Fara beint í efnið

Ljós og glit ökutækja í umferð

Ljós og glit

Ökutæki sem notuð er í almennri umferð mega aðeins hafa þau ljós, glitaugu og glitmerkingar sem eru leyfð eða er skylt að hafa á þeim. Öll önnur ljós, glitaugu og glitmerkingar, hverju nafni sem þau nefnast, eru bönnuð. Bannið nær einnig til ljósa sem eru innan í bíl sem má rugla saman við leyfileg eða áskilin ljós.

Tilgangur með reglum um ljós og glit

Ljós og glit á ökutækjum í almennri umferð er ekki til skrauts. Tilgangurinn með því að hafa skýrar reglur um ljós og glit er til að ökumenn og aðrir vegfarendur geti átt í samræmdum og öruggum samskiptum í umferðinni og sjái nægilega vel til við aksturinn án þess valda öðrum vegfarendum óþægindum.

Gerðir og kröfur til ljósa og glits

Reglur um ljós innihalda meðal annars kröfur um fjölda þeirra, staðsetningu, liti, lýsingu, stillingu, ljósstyrk, tengingu og hvernig ökumanni skuli gert viðvart um að kveikt sé á þeim eða að þau séu að blikka. Samskonar reglur gilda um glitaugu og um glitmerkingar af öllu tagi.

Gerðir ljósa

Í grófum dráttum má segja að ljós skiptist í

  • ljós sem lýsa upp veginn þannig að ökumaður sjái betur til, til dæmis aðalljós (lágljós og háljós), þokuljós, bakkljós og beygjuljós

  • ljós sem sýna ökutækið og útlínur þess og jafnvel aðgreina það frá öðrum ökutækjum, til dæmis stöðuljós, breiddarljós, hliðarljós og þokuafturljós

  • merkjaljós sem ökumaður notar til að gefa merki í umferðinni, til dæmis stefnuljós, hemlaljós og hættuljós

Almenna reglan er sú að ljós sem lýsa fram skulu vera hvít, þau sem lýsa aftur skulu vera rauð og þau sem lýsa til hliðar skulu vera rauðgul, en einnig að stefnuljós skulu vera rauðgul og bakkljós hvít. Örfáar undantekningar eru þó frá þessum reglum.

Gerðir glitaugna

Glitaugu geta verið ein og sér en líka sambyggð með ljósum af ýmsu tagi. Eins og gildir um lit ljósa þá er almenna reglan sú að glitaugu sem eru afturvísandi skulu vera rauð, þau sem eru á hliðum skulu vera rauðgul (með örfáum undantekningum) og glitaugu sem eru framvísandi skulu vera hvít.

Skylt er að hafa glitaugu aftan á öllum ökutækjum en glitaugu bæði á hlið og að framan geta bæði verið leyfð og skylt að hafa og fer það eftir gerð og stærð ökutækjanna.

Gerðir glitmerkinga

Með glitmerkingum er átt við það þegar fletir ökutækja hafa verið þaktir (filmaðir) með endurskinsefni og þegar sérstök merki hafa endurskin. Glitmerkingar hafa mismunandi tilgang, lit, mynstur, lögun og endurskinsstyrk. Glitmerkingar eru meðal annars notaðar til að

  • merkja ökutæki almannavarna, til dæmis lögreglu, slökkviliðs, sjúkraliðs og björgunarsveita, svo þau séu sýnilegri á meðan þau eru að athafna sig (neyðarakstursglitmerkingar)

  • auðkenna stærri bíla og vagna í þungaflutningum til að auka sýnileika þeirra í umferðinni (viðurkenndir útlínuborðar og þungaflutningsglitmerki)

  • vekja sérstaka athygli á bílum sem notuð eru við vegavinnu og útskagandi búnaði þeirra (viðurkenndar varúðarglitmerkingar)

  • merkja vörubíla, sendibíla og rútur með einhverskonar grafík (viðurkenndar auglýsingaglitmerkingar)

Viðurkenning ljósa og glits

Nær undantekningarlaust skulu ljósker og ljósaperur, glitaugu og glitmerkingar bera viðurkenningarauðkenni sem staðfestir að þau séu framleidd í ákveðnum tilgangi og uppfylli viðeigandi kröfur. Þau geta verið E-, e-, DOT- eða UI-merkingar. Auðkenni ætti að vera vel sýnilegt en gæti verið að finna innan í ljóskeri eða aftan á ljóskeri eða glitauga.

Vakin er athygli á að í netverslunum eru í boði allskonar ljósker og perur sem ekki eru viðurkennd fyrir Evrópu, jafnvel þótt þau séu gefin upp fyrir að passa í bíla sem eru að finna hérlendis. Einnig eru til allskonar glitmerkingar sem ekki má nota á ökutæki í almennri umferð enda ætlaðar til annarra nota. Gerðar eru athugasemdir við óleyfileg ljós og glit við reglubundna skoðun og af umferðareftirliti lögreglu. Umráðandi ökutækis getur þurft að sýna fram á að endurnýjaður ljósabúnaður sé í samræmi við kröfur ef augljóst að búið er að skipta um ljós og viðurkenningarmerkingar eru ekki sýnilegar.

