Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Forskráningar og upphafsviðurkenningar

    Forskráning ökutækis í ökutækjaskrá byggir á viðurkenningu þess til markaðssetningar á Íslandi. Framleiðendur og umboð gegna þar hlutverki og geta þau fengið viðurkennda fulltrúa í samskiptum við Samgöngustofu.

    Fulltrúi umboðs/framleiðanda er aðili sem ábyrgist innflytjanda/framleiðanda gagnvart Samgöngustofu varðandi gerðarviður­kenn­ingu og skráningu ökutækja. Fulltrúi öðlast viðurkenningu og hefur bæði ábyrgð og skyldur.

    Efni kaflans

    Framleiðandi

    Framleiðandi er sá sem hannar og framleiðir ökutæki að aðskildar tæknieiningar í ökutæki, og ber ábyrgð á því að sýna fram á viðurkenningu þess vegna markaðssetningar þess. Hann ber einnig framleiðendaábyrgð næstu árin og getur verið gerður fjárhagslega ábyrgur fyrir göllum sem upp kunna að koma og afleiðingum þeirra, t.d. vegna slysa eða óhappa.

    Samkvæmt Evrópureglum um markaðssetningu bifreiða og eftirvagna þeirra (2018/858/ESB), bifhjóla (tví-/þrí-/fjóhjóla) (168/2013/ESB) og dráttarvéla og eftirvagna þeirra (167/2013/ESB), er þessi skilgreining á framleiðanda:

    Framleiðandi er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur gagnvart viðurkenningaryfirvaldinu [Samgöngustofu] fyrir öllum þáttum gerðarviðurkenningar- eða heimildarferlisins, fyrir samræmi framleiðslunnar og sem ber einnig ábyrgð á málefnum varðandi markaðseftirlit með ökutækjum, kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem framleiddar eru, hvort sem einstaklingurinn eða lögaðilinn kemur með beinum hætti að öllum þrepum hönnunar og smíði ökutækis, kerfis, íhlutar eða aðskilinnar tæknieiningar sem háð er gerðarviðurkenningu.

    Aðskilin tæknieining er þannig skilgreind í sömu reglum (t.d. sérstakur tengibúnaður):

    Aðskilin tæknieining er búnaður sem verður að uppfylla kröfur reglugerðanna og sem er ætlaður til að vera hluti af ökutæki og sem má gerðarviðurkenna sérstaklega en einungis í tengslum við eina eða fleiri tilteknar gerðir ökutækis, ef skýrt er kveðið á um það í slíkum gerðum.

    Fulltrúi framleiðanda

    Fulltrúi framleiðanda er einstaklingur eða lögaðili með staðfestu í aðildarríki EES sem framleið­andi tilnefnir sem fulltrúa sinn gagnvart Samgöngustofu og kemur fram fyrir hans hönd í málum sem reglugerð um gerð og búnað ökutækja tekur til (822/2004). Þar sem vísað er til hugtaksins "framleiðandi" ber að skilja það sem framleiðandi eða fulltrúi hans samkvæmt þessari skilgreiningu. Fulltrúi framleiðanda ber ábyrgð á heildargerðarviðurkenningu, gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja fyrir hönd innflytjanda eða framleiðanda ökutækis.

    Sem dæmi um verkefni sem fulltrúi framleiðanda hefur heimild til að vinna:

    • Tilkynna um breytingu á hámarksafköstum bifhjóla (sem eru gerðarviðurkennd til að vera stillt fyrir mismunandi bifhjólaökuréttindi).

    Almennar skyldur framleiðenda

    Almennum skyldum framleiðenda er lýst með eftirfarandi hætti í 13. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).

    1. Framleiðendur skulu tryggja að ökutækin, kerfin, íhlutirnir og aðskildu tæknieiningarnar sem þeir hafa framleitt og sem sett eru á markað hafi verið framleidd og viðurkennd í samræmi við þær kröfur sem mælt er fyrir um í reglugerðinni, þá sérstaklega í samræmi við kröfurnar í 5. gr. um tæknilegar kröfur.

    2. Framleiðendur skulu vera ábyrgir gagnvart viðurkenningaryfirvaldinu fyrir öllum þáttum viðurkenningaraðferðarinnar svo og fyrir samræmi framleiðslunnar. Þegar um er að ræða fjölþrepa gerðarviðurkenningu skulu framleiðendur einnig vera ábyrgir fyrir viðurkenningu og samræmi framleiðslu þeirra kerfa, íhluta eða aðskildu tæknieininga sem þeir hafa bætt við á smíðaþrepi ökutækisins. Framleiðendur sem breyta íhlutum, kerfum eða aðskildum tæknieiningum sem þegar hafa verið samþykkt á fyrri þrepum, skulu ábyrgir fyrir gerðarviðurkenningunni og samræmi framleiðslu þessara breyttu íhluta, kerfa eða aðskildu tæknieininga. Framleiðendur á fyrra þrepi skulu leggja fram upplýsingar til framleiðenda á síðari þrepum varðandi hvers konar breytingu sem getur haft áhrif á gerðarviðurkenningu íhlutar, gerðarviðurkenningu kerfis eða gerðarviðurkenningu aðskilinnar tæknieiningar eða á heildargerðarviðurkenningu ökutækis. Slíkar upplýsingar skal veita um leið og nýja rýmkunin á heildargerðarviðurkenningu ökutækis hefur verið veitt og eigi síðar en á fyrsta framleiðsludegi ófullbúna ökutækisins.

    3. Framleiðendur sem breyta ófullbúnu ökutæki með þeim hætti að það fari í annan ökutækisflokk, með þeim afleiðingum að kröfurnar sem þegar hafa verið metnar á fyrra gerðarviðurkenningarstigi breytast, skulu einnig bera ábyrgð á að kröfurnar sem eiga við flokkinn sem breytta ökutækið er í séu uppfylltar.

    4. Að því er varðar ESB-gerðarviðurkenningu á ökutækjum, kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum skal framleiðandi með staðfestu utan Sambandsins tilnefna einn fulltrúa með staðfestu í Sambandinu sem fulltrúa sinn í samskiptum sínum við viðurkenningaryfirvaldið. Framleiðandinn skal einnig tilnefna einn fulltrúa með staðfestu innan Sambandsins fyrir markaðseftirlit, sem getur verið sami fulltrúinn og sá sem tilnefndur er fyrir ESB-gerðarviðurkenningu.

    5. Framleiðendur skulu sjá til þess að ökutæki þeirra, kerfi, íhlutir og aðskildar tæknieiningar séu ekki hönnuð fyrir áætlanir eða aðrar aðferðir sem breyta frammistöðunni sem kemur fram meðan á prófun stendur þannig að þau fari ekki að reglugerðinni þegar þau eru notuð við aðstæður sem búast má við með sanngjörnum hætti í venjulegri notkun.

    6. Framleiðendur skulu koma á fót verklagsreglum til að tryggja að raðframleiðsla ökutækja, kerfa, íhluta og aðskilinna tæknieininga samræmist áfram viðurkenndu gerðinni.

    7. Framleiðendur skulu rannsaka allar kvartanir sem þeir fá varðandi áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í tengslum við þau ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildu tæknieiningar, hluti eða búnað sem þeir hafa sett á markað. Framleiðendur skulu halda skrá yfir slíkar kvartanir, þ.m.t. lýsingu á vandamálinu fyrir hverja kvörtun og þær upplýsingar sem þörf er á til að auðkenna nákvæmlega viðkomandi gerð ökutækis, kerfis, íhlutar, aðskildu tæknieiningar, hluta eða búnaðar, og ef um er að ræða rökstuddar kvartanir skulu framleiðendur upplýsa dreifingaraðila og innflytjendur sína um slíkt.

    8. Til viðbótar við lögboðna merkiplötu sem framleiðendur festa á ökutæki sín og gerðarviðurkenningarmerki sem þeir festa á íhluti sína eða aðskildar tæknieiningar í samræmi við 38. gr. um lögboðnar merkiplötur og aukaplötur framleiðanda, merkingar og gerðarviðurkenningarmerki íhluta og aðskilinna tæknieininga, skulu þeir tilgreina nafn, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang sitt í Sambandinu þar sem ná má í þá, á ökutækjum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem þeir setja á markað eða, ef það er ekki mögulegt, á pakkningum eða í skjölum sem fylgja íhlut eða aðskilinni tæknieiningu.

    9. Framleiðendur skulu sjá til þess að á meðan ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar eru á þeirra ábyrgð ógni geymslu- eða flutningsskilyrði ekki samræmi þeirra við kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.

    10. Án þess að hafa áhrif á ákvæði 5. mgr. 9. gr. um sannprófun framkvæmdastjórnarinnar á að farið sé að tilskildum ákvæðum, og með fyrirvara um vernd viðskiptaleyndarmála og varðveislu persónuupplýsinga skv. lögum Sambandsins og landslögum skulu framleiðendur gera aðgengileg gögn sem nauðsynleg eru þriðju aðilum til að framkvæma prófanir á að hugsanlega sé ekki farið að tilskildum ákvæðum, þ.m.t. mæliþætti og stillingar sem eru nauðsynleg til að líkja nákvæmlega eftir prófunarskilyrðunum sem voru í gildi þegar gerðarviðurkenningarprófunin var framkvæmd.

    Að því er varðar fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdargerðir sem tilgreina þau gögn sem á að gera aðgengileg án endurgjalds, ásamt þeim kröfum sem þriðju aðilar eiga að uppfylla til að sýna fram á að þeir hafi lögmæta hagsmuni á sviði almannaöryggis eða umhverfisverndunar og að þeir notist við viðunandi prófunaraðstöðu. Samþykkja skal þessar framkvæmdargerðir í samræmi við rannsóknarmálsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 8 um skyldur markaðseftirlitsyfirvalda.

    Skyldur fulltrúa framleiðanda

    Skyldum fulltrúa framleiðenda er lýst með eftirfarandi hætti í 15. gr. reglugerðar 2018/858/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki. Sambærileg ákvæði eru í reglugerðum 167/2013/ESB (er varðar dráttarvélar og eftirvagna þeirra) og 168/2013/ESB (er varðar tví-/þrí-/fjórhjól).

    1. Fulltrúi framleiðanda skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboðinu frá framleiðandanum. Þetta umboð skal a.m.k. kveða á um að fulltrúinn:
      a) hafi aðgang að ESB-gerðarviðurkenningarvottorðinu og fylgiskjölum þess sem um getur í 1. mgr. 28. gr. um ESB-gerðarviðurkenningarvottorð ásamt aðgangi að samræmisvottorðinu á einu af opinberum tungumálum Sambandsins; slík gögn skal gera aðgengileg viðurkenningaryfirvaldinu og markaðseftirlitsyfirvöldunum í 10 ár eftir lok gildistíma ESB-gerðarviðurkenningar fyrir ökutæki og í fimm ár eftir lok gildistíma ESB-gerðarviðurkenningar fyrir kerfi, íhlut eða aðskilda tæknieiningu,
      b) afhendi viðurkenningaryfirvaldi, gegn framvísun rökstuddrar beiðni frá því yfirvaldi, allar upplýsingar, öll gögn og allar aðrar tækniforskriftir, þ.m.t. aðgang að hugbúnaði og reikniritum, sem þörf er á til að sýna fram á samræmi framleiðslu á ökutæki, kerfi, íhlut eða aðskilinni tæknieiningu,
      c) eigi samstarf við viðurkenningaryfirvöldin eða markaðseftirlitsyfirvöldin, að beiðni þeirra, um allar aðgerðir sem gripið er til í því skyni að uppræta þá alvarlegu áhættu sem skapast af ökutækjum, kerfum, íhlutum, aðskildum tæknieiningum, hlutum eða búnaði sem falla undir það umboð,
      d) upplýsi framleiðandann þegar í stað um kvartanir og skýrslur sem varða áhættu, atvik sem grunur er um eða tilvik þar sem ekki er farið að tilskildum ákvæðum í tengslum við ökutæki, kerfi, íhluti, aðskildar tæknieiningar, hluti eða búnað sem falla undir það umboð,
      e) hafi rétt til að fella umboðið úr gildi án viðurlaga ef framleiðandinn fer í bága við skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð.

    2. Fulltrúi framleiðanda sem fellir umboðið úr gildi á grundvelli ástæðnanna sem um getur í e-lið 1. mgr. skal án tafar tilkynna það bæði til viðurkenningaryfirvaldsins sem veitti gerðarviðurkenninguna og til framkvæmdastjórnarinnar. Þær upplýsingar sem leggja skal fram skulu innihalda a.m.k.:
      a) dagsetningu uppsagnar umboðsins,
      b) til hvaða dags megi tilgreina fráfarandi fulltrúa framleiðanda í upplýsingum sem framleiðandi lætur í té, þ.m.t öllu kynningarefni,
      c) skjalaflutning, þ.m.t. trúnaðarkvaðir og eignarréttur,
      d) skyldur fulltrúa fráfarandi framleiðandans eftir lok umboðsins til að áframsenda til framleiðanda eða fulltrúa framleiðandans sem við tekur allar kvartanir og skýrslur um áhættu og atvik sem grunur er um varðandi ökutæki, kerfi, íhlut, aðskilda tæknieiningu, hluta eða búnað sem falla undir tilnefningu fulltrúa fráfarandi framleiðandans sem hans fulltrúa.