Ritunarramminn – handbók um notkun
Framvindurammar og þrep
Mikilvægt er að hafa góða yfirsýn og skilning á inntaki efnisþáttanna sem liggja til grundvallar Ritunarrammanum. Til að auðvelda kennurum að átta sig á nauðsynlegum stíganda í hæfni nemenda og hvað hver efnisþáttur felur í sér voru svokallaðir framvindurammar útbúnir fyrir hvern þátt rammans. Framvindurammar nýtast til dæmis vel við skipulagningu ritunarkennslu en þeir eru ekki matstækið sjálft heldur þrepin sem fjallað er um í næsta kafla.
Dæmi um framvinduramma

Ritunarrammanum er skipt í sex þrep sem ná yfir alla árganga grunnskólans. Á myndinni Dæmi um framvinduramma má sjá að fyrsta þrep nær yfir 1. og 2. bekk og á þrepum tvö og þrjú er einnig gert ráð fyrir skörun. Ástæðan fyrir sköruninni í fyrstu þremur þrepunum er sú að nemendur eru misfljótir af stað í læsisnámi sínu. Þessi getumunur jafnast svo út þegar nemendur hafa náð tökum á undirstöðuatriðunum og við taka atriði sem eru flóknari og nemendur eru lengur að ná tökum á. Það skýrir hvers vegna efri þrepin ná yfir tvo árganga en skarast ekki.
Á myndinni má einnig má sjá hvernig efnisþátturinn „uppbygging texta“ er brotinn niður í undirþætti sem síðan eru útfærðir í matsviðmið. Matsviðmiðin geta ýmist náð yfir eitt þrep eða fleiri en það ræðst af því hversu flókið viðfangsefnið er talið og hvenær gera má ráð fyrir að nemendur séu færir um að ná tiltekinni færni eða hæfni.
Matsviðmið Ritunarrammans eru nokkuð sértækari og ítarlegri en hæfniviðmið aðalnámskrár. Matsviðmiðin má einnig nota sem námsmarkmið við gerð kennsluáætlana og skólanámskrár. Þannig brúa þau bilið á milli nokkuð almennra ákvæða aðalnámskrár í hagnýta framkvæmd ritunarkennslu og varða leið nemenda í átt að sífellt meiri ritunarhæfni með skýrum hætti. Orðalag viðmiðanna í framvindurömmunum endurspegla færni eða hæfni sem hefur verið að fullu náð.