánarvottorði: - Í stað orðanna "Hagstofu Íslands" í 1. tölul. 1. mgr. kemur: landlæknis.
4. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglugerðarinnar:
- Við 1. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Lækni er skylt að undirrita rafræn dánarvottorð með fullgildum rafrænum skilríkjum.
- Við 2. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Móttaka rafrænna dánarvottorða er staðfest við landlækni með sjálfvirkum og rafrænum hætti af sýslumanni og er honum heimilt að gefa út rafræna heimild til útfarar.
5. gr.
8. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Í dánarvottorð skal skrá undirliggjandi og samverkandi dánarmein í I. og II. hluta:
-
Í I. hluta skal skrá þann sjúkdóm/sjúkdóma eða áverka sem leiddi/leiddu til dauða:
A. Sjúkdómur eða ástand sem telst bein orsök dauða. B/C. Sjúkdómar sem leiddu til hinnar beinu dánarorsakar. D. Undirliggjandi dánarorsök. - Í II. hluta skal skrá samverkandi orsakir dauða, þ.e. sjúkdóma eða ástand sem voru samverkandi að dauða, án þess að tengjast beint sjúkdómsferlinu.
6. gr.
Í stað orðanna "Hagstofa Íslands skal í samráði við landlækni skrá" í 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur: Landlæknir skráir.
7. gr.
17. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Þegar dánarvottorð er á pappírsformi skulu læknir og sá sem skráir niðurstöður rannsókna, sbr. 16. gr., skrá nafn sitt í sinn reitinn hvor. Þegar dánarvottorð er á rafrænu formi skulu læknir og sá sem skráir niðurstöður rannsókna staðfesta skráninguna með fullgildum rafrænum skilríkjum.
Heimilt er að meðferð vottorðs skv. 1. mgr. sé með rafrænum hætti.
8. gr.
Eftirfarandi breyting verður á 26. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað orðanna "Hagstofu Íslands" í 1. mgr. kemur: Þjóðskrá Íslands og landlækni.
- Í stað orðsins "Hagstofu" í 2. mgr. kemur: landlæknis.
9. gr.
Fyrirsögn V. kafla reglugerðarinnar verður: Tilkynning til Þjóðskrár Íslands og landlæknis um andvana fædd börn.
10. gr.
Heiti reglugerðarinnar verður: Reglugerð um ritun dánarvottorða, réttarlæknisfræðilega líkskoðun, réttarkrufningu og tilkynningu til embættis landlæknis.
11. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 14. gr. laga nr. 61/1998, um dánarvottorð, krufningar o.fl., öðlast þegar gildi.
Heilbrigðisráðuneytinu, 3. febrúar 2021.
Svandís Svavarsdóttir.
Ásthildur Knútsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.