Hvenær þarf útboð?
Opinber innkaup fela í sér ráðstöfun á opinberu fé. Eðlilega vilja skattgreiðendur að því sé varið skynsamlega á gagnsæjan hátt.
Innkaup fyrir opinbera aðila, til dæmis stofnun eða sveitarfélag, fara því oft fram með útboði. Í útboðinu geta áhugasöm fyrirtæki gert skrifleg og bindandi tilboð.
Útboð verður að auglýsa eftir ákveðnum reglum, til dæmis verður að koma fram hvað á að kaupa, hvaða kröfur eru gerðar og hvernig verður valið á milli tilboða. Áhugasamir seljendur fá þannig sömu upplýsingar á sama tíma.
Gera þarf útboð í samvinnu við Fjársýsluna ef:
Stefnt er að kaupum eða gerð opinbers samnings.
Samningurinn eða kaupin eru yfir viðmiðunarfjárhæðum. Í fyrsta skrefi innkaupaferlis eru innkaupin greind. Þá kemur í ljós hvort upphæð verði yfir viðmiðunarfjárhæð eða ekki.
Samningurinn er ekki sérstaklega undanskilinn. Það á við þegar kaupin snúast ekki um efnahagslega þjónustu, það er ekki nein samkeppni um innkaupin og fleira.
Útboðsskyldar stofnanir
Þær stofnanir sem eru að stærstum hluta fjármagnaðar af skatttekjum ber skylda til að gera útboð í samvinnu við Fjársýsluna. Þetta eru svokallaðar A-hluta stofnanir.
Sveitarfélög
Sveitarfélög eru einnig hvött til að nýta sér hagkvæma samninga Fjársýsluna ásamt sérfræðiþekkingu.
Vönduð innkaup
Innkaup með Fjársýslunni fylgja ákveðnum ferlum með vandlega útbúnum gögnum og útboðum.
Innkaupin eru rýnd af fleirum en kaupandanum og eru því gagnsæ, lögleg, hagkvæm og gæta jafnréttis. Allt ferlið er skjalfest frá upphafi til enda.
Markmið með opinberum innkaupum:
Opna fyrir samkeppni meðal fyrirtækja.
Koma í veg fyrir spillingu.
Efla hagvöxt í Evrópu og innkaup þvert á landamæri.
Auka virði innkaupa, fá meiri gæði og/eða lægra verð.
Örva nýsköpun.
Stuðla að þróun sjálfbærra lausna.
Hvað er keypt inn með innkaupaferli Fjársýslunnar? Allt milli himins og jarðar: Allt frá hugbúnaði og húsgögnum til togara og annarra tækja. Auk þess eru margs konar þjónusta og stórar og smáar framkvæmdir keyptar með opinberu innkaupaferli.
Lesa meira:
Þjónustuaðili
Fjársýslan (Innkaup)