Fara beint í efnið
Sýna breytingar
Næsta útgáfa

Prentað þann 24. nóv. 2024

Upprunaleg útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 31. jan. 2018 – 13. okt. 2021 Sjá lokaútgáfu

90/2018

Reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.

1. gr. Gildissvið og leyfisbinding.

Um alla öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögunnar fer samkvæmt reglugerð þessari. Enginn má stunda öflun á sjávargróðri í atvinnuskyni frá skipi þ.m.t. sláttupramma (pramma) nema hafa fengið til þess almennt leyfi sem Fiskistofa veitir á skip.

Um aðgang að netlögum sjávarjarða til sláttar á þangi fer samkvæmt samkomulagi við ábúanda eða landeiganda hverju sinni. Skylt er að veita Fiskistofu aðgang að slíku samkomulagi eða samningi, verði eftir því leitað, í þágu aflaskráningar.

2. gr. Þangsláttur.

Gæta skal þess að festa plantna skaðist ekki við þangslátt og skulu skip, þ.m.t. sláttuprammar (prammar), sem stunda slátt á klóþangi vera þeirrar gerðar að komið sé í veg fyrir að festa rifni frá botni. Hlutfall plantna sem festan fylgir skal ekki vera hærra en áætlað 8%. Stilkur plöntunnar, sem eftir stendur skal að jafnaði ekki vera lægri en 25 sm mælt frá festunni.

Óheimilt er að stunda slátt á svæði þegar færri en fern áramót eru liðin síðan svæðið var slegið síðast. Fiskistofa getur veitt undanþágu frá þessu.

3. gr. Þaratekja.

Ráðherra skal, eftir því sem ástæða er til, hafa viðvarandi könnun á því hvort ástæða sé til að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs utan netlaga sjávarjarða í afmörkuð svæði eða reinar til að takmarka og vakta nýtinguna, sbr. 15. gr. b. í lögum um stjórn fiskveiða.

4. gr. Eftirlit, skráningar o.fl.

Um færslu afladagbókar fer samkvæmt reglugerð um afladagbækur. Við vigtun og skráningu á sjávargróðri gilda ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla.

Auk eftirlits Landhelgisgæslu með slætti og nýtingu hafa veiðieftirlitsmenn Fiskistofu eftirlit með að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt og er leyfishöfum skylt að gera þessum aðilum kleift að framkvæma athuganir á búnaði og aðstöðu.

5. gr. Viðurlög o.fl.

Brot á reglugerð þessari varða sviptingu veiðileyfis skv. 15. og 19. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar.

Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi skv. 1. gr. sé talin ástæða til að takmarka öflun sjávargróðurs eða endurskipuleggja stjórnun hennar.

Brot gegn reglugerðinni geta varðað refsingu samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 og lögum um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. janúar 2018.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Arnór Snæbjörnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.