Meðferð sjúkraskrárupplýsinga og persónuvernd
Sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem eru unnar í tengslum við meðferð, eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns.
Þetta á við um allar stofnanir og einkastofur þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, með eða án greiðsluþátttöku ríkisins, og heilbrigðisstarfsmenn vinna.
Sjúkraskrárupplýsingar geta verið lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þar með taldar röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar um heilsufar sjúklings og meðferð hans og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.
Mikilvægi persónuverndar við meðferð sjúkraskrárupplýsinga
Ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gilda um sjúkraskrárupplýsingar og meðferð þeirra, að því leyti sem ekki er mælt fyrir um á annan veg í lögum um sjúkraskrár.
Upplýsingar úr sjúkraskrá teljast viðkvæmar persónuupplýsingar og sérstakar reglur gilda um vinnslu slíkra upplýsinga samkvæmt persónuverndarlögum. Hér er fjallað um hvenær megi vinna með slíkar upplýsingar.
Við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skal jafnfram ávallt gætt að því að mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklinga sé virtur og þess gætt að sjúkraskrárupplýsingar eru trúnaðarmál.