Fara beint í efnið

Afturköllun eða frestun á nauðungarsölu

Þegar ekki hefur verið greitt af láni eftir greiðsluáskorun og 105 dagar eru liðnir frá fyrsta ógreidda gjalddaga er send beiðni um nauðungarsölu á eigninni til sýslumanns.  Uppboð eru auglýst með að minnsta kosti þriggja daga fyrirvara á vef sýslumanna. Sjá nánar um nauðungarsölu hjá sýslumanni.

Hægt er að afturkalla málið eða fresta aðgerðum á ákveðnum stigum málsins. Þú getur haft samband við ráðgjafa í síma 440 6400 með tölvupósti á innheimta@hms.is eða komið í afgreiðslu HMS í Borgartúni 21, Reykjavík.

Ef aðrir kröfuhafar eru á nauðungarsölubeiðninni þarf líka að sækja um afturköllun eða frestun hjá þeim.

Afturköllun á nauðungarsölubeiðni

Hægt er að afturkalla beiðnina hvenær sem er í nauðungarsöluferlinu þar til endanleg sala er gengin í gegn.

Í flestum tilfellum samþykkir HMS beiðni um afturköllun ef þú getur greitt 50% af vanskilunum á eigninni.

Frestun á nauðungarsöluferli

Eftir að nauðungarsölubeiðni hefur verið send til sýslumanns þá er málið tekið fyrir hjá sýslumanni. Um er að ræða þrjár fyrirtökur sem eru í daglegu máli kallaðar:

  • Fyrsta fyrirtaka.

  • Byrjun uppboðs.

  • Framhald uppboðs (fer fram á eigninni sjálfri).

Eftir fyrstu fyrirtöku getur þú beðið HMS um að fresta byrjun uppboðs ef þú greiðir að minnsta kosti 15% vanskilanna. Ef ferlið fer aftur í fyrstu fyrirtöku getur þú beðið aftur um frestun ef þú hefur staðið í skilum með greiðslur sem samsvara mánaðarlegum gjalddögum frá fyrri frestun auk að minnsta kosti 15% vanskilanna.

Framhald uppboðs þarf að fara fram innan árs frá byrjun uppboðs og því ekki hægt að fresta oftar en sem nemur þeim tímamörkum.

Aðrar kröfur fyrir afturköllun eða frestun

HMS getur farið fram á hærri greiðslu eða að vanskil séu greidd að fullu ef:

  • Þú býrð ekki í eigninni.

  • Erfitt var að birta greiðsluáskorun.

  • Þú hefur áður fengið afturköllun á uppboðsmáli og gerðir ekki greiðslusamning um eftirstöðvar vanskila eða stóðst ekki við slíkan samning.