Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Hvenær má vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar?

Til þess að heimilt sé að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar þarf vinnslan að byggja á einhverri af þeim sex heimildum sem sjá má í svari við spurningunni ,,Hvenær má vinna með persónuupplýsingar?"

og

uppfylla að minnsta kosti eitthvert eitt eftirfarandi skilyrða:

  1. Skráður einstaklingur (sá sem upplýsingarnar varða) hafi veitt afdráttarlaust samþykki sitt fyrir vinnslunni í þágu eins eða fleiri tiltekinna markmiða. Samþykkið þarf að vera óþvinguð, sértæk, upplýst og ótvíræð viljayfirlýsing viðkomandi um að hann samþykki vinnslu tiltekinna persónuupplýsinga í ákveðnum tilgangi.

  2. Vinnslan er nauðsynleg til þess að skráður einstaklingur eða sá sem ákveður vinnsluna (ábyrgðaraðili) geti staðið við skuldbindingar sínar og nýtt sér tiltekin réttindi samkvæmt vinnulöggjöf eða löggjöf um almannatryggingar eða félagslega vernd

  3. Vinnslan er nauðsynleg til að verja verulega hagsmuni skráðs einstaklings eða annars einstaklings sem ekki er sjálfur fær um að gefa samþykki sitt. Ekki er þá nóg að vísa til þess að viðkomandi einstaklingur sé erlendis eða vant við látinn heldur þarf hann að vera líkamlega ófær eða óhæfur samkvæmt lögum til að veita samþykki sitt.

  4. Vinnslan fer fram sem liður í lögmætri starfsemi stofnunar, samtaka eða annars aðila sem starfar ekki í hagnaðarskyni og hefur stjórnmálaleg, heimspekileg, trúarleg eða stéttarfélagsleg markmið. Ekki má þá afhenda öðrum persónuupplýsingarnar sjkráðs einstaklings án hans samþykkis.

  5. Vinnslan tekur einungis til upplýsinga sem skráður einstaklingur hefur augljóslega sjálf/sjálfur gert opinberar

  6. Vinnslan er nauðsynleg til að unnt sé að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur

  7. Vinnslan er nauðsynleg af ástæðum sem varða verulega almannahagsmuni og fyrir henni er sérstök lagaheimild

  8. Vinnslan er nauðsynleg til að unnt sé að fyrirbyggja sjúkdóma eða vegna atvinnulækninga, til að meta vinnufærni starfsmanns, greina sjúkdóma og láta í té umönnun eða meðferð á sviði heilbrigðis- eða félagsþjónustu, enda er hún framkvæmd af starfsmanni slíkrar þjónustu sem bundinn er þagnarskyldu.

  9. Vinnslan er nauðsynleg af ástæðum sem varða almannahagsmuni á sviði lýðheilsu, svo sem til að verjast alvarlegum heilsufarsógnumsem ná yfir landamæri eða tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu og lyfja eða lækningatækja.

  10. Vinnslan er nauðsynleg vegna tölfræði-, sagnfræði- eða vísindarannsókna, enda er persónuvernd tryggð með tilteknum ráðstöfunum eftir því sem við á í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

  11. Vinnslan er nauðsynleg vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna og fer fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni skráðs einstaklings, einkum þagnarskyldu.

Skráður einstaklingur getur leitað til Persónuverndar ef uppi er vafi um hvort tilteknar persónuupplýsingar séu viðkvæmar eða ekki og leysir stofnunin þá úr ágreiningi þar um.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820