Bílamerkingar og litun rúða og ljósa
Bílamerkingar
Leyfilegt er að lita og merkja bíla án sérstakra takmarkana á meðan ekkert endurskin er í merkingunni.
Hafa þarf í huga að ef merking breytir lit ökutækisins frá því sem skráð er í ökutækjaskrá þarf að færa það til breytingaskoðunar hjá skoðunarstofu ökutækja og láta skrá nýjan lit. Þetta getur helst átt við þegar heilmerking eða filmun er þess eðlis að áður skráður litur á ekki lengur við.
Merkingar með endurskini
Merkingar með endurskini eru aðeins leyfilegar á
ökutæki lögreglu (gulur og blár)
ökutæki slökkviliðs (gulur og rauður)
ökutæki sjúkraflutninga (gulur og grænn)
ökutæki björgunarsveita (gulur og rauðgulur)
vörubíla, sendibíla og hópbíla (marglit grafík á hliðar með daufu viðurkenndu endurskini innan viðurkennds útlínuborða)
Litun rúða
Í umferðinni geta samskipti milli vegfarenda skipt miklu máli. Meðal annars af þeirri ástæðu verður að vera hægt að sjá ökumann í gegnum framrúðu og fremstu hliðarrúður. Ekki er því leyfilegt að lita eða filma hliðarrúður ökumanns eða framrúðuna. Aðeins er leyfilegt að lita eða filma rúður sem eru fyrir aftan ökumann, hvort sem það eru hliðarrúður eða afturrúður. Þetta gildir um alla bíla óháð aldri.
Sumir bílar eru framleiddir með reyklitaða framrúðu eða fremstu hliðarrúður. Í þeim tilvikum eru þær rúður viðurkenndar sem slíkar og með viðurkenningarmerkingu.
Ekki eru veittar neinar undanþágur frá banni við litun framrúðu eða fremstu hliðarrúða, hvorki af læknisfræðilegum ástæðum né af öðrum ástæðum.
Litun ljósa
Öll litun ljósa og filmun sem dregur úr styrkleika ljóss eða breytir lit þess er bönnuð.
Aldrei má lita eða filma glitaugu, hvorki þau sem eru innbyggð í gler ljósa eða þau sem eru stakstæð.
Frekari upplýsingar
Frekari upplýsingar um ljós og glit ökutækja í umferð er að finna í sérstöku skjali skoðunarhandbókar ökutækja.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa