Hettusótt
Hettusótt er bráð og mjög smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum. Flestir fá hettusótt bara einu sinni á ævinni.
Ef þú telur að þú gætir verið með hettusótt er best að hafa strax samband við heilsugæsluna til að fá ráðleggingar um framhaldið.
Faraldsfræði
Árin 2005/2006 og 2015 kom upp faraldur hettusóttar á Íslandi og voru það einkum einstaklingar um tvítugt sem ekki höfðu smitast af hettusótt sem börn eða fengið fullnægjandi bólusetningu gegn sjúkdómnum. Dregið hefur úr algengi sjúkdómsins hér á landi eftir að byrjað var að bólusetja gegn honum 1989. Það eru helst þeir sem fæddir eru fyrir þann tíma og hafa ekki fengið sjúkdóminn sem er hætt við að fá hann og svo óbólusettir einstaklingar.
Smitleiðir og meðgöngutími
Hettusótt smitast með munnvatni og dropum úr öndunarfærum og snertingu við þá, en droparnir eru það stórir að þeir berast skammt frá hinum smitaða (<1 metra). Einstaklingur sem fær hettusótt er smitandi frá tveimur dögum áður og í fimm daga eftir að einkenni koma fram.
Til að rjúfa smitleiðirnar er ráðlagt að einstaklingur með hettusótt forðist að vera innan um aðra frá því að sjúkdómurinn greinist þar til 5 dagar eru liðnir frá því bólgan kom í ljós með því að vera heima frá vinnu eða skóla, helst einn í herbergi ef aðrir á heimilinu eru næmir fyrir hettusótt. Ef þeir sem sinna hinum veika eru næmir fyrir hettusóttinni (hafa ekki fengið hettusótt eða eru ekki bólusettir) ættu þeir að hafa hlífðargrímu fyrir vitum sínum ef þeir eru í miklu návígi (innan við 1 metra), nota hlífðarhanska ef snerta þarf munnvatn eða slím úr öndunarvegi og þvo hendur eftir snertingu við mengað yfirborð á meðan smitandi tímabil varir. Þrífa má á hefðbundinn hátt með vatni og sápu og strjúka yfir helstu snertifleti í umhverfi hins smitaða með yfirborðsvirku sótthreinsiefni (t.d. 70% umhverfisspritti) á meðan veikindi standa.
Hafðu samband við heilsugæsluna (netspjall Heilsuveru, skilaboð á Heilsuveru eða hringja) ef þú hefur verið í námunda við einstakling með hettusótt og þú ert ekki bólusett/-ur eða hefur ekki fengið hettusótt.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni sjúkdómsins eru oftast væg hjá börnum en leggjast þyngra á unglinga og fullorðna. Helstu einkenni eru hiti, slappleiki, bólga og særindi í munnvatnskirtlum, höfuðverkur, erfiðleikar við að tyggja og lystarleysi.
Unglingar og fullorðnir fá frekar fylgikvilla en börn. Alvarlegir fylgikvillar geta verið, heilabólga, heyrnarskerðing, bólga í brjóstum, briskirtli, eggjastokkum eða eistum. Bólga í síðast töldu líffærunum getur valdið ófrjósemi.
Greining
Grunsemdir um sjúkdóminn fást með læknisskoðun, en staðfesting fæst með mótefnamælingu í blóði eða ræktun veirunnar í munnvatni.
Meðferð
Engin sértækt meðferð er til gegn hettusóttarveirunni. Einstaklingum með hettusótt er ráðlagt að drekka vel, vera í hvíld og nota verkjalyf. Halda skal börnum heima þar til einkenni sjúkdómsins hafa gengið yfir. Í alvarlegri tilvikum getur þurft að leggja sjúklinga inn á sjúkrahús.
Forvarnir
Bólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi 1989 sem hluti af barnabólusetningum. Í dag eru börn bólusett með MMR (bóluefni gegn hettusótt, mislingum og rauðum hundum saman í einni sprautu) við 18 mánaða og 12 ára aldur sem hluti af almennri barnabólusetningu og gefur það góða vörn gegn sjúkdómnum.
Bólusetning eftir útsetningu er ekki með vissu gagnleg til varnar hettusóttarveikindum, því er ekki mælt með bólusetningu fólks með þekkta útsetningu fyrr en a.m.k. 3 vikum eftir síðustu umgengni við smitandi einstakling. Hinsvegar er rétt að óbólusett eða vanbólusett heimilisfólk, skólafélagar og samstarfsfólk útsettra fái bólusetningu sem fyrst, til að draga úr hættu á frekari dreifingu. Ekki er mælt með bólusetningu þeirra sem hafa fengið hettusótt, nema það vanti mislingabólusetningu.
Hverjir ættu að fá MMR bólusetningu vegna hettusóttar í nærumhverfi án beinnar útsetningar:
Áður vitanlega óbólusettir (enginn skammtur) einstaklingar fæddir 1980-2023 sem hafa náð 6 mánaða aldri þegar bólusetning er boðin.
Einstaklingar fæddir 1988-2011 sem eingöngu hafa fengið einn skammt af MMR bóluefni
Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu sem hafa ekki með vissu fengið tvo skammta af MMR bóluefni, fæddir 1970-2000.
Starfsmenn í bráðaheilbrigðisþjónustu sem hafa fengið tvo skammta af MMR en liðin eru 10 ár frá skammti #2 mega fá þriðja skammt
Hverjir ættu ekki að fá MMR bólusetningu:
Barnshafandi.
Ónæmisbældir (skert frumubundið ónæmissvar) – algengasta orsök bælingar á frumubundnu ónæmi er notkun ónæmisbælandi lyfja (stera, krabbameinslyfja og líftæknilyfja).
Aldur undir 6 mán.
Gelatínofnæmi.
Fólk sem þegar er bólusett með tveimur skömmtum af MMR sem ekki starfar í bráðaheilbrigðisþjónustu.
Bólusetningar fara fram á heilsugæslustöðvum og þarf að hafa samband við heilsugæsluna á dagvinnutíma, t.d. í skilaboðum eða netspjalli á Heilsuveru, til að fá upplýsingar um aðgengi, ráðleggingar eða tíma í bólusetningu.
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af hettusótt með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis