Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Ritunarramminn – handbók um notkun

Hér má finna PDF útgáfu af handbókinni.


Ritunarrammann má nálgast á Læsisvefnum.

    Hvað er Ritunarramminn?

    Ritunarramminn er matsrammi sem varðar leið í ritunarkennslu og námi frá upphafi til loka grunnskólagöngu. Ramminn er settur fram í anda leiðsagnarnáms. Megineinkenni leiðsagnarnáms er til dæmis tíð endurgjöf til nemandans um frammistöðu. Það gerir nemendum kleift að nýta sér upplýsingar meðan á lærdómsferlinu stendur og hjálpar kennurum að aðlaga kennslu sína jafnóðum að þörfum nemenda. Skrefin í átt að góðri ritunarhæfni eru mörg, allt frá því að læra að draga til stafs og til þess að geta skrifað fjölbreytta texta í margvíslegum tilgangi. Mikilvægt er að fanga þau atriði sem teljast til góðrar ritunarhæfni og æskilega stíganda í ritunarkennslu og námi.

    Meginefnisþættir rammans eru fjórir; uppbygging texta, einkenni textategundar, málnotkun og skráning. Hver þáttur er auðkenndur með sínum lit. Fyrstu þrír efnisþættir rammans snúa að textagerðinni sjálfri en sá síðasti að tæknilegri hlið ritunar; stafsetningu, skrift og ritvinnslu. Þessir þættir eru oft nefndir verkfæri ritunar þar sem þeir eiga að þjóna textagerðinni sjálfri en eru ekki meginviðfangsefni ritunarkennslunnar.

    Efnisþættir Ritunarrammans

    skyring efnisþættir Ritunarrammans

    Ritunarramminn er útfærður frá þremur algengum textategundum sem nemendur fást að jafnaði við á grunnskólagöngu sinni, það er sögugerð, fræðitextum og rökfærslutextum. Þessar textategundir hafa allar sín séreinkenni og ekki er gert ráð fyrir að rammanum sé beitt við mat á annars konar textum. Ramminn getur engu að síður gefið kennurum hugmyndir um það hvernig nálgast má mat á annars konar texta.

    Ritunarramminn samanstendur af þremur gerðum af matsrömmum:

    • Framvindurömmum, þar sem gerð er grein fyrir inntaki og stígandi í meginefnisþáttum rammans.

    • Aldursbundnum þrepum þar sem viðmiðin úr öllum framvindurömmum eru útfærð í anda leiðsagnarnáms fyrir kennara.

    • Nemendamiðuð útfærsla á þrepunum til sjálfsmats eða jafningjamats.