Innheimtuferli vegna greiðslna af lánum
Ef þú getur ekki greitt mánaðarlegar greiðslur af láni fer innheimtuferli af stað og dráttarvextir og viðbótarkostnaður leggst á skuldina. Kostnaður við innheimtu vex eftir því sem krafan fer lengra í innheimtuferlinu. Dráttarvextir reiknast frá og með gjalddaga og fram að greiðsludegi. Gjöld fyrir greiðsluseðla, áminningar og viðvaranir leggjast á hvert lán.
Þú getur óskað eftir greiðslusamningi til að greiða niður vanskil ef innheimta er ekki komin í beiðni um nauðungarsölu hjá sýslumanni. Einnig eru lausnir á tímabundnum greiðsluvanda í boði.
Greiðsluseðill
Þú færð greiðsluseðil í netbanka mánaðarlega, ársfjórðungslega eða árlega. Eindagi er alltaf 3 dögum eftir gjalddaga.
Gjald fyrir rafrænan greiðsluseðil er 150 krónur
Gjald fyrir heimsendan greiðsluseðil er 280 krónur.
Áminning
Áminningarbréf er sent með bréfpósti 10 dögum eftir gjalddaga.
Gjald er 1.050 krónur.
Innheimtuviðvörun
Ef greiðsluseðill hefur ekki verið greiddur 30 dögum eftir gjalddaga færðu senda innheimtuviðvörun með bréfpósti.
Gjald er 1.050 krónur.
Lokaviðvörun
Ef greiðsluseðill hefur ekki verið greiddur 50 dögum eftir gjalddaga færðu senda lokaviðvörun með bréfpósti.
Gjald er 1.050 krónur.
Greiðsluáskorun
Ef ekki hefur verið greitt 75 dögum (2 og hálfum mánuði) eftir elsta ógreidda gjalddaga er send út greiðsluáskorun. Stefnuvottur eða póstmaður afhendir þinglýstum eiganda greiðsluáskorun.
Í kjölfar birtingar er HMS heimilt að skrá þig á vanskilaskrá hjá Creditinfo. Þú þarft að greiða alla gjalddaga sem tilgreindir eru í greiðsluáskorun til að hægt sé að afskrá þig af vanskilaskrá.
Gjald er 8.100 krónur. Að auki er birtingarkostnaður sem ræðst af gjaldskrá Póstsins.
Ef lángreiðandi er með skráð lögheimili erlendis er málið sent í lögfræðiinnheimtu til Lögheimtunnar og kostnaður samkvæmt gjaldskrá Lögheimtunnar. Nánari upplýsingar á www.motus.is
Nauðungarsölubeiðni
Ef ekki hefur verið greitt af láni innan 15 daga frá birtingu greiðsluáskorunar og 105 dagar eru liðnir frá fyrsta ógreidda gjalddaga er send beiðni um nauðungarsölu á eigninni til sýslumanns. Sjá nánar um frestun eða afturköllun á nauðungarsölu.
Gjald er 3.500 krónur+vsk. Að auki er nauðungarsölugjald til ríkissjóðs 40.000 krónur.
Fyrirtaka hjá sýslumanni
Fyrsta fyrirtaka fer fram hjá sýslumanni 1 til 3 mánuðum frá móttöku nauðungarsölubeiðni. Fyrsta fyrirtaka fer fram á skrifstofu sýslumanns sem ákveður hvenær byrjun uppboðs fer fram.
Sýslumaður sendir þér tilkynningu um fyrirtökuna.
Fyrsta fyrirtaka er auglýst í Lögbirtingarblaði.
Byrjun uppboðs
Við byrjun uppboðs er leitað eftir boðum í eignina og sýslumaður ákveður tímasetningu á framhaldssölu eignar. Byrjun uppboðs fer fram á skrifstofu sýslumanns og sýslumaður sendir þinglýstum eiganda tilkynningu um byrjun uppboðs.
Byrjun uppboðs er auglýst í dagblöðum og á vef sýslumanns.
Framhald uppboðs
Innan 4 vikna frá byrjun uppboðs verður framhald. Framhald uppboðs er lokasala á eigninni sjálfri. Sýslumaður sendir þinglýstum eiganda tilkynningu um framhaldssölu.
Framhald uppboðs er auglýst í dagblöðum og á vef sýslumanns.
Þinglýstur eigandi getur mætt og farið fram á auka samþykkisfrest og óskað eftir að leigja eignina.
Sjá nánari upplýsingar um nauðungarsölur á vef sýslumanna.
Nauðungarsala
Eignin er seld upp í skuldina. Ef markaðsvirði er lægra en skuldin verður til eftirstæð krafa án veðs.
Á meðan krafan stendur getur þú ekki fengið lán hjá HMS. Sumar aðrar lánastofnanir veita lán þrátt fyrir veðlausa kröfu.
Fyrir hverja krónu sem þú greiðir inn á kröfuna fellur niður króna. Dæmi: Þú borgar 100.000 krónur og HMS lækkar um 100.000 krónur á móti.
Eftir 3 ár getur þú sótt um niðurfellingu á eftirstæðri kröfu.
Þjónustuaðili
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun