Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Ritunarramminn – handbók um notkun

Hér má finna PDF útgáfu af handbókinni.


Ritunarrammann má nálgast á Læsisvefnum.

    Notkun Ritunarrammans

    Kennari og nemendur þurfa að hafa sameiginlegan skilning á markmiðum náms og matsviðmiða og hvað er til marks um að tiltekinni hæfni sé náð. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að notkun á niðurstöðum námsmats og ígrundun stöðu út frá viðmiðum sé í raun mikilvægari en niðurstöður sjálfs námsmatsins. Þannig verða niðurstöðurnar vegvísir sem beina námi nemenda fram á við; gefa hugmyndir að næstu skrefum í kennslu og hvaða markmið nemendur ættu að setja sér til aukins árangurs (Nanna K. Christiansen, 2021). Tilgangurinn með náminu verður jafnframt augljósari og nemandi færari um að axla ábyrgð á því sjálfur. Þessi nálgun er í samræmi við áherslur aðalnámskrár en þar er lögð áhersla á að nemendur fái reglulega tækifæri til að velta eigin námi fyrir sér, setja sér markmið og vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í námsmati (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2024).

    Megintilgangur leiðsagnarnáms er að nýta matsviðmið til ígrundunar á stöðu á meðan nemandi er staddur í miðju vinnuferlinu. Einnig má nota þrep Ritunarrammans til að meta nemendur í lok vinnulotu, annar eða skólaárs. Lokamat gefur til kynna kunnáttu eða árangur nemenda við lok afmarkaðs viðfangsefnis eða námsáfanga. Það hefur þann megintilgang að veita upplýsingar um árangur náms og kennslu í lok námstíma. Með öðrum orðum felst lokamat í því að kanna stöðu og framfarir sem hafa átt sér stað, mögulega yfir lengri tíma eða frá einum tímapunkti til annars.