Prentað þann 27. des. 2024
119/2009
Reglugerð um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.
1. gr. Almenn ákvæði.
Með reglugerð þessari eru sett almenn ákvæði um framkvæmd þvingunaraðgerða sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndum þess um þvingunaraðgerðir á grundvelli 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, af alþjóðastofnunum eða af ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.
Ákvæði reglugerðar þessarar eru sett til nánari útfærslu á og skulu gilda um framkvæmd þeirra reglugerða sem eru settar um einstakar þvingunaraðgerðir gegn ríkjum eða öðrum aðilum, nema annað sé tekið fram í þeim.
2. gr. Skilgreiningar.
Merking hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:
Aðili er einstaklingur eða lögaðili, þ.m.t. ríkisstjórnir, fyrirtæki, samsteypur, stofnanir, sjóðir og samtök.
Fjárhagsaðstoð er aðstoð sem tekur m.a. til styrkja, lána og útflutningstrygginga.
Efnahagslegur auður merkir hvers kyns eignir, efnislegar jafnt sem óefnislegar, færanlegar eða ófæranlegar, sem eru ekki fjármunir en unnt er að nota til að afla fjármuna, vöru eða þjónustu.
Fjármunir eru hvers kyns fjáreignir og ágóði, þ.m.t.:
- reiðufé, ávísanir, peningakröfur, víxlar, póstávísanir og aðrir greiðslugerningar,
- inneignir hjá fjármálastofnunum eða öðrum aðilum, inneignir á reikningum, skuldir og fjárskuldbindingar,
- skráð eða óskráð verðbréf og skuldagerningar sem verslað er með í og/eða utan kauphallar, þ.m.t. hlutabréf og hlutir, skírteini fyrir verðbréfum, skuldabréf, lán, ábyrgðir, skuldaviðurkenningar og afleiðusamningar,
- vextir, arðgreiðslur eða aðrar tekjur eða verðmæti sem rekja má til eða myndast af eignum,
- lánsviðskipti, réttur til skuldajöfnunar, tryggingar, áfangatryggingar eða aðrar fjárskuldbindingar,
- ábyrgðir, farmbréf, reikningar,
- skjöl sem færa sönnur á hlutdeild í fjármunum eða fjármagni,
- hvers konar gerningar til að fjármagna útflutning.
Frysting efnahagslegs auðs merkir að koma í veg fyrir hvers konar nýtingu efnahagslegs auðs í því skyni að afla fjármuna, vöru eða þjónustu, þ.m.t. með sölu, leigu eða veðsetningu.
Frysting fjármuna merkir að koma í veg fyrir hvers konar flutning, millifærslu, breytingu, notkun á, aðgang að eða viðskipti með fjármuni á einhvern hátt sem myndi leiða til breytinga á umfangi þeirra, fjárhæð, staðsetningu, eignarrétti, eignarhaldi, eðli, áfangastað eða annarra breytinga sem gera notkun fjármuna mögulega, þ.m.t. eignastýring.
Hergögn eru vopn og skotfæri, sem hafa hernaðarlega þýðingu, hernaðarökutæki, herbúnaður, aðföng til hernaðar, hernaðarleg tækni, herbúnaður sem er ekki ætlaður ríkisher og varahlutir í framangreinda hluti.
Hlutur tekur m.a. til vöru, búnaðar, hugbúnaðar og tækni.
Hlutur með tvíþætt notagildi er hlutur sem má nota bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi, þ.m.t. allir hlutir sem má bæði nota án þess að þeir springi og við hvers konar framleiðslu kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar.
Innflutningur tekur til innflutnings og umflutnings í skilningi tollalaga, nr. 88/2005, með eða án endurgjalds. Hugtakið tekur einnig til miðlunar hugbúnaðar og tækni með rafrænum miðlum, bréfsíma eða gegnum síma erlendis frá.
Sölubann gagnvart tilteknu ríki eða landsvæði merkir að bannað er að selja, miðla eða flytja hluti eða þjónustu til þessa ríkis eða landsvæðis, óháð uppruna þeirra, eða til aðila sem eru staðsettir í þessu ríki eða landsvæði, óháð áfangastað þeirra.
Tæknileg aðstoð tekur til tæknilegs stuðnings í tengslum við viðgerðir, þróun, framleiðslu, samsetningu, prófun, viðhald eða hvers konar aðra tæknilega þjónustu og getur verið í formi kennslu, ráðgjafar, þjálfunar, ráðgjafarþjónustu eða yfirfærslu þekkingar eða kunnáttu. Tæknileg aðstoð getur m.a. verið munnleg.
Útflutningur tekur til útflutnings og umflutnings í skilningi tollalaga, nr. 88/2005, þ.m.t. endurútflutnings, með eða án endurgjalds. Hugtakið tekur einnig til miðlunar hugbúnaðar og tækni með rafrænum miðlum, bréfsíma eða gegnum síma til áfangastaða erlendis.
Vildarlán er lán á hagstæðari kjörum en á almennum markaði.
Viðskiptabann tekur til inn-innflutningsbanns, útflutningsbanns og útflutningsbannssölubanns á hlutum og þjónustu.
Þjónusta tekur m.a. til sölu, miðlunar, útvegunar, flutnings, fjármögnunar, aðstoðar, ráðgjafar og þjálfunar gegn endurgjaldi eður ei.
Þvingunaraðgerðir eru efnahagslegar eða diplómatískar aðgerðir gegn ríkjum, einstaklingum, lögaðilum eða samtökum sem miða að því að breyta háttsemi þeirra, svo sem broti gegn þjóðarétti, mannréttindum eða lýðræðislegum eða öðrum lagalegum skuldbindingum. Hugtakið tekur einnig til öryggisaðgerða.
Öryggisaðgerðir eru aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir ólögmæta háttsemi og ferðir aðila sem er talið að virði ekki mannréttindi eða lýðræðislegar eða aðrar lagalegar skuldbindingar eða til þess að koma í veg fyrir að hættulegir hlutir eða þjónusta nýtist þeim.
3. gr. Birting ákvarðana.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tekur ákvarðanir um þvingunaraðgerðir með ályktunum sem eru birtar á vefsetri þess (http://www.un.org/Docs/sc/unsc_resolutions.html).
Ákvarðanir framkvæmdanefnda öryggisráðsins um þvingunaraðgerðir eru birtar á vefsetri þeirra (http://www.un.org/sc/committees/).
Ákvarðanir Evrópusambandsins um þvingunaraðgerðir eru birtar á vefsetri þess (http://ec.europa.eu/external_relations/cfsp/sanctions/measures.htm).
Listar, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, nefndir á vegum þess, alþjóðastofnanir eða ríkjahópar halda yfir aðila og hluti sem þvingunaraðgerðir beinast að eða varða, eru birtir sem fylgiskjal með reglugerðum sem kveða á um þvingunaraðgerðir í B-deild Stjórnartíðinda. Listarnir eru ennfremur birtir á vefsetri utanríkisráðuneytisins (http://www.utanrikisraduneyti.is/nyr-starfssvid/althjoda-og-oryggissvid/thvingunaradgerdir/).
4. gr. Framkvæmd vopnasölubanns.
Vopnasölubann merkir að lagt er bann við sölu, útvegun, flutningi eða útflutningi á hergögnum fyrir milligöngu íslenskra ríkisborgara eða frá Íslandi eða með skipum, sem sigla undir íslenskum fána, eða með íslenskum loftförum, hvort sem þau eru upprunnin á Íslandi eður ei, til viðkomandi aðila eða landsvæða.
Vopnasölubann tekur m.a. til skriðdreka, brynvarinna stríðsfarartækja, stórskotaliðsbúnaðar með mikilli hlaupvídd, orrustuflugvéla, árásarþyrlna, herskipa, flugskeyta og flugskeytabúnaðar, samkvæmt nánari skilgreiningu í skrá Sameinuðu þjóðanna um hefðbundin vopn, sbr. I. viðauka.
Ennfremur er lagt bann við því að:
- veita tæknilega aðstoð, þjálfun, miðlunarþjónustu eða aðra þjónustu, sem tengist hernaðarstarfsemi og útvegun, framleiðslu, viðhaldi og notkun á hergögnum, beint eða óbeint, viðkomandi aðilum vegna notkunar á viðkomandi landsvæðum,
- fjármagna eða veita fjárhagsaðstoð, sem tengist hernaðarstarfsemi, þ.m.t. styrki, lán eða útflutningsgreiðslutryggingar, vegna sölu, útvegunar, flutnings eða útflutnings á hergögnum eða til að veita tengda tæknilega aðstoð, miðlunarþjónustu eða aðra þjónustu, beint eða óbeint, viðkomandi aðilum eða vegna notkunar á viðkomandi landsvæði,
- taka þátt í starfsemi sem miðar að því að sniðganga bönn sem um getur í a- eða b-lið.
Nú er lagt bann við sölu, útvegun, flutningi eða útflutningi á búnaði sem nota mætti til bælingar innanlands og er hann þá tilgreindur í II. viðauka.
5. gr. Undantekningar frá vopnasölubanni.
Ákvæði 4. gr. gilda ekki um:
-
sölu, útvegun, flutning eða útflutning á hergögnum sem eru:
- ekki
erulífshættuleg ogsemeingöngu eru ætluð í mannúðar- eða verndarskynieða fyrir Sameinuðu þjóðirnar,friðargæslusveitir - á vegum Sameinuðu þjóðanna, friðargæslusveita þeirra eða
aðilahafa verið heimiluð af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, - á vegum íslenskra stjórnvalda eða annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins,
- ekki
- sölu, útvegun, flutning eða útflutning á búnaði fyrir eyðingu jarð- eða klasasprengja og á hergögnum til nota við eyðingu jarð- eða klasasprengja,
- fjármögnun eða fjárhagsaðstoð sem er tengd þess háttar búnaði eða þess háttar áætlunum og aðgerðum,
- tæknilega aðstoð sem er tengd þess háttar búnaði eða þess háttar áætlunum og aðgerðum,
- sölu, útvegun, flutning eða útflutning á hergögnum eða þjónustu sem því tengist sem framkvæmdanefnd öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um þvingunaraðgerðir hefur heimilað, eða henni hefur verið tilkynnt um, í samræmi við ákvæði ályktana öryggisráðsins, að því tilskildu að utanríkisráðherra hafi samþykkt slíkan útflutning eða aðstoð fyrirfram.
Ákvæði 4. gr. gilda ekki um hlífðarfatnað, þ.m.t. skothelda jakka og herhjálma, sem starfslið Sameinuðu þjóðanna, friðargæslusveitir á vegum þeirra, aðilar á vegum íslenskra stjórnvalda eða annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, fulltrúar fjölmiðla og starfslið hjálpar- og þróunarstofnana og fylgilið þeirra hefur tímabundið flutt inn til viðkomandi ríkis eða landsvæðis og er eingöngu ætlaður til eigin nota þeirra.
6. gr. Landgöngubann.
Landgöngubann hindrar ekki komu Íslendinga til landsins.
Ákvæði um landgöngubann eiga ekki við ef þau stangast á við þjóðréttarlegar skuldbindingar, m.a. ef landgangan tengist:
- alþjóðlegri ráðstefnu sem Sameinuðu þjóðirnar boða til eða sem fram fer á þeirra vegum,
- alþjóðasamningi sem kveður á um forréttindi eða friðhelgi.
Ákvæði 2. mgr. gilda jafnframt um starfsemi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE).
Í þeim tilvikum sem undanþága er veitt fyrir komu einstaklinga, sem landgöngubann á við um, skal heimildin takmörkuð við þann tilgang sem hún er veitt í.
7. gr. Framkvæmd frystingar fjármuna.
Þegar fjármunir eða efnahagslegur auður er frystur tekur frystingin til fjármuna og efnahagslegs auðs sem tilheyra, eru í eigu, í vörslu eða undir stjórn viðkomandi aðila.
Frysting fjármuna eða efnahagslegs auðs kemur ekki í veg fyrir að lagðir séu inn á reikninga, sem hafa verið frystir:
- vextir eða aðrar tekjur af þessum reikningum eða
- greiðslur samkvæmt samningum, samkomulagi eða skuldbindingum sem stofnað var til eða
mynduðust áður en þvingunaraðgerðir voru ákveðnar.
Slíkir vextir, aðrar tekjur og greiðslur skulu frystar.
Þegar fjármunir eða efnahagslegur auður er frystur tekur frystingin einnig til vaxta, arðs og annarra tekna, sem af þeim eða honum hlýst, svo og til greiðslna vegna samninga eða skuldbindinga sem stofnað var til áður en til frystingar kom.
Fjármálafyrirtæki og aðrir aðilar, sem standa að frystingu fjármuna eða efnahagslegs auðs, svo sem skráningaraðilar eignarheimilda fasteigna og lausafjár, skulu án tafar tilkynna eigendum og utanríkisráðuneytinu um slíkar ráðstafanir. Fjármálafyrirtæki skulu einnig tilkynna fjármálaeftirlitinu um slíkar ráðstafanir.
Nú eru fjármunir eða efnahagslegur auður aðila frystur og skulu þá engir aðrir fjármunir eða efnahagslegur auður, með beinum eða óbeinum hætti, gerður tiltækur þeim aðila eða honum gert kleift að njóta góðs af þeim fjármunum eða efnahagslegum auði.
Utanríkisráðherra getur heimilað að frystingu sé aflétt að því er varðar fjármuni eða efnahagslegan auð sem er:
- nauðsynlegur til að uppfylla grunnþarfir viðkomandi einstaklinga og aðstandenda á framfæri þeirra, þ.m.t. greiðslur vegna matarkaupa, leigu eða veðlána, lyfja og læknismeðferðar, skattheimtu, iðgjalda og opinberra þjónustugjalda,
- eingöngu ætlaður til að greiða hæfilega sérfræðiþóknun eða til endurgreiðslu á kostnaði vegna lögfræðiþjónustu,
- eingöngu ætlaður til að greiða þóknanir eða þjónustugjöld fyrir venjubundna vörslu eða viðhald frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs.
Ef fjármunir eða efnahagslegur auður er frystur í góðri trú samkvæmt reglugerð þessari skulu viðkomandi aðilar eða starfsmenn þeirra ekki vera bótaskyldir á nokkurn hátt vegna frystingarinnar.
8. gr. Undanþágur frá þvingunaraðgerð.
Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til á grundvelli ályktana öryggisráðsins eða ákvarðana framkvæmdanefnda þess, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum.
Beiðnum um undanþágur frá frystingu fjármuna eða efnahagslegs auðs, banni við innflutningi, útflutningi, komu til landsins eða viðkomu eða öðrum slíkum boðum eða bönnum skal beint til utanríkisráðuneytisins.
Meðferð útflutningsleyfa skal, að svo miklu leyti sem við á, vera í samræmi við ákvæði laga nr. 4/1988 um útflutningsleyfi o.fl. og reglugerða settra á grundvelli þeirra.
9. gr. Heimild.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.
10. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 20. janúar 2009.
Össur Skarphéðinsson.
Benedikt Jónsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.