Fara beint í efnið

Réttindi neytenda við kaup á vöru

Kaup eru bindandi samningur milli seljanda og neytanda, en sérstakar verndarreglur gilda um neytendakaup.

Neytendakaup

Neytendakaup eru þegar eintaklingur kaupir lausafé – almennar vörur sem keyptar eru til daglegrar notkunar, heimilistæki, bílar, föt, húsgögn og fleira, af seljanda sem hefur atvinnu af sölu. Sérstakar reglur gilda um kaup og sölu á fasteignum og þjónustu.

Réttur og skyldur í hnotskurn

Ekki greiða fyrir vöru sem þú hefur ekki pantað
Ef vörur eru sendar til neytanda sem hann hefur ekki keypt/pantað, þarf ekki að greiða fyrir þær. Kaupsamningi verður ekki komið á þó neytandi svari ekki sölutilboði innan tiltekins frests og ekki hægt að líta á það sem þegjandi samþykki.

Vertu með verðið á hreinu
Hafi ekki verið samið um verð þarf kaupandinn að borga það verð sem sett er upp. Meginreglan er að verðlagning sé almennt frjáls. Uppgefið verð á alltaf að vera endanlegt verð til neytenda – virðisaukaskattur og hvers konar gjöld án tillits til heitis skulu vera innifalin í verði.

Borgun hér og nú
Ef ekki er samið um hvenær og hvernig á að greiða kaupverðið á neytandinn að greiða hjá seljanda þegar hann krefst þess en almennt ekki fyrr en hluturinn er afhentur eða neytandi getur tekið hann til ráðstöfunar. Áður en kaupverð er greitt ber neytanda að skoða hlutinn.

Engar viðbótargreiðslur
Ef neytandi hefur í góðri trú keypt vöru eða þjónustu á of lágu verði getur seljandinn ekki krafist viðbótargreiðslu.

Seljandi getur ekki krafið neytanda um að greiða viðbótargreiðslur, t.d. sendingargjald eða þóknun fyrir að gefa út og senda reikning, ef það kom ekki fram fyrir kaup.

Enginn skilaréttur
Við kaup í verslun hefur kaupandinn engan skilarétt nema samið hafi verið um annað. Algengt er að verslanir bjóða kaupendum að skipta vöru í aðra vöru eða skila henni gegn innleggsnótu innan tiltekins frests frá kaupum. Seljandi ræður hvort skil eftir kaup í verslun eru leyfð og, ef svo er, hvaða skilyrði eiga við um skilin. Við fjarsölu hefur neytandi þó 14 daga til að hætta við kaupin án skýringa og fá vöruna endurgreidda.

Kvartaðu sem fyrst!
Reynist hlutur gallaður eða seljandinn hefur gefið villandi upplýsingar ber neytanda að kvarta sem fyrst við seljenda, en frestur neytanda til að leggja fram kvörtun er aldrei styttri en tveir mánuðir frá því að hann varð galla var. Lokafrestur til að leggja fram kvörtun um galla er almennt 2 ár en 5 ár ef endingartími vörunnar er ætlaður lengri en almennt gerist.

Geymdu kassakvittanir
Til að kvarta undan galla þarf kaupandinn að geta fært sönnur fyrir viðskiptunum. Einfaldasta leiðin til þess er að sýna kassakvittun.

Kröfur neytandans
Neytandinn getur krafist úrbóta vegna galla, nýrrar afhendingar, afsláttar, riftunar og skaðabóta ásamt því að halda eftir greiðslu.

Ekki nema tvær tilraunir
Seljandi á ekki rétt á að reyna að bæta úr galla eða afhenda nýja vöru vegna sama galla oftar en tvisvar sinnum. Að því loknu má einnig reyna sáttamiðlun hjá sýslumanni

Skoðunargjald
Neytandi getur þurft að greiða skoðunargjald vegna bilunargreiningar ef galli kemur ekki í ljós, þó aðeins ef seljandi hefur krafist þess fyrirfram.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Neyt­enda­stofa