Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Ritunarramminn – handbók um notkun

Hér má finna PDF útgáfu af handbókinni.


Ritunarrammann má nálgast á Læsisvefnum.

    Inngangur

    Góð ritunarfærni er hverju barni mikilvægt veganesti út í lífið og því mikilvægt að kennsla og nám í ritun fái gott svigrúm alla skólagöngu þess. Ritunarramminn er matsrammi sem getur veitt kennurum góða leiðsögn varðandi ritunarkennslu og hvernig ritunarfærnin þróast. Með notkun rammans fæst heildarsýn yfir grunnþætti hennar, þætti sem þarf að kenna og þjálfa á hverju stigi allan grunnskólann. Hlutverk rammans er einnig að aðstoða kennara við að meta stöðu nemenda og að hjálpa nemendum að fylgjast með eigin framförum. Ritunarramminn er hluti af Matsferli og eitt af þeim verkfærum sem getur nýst í daglegu starfi skóla.

    Við gerð Ritunarrammans var víða leitað fanga. Erlendar aðalnámskrár, námsefni og námsmat í ritun, voru skoðaðar en með rýninni fékkst góð yfirsýn yfir þætti sem mikilvægt er að séu hluti af góðri ritunarkennslu (ACARA, 2010; The CCSS Initiative, 2010; Education Northwest, 2021; NTNU-Skrivesenteret, 2017, Sedita, 2024 og Wilson, 2015). Við gerð rammans voru þeir þættir dregnir fram sem oftast komu fyrir í erlendu mati og taldir skila nemendum góðri og alhliða ritunahæfni. Val og framsetning á meginefnisþáttum og undirflokkunum fékkst svo staðfest með ritunarreipi Joan Sedita (2023) sem er góð lýsing eða líkan sem endurspeglar vel þá þætti sem góð ritunarhæfni felur í sér.

    Í þessari handbók með Ritunarrammanum er gerð grein fyrir hugmyndafræði og notkun hans. Í henni má finna lýsingar á meginmatsþáttum rammans og undirflokkum ásamt upplýsingum um notkun í kennslu og við mat undir formerkjum leiðsagnarnáms. Þrátt fyrir að handbókin innihaldi efni sem snýr að kennslufræði ritunar geymir hún engar aðferðir eða verkefni til ritunarkennslu. Slíkt má finna í útgefnu námsefni og á Læsisvef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.