Prentað þann 22. des. 2024
248/2001
Reglugerð um ritun dánarvottorða, réttarlæknisfræðilega líkskoðun, réttarkrufningu og tilkynningu til embættis landlæknis.
I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til ritunar dánarvottorða, framkvæmdar réttarlæknisfræðilegra líkskoðana og réttarkrufninga vegna fólks sem andast hér á landi og til barna sem fæðast andvana hér á landi. Jafnframt tekur hún til fólks sem andast um borð í skipi eða loftfari sem kemur til hafnar eða lendir hér á landi.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
Dánarvottorð er vottorð til staðfestingar andláts skrifað af lækni fyrir hvern mann sem andast hér á landi, hvort sem það er gefið út á pappír eða rafrænt.
Með líkskoðun er átt við skoðun læknis á líki til þess að athuga hvernig andlát hefur borið að, dauðaskilmerki og líklega dánarorsök.
Með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun er átt við sameiginlega skoðun læknis og lögreglu á líki, þar sem athugað er hvernig andlát hefur borið að, dauðaskilmerki og líklega dánarorsök.
Með réttarkrufningu er átt við krufningu, sem gerð er að beiðni lögreglu, að fengnu samþykki nánasta venslamanns eða samkvæmt dómsúrskurði, til þess að skýra dauðsfall eða mál sem því tengist.
Andvana fætt barn er barn sem fæðist ogvegur 500 g eða meira eða eftir að meðgangahefur náð fullum 22vikum (154 dögum) og barnið sýnir ekkert lífsmark. Að öðrum kosti er um fósturlát að ræða.
II. KAFLI Dánarvottorð.
3. gr. Ritun dánarvottorðs.
Á dánarvottorð skal annars vegar skrá stjórnsýslulegar upplýsingar sem eru forsenda skráningar sýslumanns á andláti, en hins vegar læknisfræðilegar upplýsingar um dánarorsakir og hvernig dauða bar að. Þessar upplýsingar eru ætlaðar til skráningar og úrvinnslu á dánarmeinum hjá landlækni. Eingöngu er heimilt að senda stjórnsýslulegar upplýsingar til sýslumanna og Þjóðskrár. Senda skal bæði stjórnsýslulegar upplýsingar og læknisfræðilegar upplýsingar til landlæknis.
Heimilt er að útfæra dánarvottorð skv. 1. mgr. með rafrænum hætti þannig að útfylling þess og miðlun upplýsinga sé rafræn til annarra stjórnvalda vegna lögmæltra verkefna þeirra. Landlæknir gefur heilbrigðisstofnunum og læknum sem annast útgáfu dánarvottorða fyrirmæli um skráningu upplýsinga í þessu skyni og hvernig staðið skuli að skráningu og miðlun upplýsinganna til embættisins. Dánarvottorð skal ávallt útfyllt eins nákvæmlega og kostur er.
Þegar notað er pappírseyðublað til útfyllingar dánarvottorðs skal rita með prentstöfum. Þegar lokið hefur verið við að fylla út dánarvottorð á pappírsformi, skal brjóta það saman og líma aftur þannig að persónugreinanlegar eða viðkvæmar upplýsingar séu ekki sjáanlegar. Dánarvottorðið má ekki opna fyrr en hjá embætti landlæknis.
4. gr.
Dánarvottorð skal ritað af þeim lækni sem hefur gert líkskoðun.
Hafi verið gerð réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal sá læknir sem hana gerði rita dánarvottorð nema réttarkrufning fari fram.
Leiði réttarlæknisfræðileg líkskoðun til frekari rannsókna á dánarorsök fer fram réttarkrufning. Sá læknir sem hana framkvæmir gefur út dánarvottorðið.
5. gr.
Eftirfarandi upplýsingar, sem eru forsendur fyrir stjórnsýslulegri meðferð mála hjá sýslumanni og Þjóðskrá Íslands og síðar úrvinnslu dánarmeina hjá landlækni, þurfa að koma fram á dánarvottorði:
1. | Fullt nafn skal ritað. Ef um er að ræða barn sem ekki hefur fengið nafn við andlát skal ritasveinbarn eðameybarn ásamt nafni móður. Þegar barn fæðist andvana skal ekki rita dánarvottorð heldur tilkynna það til landlæknis á sérstöku eyðublaði "Tilkynning um fæðingu". |
2. | Kennitala skal skráð að fullu. Fyrir einstaklinga sem ekki hafa íslenska kennitölu skal skrá fæðingardag og ár. |
3. | Upplýsingar um atvinnu skulu skráðar eins nákvæmlega og unnt er. Ætíð skal skrá það starf sem viðkomandi gegndi lengst af, en sé það óljóst er skráð það starf sem hinn látni hafði síðast með höndum. |
4. | Hjúskaparstétt. Merkja skal í viðeigandi reit á vottorði. |
5. | Lögheimili við andlát. Skrá skal síðasta lögheimili hins látna (götu, húsnúmer, |
póstnúmer) ásamt sveitarfélagi. | |
6. | Dánarstaður er sá staður þar sem andlát er staðfest. Ef unnt er skal dánarstaðurtilgreindur með götunafni, húsnúmeri, póstnúmeri og sveitarfélagi. Auk þess skal tilgreina hvers konar stað er um að ræða, t.d. heimili hins látna, heilbrigðisstofnun, vinnustað eða annan stað. Sé einstaklingur fluttur án lífsmarks á heilbrigðisstofnun og endurlífgun er reynd án árangurs skal skrá heilbrigðisstofnunina sem dánarstað. Beri andlát að meðan á sjúkraflutningi stendur skal sá staður, þar sem sjúkraflutningi lýkur, skráður sem dánarstaður. Fyrir fundið lík skal geta staðarins sem líkið fannst á. |
7. | Dánardægur er sá dagur þegar andlát hins látna er staðfest. Ef barn deyr innan sólarhrings frá fæðingu skal rita hversu mörgum stundum eftir fæðingu látið bar að. |
6. gr.
Dánarvottorð skal dagsett og undirritað af þeim lækni sem fyllir það út og skal nafnið vera vélritað, stimplað eða ritað með prentstöfum auk undirskriftar læknis með eigin hendi og læknisnúmeri til staðfestingar á því að læknirinn hafi borið kennsl á hinn látna og greint dauðamerki. Lækni er skylt að undirrita rafræn dánarvottorð með fullgildum rafrænum skilríkjum.
Sýslumaður undirritar dánarvottorð til staðfestingar móttöku og gefur út heimild til útfarar. Móttaka rafrænna dánarvottorða er staðfest við landlækni með sjálfvirkum og rafrænum hætti af sýslumanni og er honum heimilt að gefa út rafræna heimild til útfarar.
7. gr. Dánarorsakir.
Upplýsa skal um þá atburðarás sem átti sér stað frá undirliggjandi dánarorsök til sjúkdóms eða ástands sem telst bein orsök dauða.
Skrá skal undirliggjandi og samverkandi dánarorsakir til samræmis við skilgreiningar gildandi útgáfu Alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD).
Skrá skal þann sjúkdóm eða áverka sem leiddi til dauða. Skrá skal bæði einfalda beina orsök dauða, svo sem lungnabólgu eða röð af sjúkdómsgreiningum sem leiddu til hinnar beinu dánarorsakar (t.d. alnæmi, blóðeitrun, lungnabólga).
Skrá skal samverkandi orsakir að dauða þ.e. sjúkdóma eða ástand sem eru samverkandi að dauða, án þess að tengjast beint sjúkdómsferlinu (t. d. iktsýki).
Skrá skal dánarorsök sem slys, þegar áverkinn sem er afleiðing slyssins leiðir með beinum hætti til sjúkdóms sem telst bein orsök dauða.
Deyi barn innan viku fá fæðingu skal tilgreina meðgöngulengd og fæðingarþyngd barns svo og sjúkdóma móður á meðgöngu sem gætu tengst sjúkdómum barnsins.
8. gr.
Í dánarvottorð skal skrá undirliggjandi og samverkandi dánarmein í I. og II. hluta:
-
Í I. hluta skal skrá þann sjúkdóm/sjúkdóma eða áverka sem leiddi/leiddu til dauða:
A. Sjúkdómur eða ástand sem telst bein orsök dauða. B/C. Sjúkdómar sem leiddu til hinnar beinu dánarorsakar. D. Undirliggjandi dánarorsök. - Í II. hluta skal skrá samverkandi orsakir dauða, þ.e. sjúkdóma eða ástand sem voru samverkandi að dauða, án þess að tengjast beint sjúkdómsferlinu.
9. gr.
Skrá skal tímann frá upphafi sjúkdóms eða ástands og þar til dauða bar að. Tímabilið skal skrá sem áætlaðan fjölda klukkustunda (eða brota úr klukkustund), daga eða ára sem líða frá greiningu sjúkdóms til andláts eða frá slysi til andláts.
10. gr.
Hafi hinn látni gengist undir aðgerð, sem gæti tengst dánarmeini, á síðustu tólf mánuðum fyrir andlát, skal ástæða aðgerðar og tegund aðgerðar tilgreind sem og hvenær og hvar aðgerðin var gerð.
11. gr. Dánaratvik.
Greina skal milli eðlilegs dauðdaga, þ.e. andláts vegna sjúkdóms eða elli og dauðfalls sem ytri aðstæður valda beint, svo sem slys, sjálfsvíg eða manndráp.
Finnist lík eða tildrög andláts eru önnur en hér að framan er getið skal það tilgreint nánar á dánarvottorði.
12. gr.
Þegar ekki er um eðlilegan dauðdaga að ræða skal alltaf tilkynna andlát til lögreglu, hversu langt sem liðið er frá atburði, sem leiddi til dauða. Lögreglan mælir fyrir um frekari rannsókn.
13. gr.
Þegar um slys er að ræða skal skrá hvar slysið varð, eðli þess og tildrög.
Þegar um umferðarslys er að ræða þarf að koma fram hvort slysið varð í almennri umferð eða utan vegar, hvort hinn látni ók bílnum eða hvort hann var farþegi í fram- eða aftursæti.
Við slys af völdum falls þarf að tilgreina hvort viðkomandi féll á jafnsléttu eða úr hæð.
Við sjálfsvíg skal tilgreina nákvæmlega með hvaða hætti sjálfsvíg var framið, til samræmis við gildandi útgáfu Alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD).
14. gr. Heimildir við útgáfu dánarvottorðs.
Skrá skal heimildir sem læknir notar til að fylla út dánarvottorð, hvort andlát hafi verið tilkynnt lögreglu og hvort réttarlæknisfræðileg líkskoðun eða krufning hafi farið fram.
15. gr. Niðurstaða krufningar eða rannsóknar.
Sé lík krufið og endanlegar niðurstöður krufningar liggja ekki fyrir við ritun vottorðs skal landlæknir eða læknir í umboði hans óska eftir upplýsingum um niðurstöðu krufningar.
Hafi sýni verið tekin frá sjúklingi fyrir andlát skal skrá upplýsingar um eðli rannsókna, teljist niðurstaða hafa þýðingu við úrskurð um dánarorsök, t.d. eiturefnarannsókn, sýkla- eða veirurannsókn.
Landlæknir eða læknir í umboði hans skal leita eftir niðurstöðu rannsókna hafi ekki þegar verið tekið tillit til þeirra við ákvörðun dánarorsakar.
16. gr.
Landlæknir skráir dánarorsakir eins nákvæmlega og hægt er og ber að styðjast við gildandi útgáfu Alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD).
17. gr.
Þegar dánarvottorð er á pappírsformi skulu læknir og sá sem skráir niðurstöður rannsókna, sbr. 16. gr., skrá nafn sitt í sinn reitinn hvor. Þegar dánarvottorð er á rafrænu formi skulu læknir og sá sem skráir niðurstöður rannsókna staðfesta skráninguna með fullgildum rafrænum skilríkjum.
Heimilt er að meðferð vottorðs skv. 1. mgr. sé með rafrænum hætti.
III. KAFLI Líkskoðun.
18. gr. Líkskoðun o.fl.
Við líkskoðun skal staðfesta dauðaskilmerki, svo sem líkstirðnun, líkbletti eða rotnun.
Ákvarða skal hvort dauðdagi teljist eðlilegur. Þótt dánarorsök sé ókunn getur hún fallið undir eðlilegan dauðdaga.
19. gr. Réttarlæknisfræðileg líkskoðun.
Réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal gerð af lækni og lögreglu í sameiningu, þegar lögreglu hefur verið tilkynnt um mannslát, sbr. 3. gr. laga nr. 61/1998, um dánarvottorð, krufningar o.fl., nema 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu laga eigi við.
Við réttarlæknisfræðilega líkskoðun skal fara fram ítarleg skoðun á líki, fatnaði og munum. Önnur atriði sem máli skipta skulu höfð til hliðsjónar.
20. gr. Hæfiskröfur til læknis.
Læknir sem annast réttarlæknisfræðilega líkskoðun skal hafa lækningaleyfi hér á landi. Hafi viðkomandi læknir einungis tímabundið lækningaleyfi skal hann hafa staðist próf í réttarlæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands.
21. gr. Framkvæmd réttarlæknisfræðilegrar líkskoðunar.
Réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal fara fram á dánarstað eða þeim stað þar sem lík fannst ef því verður við komið. Réttarlæknisfræðileg líkskoðun skal vera ítarlegri en þegar um dauða af völdum þekkts sjúkdóms er að ræða.
Læknir tekur þátt í vettvangsrannnsókn fari lögregla fram á slíkt.
22. gr. Skýrslugerð.
Læknir sem framkvæmir réttarlæknisfræðilega líkskoðun skal skrá niðurstöður skoðunarinnar og varðveita þær á sama hátt og aðrar sjúkraskrár sem afhendist lögreglu komi ósk um slíkt.
IV. KAFLI Réttarkrufning.
23. gr. Framkvæmd réttarkrufningar.
Réttarlæknir skal framkvæma réttarkrufningu að beiðni lögreglu, sem fer með rannsóknarvald á því svæði sem dauðsfallið átti sér stað, sbr. 6. gr. laga nr. 61/1998, um dánarvottorð, krufningar o.fl.
Réttarkrufning felur í sér skoðun allra helstu líffæra, nauðsynlegar sýnatökur og rannsóknir til að leita dánarorsakar.
24. gr. Hæfiskröfur til læknis.
Læknir sem framkvæmir réttarkrufningu skal vera sérfræðingur í vefjameinafræði eða hliðstæðum greinum meinafræðinnar.
25. gr. Skýrslugerð.
Rita skal greinargerð þar sem fram koma aðstæður við dauðsfall, upplýsingar aðstandenda, niðurstöður frekari rannsókna, lýsing réttarkrufningar, sjúkdómsgreiningar og heildarniðurstaða réttarlæknis.
Réttarlæknir gefur út dánarvottorð sem byggt er á réttarkrufningu.
V. KAFLI Tilkynning til Þjóðskrár Íslands og landlæknis um andvana fædd börn.
26. gr.
Heilbrigðisstarfsmaður sem aðstoðar við fæðingu skal sjá um að tilkynna Þjóðskrá Íslands og landlækni um andvana fædd börn á sérstöku eyðublaði "Tilkynning um fæðingu".
Við tilkynningu til landlæknis um andvana fædd börn skal farið eftir gildandi útgáfu Alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD).
VI. KAFLI Ýmis ákvæði.
27. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 14. gr. laga nr. 61/1998, um dánarvottorð, krufningar o.fl., öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 24/1936, um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.