Fara beint í efnið

Hvernig er kosið? Leiðbeiningar um kosningu á kjörstað

Algengast er að kjósendur kjósi á kjördag. Sé það ekki mögulegt er hægt að greiða atkvæði fyrir kjördag, svokölluð kosning utan kjörfundar.

Kosning á kjördag


Kjörstaður

Sá staður sem kosið er á kallast kjörstaður. Kjósandi kýs á kjörstað í því sveitarfélagi sem hann á lögheimili í. Hægt er að fara inn á Þjóðskrá Íslands í aðdraganda kosninga til að sjá hvar kjósandi á að kjósa

Kjörstaðir eru almennt opnir frá 9 að morgni til 22 að kvöldi kjördags. 

Kjörstaðir geta verið opnir skemur en upplýsingar um opnunartíma má finna á heimasíðum sveitarfélaga. Sveitarfélög eru staðurinn þar sem kjósandi býr, til dæmis Reykjavík eða Akureyri.

Hvernig fer kosning fram?

Á kjörstað finnur kjósandi sína kjördeild, sem er afmarkað rými á kjörstaðnum, en raðað er í kjördeildir eftir heimilisföngum. Í minni sveitarfélögum er yfirleitt bara ein kjördeild. Listi yfir heimilisföng og kjördeildir hanga uppi á kjörstað. Á flestum kjörstöðum er starfsfólk sem getur aðstoðað kjósendur við að finna sína kjördeild, en hægt er að fá upplýsingar um í hvaða kjördeild kjósandi kýs hér.

Þegar kjósendur koma í sína kjördeild tekur á móti þeim starfsfólk í kjörstjórn. Þau biðja um heimilisfang og skilríki, til dæmis ökuskírteini eða vegabréf, en kjósandi getur líka gert grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Hægt er að gera grein fyrir sér með því að framvísa stafrænu ökuskírteini.

Kjörstjórn merkir við kjósanda í kjörskrá og afhendir kjörseðil. Kjósandi fer með kjörseðilinn í kjörklefa þar sem hægt er að kjósa án þess að nokkur sjái. 

Í kjörklefanum er skriffæri sem á að nota til að gera X í ferning fyrir framan þann valkost sem kjósandi vill. Hægt er að fá spjöld með blindraletri til þess að lesa og merkja við á kjörseðilinn. 

Þegar kjósandi hefur kosið er kjörseðilinn brotinn saman, farið úr kjörklefanum og kjörseðilinn settur í atkvæðakassa fyrir utan kjörklefann. 

Kosning er leynileg samkvæmt lögum. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um kosningar kemur fram að tiltölulega auðvelt geti verið að hafa áhrif á framkvæmd kosninga eða spilla þeim með því að taka mynd af kjörseðli og deila t.d. á samfélagsmiðlum.

Ef kjósandi merkir við annað en hann ætlaði, eða kjörseðilinn eyðileggst, er hægt að afhenda kjörstjórninni ónýta seðilinn og fá nýjan kjörseðil.  

Þjónustuaðili

Lands­kjör­stjórn

Lands­kjör­stjórn

Heim­il­is­fang

Tjarnargata 4

101 Reykjavík

kt. 550222-0510

Hafðu samband

Sími: 540 7500

postur@landskjorstjorn.is