Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Forskráningar og upphafsviðurkenningar

    Forskráning ökutækis í ökutækjaskrá byggir á viðurkenningu þess til markaðssetningar á Íslandi. Framleiðendur og umboð gegna þar hlutverki og geta þau fengið viðurkennda fulltrúa í samskiptum við Samgöngustofu.

    Fulltrúi umboðs/framleiðanda er aðili sem ábyrgist innflytjanda/framleiðanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviður­kenn­ingu og skráningu ökutækja. Fulltrúi öðlast viðurkenningu og hefur bæði ábyrgð og skyldur.

    Efni kaflans

    Gerð í ökutækjaskrá (Ekjugerð)

    Til að fulltrúi umboðs (fulltrúi A) geti lagt inn umsókn um forskráningu ökutækis á grundvelli gerðar, og fengið heimild til að nýskrá ökutækið á grundvelli fulltrúaskoðunar, þarf umboðið að hafa fengið samþykkta umsókn um frumskráningu gerðar. Við samþykkt er stofnuð svokölluð Ekjugerð með Ekjugerðarnúmeri og Ekjuviðurkenningarnúmeri sem notað er í samskiptum vegna forskráningar ökutækja á viðkomandi gerð.

    Ástæður þess að stofna þarf nýja Ekjugerð

    Stofna þarf nýja Ekjugerð þegar nýjar útfærslur ökutækis verða til. Það þekkist á því að eitthvert eftirfarandi gilda er öðruvísi á evrópskri heildargerðarviðurkenningu:

    • Gerðarheiti (Type)

    • Afbrigði (Version)

    • Útgáfa (Variant)

    • Gerðarviðurkenningarnúmer (allt e-númerið)

    • Dagsetning á útgáfu gerðarviðurkenningarinnar (þessa e-númers)

    Ef um íslenska þjóðagerðarviðurkenningu torfærutækja er að ræða þá þekkist ný gerð á því að eitthvert eftirtalinna gilda er öðruvísi milli ökutækja:

    • Tegund

    • Undirtegund

    • Gerðarheiti (Type), ef uppgefið af framleiðanda (modelkóði)

    • Ökutækisflokkur

    • Hreyfill (gerð, orkugjafi og afköst)

    • Lengd og breidd

    Afar áríðandi er að umboð láti stofna fyrir sig nýja gerð þegar einhverjar breytingar hafa átt sér stað. Uppgötvist það að forskráning eða nýskráning hafi verið framkvæmd á rangri gerð gæti þurft að aftukalla forskráningu eða nýskráninguna.

    Umsókn um frumskráningu Ekjugerðar

    Umsókn um frumskráningu gerðar er með tvennum hætti:

    • Ökutækið er með evrópska heildargerðarviðurkenningu: Fulltrúi A sendir afrit af CoC vottorði ökutækis af hinni nýju gerð á netfangið forskraning hjá Samgöngustofu (ásamt upplýsingum um sig og umboðið).

    • Ökutækið er torfærutæki: Sótt er um nýja þjóðargerðarviðurkenningu eða viðbót við áður útgefna þjóðargerðarviðurkenningu á eyðublaði US.400. Eyðublaðinu þarf að skila á pappír ásamt öllum umbeðnum fylgigögnum til Samgöngustofu (sjá neðar).

    Sé umsókn samþykkt er ný Ekjugerð stofnuð og stofnkostnaður skuldfærður á viðkomandi umboð. Þá verða til tvö auðkennisnúmer í Ekju sem nota þarf við forskráningu ökutækja á viðkomandi gerð:

    • Ekjugerðarnúmer: Notað þegar sótt er um forskráningu á ökutæki með rafrænum hætti (skeytakerfi umboða). Þetta er 12 stafa númer þar sem 8 fyrstu stafirnir eru úr verksmiðjunúmeri ökutækisins.

    • Ekjuviðurkenningarnúmer: Notað þegar sótt er um forskráningu á pappírsformi (US.106). Þetta er fjögurra stafa raðnúmer viðurkenningar og svo raðnúmer viðbótar með bandstriki á milli.

    Í báðum tilvikum verður umboð að halda sjálft utan um samþykktar gerðir sem það getur notað í þessum samskiptum, þ.e. hvaða útfærsla ökutækis er fyrir hverja gerð.

    Eignarhald gerðar

    Umboð með fulltrúa sem fær samþykkta umsókn um stofnun Ekjugerðar hefur heimild til að nota hana og sækja um nýskráningu á grundvelli fulltrúaskoðunar. Um notkun annarra aðila gildir eftirfarandi:

    • Stofnun Ekjugerðar á grundvelli evrópskrar heildargerðar­viður­kenningar veitir umboði ekki einkarétt á afnotum af henni. Ef aðrir aðilar óska eftir skráningu á ökutæki á grundvelli sömu gerðar er það heimilt, enda sé framvísað CoC-vottorði og ökutækið fært til samanburðarskoðunar fyrir nýskráningu. Ef annað umboð með fulltrúa vill geta framkvæmt fulltrúaskoðun á grundvelli sömu gerðar verður það að láta stofna gerðina fyrir sig á venjulegan hátt.

    • Stofnun Ekjugerðar á grundvelli íslenskrar þjóðagerðarviðurkenningar á torfærutæki veitir umboðinu einkarétt á afnotum af henni.

    Umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu

    Með umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu torfærutækis (US.400) þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:

    • Teikning með öllum aðalmálum.

    • Myndir sem sýna ökutækið annars vegar á ská framan frá og aðra hliðina og hins vegar á ská aftan frá og hina hliðina.

    • Leiðbeiningarbók eða sambærilegar upplýsingar frá framleiðanda.

    • Upplýsingar um merkingu hvers tákns eða samstöðu tákna í verksmiðjunúmeri og gerðarnúmeri.

    • Upplýsingar um burðargetu einstakra ása og leyfða heildarþyngd ökutækisins.

    • Upplýsingar um orkugjafa og afköst hreyfils (og um slagrými ef brunahreyfill).

    Eftir að sótt hefur verið um þjóðargerðarviðurkenningu torfærutækis þarf að framkvæma gerðarskoðun:

    • Gerðarskoðun er gerð af Samgöngustofu og í húsakynnum umboðs eða framleiðanda. Við gerðarskoðun þarf að vera til staðar að lágmarki eitt eintak af viðkomandi gerð ökutækisins og aðstaða til að skoða það, gangsetja og prófa ljós og hemla.

    • Sé um innflutt torfærutæki að ræða gefur Samgöngustofa heimild til innflutnings hæfilegs magns tækja til að notast við í gerðarskoðun (gefur út fastanúmer á þau og setur á nýskráningarlás).

    Gjaldtaka

    • Fyrir stofnun á nýrri gerð (Ekjugerð) á grundvelli evrópskrar heildagerðarviðurkenningar greiðir umboð 12.770 krónur. Fyrir stofnun á viðbót er greitt 8.521 króna.

    • Fyrir stofnun á nýrri gerð (Ekjugerð) á grundvelli íslenskrar þjóðargerðarviðurkenningar torfærutækja greiðir umboð 23.377 krónur. Fyrir stofnun á viðbót er greitt 4.722 krónur.

    • Fyrir gerðarskoðun í tengslum við umsókn um þjóðargerðarviðurkenningu torfærutækis greiðir umboð eða framleiðandi tímagjald, 11.008 krónur á hverja klukkustund.

    Tölvuvinnsla

    Umboð senda beiðni um stofnun nýrrar gerðar með tölvupósti eða á pappírsformi.