Prentað þann 27. des. 2024
1007/2024
Reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Gildissvið.
- 2. gr. Leyfi og samkomulag vegna þangsláttar.
- 3. gr. Leyfi vegna öflunar sjávargróðurs utan netlaga.
- 4. gr. Skilyrði fyrir útgáfu leyfa.
- 5. gr. Vigtun og skráning.
- 6. gr. Birting leyfa til öflunar sjávargróðurs.
- 7. gr. Eftirlit.
- 8. gr. Ýmis ákvæði um slátt á klóþangi.
- 9. gr. Ýmis ákvæði um þara.
- 10. gr. Viðurlög o.fl.
- 11. gr. Gildistaka.
1. gr. Gildissvið.
Um alla öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands fer samkvæmt reglugerð þessari. Enginn má stunda öflun á sjávargróðri í atvinnuskyni nema hafa til þess tilskilin leyfi.
Sjávargróður tekur til þangs og þara sem finna má í fiskveiðilandhelginni, þ.e. á hafsvæðinu frá stórstraumsfjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands.
2. gr. Leyfi og samkomulag vegna þangsláttar.
Enginn má stunda þangslátt í atvinnuskyni nema hafa fengið til þess leyfi sem Fiskistofa gefur út til allt að fimm ára í senn. Leyfið skal bundið við þau sláttutæki, eða sláttupramma, sem hagnýtt eru af leyfishafa. Leyfið er óskiptanlegt og óframseljanlegt.
Ef öflun sjávargróðurs er innan netlaga sjávarjarðar þarf enn fremur samkomulag og samþykki ábúanda eða landeigenda skv. 7. gr. c. jarðalaga, nr. 81/2004. Nægilegt er að meiri hluti eigenda veiti samþykki sé samkomulag ekki til lengri tíma en tíu ára, sbr. 2. mgr. 7. gr. c. jarðalaga. Skylt er að veita Fiskistofu aðgang að slíku samkomulagi, verði eftir því leitað, m.a. vegna skráningar sjávargróðurs í aflaskráningarkerfi og lögbundinna stjórnsýsluverkefna og eftirlits stofnunarinnar.
Óheimilt er að stunda slátt á svæði þegar færri en fern áramót eru liðin síðan svæðið var slegið síðast. Fiskistofa getur veitt undanþágu frá þessu að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar og Hafrannsóknastofnunar.
3. gr. Leyfi vegna öflunar sjávargróðurs utan netlaga.
Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni utan netlaga skal háð leyfi Fiskistofu, skv. 15. gr. b. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
Sé talin þörf á að koma í veg fyrir staðbundna ofnýtingu á tilteknum sjávargróðri, skal leyfi til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni utan netlaga einnig háð leyfi skv. 1. mgr. auk almenns veiðileyfis, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, en Fiskistofa getur gefið út slíkt leyfi til allt að tíu ára í senn.
4. gr. Skilyrði fyrir útgáfu leyfa.
Eftirfarandi skilyrði gilda hvort sem er fyrir útgáfu leyfa Fiskistofu fyrir þangslætti, sbr. 2. gr., til allt að fimm ára í senn eða fyrir öflun sjávargróðurs, utan netlaga, sbr. 3. gr., til allt að tíu ára í senn.
Leyfi eru háð því skilyrði að leyfishafi hafi gert nýtingaráætlun um öflun sjávargróðurs sem gildi a.m.k. í fimm ár í senn. Skal áætlun uppfærð áður en öflun sjávargróðurs hefst á hverju ári. Í henni skal greina hvaða tæki verði hagnýtt við öflun, hversu miklu magni af sjávargróðri verði aflað, hvar öflun fari fram og eftir atvikum hvaða svæði verði hvíld til að örva endurvöxt. Skal áætlunin byggjast á mati á lífmassa og líklegu aðgengi. Leitast skal við að gera grein fyrir áhrifum nýtingar á umhverfið, þar með talið áhrifum á viðveru og áhrifum truflunar á atferli fiska, hryggleysingja, sjávarspendýra og fugla með hliðsjón af þeim tækjum og aðferðum sem verða hagnýtt.
Drög að nýtingaráætlun skal leyfishafi kynna Hafrannsóknastofnun skriflega. Hafrannsóknastofnun skal, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, veita umsögn um nýtingaráætlunina.
Leyfishafa er skylt í nýtingaráætlun að greina athugasemdir stofnananna og gera grein fyrir þeim skriflega í nýtingaráætlun og hvernig brugðist hafi verið við þeim.
Ákvæði 3. og 4. mgr. skulu einnig taka til uppfærslu á nýtingaráætlun skv. 2. mgr.
5. gr. Vigtun og skráning.
Um skráningu afla sjávargróðurs fer samkvæmt reglugerð um stafræna skráningu og skil aflaupplýsinga.
Við söfnun á sjó er heimilt að færa sjávargróður á milli skipa en þó skal skrá hvað er tekið af hverju svæði innan netlaga.
Við vigtun og skráningu á sjávargróðri gilda ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla.
6. gr. Birting leyfa til öflunar sjávargróðurs.
Fiskistofa skal birta á vefsíðu stofnunarinnar lista yfir þá aðila sem leyfi hafa skv. 2. og 3. gr. til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni.
7. gr. Eftirlit.
Fiskistofa og Landhelgisgæsla Íslands hafa eftirlit með að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt og er leyfishöfum skylt að gera þessum aðilum kleift að framkvæma athuganir á búnaði og aðstöðu.
8. gr. Ýmis ákvæði um slátt á klóþangi.
Gæta skal þess að festa plantna skaðist ekki við þangslátt og skulu skip, þ.m.t. sláttuprammar (prammar), sem stunda slátt á klóþangi vera þeirrar gerðar að komið sé í veg fyrir að festa rifni frá botni. Hlutfall plantna sem festan fylgir skal ekki vera hærra en áætlað 8%. Stilkur plöntunnar, sem eftir stendur skal að jafnaði ekki vera lægri en 25 sm mælt frá festunni.
9. gr. Ýmis ákvæði um þara.
Ráðherra skal, eftir því sem ástæða er til og að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, meta reglulega hvort ástæða sé til að skipta nýtingarsvæðum sjávargróðurs utan netlaga í afmörkuð svæði eða reinar til að takmarka og vakta nýtingu.
Við öflun þara skal gæta þess að þau tæki sem notuð eru til öflunar valdi ekki neikvæðum áhrifum á þeim svæðum sem öflun fer fram, umfram þau áhrif sem verða af öflun sjávargróðurs, á það svo sem við um notkun slæðu og snúningsmótors. Viðmið og mælikvarðar um umhverfisáhrif sem nýtingaraðili skal fara eftir, skuli unnin og birt af Hafrannsóknastofnun. Eftirlitsaðila ber að fylgjast með umhverfisáhrifum miðað við þau viðmið sem sett eru.
10. gr. Viðurlög o.fl.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, IV. kafla laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 og 15.-21. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, 79/1997.
Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi skv. 2.-3. gr. sé talin ástæða til að takmarka öflun sjávargróðurs eða endurskipuleggja stjórnun hennar.
11. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 15. gr. b. og 16. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, 3. mgr. 9. og 30. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 og 2. mgr. 7. og 14. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997.
Reglugerðin öðlast þegar gildi og á sama tíma fellur brott reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni, nr. 90/2018.
Matvælaráðuneytinu, 3. september 2024.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.