Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 3. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 24. des. 2015
Sýnir breytingar gerðar 24. des. 2015 af rg.nr. 1179/2015

80/2013

Reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Yfirstjórn, markmið og hlutverk.

Ráðherra siglingamála fer með yfirstjórn mála er varða vaktstöð siglinga, en Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd þeirra.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi farþega og áhafna þeirra og efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum.

Til að ná þessu markmiði hefur Siglingastofnun Íslands sett á stofn vaktstöð siglinga sem sinna skal verkefnum samkvæmt lögum um vaktstöð siglinga. Vaktstöð siglinga rekur eftirlits- og upplýsingakerfi fyrir umferð á sjó með það að markmiði að auka öryggi og skilvirkni skipaumferðar og bæta viðbrögð við atvikum, slysum eða hættum sem kunna að skapast á sjó og stuðla þannig að bættu öryggi sjófarenda og því að koma í veg fyrir eða greina mengun af völdum skipa. Vaktstöðin skal jafnframt hafa eftirlit með og gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að skipstjórar, rekstraraðilar eða umboðsaðilar skipa, sem og farmsendendur eða eigendur hættulegra eða mengandi vara sem fluttar eru með slíkum skipum, uppfylli kröfur reglugerðar þessarar.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að gera þjónustusamning um rekstur vaktstöðvarinnar og þau verkefni sem vaktstöðin skal hafa með höndum og fer um samstarf aðila samkvæmt þeim þjónustusamningi.

2. gr. Gildissvið.

Þessi reglugerð gildir um öll skip sem sigla í íslenskri efnahagslögsögu nema annað sé tekið fram.

Ákvæði II. kafla reglugerðarinnar um tilkynningar frá skipum og eftirlit með þeim gildir um skip sem eru 300 brúttótonn að stærð og stærri, nema annað sé tekið fram.

Nema annað sé tekið fram gilda ákvæði II. kafla ekki um:

  1. herskip, hjálparskip í flota eða önnur skip í eigu eða rekstri ríkisins sem eru starfrækt af hinu opinbera og ekki í viðskiptaskyni;
  2. fiskiskip, skip af hefðbundinni gerð og skemmtibátar styttri en 45 metrar;
  3. eldsneyti um borð í skipum undir 1.000 brúttótonnum að stærð, vistir fyrir skip og búnað til notkunar um borð í öllum skipum.

Ákvæði IV. kafla reglugerðarinnar um sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa tekur til allra íslenskra skipa.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. "viðeigandi alþjóðagerningar": eftirfarandi gerningar í uppfærðum útgáfum sínum:

    • MARPOL-samningurinn: alþjóðasamningur um varnir gegn mengun frá skipum, 1973, og bókunin við hann frá 1978;
    • SOLAS-samningurinn: alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu, ásamt bókunum við hann og breytingum á honum;
    • alþjóðasamningur um mælingar skipa frá 1969;
    • alþjóðasamningur um íhlutun á úthafinu þegar óhöpp koma fyrir sem valda, eða geta valdið, olíumengun, frá 1969, ásamt bókun við hann frá 1973 um íhlutun á úthafinu ef mengun á sér stað af völdum annarra efna en olíu;
    • SAR-samningurinn: alþjóðasamningur um leit og björgun á sjó, 1979;
    • ISM-alþjóðareglurnar: alþjóðareglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öryggisstjórnun;
    • IMDG-alþjóðareglurnar: alþjóðareglur um flutning hættulegra vara á sjó;
    • IBC-alþjóðareglurnar (alþjóðareglur um efnaflutningaskip): alþjóðareglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um smíði og búnað skipa sem flytja búlkafarma af fljótandi gastegundum;
    • IGC-alþjóðareglurnar (alþjóðareglur um gasflutningaskip): alþjóðareglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um smíði og búnað skipa sem flytja búlkafarma af fljótandi gastegundum;
    • BC-reglurnar: reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um örugga meðhöndlun búlkafarma í föstu formi;
    • INF-reglurnar: reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öryggi í flutningi á geisluðu, kjarnakleyfu eldsneyti, plútóni og úrgangi með mikla geislavirkni í geymum um borð í skipum;
    • ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.851(20): ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.851(20) undir yfirskriftinni "grundvallarreglur um tilkynningaskyldukerfi skipa og upplýsingaskyldu skipa, þar með taldar leiðbeiningar um tilkynningu atvika þar sem hættulegar vörur, skaðleg efni og/eða sjávarmengunarvaldar eiga í hlut;
    • ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.917(22): ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar 917(22) sem ber yfirskriftina "Leiðbeiningar um notkun sjálfvirks auðkenniskerfis (AIS) um borð í skipum" eins og þeim var breytt með ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.956(23);
    • ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.949(23): ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar 949(23) sem ber yfirskriftina "Leiðbeiningar um skipaafdrep fyrir skip sem þarfnast aðstoðar";
    • ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.950(23): ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar 950(23) sem ber yfirskriftina "Þjónusta til aðstoðar á sjó (MAS)";
    • leiðbeiningar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um sanngjarna meðferð farmanna ef sjóslys á sér stað: leiðbeiningarnar sem fylgja með í viðauka við ályktun laganefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar 3(91) (LEG.3(91)) frá 27. apríl 2006, eins og þær voru samþykktar á 296. fundi stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) 12.-16. júní 2006".
  2. "rekstraraðili": eigandi eða útgerðarmaður skips;
  3. "umboðsaðili": einstaklingur með umboð eða heimild til að veita upplýsingar fyrir hönd rekstraraðila skips;
  4. "farmsendandi": einstaklingur sem gerir samning, eða samningur er gerður í hans nafni eða fyrir hans hönd, við flutningafyrirtæki um flutning á vörum;
  5. "félag": félag í skilningi 2. mgr. 1. reglu í IX. kafla SOLAS-samningsins;
  6. "skip": hvers kyns skip eða far sem siglir á opnu hafi;
  7. "hættulegar vörur":

    • vörur sem eru flokkaðar samkvæmt IMDG-alþjóðareglunum,
    • hættuleg, fljótandi efni sem talin eru upp í 17. kafla IBC-alþjóðareglnanna,
    • fljótandi gastegundir sem taldar eru upp í 19. kafla IGC-alþjóðareglnanna,
    • föst efni sem um getur í viðbæti B í BC-reglunum.

      Einnig eru innifaldar vörur sem eru háðar viðeigandi forsendum um flutning í samræmi við málsgrein 1.1.3 í IBC-alþjóðareglunum eða málsgrein 1.1.6 í IGC-alþjóðareglunum;
  8. "mengandi vörur":

    • olíur samkvæmt skilgreiningu í I. viðauka við MARPOL-samninginn;
    • fljótandi eiturefni samkvæmt skilgreiningu í II. viðauka við MARPOL-samninginn;
    • skaðleg efni samkvæmt skilgreiningu í III. viðauka við MARPOL-samninginn;
  9. "farmflutningseining": ökutæki til flutninga á vegum, vagn til að flytja farm með járnbrautum, flutningagámur, tankbifreið, járnbrautartankvagn eða færanlegur geymir;
  10. "póstfang": nafn og boðleiðir sem nota má, ef nauðsyn krefur, til að ná sambandi við rekstraraðila, umboðsaðila, hafnaryfirvald, lögbært yfirvald eða annan viðurkenndan einstakling eða aðila sem býr yfir nákvæmum upplýsingum um farm skipsins;
  11. "lögbær yfirvöld": yfirvöld sem aðildarríki EES-samningsins hafa tilnefnt til að annast verkefni samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/75/EBE, með síðari breytingum, eins og nánar er tilgreint í viðeigandi greinum reglugerðar þessarar;
  12. "hafnaryfirvald": hafnarstjóri eða annar aðili sem sveitarfélag hefur tilnefnt til að taka á móti og framsenda upplýsingar sem gefnar eru samkvæmt reglugerð þessari;
  13. "neyðarhöfn eða skipaafdrep": höfn, hluti hafnar eða annars öruggs skipalægis eða akkerislægis eða annað skýlt svæði sem Siglingastofnun Íslands auðkennir til að taka á móti nauðstöddum skipum;
  14. "strandstöð": sérhver eftirtalinna aðila sem tilnefndur er af hálfu aðildarríkjanna í samræmi við tilskipun 2002/59/EB: skipaumferðarþjónusta; stöð á landi sem ber ábyrgð á rekstri tilkynningarskyldukerfis sem samþykkt er af Alþjóðasiglingamálastofnuninni; eða aðili sem ber ábyrgð á að samræma leitar- og björgunaraðgerðir eða aðgerðir til að fást við mengun á sjó. Íslensk stjórnvöld hafa komið á sérstöku skipulagi í kringum slíkan rekstur, þ.e. "vakstöð siglinga", sem veitir skipum sem sigla um íslenska efnahagslögsögu m.a. öryggisþjónustu í samræmi við lög um vaktstöð siglinga. Jafnframt tekur vaktstöð siglinga á móti tilkynningum vegna flutnings á hættulegum efnum, sbr. lög um varnir gegn mengun hafs og stranda;
  15. "skipaumferðarþjónusta": þjónusta sem ætlað er að efla öryggi og skilvirkni skipaumferðar og vernda umhverfið, sem hefur möguleika á gagnvirkum samskiptum við skipin og getur brugðist við umferðaraðstæðum sem skapast á skipaumferðarþjónustusvæðinu;
  16. "leiðastjórnunarkerfi skipa": hvers konar kerfi einnar eða fleiri siglingaleiða eða ráðstafana til leiðastjórnunar sem ætlað er að draga úr hættu á slysum. Það tekur til aðskildra siglingaleiða, tvístefnuleiða, leiða sem mælt er með, svæða sem forðast ber, grunnleiða, umferðarhringja, varúðarsvæða og djúpleiða;
  17. "skip af hefðbundinni gerð": allar tegundir sögulegra skipa og eftirlíkinga þeirra, þar með talin skip hönnuð til að hvetja til þess að hefðbundið verklag og sjómennska fari ekki forgörðum, standi sem lifandi menningarverðmæti og sé innt af hendi samkvæmt hefðbundnum grundvallarreglum sjómennsku og tækni;
  18. "slys": slys í merkingu kóða Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um rannsóknir á slysum og óhöppum á sjó, sbr. lög um rannsókn sjóslysa;
  19. "SafeSeaNet-kerfið": rafrænt tilkynningakerfi EES-ríkjanna um skipakomur, þróað af hálfu framkvæmdastjórnar ESB í samstarfi við EES-ríkin til að tryggja beitingu löggjafar samkvæmt EES-samningnum;
  20. "áætlunarsiglingar": siglingar skips milli tveggja eða fleiri hafna, annaðhvort samkvæmt útgefinni áætlun eða með svo reglulegum eða tíðum ferðum að telja má að um reglubundnar ferðir sé að ræða;
  21. "fiskiskip": hvert það skip sem hefur búnað til að hagnýta lífríki vatna og sjávar í ábataskyni;
  22. "skip sem þarfnast aðstoðar": skip við aðstæður sem kunna að valda því að það farist eða hafi í för með sér umhverfishættu eða siglingahættu, sbr. þó ákvæði SAR-samningsins;
  23. "kerfi til auðkennis- og fjarvöktunar skipa": kerfi til auðkennis- og fjarvöktunar skipa í samræmi við SOLAS-reglu V/19-1.

II. KAFLI

A. Tilkynningar frá skipum og eftirlit með þeim.

4. gr. Tilkynning áður en komið er til hafnar á Íslandi.

Rekstraraðili, umboðsaðili eða skipstjóri skips sem er á leið til hafnar á Íslandi skal senda þær upplýsingar sem koma fram í 1. mgr. I. viðauka reglugerðar þessarar, til vaktstöðvar siglinga:

  1. með að minnsta kosti 24 klukkustunda fyrirvara, eða;
  2. eigi síðar en þegar skip heldur frá fyrri höfn ef siglingatíminn er undir 24 klukkustundum, eða;
  3. ef ekki er vitað hver viðkomuhöfnin er eða ef henni er breytt meðan á siglingu stendur, eins fljótt og upplýsingar þess efnis liggja fyrir.

Skip sem koma frá höfn utan EES-ríkja og eru á leið til hafnar á Íslandi með hættulegar eða mengandi vörur skulu uppfylla tilkynningarskyldu samkvæmt 13. gr.

5. gr. Eftirlit með skipum sem sigla inn á svæði sem heyra undir tilkynningarskyldu.

Vaktstöð siglinga skal hafa eftirlit með og gera nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að öll skip sem sigla inn á svæði þar sem tekið hefur verið upp tilkynningarskyldukerfi sem krafist er í samræmi við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A851(20). Tilkynningarskyldukerfi skal viðurkennt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni í samræmi við 11. reglu í V. kafla SOLAS-samningsins og starfrækt af einu eða fleiri ríkjum, þar af skal að minnsta kosti eitt vera EES-ríki, í samræmi við viðeigandi leiðbeiningar og viðmiðanir sem unnar eru á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Þegar tillögur um ný tilkynningarskyldukerfi eða um breytingar á gildandi tilkynningarskyldukerfi eru lagðar fram til samþykktar hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni skal láta a.m.k. upplýsingar, sem vísað er til í 4. mgr. I. viðauka reglugerðar þessarar, fylgja með.

6. gr. Notkun sjálfvirkra auðkenniskerfa (AIS).

Hvert það skip sem kemur til hafnar á Íslandi skal, í samræmi við tímaáætlunina sem tilgreind er í 1. mgr. II. viðauka reglugerðar þessarar, vera búið sjálfvirku auðkenniskerfi (AIS) sem uppfyllir staðla sem unnir eru á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, sbr. nú viðauka 3 ályktunar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.74(69).

Skip sem búin eru sjálfvirku auðkenniskerfi skulu ætíð hafa kerfið í gangi nema ef alþjóðasamningar, reglur eða viðmiðanir kveða á um vernd siglingafræðilegra upplýsinga.

6. gr. a Notkun fiskiskipa á sjálfvirkum auðkenniskerfum (AIS).

Hvert það erlenda fiskiskip, sem er lengra en 15 metrar að mestu lengd, siglir undir fána EES-ríkis og er skráð eða starfrækt á innsævi eða í landhelgi EES-ríkis eða landar afla sínum í höfn þess skal, í samræmi við tímaáætlunina, sem tilgreind er í 3. mgr. I. hluta II. viðauka, vera búið sjálfvirku auðkenniskerfi (A-flokkur) sem uppfyllir viðmiðanir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um afkastagetu.

Öll íslensk fiskiskip skulu vera búin sjálfvirku auðkenniskerfi (AIS-A tæki) sem uppfyllir staðla Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Fiskiskipum 15 metrar og styttri að mestu lengd er þó heimilt að senda tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi skipa (AIS-B tæki), sbr. 1. mgr. 27. gr. reglugerðar þessarar.

