Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Um hjónavígslur

Við 18 ára aldur geta tveir einstaklingar, óháð kyni, gengið í hjónaband eða gift sig. Hjónavígsla getur farið fram hjá sýslumanni eða hjá skráðu trú- eða lífsskoðunarfélagi. 

Skilyrði fyrir því að ganga í hjónaband

Lögræði

 • Báðir aðilar þurfa að vera lögráða. Ef annar aðili er sviptur lögræði þarf hann samþykki lögráðamanns síns.

Skyldleiki og ættleiðing

 • Systkini eða skyldmenni í beinan legg mega ekki giftast. Í beinan legg þýðir að annar aðilinn sé afkomandi hins.

 • Kjörforeldri og kjörbarn mega ekki giftast hvort öðru nema ættleiðing hafi verið felld niður.

Tvíkvæni

 • Einstaklingur sem þegar er í hjúskap má ekki ganga í annað hjónaband.

Fyrra hjónaband

 • Ef hjónaefni hefur verið í hjúskap er því óheimilt að ganga í hjúskap að nýju nema einkaskiptum sé lokið vegna fjárskipta þess og fyrri maka eða að opinber skipti séu hafin.

Aldur

 • Báðir aðilar þurfa að vera orðnir 18 ára. 

 • Yngra fólk getur sótt um undanþágu til dómsmálaráðuneytis með leyfi forsjárforeldra.

Gögn sem framvísa þarf fyrir athöfn

Fyrir athöfnin þarf að sýna fram á að báðir einstaklingar uppfylli skilyrði þess að ganga í hjónaband. Það er gert með því að framvísa eftirfarandi gögnum til löggiltra hjónavígslumanna, en það eru sýslumenn, prestar eða forstöðumenn skráðra trúfélaga. Þegar um sýslumann er að ræða skal leita til sýslumanns í því umdæmi þar sem annað hjónaefna á lögheimili. 

Farið er fram á að hjónaefni leggi fram afrit gagna 3 vikum fyrir áætlaðan vígsludag. Koma þarf frumriti gagnanna til sýslumanns helst 5 dögum fyrir vígsludag.

Ef þú hefur verið gift/giftur áður

Hafi fyrra hjúskap lokið með lögskilnaðarleyfi útgefnu hér á landi skal leggja fram vottorð Þjóðskrár Íslands um lögskilnað eða leyfisbréf um lögskilnað. Hafi fyrra hjónabandi verið slitið með dómi þarf að leggja fram dóminn. 

Sérreglur gilda um sönnun fyrir að hjúskap sé lokið hafi það gerst utan Íslands, sjá 7. gr. reglugerðar umkönnun hjónavígsluskilyrða.  

Ef þú ert ekkill/ekkja

Sé fyrri maki látinn skal leggja fram dánarvottorð.

Ef þú eða maki þinn er erlendur ríkisborgari

Þegar annað eða bæði hjónaefni eru erlendir ríkisborgarar þá þarf sá hinn sami að útvega eftirfarandi fylgigögn og skila til sýslumanns:

 • Fæðingarvottorð

 • Gilt vegabréf 

 • Sönnun þess að einstaklingurinn sé löglega í landinu. Þetta geta verið gögn sem sýna fram á hvenær viðkomandi kom til landsins, eins og flugmiði eða stimpill í vegabréfi eða vegabréfsáritun frá þeim löndum sem þurfa slíka áritun til að koma til landsins. 

 • Vottorð um hjúskaparstöðu frá yfirvöldum í heimalandinu. Vottorðið má ekki vera gefið út meira en 8 vikum fyrir athöfnina. Sum lönd gefa ekki út vottorð um hjúskaparstöðu. Í þeim tilvikum þarf að framvísa vottorði sem er gefið út af viðeigandi yfirvöldum í heimalandinu sem staðfestir að engar hindranir séu fyrir því að viðkomandi geti gengið í hjónaband. 

Ef vottorðin eru á öðru tungumáli en ensku, íslensku eða Norðurlandamáli, þá þurfa þau að vera þýdd af löggiltum skjalaþýðanda yfir á ensku eða íslensku.

Hjónavígsluskýrsla

Til að fá hjónaband lagalega skráð í þjóðskrá þarf að skila inn útfylltri hjónavígsluskýrslu að athöfn lokinni. Hjónavígsluskýrslan þarf að vera vottuð af tveimur svaramönnum sem ábyrgjast að ekkert sé því til fyrirstöðu að viðkomandi aðilar gangi í hjónaband. Algengt er að vígslumaður sjái um að fylla hana út með hjónaefnum fyrir athöfnina og sjái um frágang hennar.

Kostnaður 

Kostnaður við vottorð eru greidd til viðkomandi stofnunar.

Borgaraleg hjónavígsla

Kostnaður 10.000 kr.

Kirkjuleg hjónavígsla

Sjá gjaldskrá þjóðkirkjunnar um greiðslur fyrir prestþjónustu.

Til viðbótar getur komið kostnaður fyrir húsnæði og annað.

Mismunandi vígsluathafnir 

Sömu réttindi stofnast við hjónaband, hvort sem athöfnin fer fram borgaralega eða hjá trú- eða lífsskoðunarfélagi. Við athöfnina þurfa tveir lögráða vígsluvottar að vera viðstaddir. Vígsluvottar þurfa ekki að vera sömu aðilar og votta hjúskaparskýrsluna. 

Borgarleg hjónavígsla

Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annast borgaralegar hjónavígslur, hver í sínu umdæmi.

Borgaralega vígsla fer fram hjá sýslumanni á opnunartíma embætta og er vert að bóka tíma með góðum fyrirvara. Hægt er að óska eftir að hjónavígslan fari fram utan skrifstofu sýslumanna og utan skrifstofutíma en það fer eftir aðstæðum hjá hverju embætti hvort hægt sé að verða við þeim óskum. Greiða þarf aukalega fyrir þá þjónustu samkvæmt gjaldskrá

Í borgaralegum hjónavígslum eru engar reglur um klæðaburð og ekki er nauðsynlegt að setja upp hringa. Leyfilegt er að koma með gesti, eftir því hvað húsakynni á hverjum stað leyfa. Sýslumannsembættið getur yfirleitt lagt til vígsluvotta, sé þess óskað. 

Hjónavígslur hjá trú- eða lífsskoðunarfélagi 

Prestar þjóðkirkjunnar eða forstöðumenn annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga hér á landi sem fengið hafa löggildingu til geta annast hjónavígslur.

Kjósi tilvonandi brúðhjón að gifta sig hjá trú- eða lífsskoðunarfélagi þurfa þau að hafa samband við viðkomandi félag varðandi skipulag og tímasetningar.

Sýslumenn

Sýslu­menn