Fara beint í efnið

Hvernig virkar kosning utan kjörfundar?

Á þessari síðu

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 29 dögum fyrir kjördag (23 dögum fyrir kjördag ef kosið er til Alþingis eftir tilkynningu um þingrof)
Algengast er að kjósendur kjósi á kjördag. Ef kjósendur geta það ekki er hægt að kjósa utan kjörfundar.

Kosning á Íslandi

Kjósendur á Íslandi geta kosið hjá sýslumönnum og stundum í einstaka sveitarfélgöum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sett upp kjörstaði á fjölförnum stöðum undanfarnar kosningar, líkt og í Holtagörðum.

Kosning erlendis

Kjósendur þurfa að leita upplýsinga á vefsvæðum sendiráða eða hafa samband við ræðismann í viðkomandi landi til að vita hvar og hvenær er hægt að kjósa. Sýna þarf skilríki, til dæmis ökuskírteini eða vegabréf, þegar kosið er.

Listi yfir íslensk sendiráð og ræðismenn.

Ef kjósandi er í vafa um hvar og hvernig eigi að kjósa erlendis er best að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í gegnum hjalp@utn.is eða í síma +354 5459900.

Kosning inni á stofnunum

Við sérstakar aðstæður getur verið heimilt að kjósa inni á stofnunum, líkt og t.d.:

  • sjúkrahúsum

  • dvalarheimilum aldraðra

  • stofnunum fyrir fatlað fólk

  • fangelsum

Sýslumaður auglýsir hvar og hvenær hægt er að kjósa á viðeigandi stöðum.

Leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu á sjúkrahúsum, dvalarheimilum, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum.

Kosning í heimahúsi

Ef kjósandi getur ekki kosið á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að kjósa í heimahúsi.

Sækja þarf skriflega um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi til sýslumanns. Lögráða einstaklingur þarf að staðfesta hagi umsækjanda, þ.e. að viðkomandi geti ekki sótt kjörfund vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar. Hægt er að kjósa í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag. Ósk um að kjósa í heimahúsi þarf að berast til kjörstjóra í síðasta lagi tveimur dögum fyrir kjördag.

Framkvæmd kosningar utan kjörfundar

Kjósandi gerir grein fyrri sér með skilríkjum eða á annan fullnægjandi hátt á kjörstað og fær afhent:

  • kjörseðil

  • umslag utan um kjörseðilinn

  • fylgibréf með kjörseðlinum

  • annað umslag fyrir póstsendingu

Kjörseðill við kosningu utan kjörfundar er auður. Á honum eru til dæmis ekki nöfn frambjóðenda, framboðslistar eða listabókstafir stjórnmálasamtaka. Kjósandi skrifar eða stimplar nafn forsetaframbjóðanda, framboðslista eða svar við spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu (eftir því sem við á) á seðilinn.

Fylgibréfið með kjörseðlinum, þar sem fram koma upplýsingar um kjósandann og hvert atkvæðið á að berast, þarf að vera undirritað af kjósanda og starfsfólki kjörstjóra.

Kjósandi ber ábyrgð á að koma atkvæðinu sínu á réttan stað. Hægt er að setja bréfið í póst, eða afhenda það einhverjum sem kjósandi felur að koma því til skila. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.

Kjósandi sem greiðir atkvæði hjá sýslumanni í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá getur sett bréfið í atkvæðakassa þar.

Þjónustuaðili

Lands­kjör­stjórn

Lands­kjör­stjórn

Heim­il­is­fang

Tjarnargata 4

101 Reykjavík

kt. 550222-0510

Hafðu samband

Sími: 540 7500

postur@landskjorstjorn.is