Fiskiskip sem búin eru sjálfvirku auðkenniskerfi skulu ætíð hafa kerfið í gangi. Í undantekningartilvikum má slökkva á sjálfvirka auðkenniskerfinu telji skipstjóri það nauðsynlegt í þágu öryggis eða verndar skipsins. Skipstjóri skips skal tilkynna án tafar um slíkt tilvik til vaktstöðvar siglinga og jafnframt reglulega um staðsetningu, stefnu og hraða skipsins, þar til kveikt er á auðkenniskerfinu á ný. Óheimilt er skipstjóra fiskiskips að láta úr höfn ef auðkenniskerfið er bilað nema með samþykki vaktstöðvar siglinga. Þar til búnaðurinn er kominn í lag skal með öðrum hætti senda vaktstöð siglinga upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða skipsins á 6 klukkutíma fresti.

6. gr. b Notkun kerfa til auðkennis- og fjarvöktunar skipa (LRIT).

Skip, sem falla undir SOLAS-reglu V/19-1 og viðmiðanir um afkastagetu og kröfur um virkni, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt, skulu hafa um borð búnað til auðkennis- og fjarvöktunar skipa sem uppfyllir kröfur þeirrar reglu þegar þau koma til hafnar á Íslandi:

  1. farþegaskip;
  2. skip sem eru 300 brúttótonn að stærð og stærri og
  3. hreyfanlegir borpallar.

7. gr. Notkun leiðastjórnunarkerfa fyrir skip.

Vaktstöð siglinga skal hafa eftirlit með og gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að öll skip sem sigla inn á svæði skyldubundins leiðastjórnunarkerfis skipa noti kerfið í samræmi við viðeigandi leiðbeiningar og viðmiðanir sem unnar eru á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Leiðastjórnunarkerfið skal vera viðurkennt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni í samræmi við 10. reglu í V. kafla SOLAS-samningsins og starfrækt af einu eða fleiri ríkjum, þar af skal að minnsta kosti eitt vera EES-ríki.

Siglingastofnun Íslands skal við framkvæmd leiðastjórnunarkerfis, sem hún ber ábyrgð á og hefur ekki verið samþykkt af hálfu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, taka mið af leiðbeiningum og viðmiðunarreglum sem unnar eru á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og koma öllum nauðsynlegum upplýsingum á framfæri svo að leiðastjórnunarkerfið verði öruggt og skilvirkt í notkun.

8. gr. Eftirlit með því að skip hlíti reglum skipaumferðarþjónustu og tilkynningarskyldu.

Vaktstöð siglinga skal fylgjast með og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

  1. skip sem siglir inn á skipaumferðarþjónustusvæði vaktstöðvar siglinga innan landhelgi Íslands taki þátt í og hlíti lögum og reglugerðum vaktstöðvar siglinga, sem settar hafa verið skv. leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar;
  2. skip sem siglir undir fána EES-ríkis eða skip sem er á leið til hafnar á Íslandi og siglir inn á skipaumferðarþjónustusvæði vaktstöðvar siglinga utan landhelgi Íslands, hlíti lögum og reglugerðum vaktstöðvar siglinga, sem settar hafa verið skv. leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar;
  3. skip sem siglir undir fána ríkis utan EES-svæðisins og er ekki á leið til hafnar á Íslandi en siglir inn á skipaumferðarþjónustusvæði vaktstöðvar siglinga utan landhelgi Íslands, fylgi lögum og reglum vaktstöðvar siglinga eftir því sem við á.

Vaktstöð siglinga skal tilkynna fánaríki skips um augljós og alvarleg brot á lögum og reglugerðum um vaktstöð siglinga á skipaumferðarþjónustusvæði Íslands.

9. gr. Skipulag tilkynningarskyldukerfa, leiðastjórnunarkerfa skipa og umferðarþjónustu.

Siglingastofnun Íslands skal ráðstafanir til að koma upp viðeigandi búnaði og stöðvum í landi, í samræmi við tímaáætlunina sem tilgreind er í I. lið II. viðauka reglugerðar þessarar, til að taka á móti og nýta upplýsingar frá sjálfvirka auðkenniskerfinu að teknu tilliti til nauðsynlegs sendingarsviðs tilkynninganna.

Siglingastofnun Íslands skal tryggja að vaktstöð siglinga, sem fylgist með því hvort reglum skipaumferðarþjónustu og leiðastjórnunarkerfa skipa sé fylgt, hafi yfir að ráða nægu og hæfu starfsliði og viðeigandi búnaði til samskipta og eftirlits skipa og að þau séu starfrækt í samstarfi við viðeigandi leiðbeiningar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

10. gr. Siglingariti.

Í tengslum við hafnarríkiseftirlit skal Siglingastofnun Íslands hafa eftirlit með og gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að skip sem koma til hafnar á Íslandi séu búin siglingarita í samræmi við reglurnar sem kveðið er á um í II. lið í II. viðauka reglugerðar þessarar.

Upplýsingar sem safnað er úr siglingarita skulu gerðar aðgengilegar EES-ríki, sem í hlut á, ef rannsókn verður gerð í kjölfar slyss á hafsvæði innan íslenskrar lögsögu. Tryggja skal að slíkar upplýsingar séu notaðar í þágu rannsóknarinnar og þær greindar á viðeigandi hátt. Rannsóknarnefnd sjóslysa skal tryggja að niðurstöður rannsóknarinnar séu birtar eins fljótt og unnt er eftir að þær liggja fyrir, skv. lögum um rannsókn sjóslysa, með síðari breytingum.

11. gr.

[Hér á að vera eyða, sbr. 24. gr. tilskipunar 2009/18/EB.]

B. Tilkynning um hættulegar eða mengandi vörur um borð í skipum (Hazmat).

12. gr. Upplýsingaskylda að því er varðar flutning hættulegs varnings.

Óheimilt er að bjóða til flutnings hættulegan eða mengandi varning eða taka hann um borð í skip, óháð stærð þess, í höfn á Íslandi nema yfirlýsing með eftirfarandi upplýsingum hafi verið afhent skipstjóra eða rekstraraðila skipsins, áður en varningurinn er lestaðar:

  1. upplýsingar sem tilgreindar eru í 2. lið I. viðauka við reglugerð þessa,
  2. öryggisblað þar sem tilgreindir eru eðlisefnafræðilegir eiginleikar varanna, þ.m.t. eftir atvikum, seigja þeirra gefin upp í sentistókum (cSt) við 50°C, og eðlismassi við 15°C ásamt öðrum gögnum sem eru að finna á öryggisblaðinu í samræmi við ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (MSC.286(86)), að því er varðar efni, sem um getur í I. viðauka við MARPOL-samninginn,
  3. neyðarnúmeri farmsendanda eða annars einstaklings eða aðila sem hefur yfir upplýsingum að ráða um eðlisefnafræðilega eiginleika varningsins og um þær ráðstafanir sem grípa á til í neyð.

Skip sem koma frá höfn utan EES-ríkis og koma til hafnar á Íslandi, og hafa hættulegan og mengandi varning um borð, skulu hafa yfirlýsingu frá farmsendanda, þar sem tilgreindar eru nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt a-, b- og c-lið 1. mgr.

Farmsendanda er skylt og það er á ábyrgð hans að afhenda skipstjóra eða rekstraraðila skips yfirlýsingu skv. 1. mgr. og tryggja að farmurinn, sem boðinn er til flutnings, sé raunverulega sá sem lýst er, sbr. 1. mgr.

13. gr. Tilkynning um hættulegar eða mengandi vörur um borð í skipum.

Rekstraraðili, umboðsaðili eða skipstjóri skips, óháð stærð þess, sem flytur hættulegar eða mengandi vörur og lætur úr höfn í EES-ríki skal eigi síðar en við brottför senda inn upplýsingarnar sem tilgreindar eru í 3. lið I. viðauka reglugerðar þessarar til vaktstöðvar siglinga.

Rekstraraðili, umboðsaðili eða skipstjóri skips, óháð stærð þess, sem flytur hættulegar eða mengandi vörur sem koma frá höfn utan EES-ríkja og eru á leið til hafnar á Íslandi eða til akkerislægis í landhelgi Íslands skal hið síðasta við brottför frá lestunarhöfn, eða eins fljótt og auðið er eftir að vitað er hver ákvörðunarhöfn eða staðsetning akkerislægis er, séu þessar upplýsingar ekki tiltækar við brottför, senda inn upplýsingarnar, sem tilgreindar eru í 3. lið I. viðauka, til vaktstöðvar siglinga.

Vaktstöð siglinga getur heimilað rekstraraðila, umboðsaðila eða skipstjóra skips, sem um getur í 1. og 2. mgr., að senda inn upplýsingarnar sem tilgreindar eru í 3. lið I. viðauka reglugerðar þessarar til hafnaryfirvalda í brottfararhöfn í EES-ríki eða ákvörðunarhöfn á Íslandi, eftir því sem við á.

Málsmeðferð sem tekin er upp skv. 3. mgr., verður að tryggja að vaktstöð siglinga hafi ætíð aðgang að upplýsingunum sem tilgreindar eru í 3. lið I. viðauka reglugerðar þessarar, ef þörf krefur. Í þessu skyni skal hafnaryfirvald, sem í hlut á, geyma upplýsingarnar, sem tilgreindar eru í 3. lið I. viðauka reglugerðar þessarar, nógu lengi til að þær megi nota ef atvik eða slys á sjó ber að höndum. Hafnaryfirvald skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að geta útvegað vaktstöð siglinga þessar upplýsingar á rafrænu formi allan sólarhringinn sé þess óskað.

Rekstraraðili, umboðsaðili eða skipstjóri skipsins skal senda inn farmupplýsingar sem tilgreindar eru í 3. lið I. viðauka reglugerðar þessarar til vaktstöðvar siglinga.

Upplýsingar skulu sendar með rafrænum hætti þegar því verður við komið. Í rafrænum boðskiptum ber að nota þá tilhögun sem tilgreind er í III. viðauka.

14. gr. Rafrænir gagnaflutningar milli Íslands og EES-ríkja.

Siglingastofnun Íslands skal vinna að því með EES-ríkjum að tryggja samtengingu og rekstrarsamhæfi innanlandskerfa sem notuð eru til að meðhöndla upplýsingar sem tilgreindar eru í I. viðauka reglugerðar þessarar. Samskiptakerfi (SafeSeaNet), sem sett er upp samkvæmt fyrstu undirgrein, skulu uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:

  1. gagnaflutningar skulu vera rafrænir og unnt skal vera að taka á móti og meðhöndla tilkynningar samkvæmt 13. gr.;
  2. kerfið skal vera þannig úr garði gert að hægt sé að senda upplýsingar allan sólarhringinn;
  3. vaktstöð siglinga skal, sé þess óskað, senda upplýsingar um skip og hættulegar og mengandi vörur um borð án tafar til lögbærra yfirvalda eða staðaryfirvalda í öðru EES-ríki fyrir milligöngu SafeSeaNet-kerfisins í þágu siglingaöryggis, siglingaverndar eða verndar sjávarumhverfis.

15. gr. Undanþágur.

Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita þeim sem stunda áætlunarsiglingar innanlands undanþágu frá kröfunum sem kveðið er á um í 4. og 13. gr. að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. að félagið sem sinnir áætlunarsiglingunum haldi og uppfæri skrá yfir þau skip sem um ræðir og sendi hana til vaktstöðvar siglinga,
  2. að upplýsingarnar, sem óskað er eftir samkvæmt 1. eða 3. lið I. viðauka, eins og við á, og varða sérhverja farna sjóferð, séu til reiðu, að beiðni vaktstöðvar siglinga. Félagið skal koma upp innra kerfi sem getur, ef þess er óskað, sent slíkar upplýsingar til vaktstöðvar siglinga með rafrænum hætti, allan sólarhringinn og án tafar, í samræmi við 1. mgr. 4. gr. eða 4. mgr. 13. gr., eftir því sem við á,
  3. að verði frávik frá áætluðum komutíma til ákvörðunarhafnar eða hafnsögustöðvar sem nema þremur klukkustundum eða meira, skal það tilkynnt til komuhafnar eða til vaktstöðvar siglinga í samræmi við 4. eða 13. gr., eins og við á,
  4. að undanþágur séu aðeins veittar einstaka skipum að því er varðar tiltekna þjónustu.

Þjónusta samkvæmt a-lið 1. mgr. telst ekki til áætlunarsiglinga nema ætlunin sé að starfrækja hana í a.m.k. einn mánuð.

Undanþágur frá kröfunum í 4. og 13. gr. skulu takmarkast við sjóferðir sem vara í allt að 12 klukkustundir samkvæmt áætlun.

Ef alþjóðlegar áætlunarsiglingar eru stundaðar milli Íslands og annarra ríkja, þ.m.t. EES-ríkja getur EES-ríki farið fram á að Siglingastofnun Íslands veiti undanþágu fyrir þessa þjónustu af hálfu Íslands. Siglingastofnun skal hafa samstarf við önnur EES-ríki, sem í hlut eiga, þ.m.t. viðkomandi strandríki, um að veita undanþágu í samræmi við skilyrðin í 1. mgr.

Siglingastofnun Íslands skal reglulega ganga úr skugga um að skilyrði undanþágu samkvæmt þessari grein séu uppfyllt. Sé einu af framangreindum skilyrðum ekki lengur fullnægt, skal undanþágan tafarlaust afturkölluð.

Siglingastofnun Íslands skal senda Eftirlitsstofnun EFTA skrá yfir félög og skip sem hafa fengið undanþágur samkvæmt þessari grein svo og allar uppfærslur á þeirri skrá.

C. Eftirlit með hættulegum skipum og íhlutun verði atvik eða slys á sjó.

16. gr. Miðlun upplýsinga um tiltekin skip.

Skip sem falla innan ramma viðmiðana, sem getið er hér á eftir, teljast vera skip sem kunna að ógna skipaumferð, siglingaöryggi, öryggi einstaklinga eða umhverfinu:

  1. skip sem í sjóferð sinni:

    • hafa tengst atvikum eða slysum á sjó sem um getur í 17. gr.; eða
    • hafa ekki uppfyllt tilkynningar- og upplýsingaskyldu sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð; eða
    • hafa ekki uppfyllt gildandi lög eða reglur leiðastjórnunarkerfa skipa og skipaumferðarþjónustu sem eru á ábyrgð vaktstöðvar siglinga;
  2. skip sem sannað þykir eða miklar líkur eru á að hafi vísvitandi losað olíu eða brotið ákvæði MARPOL-samningsins með öðrum hætti á hafsvæðum innan íslenskrar lögsögu;
  3. skip sem synjað hefur verið um aðgang að höfnum EES-ríkja eða hefur sætt skýrslugjöf eða tilkynningu frá öðru EES-ríki í samræmi við reglugerð um hafnarríkiseftirlit;
  4. skip sem hafa ekki sent frá sér tilkynningu eða hafa hvorki tryggingarskírteini né fjárhagslegar tryggingar samkvæmt EES-löggjöf og alþjóðlegum reglum;
  5. skip sem hafnsögumenn eða hafnaryfirvöld hafa tilkynnt um að séu greinilega vanbúin með þeim hætti að það gæti ógnað öruggri siglingu þeirra eða stefnt umhverfinu í hættu.

Vaktstöð siglinga skal koma upplýsingum samkvæmt 1. mgr. á framfæri við hlutaðeigandi vakt- eða strandstöðvar í öðrum EES-ríkjum sem er að finna meðfram fyrirhugaðri siglingaleið skipsins.

Vaktstöð siglinga skal tryggja að upplýsingunum, sem henni eru sendar samkvæmt 2. mgr., sé miðlað til hlutaðeigandi hafnaryfirvalda og/eða annarra yfirvalda tilnefndra af EES-ríki. Innan þeirra takmarka sem Siglingastofnun Íslands er sett með tilliti til fjölda starfsmanna skal hún framkvæma hvers kyns viðeigandi skoðanir og sannprófanir í höfnum sínum, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni annars EES-ríkis, án þess að brjóta í bága við skyldur sínar hvað varðar hafnarríkiseftirlit. Stofnunin skal upplýsa öll hlutaðeigandi EES-ríki um niðurstöður þeirra aðgerða sem hún grípur til.

17. gr. Tilkynningar um atvik og slys á sjó.

Án þess að brjóta í bága við þjóðarétt og með það að markmiði að fyrirbyggja eða draga úr hvers kyns hættum sem ógna siglingaöryggi, öryggi einstaklinga eða umhverfis skal vaktstöð siglinga, hafa eftirlit með og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að skipstjóri skips sem siglir innan íslenskrar efnahagslögsögu tilkynni tafarlaust til vaktstöðvar siglinga um eftirfarandi:

  1. sérhvert atvik eða slys sem hefur áhrif á öryggi skipsins, svo sem árekstur, strand, skemmdir, löskun eða bilun, innflæði vatns, eldsvoða eða tilfærslu á farmi, skemmdir á bol eða bilun í burðarvirki;
  2. sérhvert atvik eða slys sem ógnar öryggi í siglingum svo sem bilanir sem líkur eru á að hafi áhrif á stjórnhæfni skipsins eða haffæri þess eða galla sem kunna að hafa áhrif á aðalvélbúnað eða stýrisbúnað, raforkuframleiðslubúnað, siglingatæki eða fjarskiptabúnað;
  3. hverjar þær aðstæður sem kunna að valda mengun hafs eða stranda, svo sem losun eða hættu á losun mengandi vara í hafið;
  4. hvers kyns brák af mengandi efnum og ílát eða pakka sem sjást fljóta á sjónum.

Tilkynning samkvæmt 1. mgr., skal a.m.k. innihalda auðkenni skipsins, staðarákvörðun þess, brottfararhöfn, ákvörðunarhöfn, póstfang þar sem unnt er að afla upplýsinga um hættulegar og mengandi vörur um borð, fjölda einstaklinga um borð, upplýsingar um atvikið og hvers kyns viðeigandi upplýsingar sem um getur í ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.851(20).

Vaktstöð siglinga skal upplýsa rannsóknarnefnd sjóslysa um tilkynningar skv. a-lið 1. mgr. þessarar greinar. Jafnframt skal vaktstöðin tafarlaust senda upplýsingar um tilkynningar skv. a-d-lið 1. mgr. til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Umhverfisstofunar.

18. gr. Ráðstafanir vegna óvenju slæms veðurs og/eða sjólags.

Telji vaktstöð siglinga að öryggi mannslífa sé í hættu eða að alvarleg hætta sé á mengun í óvenju slæmu veðri og/eða sjólagi eða vegna annarra aðstæðna á siglingaleiðum eða strandsvæðum við Ísland eða á siglingaleiðum eða strandsvæðum annarra ríkja skal hún:

  1. þegar þess er kostur upplýsa skipstjóra skips sem er statt innan hlutaðeigandi hafnarsvæðis og fyrirhugað er að sigla til þeirrar hafnar eða úr þeirri höfn um veður og sjólag og, ef við á og unnt er, um hættur sem steðja kunna að skipi hans, farmi, áhöfn og farþegum;
  2. með fyrirvara um þá skyldu að aðstoða nauðstödd skip og í samræmi við 20. gr. reglugerðar þessarar, grípa til annarra viðeigandi ráðstafana í samráði við og á ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands sem geta m.a. falið í sér tilmæli eða bann, sem beint er annaðhvort til tiltekins skips eða skipa almennt, við því að koma til hafnar eða halda úr höfn innan tilgreindra svæða þar til sannreynt hefur verið að hættan, sem ógnaði mannslífum og umhverfinu, sé liðin hjá;
  3. gera viðeigandi ráðstafanir, í samráði við og á ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands, til að takmarka eins og unnt er eða banna, ef nauðsyn krefur, töku eigin eldsneytis um borð í skip í efnahagslögsögu Íslands í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda og reglugerðum skv. þeim.

Skipstjóri skal greina félaginu frá viðeigandi ráðstöfunum eða tilmælum sem vísað er til í 1. mgr. Þau skulu þó ekki brjóta í bága við ákvörðun skipstjórans á grunni faglegrar ákvörðunar hans í samræmi við SOLAS-samninginn. Ef ákvörðun skipstjórans er ekki í samræmi við þær ráðstafanir sem vísað er til í 1. mgr. skal hann upplýsa vaktstöð siglinga um ástæðuna sem liggur að baki ákvörðuninni.

Viðeigandi ráðstafanir eða tilmæli sem vísað er til í 1. mgr. skulu byggð á spám um veður og sjólag sem fengnar eru hjá Siglingastofnun Íslands eða Veðurstofu Íslands. Jafnframt skal höfð hliðsjón af upplýsingum úr ískönnunarflugi Landhelgisgæslu Íslands og tilkynningum sjófarenda um hafís og öðrum upplýsingum sem máli skipta.

18. gr. a Ráðstafanir sem gera þarf þegar hætta skapast sökum nálægðar hafíss.

Telji vaktstöð siglinga, í ljósi hafíssaðstæðna, að öryggi mannslífa á hafinu eða verndun siglingaleiða eða strandsvæða þeirra eða annarra ríkja sé alvarleg hætta búin:

  1. skal hún gefa skipstjóra skips á ábyrgðarsvæði hennar, eða sem hyggst sigla til eða frá íslenskri höfn, viðeigandi upplýsingar um hafísaðstæður, ráðlagðar siglingaleiðir og þjónustu ísbrjóta á ábyrgðarsvæði sínu,
  2. er henni heimilt, með fyrirvara um þá skyldu að aðstoða skip sem þarfnast aðstoðar og aðrar skyldur, sem kveðið er á um í viðeigandi alþjóðlegum reglum, að óska eftir því að skip, sem er statt á umræddu svæði og hyggst sigla til eða frá íslenskri höfn eða endastöð eða sigla frá akkerislægi, leggi fram skjöl þess efnis að það uppfylli kröfur um styrk og afl í samræmi við ástand hafíss á svæðinu.

Ráðstafanir, sem gripið er til skv. 1. mgr., skulu, að því er varðar gögn um hafísaðstæður, byggjast á veður- og hafísspám frá Veðurstofu Íslands.

19. gr. Ráðstafanir sem tengjast atvikum eða slysum á sjó.

Verði þau atvik eða slys á sjó sem um getur í 17. gr. er vaktstöð siglinga heimilt að grípa til allra viðeigandi ráðstafana í samræmi við landslög og þjóðarétt ef nauðsyn krefur, til að tryggja öryggi siglinga og einstaklinga og til verndar umhverfi hafs og stranda, eins og nánar er tilgreint í IV. viðauka við reglugerð þessa en ekki er um tæmandi talningu ráðstafana að ræða.

Rekstraraðili, skipstjóri og eigandi hættulegra eða mengandi vara sem eru um borð skulu, í samræmi við innlend lög og þjóðarétt, starfa náið með vaktstöð siglinga og viðeigandi stjórnvöldum með það að markmiði að draga úr afleiðingum atviksins eða sjóslyssins. Í þessu skyni skulu þau senda lögbærum yfirvöldum í hverju EES-ríki, sé þess óskað, upplýsingarnar sem um getur í 12. gr.

Skipstjóri skips sem ákvæði alþjóðareglna um öryggistjórnun skipa og mengunarvarnir (ISM - International Safety Management Code) gilda um, skulu samkvæmt þeim reglum tilkynna félaginu um öll atvik eða slys sem verða á sjó, eins og um getur í 1. mgr. 17. gr. Jafnskjótt og félagið hefur fengið upplýsingar um slíkt óhapp skal það hafa samband við vaktstöð siglinga og bjóða fram aðstoð sína eftir þörfum.

Tekið skal tillit til viðeigandi ákvæða í leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um sanngjarna meðferð farmanna ef sjóslys á sér stað í íslenskri efnahagslögsögu.

20. gr. Stofnanir sem annast móttöku skipa sem þarfnast aðstoðar.

Siglingastofnun Íslands, Landhelgisgæsla Íslands og Umhverfisstofnun skulu taka sjálfstæðar ákvarðanir að eigin frumkvæði um móttöku skipa sem þarfnast aðstoðar í samræmi við lög og reglugerðir viðkomandi stofnana.

Stofnunum samkvæmt 1. mgr. er heimilt, eins og við á og einkum ef siglingaöryggi eða verndun umhverfisins er stofnað í hættu, að grípa til ráðstafana sem tilgreindar eru í IV. viðauka sem eru ekki tæmandi.

Stofnanir samkvæmt 1. mgr. skulu funda reglulega til að skiptast á sérfræðiþekkingu og bæta ráðstafanir sem eru gerðar samkvæmt þessari grein.

20. gr. a Áætlanir um móttöku skipa sem þarfnast aðstoðar.

Siglingastofnun Íslands, Landhelgisgæsla Íslands og Umhverfisstofnun skulu gera áætlanir um móttöku skipa, með það að markmiði að bregðast við hættu af völdum skipa sem þarfnast aðstoðar í íslenskri lögsögu, þ.m.t. eftir atvikum, hætta sem steðjar að öryggi mannslífa og umhverfinu. Um skipulag björgunarstarfa þegar mannslíf eru í hættu fer samkvæmt reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara. Um viðbrögð við mengun í hafi eða við strendur landsins fer samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og viðeigandi reglugerðum. Framangreindar stofnanir skulu taka þátt í að semja áætlanirnar og hrinda þeim í framkvæmd.

Áætlanirnar, sem um getur í 1. mgr., skulu gerðar í samræmi við lög um varnir gegn mengun hafs og stranda að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila, á grunni ályktana Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.949(23) og A.950(23) og skulu a.m.k. fela í sér eftirfarandi:

  1. upplýsingar um stofnun eða stofnanir sem bera ábyrgð á því að taka á móti og meðhöndla viðvaranir,
  2. upplýsingar um stofnun eða stofnanir sem sjá um að meta ástandið og taka ákvörðun um hvort samþykkja eigi eða synja skipi, sem þarfnast aðstoðar, aðgangi að því skipaafdrepi sem valið er,
  3. upplýsingar um strandlengju Íslands og alla þætti sem greiða fyrir fyrirfram mati og skjótri ákvarðanatöku um skipaafdrep, þ.m.t. lýsing á umhverfislegum, efnahagslegum og félagslegum þáttum ásamt náttúrulegum skilyrðum,
  4. upplýsingar um matsferlið í tengslum við samþykki eða synjun á beiðni frá skipi sem þarfnast aðstoðar í skipaafdrepi,
  5. upplýsingar um úrræði og búnað til aðstoðar, björgunar og mengunarvarna,
  6. verklagsreglur um alþjóðlega samræmingu og ákvarðanatöku,
  7. verklagsreglur um fjárhagslegar tryggingar og bótaábyrgð skipa sem tekið er á móti í skipaafdrepi.

Siglingastofnun Íslands skal birta heiti og heimilisfang stofnana, sem um getur í 1. mgr. 20. gr., og stofnunar sem skipuð er til að taka á móti og meðhöndla viðvaranir.

Við innleiðingu verklagsreglna, sem kveðið er á um í áætlunum um móttöku skipa sem þarfnast aðstoðar, skal Siglingastofnun tryggja að viðkomandi upplýsingar séu aðgengilegar þeim aðilum sem taka þátt í aðgerðunum.

Stofnanir samkvæmt 1. mgr. geta bundið afhendingu upplýsinga skv. þessari grein við að trúnaðarskyldu sé gætt.

Siglingastofnun Íslands skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA, eigi síðar en 30. nóvember 2012, um ráðstafanirnar sem gerðar eru til að beita þessari grein.

20. gr. b Ákvörðun um að taka á móti skipum.

Um íhlutun vegna bráðamengunar á hafsvæðinu innan mengunarlögsögu Íslands fer samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda. Stofnanir skv. 1. mgr. 20. gr. skulu hafa samráð um ákvörðunartöku um hvort samþykkt skuli að skip fái aðgang að skipaafdrepi að undangengnu mati á stöðunni á grunni áætlananna sem um getur í 20. gr. a. Þær skulu tryggja að tekið verði á móti skipum í skipaafdrepi ef þau telja að slík móttaka sé sú aðgerð sem sé best fallin til að vernda mannslíf eða umhverfið. Um leit og björgun sjófarenda fer samkvæmt lögum um Landhelgisgæslu Íslands og reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara.

20. gr. c Fjárhagslegar tryggingar og bætur.

Þótt tryggingarskírteini, í skilningi 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum, með síðari breytingum, sbr. siglingalög, sé ekki fyrir hendi, leysir það ekki stofnanir skv. 1. mgr. 20. gr. undan þeirri ábyrgð að láta fara fram bráðabirgðamat og taka ákvörðunina, sem um getur í 20. gr. b, og skal ekki eitt og sér teljast nægileg ástæða þess að neita að taka á móti skipi í skipaafdrepi.

Að teknu tilliti til 1. mgr. má við móttöku skips í skipaafdrepi, óska eftir því við rekstraraðila skipsins, umboðsmann eða skipstjóra að lagt verði fram tryggingarskírteini í skilningi 6. gr. tilskipunar 2009/20/EB, sbr. siglingalög. Slík beiðni skal ekki valda seinkun á móttöku skipsins.

20. gr. d

[Hér á að vera eyða.]

21. gr. Upplýsingar hlutaðeigandi aðila.

Vaktstöð siglinga skal, eftir þörfum, útvarpa á viðkomandi svæðum upplýsingum um öll atvik eða slys, sem tilkynnt hefur verið um samkvæmt 1. mgr. 17. gr., svo og upplýsingum um skip sem ógna siglingaöryggi, öryggi einstaklinga eða umhverfinu.

Þegar vaktstöð siglinga fær upplýsingar sem tilkynnt er um í samræmi við 13. og 17. gr. reglugerðar þessarar, skal hún veita slíkar upplýsingar hvenær sem er, ef lögbært yfirvald annars EES-ríkis fer fram á það af öryggisástæðum.

Nú hefur lögbæru yfirvaldi hér á landi, samkvæmt reglugerð þessari eða á annan hátt, verið tilkynnt um ástand sem hefur í för með sér hættu eða eykur líkur á því að hætta skapist fyrir annað EES-ríki á tilteknum siglingaleiðum eða strandsvæðum og skulu þau gera viðeigandi ráðstafanir til að láta EES-ríki, sem á í hlut, vita af því eins fljótt og auðið er og hafa samráð við það um fyrirhugaðar aðgerðir. Ef við á, skulu lögbær yfirvöld hér á landi hafa samvinnu við önnur EES-ríki með það að markmiði að samnýta ráðstafanirnar til sameiginlegra aðgerða.

Vaktstöð siglinga skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hagnýta sér að fullu þær tilkynningar sem skipum ber að senda henni samkvæmt 17. gr. reglugerðar þessarar.

D. Hliðarráðstafanir.

22. gr. Tilnefning lögbærra aðila og birting skrár yfir þá.

Vaktstöð siglinga skal taka á móti tilkynningum samkvæmt reglugerð þessari. Hún skal miðla þeim áfram til annarra stjórnvalda eftir því sem þjónustusamningar kveða á um hverju sinni.

Siglingastofnun Íslands skal tryggja að hagsmunaaðilum í siglingum berist viðeigandi og reglulega uppfærðar upplýsingar, einkum í siglingahandbókum, um yfirvöld og stöðvar sem tilnefndar hafa verið samkvæmt 1. mgr., þar með talið, eftir því sem við á, landsvæðið sem þau hafa lögsögu yfir og málsmeðferð þá sem kveðið hefur verið á um til að senda inn upplýsingar sem krafist er samkvæmt þessari reglugerð.

Siglingastofnun Íslands skal senda Eftirlitsstofnun EFTA skrá yfir þau stjórnvöld og stöðvar sem tilnefnd eru samkvæmt 1. mgr. og allar uppfærslur á henni.

22. gr. a SafeSeaNet-kerfið.

Siglingastofnun Íslands skal koma á fót upplýsingastjórnunarkerfum um siglingamál fyrir Ísland til að vinna úr upplýsingunum sem um getur í þessari reglugerð.

Með kerfunum, sem komið er á fót skv. 1. mgr., skal vera unnt að nota upplýsingarnar, sem safnað er, með virkum hætti og skal einkum uppfylla skilyrðin sem mælt er fyrir um í 14. gr.

Til að tryggja skilvirk skipti á upplýsingunum, sem um getur í þessari reglugerð skal Siglingastofnun Íslands tryggja að unnt sé að tengja kerfin sem komið er á fót til að safna, vinna úr og varðveita þessar upplýsingar, við SafeSeaNet-kerfið. Lýsingu á SafeSeaNet-kerfinu og meginreglur um það er að finna í III. viðauka.

Að teknu tilliti til 3. mgr., þegar um er að ræða samstarf á grunni samninga innan EES eða innan ramma verkefna sem ná yfir landamæri, svæði eða lönd innan EES, skal Siglingastofnun Íslands tryggja að upplýsingakerfi eða netkerfi uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og að þau séu samhæfð SafeSeaNet-kerfinu og tengd við það.

23. gr. Samstarf milli Siglingastofnunar Íslands og Eftirlitsstofnunar EFTA.

Siglingastofnun Íslands og Eftirlitsstofnun EFTA skulu starfa saman að því að ná eftirtöldum markmiðum:

  1. nýta með sem bestum hætti þær upplýsingar sem tilkynnt er um samkvæmt þessari reglugerð, einkum með því að koma upp viðeigandi gagnaskiptatengingum milli vaktstöðvar siglinga og hafnaryfirvalda, með það að markmiði að skiptast á gögnum sem tengjast ferðum skipa, áætluðum komutíma þeirra til hafna og farmi þeirra;
  2. þróa og efla virkni gagnaskiptatenginga milli vaktstöðva EES-ríkja með það að markmiði að fá betri heildarmynd af umferð, bæta eftirlit með skipum sem eiga leið um svæðið og samræma og eftir föngum hagræða skýrslugerð sem krafist er af hálfu skipa á leið þar um;
  3. færa út svið og/eða uppfæra eftirlits- og upplýsingakerfi EES-ríkja fyrir umferð á sjó, með það markmið að efla auðkenningu og eftirlit með skipum, að teknu tilliti til þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Í þessu skyni skulu Siglingastofnun og Eftirlitsstofnun EFTA vinna saman að því að koma á fót, ef nauðsyn krefur, tilkynningarskyldukerfum, skyldubundinni skipaumferðarþjónustu og viðeigandi leiðastjórnunarkerfum skipa með það að markmiði að leggja þau fyrir Alþjóðasiglingamálastofnunina til samþykkis. Þær skulu einnig vinna saman, á vettvangi hlutaðeigandi stofnana á svæðis- eða alþjóðavísu, við að þróa kerfi til auðkennis- og fjarvöktunar skipa;
  4. gera, ef við á, samræmdar áætlanir um að liðsinna nauðstöddum skipum;
  5. tryggja samtengingu og rekstrarsamhæfi kerfa sem notuð eru til að hafa umsjón með upplýsingunum, sem um getur í I. viðauka, og þróa og uppfæra SafeSeaNet-kerfið.

23. gr. a

[Hér á að vera eyða.]

24. gr. Trúnaður við meðferð upplýsinga.

Vaktstöð siglinga er heimilt að veita lögregluyfirvöldum og öðrum opinberum eftirlitsaðilum upplýsingar sem þeim eru nauðsynlegar vegna eftirlits og rannsóknar mála.

Vaktstöð siglinga og stjórnvöld skulu gæta fyllsta trúnaðar við meðferð upplýsinga sem þau fá í hendur samkvæmt þessari reglugerð.

25. gr. Eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

Siglingastofnun Íslands skal annast reglulegar skoðanir og aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að kanna virkni gagnaskiptakerfa á landi sem sett hafa verið upp til að uppfylla kröfur þessarar reglugerðar og einkum getu þeirra til að uppfylla kröfur um að taka á móti og senda tafarlaust allan sólarhringinn upplýsingar sem tilkynnt er um samkvæmt 13. og 15. gr.

Vaktstöð siglinga skal tafarlaust skýra fánaríki og öðru hlutaðeigandi ríki frá ráðstöfunum sem gripið er til vegna skipa sem sigla ekki undir fána þeirra samkvæmt 16. og 19. gr. þessarar reglugerðar.

Ef vaktstöð siglinga kemst að því, við atvik eða slys á sjó sem um getur í 19. gr., að félag hefur ekki getað náð og haldið sambandi við skipið eða við vaktstöð siglinga skal hún tilkynna það ríkinu sem gaf út ISM-skírteinið og tengt öryggisstjórnunarskírteini eða þeim sem það var gefið út fyrir.

Ef alvarleiki bilunar sýnir að um er að ræða stórfelldar vanefndir á starfrækslu öryggisstjórnunarkerfis félags sem er með staðfestu í EES-ríki skal EES-ríkið, sem gaf út öryggisskírteinið eða öryggisstjórnunarskírteinið í nafni skipsins, þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir gegn hlutaðeigandi félagi með það í huga að afturkalla öryggisskírteinið og tengt öryggisstjórnunarskírteini.

III. KAFLI Vaktstöð siglinga.

26. gr. Verkefni.

Vaktstöð siglinga sinnir eftirlits- og upplýsingakerfi fyrir umferð á sjó með það að markmiði að auka öryggi og skilvirkni skipaumferðar og bæta viðbrögð við atvikum, slysum eða hættum sem kunna að skapast á sjó og stuðla þannig betur að því að koma í veg fyrir eða greina mengun af völdum skipa. Jafnframt skal hún taka á móti öllum tilkynningum samkvæmt reglugerð þessari og hafa eftirlit með og gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að skipstjórar, rekstraraðilar eða umboðsaðilar skipa, sem og farmsendendur eða eigendur hættulegra eða mengandi vara sem fluttar eru um borð í slíkum skipum, uppfylli kröfur reglugerðar þessarar.

Vaktstöð siglinga skal auk þess annast, eftir því sem nánar er ákveðið í þjónustusamningi:

  • vöktun á sjálfvirku alþjóðlegu auðkennikerfi skipa (AIS),
  • vöktun, rekstur og viðhald á alþjóðlegu neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi skipa (GMDSS),
  • móttöku og miðlun:

    • neyðarkalla frá skipum,
    • tilkynninga frá farþegaskipum vegna talningar og skráningar farþega,
    • tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan farm eða mengandi vörur,
    • tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó,
    • skráningu skipa sem falla undir hafnarríkiseftirlit,
    • tilkynninga um komu skipa til íslenskra hafna,
    • tilkynninga og upplýsinga um bilanir í vitakerfinu og farartálma á sjó,
    • upplýsinga um neyðarhafnir og skipaafdrep og samskipti við hafnir sem Siglingastofnun Íslands hefur tilnefnt sem neyðarhafnir.
  • Önnur verkefni sem Siglingastofnun felur vaktstöð siglinga.
  • Verkefni í þágu þriðja aðila sem Siglingastofnun heimilar.

IV. KAFLI Sjálfvirkt auðkenniskerfi íslenskra skipa (AIS).

27. gr. Tilkynningar um staðsetningu skipa.

Öll íslensk skip skulu tilkynna brottför og komu í höfn og staðsetningu sína gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi samkvæmt 29. gr. Senda skal tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi skipa (AIS-A tæki). Skipum 15 metrar og styttri að mestu lengd er þó heimilt að senda tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi skipa (AIS-B tæki).

Útgerðarmenn skipa sem eingöngu sigla á þjónustusvæði sjálfvirks auðkenniskerfis á metrabylgju skulu búa skip sín nauðsynlegum tækjakosti vegna sjálfvirks auðkenniskerfis (AIS).

Útgerðarmenn skipa sem sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks auðkenniskerfis á metrabylgju skulu búa skip sín nauðsynlegum tækjakosti til að senda tilkynningar í gegnum gervihnattarsamband. Verði vaktstöð siglinga vör við að tæki í skipi starfi ekki rétt skal það þegar tilkynnt skipstjóra skipsins og skal skipstjóri láta gera við tækið svo fljótt sem verða má og eigi síðar en skipið lætur næst úr höfn. Ef tilkynning samkvæmt 29. gr. berst ekki frá skipi á reglulegum tíma skal vaktstöð siglinga bregðast strax við og kanna ástæður slíks. Viðbragðsstigin eru:

Venjulegt ástand: Tilkynningar berast sjálfvirkt frá skipi samkvæmt 29. gr.

Viðbragðsástand: Tilkynning hefur ekki borist frá skipi samkvæmt 29. gr.

Vaktstöð siglinga skal hafa samband við skipið innan 30 mínútna eftir að tilkynning á að hafa borist. Takist ekki að hafa upp á skipinu skal farið í næsta viðbragðsstig - hættuástand.

Hættuástand: Hafi skip ekki skilað sér eftir viðbragðsástand skal vaktstöð siglinga þegar í stað koma boðum þess efnis til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands/JRCC-Ísland sem skal án tafar hefja leitar- og björgunaraðgerðir samkvæmt reglugerð um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara. Landhelgisgæslan skal virkja alla þá aðila sem lögum samkvæmt sjá um leit og björgun, þar með talið viðeigandi björgunarsveitir eftir atvikum.

28. gr. Hafsvæði.

Hafsvæði eins og þau eru skilgreind í reglugerð þessari eru samkvæmt skilgreiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í SOLAS, sbr. 2. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 53/2000.

Hafsvæði A1: Er hafsvæði sem takmarkast af langdrægi strandarstöðvar til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli (DSC) á metrabylgju (VHF).

Hafsvæði A2: Er svæði utan hafsvæða AIS og/eða A1, sem takmarkast af langdrægi strandarstöðvar til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli (DSC) á millibylgju (MF).

Hafsvæði A3: Er svæði utan hafsvæða AIS, A1 og A2, sem takmarkast af langdrægi kyrrstæðra INMARSAT gervihnatta til sendinga viðvarana, þ.e. milli 70° N og 70° S.

Hafsvæði A4: Er svæði utan hafsvæða AIS, A1, A2 og A3.

Hafsvæði sjálfvirks auðkenniskerfis: Er hafsvæðið sem takmarkast af langdrægi sjálfvirku tilkynningarskyldunnar AIS á metrabylgju.

Skipum og bátum sem aðeins hafa búnað til að senda tilkynningar á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju er óheimilt að sigla út fyrir það svæði.

29. gr.

Öll íslensk skip skulu tilkynna brottför og komu í höfn og staðsetningu sína gegnum sjálfvirkt auðkenniskerfi. Þau skulu tilkynna staðsetningu sína að lágmarki á eftirfarandi hátt:

  1. Skip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri skulu tilkynna sig á klukkustundar fresti.
  2. Skip sem eru styttri en 24 metrar og hafa heimild til að sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks auðkenniskerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á einnar klukkustundar fresti.
  3. Skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks auðkenniskerfis AIS á metrabylgju skulu tilkynna sig á a.m.k. fimmtán mínútna fresti.
  4. Farþegaskip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.

Undanþegin ákvæðum 1. mgr. eru varðskip og skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni. Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. til skipa og báta sem stunda aðeins veiðar í atvinnuskyni innan 1,5 sjómílna frá landi og aðstæður um borð eru þannig að ekki er unnt að hafa þar nauðsynlegan búnað til að senda sjálfvirkar tilkynningar, enda telji stofnunin að öryggi skips og áhafnar sé ekki stefnt í hættu. Þegar slík undanþága er veitt skal Siglingastofnun Íslands árita leyfilegt farsvið skipsins á haffærisskírteini þess.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

30. gr. Viðurlög og gildistaka.

Um brot gegn reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 18. gr. laga um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003.

31. gr. Gildistaka og innleiðing.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 og með heimild í 1. mgr. 21. gr. hafnalaga nr. 61/2003, 4. mgr. 3. gr. laga um Siglingastofnun Íslands nr. 6/1996, 4. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 og 2. mgr. 16. gr. laga um rannsókn sjóslysa nr. 68/2000, og öðlast hún gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa nr. 672/2006, með síðari breytingum.

Með reglugerð þessari eru eftirfarandi Evrópugerðir innleiddar í íslenskan rétt:

  1. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002 um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/75/EB, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 56, 11. nóvember 2004, bls. 174, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2003 frá 31. janúar 2003 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 19, 10. október 2003, bls. 16.
  2. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/17/EB frá 23. apríl 2009 um breytingu á tilskipun 2002/59/EB um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis Bandalagsins fyrir umferð á sjó, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, 27. september 2012, bls. 311, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2012 frá 30. mars 2012 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 43, 2. ágúst 2012, bls. 47.
  3. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/18/EB frá 23. apríl 2009 um setningu grundvallarreglna við rannsóknir á slysum á sviði sjóflutninga og um breytingu á tilskipun ráðsins 1999/35/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, 27. september 2012, bls. 326, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2012 frá 30. mars 2012 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 43, 2. ágúst 2012, bls. 51.
  4. tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/15/ESB frá 23. febrúar 2011 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis Bandalagsins fyrir umferð á sjó, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 24, 26. apríl 2012, bls. 168, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 60/2012 frá 30. mars 2012 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 43, 2. ágúst 2012, bls. 48.

 Innanríkisráðuneytinu, 16. janúar 2013. 

 Ögmundur Jónasson. 

 Ragnhildur Hjaltadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.