Notkun ljósa í umferðinni

Aldrei er góð vísa of oft kveðin og því koma hér nokkur heilræði.

Notkun ökuljósa

Hér á landi gildir sú krafa samkvæmt umferðarlögum að ökuljós skulu alltaf kveikt þegar bíll er í notkun á opinberum vegi. Sama gildir um önnur ökutæki. Ökuljós eru lögboðin aðalljós eða dagljós sem loga að framan ásamt afturljósum.

Ökumaður þarf sjálfur að kveikja á ökuljósum ef þau kvikna ekki sjálfkrafa. Athygli er vakin á því að síðustu árin hafa bæði bílar og mótorhjól verið framleidd þannig að það kviknar sjálfkrafa á dagljósunum án þess að það kvikni á afturljósunum í öllum tilvikum. Þá þarf ökumaður að hafa sérstakar gætur á og kveikja sjálfur á aðalljósum í upphafi allra ökuferða svo það kvikni nú á afturljósunum.

Notkun þokuljósa og þokuafturljósa

Þokuljós framan á bíl eru notuð til að bæta lýsingu á veginum framan við bílinn ef þoka eða svipuð veðurskilyrði valda því að skyggni er skert og aðalljós koma ekki að góðum notum. Hægt er að hafa þokuljósin kveikt án þess að kveikt sé á aðalljósunum á sama tíma. Þegar kveikt er á þokuljósum kviknar á gaumljósi í mælaborði. Slökkva skal á þokuljósunum þegar veðurskilyrði batna.

Þokuafturljós er sterkt rautt ljós sem lýsir aftur og notað til að gera bílinn eða vagninn sýnilegan í þéttri þoku fyrir þá sem á eftir koma. Þegar kveikt er á afturþokuafturljósinu kviknar á áberandi gaumljósi í mælaborði. Afar áríðandi er að slökkt sé á þessu ljósi um leið og þokunni léttir vegna truflunar sem það veldur fyrir ökumenn sem koma á eftir.

Mikilvægt er að ökumenn gefi sér tíma þegar vel stendur á og kynni sér hvernig á að kveikja á þokuljósum og þokuafturljósum svo fumlaust megi virkja þau án þess að líta af veginum þegar aðstæður krefjast þess.

Endurnýjun og viðhald ljósa og glits

Við endurnýjun og viðhald ljósa skal nota viðurkennd ljósker og viðurkenndar perur. Alltaf ætti að athuga hvort ljósker og perur bera viðurkenningarauðkenni áður en þau eru keypt.

Ef verið er að endurnýja eða skipta um perur í aðalljóskeri eða þokuljóskeri þá þarf að gæta þess að stilling ljóssins sé í lagi eftir peruskipti eða viðgerð.

Ásetning nýrra ljóskera, glitaugna eða glitmerkinga

Ekki má setja viðbótarljós eða glit nema fylgja öllum reglum sem gilda um þau. Samgöngustofa mælir með því að leitað sé til fagaðila í þeim tilvikum.

Viðbótarljós framan á bíl

Helst er að spurningar vakni um það hvort sé hægt að bæta við eftirfarandi framljósum (út frá núgildandi reglum):

  • Lágljós: Ekki má vera með nema eitt par af lágljósum og því er ekki hægt að fjölga þeim.

  • Háljós: Skylt er að hafa háljós á bílum (lýsa hvítu ljósi). Leyfilegt er að hafa eitt aukapar á öllum bílum (eða eitt miðjuljós). Á stórum vörubílum (yfir 12 t) má hafa tvö aukapör en bara má nota eitt í einu (eru oft öll innbyggð og því ekki hægt að fjölga þeim). Háljós skulu vera viðurkennd sem slík og vera rétt stillt.

  • Þokuljós: Leyfilegt er að hafa eitt par á bílum (lýsa hvítu eða gulu ljósi). Þau þurfa að vera rétt stillt og vera viðurkennd sem slík. Margir bílar koma með innbyggðu þokuljósapari og þá er ekki hægt að fjölga þeim.

  • Ljóskastarar: Hérlendis gildir að heimilt er að hafa eitt par af ljóskösturum á torfærubílum, rútum og vörubílum (eða eitt miðjuljós). Ljóskastara þarf alltaf að setja á eftirá og þurfa ekki sérstaka viðurkenningu. Ljóskastara skal tengja rétt og má aðeins nota á vegum utan þéttbýlis í ófærð þegar aðalljós koma að takmörkuðum notum vegna snjólags eða skafrennings.

  • Stöðuljós: Skylt er að hafa eitt par og ekki fleiri en það. Þau eru lítil og hvít og skulu vera viðurkennd sem slík. Á fólks- og sendibílum mega stöðuljósin ná alveg saman og mynda ljóslínu þvert yfir bílinn (þau koma þannig viðurkennd frá framleiðanda og ekki hægt að setja á eftirá).

  • Breiddarljós: Þetta er ljósapar með litlum ljósum sem komið er fyrir eins ofarlega og mögulegt er og er ætlað að vekja sérstaka athygli á umfangsmiklu ökutæki sem kemur á móti. Þau lýsa hvítu ljósi (mega vera rauðgul eingöngu á bílum frá USA og Kanada) og skulu vera viðurkennd sem slík. Þau eru bara leyfileg á bílum og vögnum sem eru yfir 1,8 m að breidd og svo verður skylt að hafa þau þegar breidd er yfir 2,1 m. Hafa má eitt eða tvö pör við ystu brúnir (annað parið má til dæmis vera á efstu hornum ökumannshúss og hitt á efstu hornum vörukassa).

Viðbótarljós á hlið bíls

Helst er að spurningar vakni um viðbótarhliðarljós:

  • Hliðarljós: Setja má hliðarljós á bíl eða fjölga þeim sem eru. Skylt er að hafa hliðarljós ef bíll er lengri en 6 m. Þau þurfa að uppfylla reglur um hæðar- og lengdarstaðsetningu og þarf að tengja rétt. Hliðarljós skulu vera rauðgul og vera viðurkennd sem slík.

Viðbótarljós aftan á bíl

Helst er að spurningar vakni um það hvort sé hægt að bæta við eftirfarandi afturljósum (út frá núgildandi reglum):

  • Stöðuljós (afturljós): Skylt er að hafa eitt par og ekki fleiri en það. Þau eru lítil og rauð og skulu vera viðurkennd sem slík. Á fólks- og sendibílum mega afturljósin ná alveg saman og mynda ljóslínu þvert yfir bílinn (þau koma þannig viðurkennd frá framleiðanda og ekki hægt að setja á eftirá).

  • Breiddarljós: Þetta er ljósapar með litlum ljósum sem komið er fyrir eins ofarlega og mögulegt er og er ætlað að vekja sérstaka athygli á umfangsmiklu ökutæki sem er fyrir framan. Þau lýsa rauðu ljósi og skulu vera viðurkennd sem slík. Þau eru bara leyfileg á bílum og vögnum sem eru yfir 1,8 m að breidd og svo verður skylt að hafa þau þegar breidd er yfir 2,1 m. Hafa má eitt eða tvö pör efst við ystu brúnir.

Önnur ljós á bílum

Helst er að spurningar vakni um það hvort sé hægt að bæta við eftirfarandi ljósum (út frá núgildandi reglum):

  • Vinnuljós: Koma má fyrir vinnuljósum, einu eða fleiru, á bílum sem nota þarf við sérstakar vinnuaðstæður á meðan þeir eru kyrrstæðir. Ljósin eru notuð til að lýsa upp vinnusvæðið í kringum þá og ætti að stilla þau þannig að þau lýsi aðeins niður á vinnusvæðið í kringum bílinn en ekki aftur, út á hlið og ekki fram á veg. Ljósin mega ekki trufla aðra umferð eða trufla lýsingu annarra ljósa bílsins. Vinnuljós eiga að vera hvít og þurfa ekki sérstaka viðurkenningu. Slökkva skal vinnuljós þegar ekið er af stað.

  • Varúðarljós: Þetta eru gul blikkandi ljós sem ætlað er vekja sérstaka athygli á bíl sem truflar umferð vegna þess að hann er í vegaviðhaldi eða er að aðstoða á vegi í kjölfar umferðaróhappa eða slysa. Þau mega einnig vera á dráttarvél og vinnuvél sem fylgir ekki umferðarhraða og hafa blikkandi á meðan þær eru í akstri á milli staða. Hafa má eitt eða fleiri varúðarljós í þessum tilvikum og þurfa þau ekki sérstaka viðurkenningu.

  • Aðgreiningarljós: Þetta eru þrjú lítil ljós í röð fyrir miðju efst að framan og aftan sem koma stundum á bílum og vögnum frá USA og Kanada til að aðgreina þau sem eru breiðari en 80 tommur (rúmir 2 m). Framvísandi ljósin eru hvít eða rauðgul og afturvísandi eru rauð. Um er að ræða séríslenska heimild til notkunar hérlendis og því þarf ekki að taka þau af þessum bílum eða vögnum við innflutning. Ekki er ástæða til að bæta þeim við á aðra bíla eða vagna.

  • Neyðarakstursljós: Þau eru blá og blikkandi fyrir ökutæki í almannavörnum og við löggæslustörf. Hafa þarf sérstakt leyfi til að mega setja slík ljós á ökutæki og því má enginn nota eða hafa þau án heimildar.

Frekari upplýsingar

Frekari upplýsingar um ljós og glit ökutækja í umferð er að finna í sérstöku skjali skoðunarhandbókar ökutækja.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa