Skráningareglur ökutækja
Þjónustuaðili:
Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.
Forskráningar og upphafsviðurkenningar
Forskráning ökutækis í ökutækjaskrá byggir á viðurkenningu þess til markaðssetningar á Íslandi. Framleiðendur og umboð gegna þar hlutverki og geta þau fengið viðurkennda fulltrúa í samskiptum við Samgöngustofu.
Fulltrúi umboðs/framleiðanda er aðili sem ábyrgist innflytjanda/framleiðanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja. Fulltrúi öðlast viðurkenningu og hefur bæði ábyrgð og skyldur.
Efni kaflans
Umboð
Umboð er aðili sem kemur fram fyrir hönd framleiðanda ökutækja á tilteknu svæði (oftast öllu Íslandi) og sinnir sölu og oft líka þjónustu á ökutækjum frá honum.
Samkvæmt Evrópureglum um markaðssetningu bifreiða og eftirvagna þeirra (2018/858/ESB), bifhjóla (tví-/þrí-/fjóhjóla) (168/2013/ESB) og dráttarvéla og eftirvagna þeirra (167/2013/ESB), er þessi skilgreining á dreifingaraðila (umboð fyrir ökutæki frá framleiðanda í ESB):
Dreifingaraðili er söluaðili eða hver annar einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem gerir ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilda tæknieiningu, hlut eða búnað aðgengilegan á markaði.
Í sömu reglum er eftirfarandi skilgreining á innflytjanda, en þar er átt við innflutning frá landi utan evrópska efnahagssvæðisins (umboð fyrir ökutæki frá framleiðanda utan ESB):
Innflytjandi er einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á evrópska efnahagssvæðinu sem setur ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilda tæknieiningu, hlut eða búnað frá þriðja landi á markað.
Fulltrúar umboðs
Fulltrúi er einstaklingur sem starfar hjá umboði og ábyrgist það gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja umboðsins. Fulltrúinn skal vera viðurkenndur af Samgöngustofu og skráður á lista yfir viðurkennda fulltrúa (US.350). Hann skal hafa góða þekkingu á lögum og reglum er varða skráningu ökutækja og vera vel að sér um þá ábyrgð og þær skyldur sem gerðarviðurkenning hefur í för með sér.
Fulltrúaréttindi og kröfur til fulltrúa
Fulltrúaréttindi skiptast í þrjá flokka, A, B og C.
Fulltrúi A hefur rétt til að annast gerðarviðurkenningu, forskráningu og nýskráningu gerðarviðurkenndra ökutækja.
Fulltrúi B hefur rétt til að framkvæma fulltrúaskoðun og annast nýskráningu gerðarviðurkenndra ökutækja.
Fulltrúi C hefur rétt til að annast fulltrúaskoðun og skráningu á gerðarviðurkenndum tengibúnaði.
Til að öðlast fulltrúaréttindi þarf umsækjandi að sitja námskeið á vegum Samgöngustofu og standast skriflegt próf að því loknu með einkunnina 7,0 að lágmarki. Fulltrúaréttindi gilda í tvö ár. Að loknu hverju námskeiði skal fulltrúi undirrita staðfestingu á því að hann hafi setið námskeið, að hann gangist við þeirri ábyrgð sem fylgir starfi fulltrúa og þeim viðurlögum sem Samgöngustofu er unnt að beita séu reglur brotnar.
Fulltrúi, sem endurnýjar réttindi sín og hefur ekki fengið athugasemd(ir) frá Samgöngustofu frá síðasta námskeiði, fær réttindi sem gilda í þrjú ár. Til að viðhalda fulltrúaréttindum þarf fulltrúi að sækja upprifjunarnámskeið annað hvert ár og standast skriflegt próf/verkefni að því loknu.
Alvarleg eða ítrekuð mistök af hálfu fulltrúa í starfi getur leitt til sviptingar á fulltrúaréttindum. Ef fulltrúi hefur verið sviptur réttindum sínum tvisvar sinnum, mun hann ekki geta öðlast réttindin á nýjan leik.
Verkefni fulltrúa umboða
Verkefni fulltrúa umboða eru m.a. þessi:
Frumskráning gerðar í ökutækjaskrá.
Nýskráning ökutækis sem byggir á gerð.
Gjaldtaka
Gjald Samgöngustofu fyrir fulltrúanámskeið er 8.777 krónur fyrir hvern fulltrúa.
Skyldur dreifingaraðila (frá framleiðanda innan ESB)
Skyldum dreifingaraðila er lýst með eftirfarandi hætti í 18. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).
Áður en ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining er boðin fram á markaði skulu dreifingaraðilar sannprófa að ökutækið, kerfið, íhluturinn eða aðskilda tæknieiningin hafi þá lögboðnu merkiplötu eða gerðarviðurkenningarmerki sem gerð er krafa um, að þeim fylgi þau skjöl sem krafist er sem og leiðbeiningar og öryggisupplýsingar, eins og krafist er í 59. gr. um upplýsingar ætlaðar notendum, á opinberu tungumáli eða tungumálum viðeigandi aðildarríkisins og að innflytjandinn og framleiðandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í annars vegar 8. mgr. 13. gr. um almennar skyldur framleiðenda og 5. mgr. 16. gr. um skyldur innflytjenda hins vegar.
Dreifingaraðilar skulu tafarlaust upplýsa viðeigandi framleiðanda um allar kvartanir sem þeir hafa fengið varðandi áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum varðandi ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildu tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa boðið fram á markaði.
Dreifingaraðilar skulu sjá til þess að á meðan ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar eru á þeirra ábyrgð ógni geymslu- eða flutningsskilyrði ekki samræmi þeirra við kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.
Skyldur innflytjenda (frá framleiðanda utan ESB)
Skyldum innflytjenda er lýst með eftirfarandi hætti í 16. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).
Innflytjendur skulu einungis setja á markað þau ökutæki, kerfi, íhluti eða aðskildar tæknieiningar sem fara að þessari reglugerð.
Áður en að gerðarviðurkennt ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining er sett á markað skal innflytjandi sannprófa að það falli undir gilt ESB-gerðarviðurkenningarvottorð og að kerfið, íhluturinn eða aðskilda tæknieiningin hafi það gerðarviðurkenningarmerki sem krafist er og uppfylli kröfur 8. mgr. 13. gr. um almennar skyldur framleiðenda. Ef um er að ræða ökutæki skal innflytjandi sannprófa að því fylgi það samræmisvottorð sem krafist er.
Ef að ökutæki, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining uppfyllir ekki kröfur þessarar reglugerðar, og er einkum ekki í samræmi við gerðarviðurkenningu skulu innflytjendur ekki setja ökutækið, kerfið, íhlutinn eða aðskildu tæknieininguna á markað, heimila notkun þeirra eða skráningu fyrr en samræmi við kröfur hefur verið tryggt.
Ef alvarleg áhætta skapast af ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilinni tæknieiningu, hluta eða búnaði skulu innflytjendur ennfremur tilkynna um það til framleiðanda og markaðseftirlitsyfirvalda. Fyrir ökutæki, kerfi, íhluti og aðskildar tæknieiningar með gerðarviðurkenningu skulu innflytjendur einnig tilkynna það til viðurkenningaryfirvaldsins sem veitti gerðarviðurkenninguna.
Innflytjendur skulu tilgreina nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem ná má í þá, á ökutækinu, íhlutnum, aðskildu tæknieiningunni, hlutanum eða búnaðinum eða, ef það er ekki mögulegt, á umbúðunum eða í skjali sem þeim fylgja.
Innflytjendur skulu tryggja að ökutækinu, kerfinu, íhlutnum eða aðskildu tæknieiningunni fylgi leiðbeiningar og upplýsingar, eins og krafist er í 59. gr. um upplýsingar ætlaðar notendum, á opinberu tungumáli eða tungumálum hlutaðeigandi aðildarríkis.
Til að vernda heilsu og öryggi neytenda skulu innflytjendur halda skrá yfir kvartanir og innkallanir varðandi ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildar tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa sett á markað og skulu upplýsa dreifingaraðila sína um slíkar kvartanir og innkallanir.
Innflytjendur skulu tafarlaust upplýsa viðeigandi framleiðanda um allar kvartanir sem þeir hafa fengið varðandi áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í tengslum við þau ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildu tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa sett á markað.
Innflytjendur skulu sjá til þess að á meðan ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar eru á þeirra ábyrgð ógni geymslu- eða flutningsskilyrði ekki samræmi þeirra við kröfurnar sem mælt er fyrir um í reglugerðinni.