Ritunarramminn – handbók um notkun
Efnisþættir Ritunarrammans
Í þessum kafla er umfjöllun um hvern efnisþátt Ritunarrammans; uppbyggingu texta, textategundir, málnotkun og skráningu. Framvindurammarnir koma að góðum notum en í þeim má sjá hver þróunin er innan hvers undirþáttar og hvaða kröfur um færni nemenda eru gerðar á hverju þrepi fyrir sig. Á Læsisvef MMS er svo að finna aðferðir og önnur gögn sem kennarar geta notað til undirbúnings fyrir kennslu og þjálfun ritunar.
Uppbygging texta fer eftir textategund. Nokkrir þættir eru þó sameiginlegir öllum textategundum. Matsviðmiðin undir þessum þætti Ritunarrammans snúa að lengd texta, efnisgreinum, málsgreinum, flæði og greinarmerkjasetningu. Talsverður stígandi er í þessum þáttum eftir því sem þroski nemenda eykst og þeir þjálfast í ritun.
Framvindurammi fyrir uppbyggingu texta

Lengd texta
Innihald texta helst í hendur við lengd og eðlilegt að textar nemenda lengist eftir því sem þeir ná auknum þroska. Ekki er þó nóg að bíða eftir að nemendur þroskist og textarnir verði lengri og betri án kennslu og þjálfunar heldur þarf að þjálfa nemendur í að skrifa lengri texta. Lengdin ein og sér segir ekki allt um gæðin þar sem langur texti getur verið samhengislaus og innihaldið rýrt. Stuttir textar nemenda bera þess gjarnan merki að þeir ráða ekki við að byggja upp flókinn, samhangandi texta (Rannveig Oddsdóttir o. fl. 2013). Ákveðin viðmið eru því sett um lengd texta. Það er gert til að hafa mælanlegan stíganda. Gert er ráð fyrir að við lok grunnskóla geti nemendur ritað 25 málsgreinar að lágmarki um afmarkað viðfangsefni.
Efnisgreinar
Efnisgreinar afmarka ákveðna einingu eða hugmynd í texta sem auðveldar lesandanum að fylgja hugsun höfundar. Í efnisgrein er svigrúm til að kynna eina hugmynd eða eitt atriði viðfangsefnis og fylgja henni eftir. Miðað er við að nemendur á miðstigi hafi öðlast færni til að skipta texta í efnisgreinar á viðeigandi hátt.
Í upphafi hverra efnisgreinar er efni hennar kynnt með almennri staðhæfingu sem kölluð er lykilsetning (stundum líka kölluð kjarnasetning). Málsgreinarnar sem fylgja lykilsetningu tengjast allar viðfangsefni hennar á einn eða annan hátt. Jafnframt þarf að huga að tengslum á milli efnisgreina og því á lykilsetning ekki aðeins að kynna efni efnisgreinarinnar heldur þarf hún jafnframt að tengja það við efni næstu greinar á undan. Við þetta er átt í viðmiðum matsrammans þegar talað er um góðan þráð innan efnisgreina og á milli efnisgreina.
Efnisgreinar eru mislangar og fer lengdin eftir hversu miklum upplýsingum höfundur vill koma á framfæri um hverja einingu eða hugmynd. Efnisgreinar eru aðeins metnar þegar um fræði- eða rökfærslutexta er að ræða þar sem gjarnan er notast við annars konar framsetningu á texta í sögugerð.
Málsgreinar
Málsgreinar gegna mikilvægu hlutverki þegar koma þarf hugsun sinni í orð, gefa til kynna röð atburða, orsakasamhengi og tengsl hluta og hugmynda. Eftir því sem vitsmuna- og málþroski barna eykst geta þau sett saman lengri málsgreinar með þróaðri setningagerð og skrifað flóknari texta. Stuttar málsgreinar slíta hins vegar textann í smáeiningar og flæði hans verður síðra. Eins verður texti sem allur er skrifaður með stuttum málsgreinum óþjáll aflestrar. Á hinn bóginn getur texti með löngum málsgreinum verið klúðurslegur og innihaldið í ósamræmi, enda vandasamt að skrifa langar málsgreinar. Eðlilegt er að samfelldir textar innihaldi mislangar málsgreinar. Því er lögð áhersla á fjölbreytt upphaf málsgreina og mismunandi orðaröð í setningum í matsviðmiðunum. Þessa þætti þarf að kenna nemendum markvisst.
Flæði texta
Með flæði texta er átt við að einingar í orðræðu (málsgreinar, efnisgreinar) tengist hver annarri svo úr verði heild. Hægt er að velja úr fjölda tengiorða til að líma textaeiningar saman þannig að góð heild myndist og rennsli textans verði gott. Tengiorð gegna því mikilvægu hlutverki í textaritun og fela til dæmis í sér að málsgreinar lengjast og verða innihaldsríkari auk þess sem flæði texta verður betra (Þórunn Blöndal, 2017).
Tengiorð eru margs konar en samtengingar eru algengastar. Aðaltengingar eru einfaldar tengingar, til dæmis og og en, sem tengja saman tvær aðalsetningar. Aukatengingar eru fjölbreyttari og merkingarlega flóknari tengingar sem auk þess að sinna sama hlutverki og aðaltengingar fela í sér tímaframvindu, orsakasamhengi o.fl. Auk aðal- og aukatenginga er algengt að tíðaratviksorð, svo sem svo, síðan og þá, og fornöfn séu notuð sem tengingar og þá gjarnan til að vísa fram og aftur í texta.
Notkun fleiri og fjölbreyttari tengiorða eykst samhliða auknum málþroska og auknum kröfum í námi. Þá víkur notkun aðaltenginga fyrir flóknari og nákvæmari tengiorðum. Textategundir hafa mismunandi tilgang og að sama skapi eru mismunandi tengingar notaðar í þeim. Í frásögn skiptir tímaframvinda miklu máli og tíðartengingar gegna þar stóru hlutverki. Fræði- og rökfærslutextar á hinn bóginn fela gjarnan í sér tengsl hluta eða lýsa orsakasamhengi og því eru afleiðinga-, orsaka- og skilyrðistengingar gjarnan notaðar í slíkum textum. Að þessu sögðu er vert að leggja áherslu á að kenna þarf notkun tengiorða í ritun markvisst og gefa nemendum tækifæri til að þjálfa færnina (Rannveig Oddsdóttir o.fl., 2013).
Yfirlit yfir mismunandi tegundir samtenginga

Greinarmerkjasetning
Greinarmerkjasetning er samofin ritun málsgreina og því er hún flokkuð hér undir uppbyggingu texta. Meginhlutverk greinarmerkja er að auðvelda nákvæmni við lestur, tryggja gott flæði og stýra lestri texta svo rétt merking komist til skila. Við ritun texta er ekki hægt að reiða sig á raddblæ, líkamstjáningu eða svipbrigði en þess í stað má nýta greinarmerki til að skipa orðum í setningar, hendingar og málsgreinar og til að líkja eftir hljómfalli talmálsins. Þannig hefur komma ígildi hiks þegar um upptalningu er að ræða og punkturinn gefur til kynna að fullri hugsun sé komið til skila og gera eigi stutt hlé á lestri áður en haldið er áfram. Að sama skapi gefur setningaskipan, sem afmörkuð er með tengiorðum eða kommum, til kynna innbyrðis tengsl hugmynda en spurningarmerki gefur til kynna að um spurningu sé að ræða og að textinn lesist sem slíkur. Þannig er notkun greinarmerkja viðleitni til að brúa bilið milli höfundar og viðtakanda og auka líkur á að rétt og nákvæm merking texta komist til skila.
Nokkuð flókið er að setja inn viðmið um kennslu og þjálfun í notkun greinarmerkja þar sem texti nemenda getur kallaði á flóknari greinarmerkjasetningu en viðmiðin kveða á um. Það getur t.d. reynst nauðsynlegt að kenna nemanda á þrepi tvö að nota rétta greinarmerkjasetningu við ritun beinnar ræðu eða kommu við upptalningu því textinn krefst þess. Athugun á ritunarsýnishornum ungra nemenda sýnir að nemendur verða snemma meðvitaðir um fyrirbærin og ekkert því til fyrirstöðu að leggja þessi atriði snemma inn ef skrif þeirra krefjast þess.
Í Ritunarrammanum er lögð áhersla á að í skrifum sínum læri nemendur að nota lykilgreinarmerki eins og punkt, spurningarmerki, upphrópunarmerki og ritun beinnar ræðu og helstu reglur um notkun kommu. Reglur um kommusetningu eru þó nokkrar og tengjast m.a. setningagerð en víða í námsefni í íslensku fyrir grunnskólastigið er að finna góðar upplýsingar um rétta kommusetningu (sjá t.d. hjá Svanhildi Kr. Sverrisdóttur, 2018, bls. 63).
Efni kaflans
Annar efnisþáttur Ritunarrammans eru einkenni textategunda. Sem virkur þátttakandi í samfélagi þarf hver einstaklingur að hafa vald á rituðu máli og tök á að miðla efni til annarra. Við skrifum til að segja frá raunverulegum eða skálduðum atburðum, til að miðla upplýsingum, gefa leiðbeiningar og uppfræða, svo fátt eitt sé nefnt.
Hægt er að greina flesta ef ekki alla texta í bókmenntatexta, upplýsingatexta eða rökfærslutexta. Vissulega er hægt að finna texta sem getur tilheyrt fleiri en einni textategund og eru auglýsingar gott dæmi um slíkt en þær gætu flokkast bæði sem upplýsingatexti og rökfærslutexti. Upplýsingatextar, rökfærslutextar og bókmenntatextar eiga sér síðan marga undirflokka. Á skýringarmyndinni um meginflokka texta eru skilgreiningar og dæmi um nokkra undirflokka.
Þrír meginflokkar textategunda ásamt dæmum um undirflokka.

Hluti af því að læra ritun felur í sér að læra um hefðir sem gilda við ritun hverrar textategundar og að ná færni í að byggja upp texta samkvæmt þeim. Vert er að leggja áherslu á að góð kennsla einnar textategundar yfirfærist ekki nema að hluta til yfir á aðrar. Þess vegna er ekki nóg að kenna nemendum að skrifa sögur og gera ráð fyrir að þar með geti þeir líka skrifað góðan upplýsinga- og rökfærslutexta. Þjálfa þarf nemendur í ritun hverrar textategundar fyrir sig.
Í Ritunarrammanum er fengist við mat á þremur undirflokkum textategunda, það er sögugerð, ritun fræðitexta og rökfærslutexta. Eins og sjá má á skýringarmyndinni um textategundir er um undirflokk hverrar textategundar að ræða. Þessar tegundir eru valdar vegna þess að þær eru byggðar á samfelldum texta sem verður lengri eftir því sem hæfni nemenda eykst.
Sögugerð
Saga er skálduð frásögn þar sem einhver atburðarás á sér stað. Lengd sagna getur verið allt frá einni blaðsíðu, eða jafnvel aðeins hluti af blaðsíðu, yfir í mörg hundruð síður. Þegar grunnskólanemendur fást við sögugerð er oftast horft til smásagnaformsins þar sem sögusvið er yfirleitt þröngt, atburðarásin einföld og sögutíminn takmarkaður.
Framvindurammi fyrir sögugerð

Heiti
Heiti sögu er það fyrsta sem lesandi sér og heitið eða fyrirsögnin getur haft mest um það að segja hvort lesandinn heldur lestrinum áfram. Þess vegna þarf heitið að vera grípandi og áhugavert og jafnframt að gefa hugmynd um efni sögunnar.
Nafn aðalsögupersóna sem heiti, eða hluti af heiti, er dæmi um hvernig vísbending er gefin um efni sögunnar. Jafnvel er bætt við orði sem lýsir persónunni eða sagt frá hvar eða hvenær sagan gerist. Dæmi um þetta eru Jóli og Jóla, Bangsi litli í skóginum og Stúfur fer í sumarfrí. Önnur leið sem gjarnan er farin er að hafa heitið einfaldlega gagnsætt þannig að umfjöllunarefni sögunnar sé viðtakanda nokkuð ljóst. Dæmi um þetta eru söguheiti eins og Mömmuskipti, Ráðgátan um skuggann skelfilega og Lára fer á jólaball.
Margar leiðir eru færar til að vekja áhuga lesanda. Nefna má tvíræðni, notkun líkinga, stuðla, orðatiltæki eða annað sem talið er að viðtakendur taki eftir, hafi gaman af eða jafnvel hrökkvi í kút yfir. Dæmi áhugaverða titla eru Hjartastopp, Fingur stormsins, Hættuför í huldubyggð, Hraðskák við páfann, Uppvakningasótt, Uppskrift að klikkun og Banvæn snjókorn.
Kynning
Í upphafi sögu eru persónur kynntar og upplýsingar gefnar um hvar og hvenær sagan gerist. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Kynningin er ekki alltaf formleg heldur getur höfundur líka komið upplýsingum um persónur og staðhætti til skila í gegnum lýsingu á upphafsatburði. Í sögugerð hjá styttra komnum er þessi kynning oft sett fram sem staðhæfing, ef hún á annað borð kemur fram, en hjá lengra komnum fléttast kynningin gjarnan inn í frásögnina.
Persónusköpun er einn mikilvægasti þátturinn í sögugerð. Sögupersónur eru annaðhvort aðalpersónur eða aukapersónur og þeim getur bæði verið lýst beint og óbeint. Þegar um beina persónulýsingar er að ræða er persónunum lýst nákvæmlega, sagt hvernig þær líta út, t.d. hæð þeirra, aldur, hára- og augnlitur, holdafar og klæðnaður, jafnvel innræti, framkoma og hegðun. Þegar um óbeinar persónulýsingar er að ræða lýsa persónurnar sér sjálfar eða lesandanum er látið eftir að draga upp mynd í huga sér og mynda sér skoðun á þeim út frá hegðun, tali og jafnvel viðbrögðum annarra í sögunni við persónunum (Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, 2011, bls. 61).
Sögusvið felur annars vegar í sér ytri tíma sögu og hins vegar umhverfið þar sem sagan gerist. Sagan gerist á tilteknum tíma, s.s. eftir ártali, árstíð eða dagsetningum. Umhverfið gefur lesanda hins vegar upplýsingar um hvar sagan gerist og getur verið veraldlegt eða félagslegt umhverfi. Húsnæði, landslag, veðurfar, lifnaðarhættir og aðrar ytri aðstæður eru dæmi um veraldlegt umhverfi en staða persóna í samfélaginu, s.s. fjárhagsleg eða trúarleg, eru dæmi um félagslegt umhverfi. Hvoru tveggja getur átt sér stoð í raunveruleikanum eða verið tilbúið umhverfi sem höfundur skapar. Ytri tími og umhverfi sögu eru ekki endilega færð beint í orð heldur getur lesandi þurft að leita að vísbendingum til að átta sig á hvenær og hvar sagan gerist.
Flækja og lausn
Flækjan, stundum nefnd atburðarás eða söguþráður, er stærsti hluti hefðbundinnar skáldsögu. Í flækjunni stigmagnast atburðarásin og hún nær síðan hámarki í risi sögunnar. Byrjendur í ritun hafa ekki getu til að halda utan um alla þræði sögugerðar og því vantar stundum endi á sögurnar eða skipulagi textans er ábótavant þannig að lesandi skilur ekki söguþráðinn. Þá er talað um gloppur í sögubyggingunni eða upplýsingagöt. Með auknum vitsmunaþroska og samskiptafærni eykst færnin og flest börn ættu að hafa náð grunntökum á sögubyggingu við 7 til 9 ára aldur. Frekari fágun á forminu á þó eftir að eiga sér stað og má merkja framfarir á því sviði allt fram á fullorðinsár (Rannveig Oddsdóttir o. fl. 2013.)
Í sögum er atburði eða atburðum sem hafa ákveðna tímaframvindu lýst. Frásögn fylgir þess vegna tímalínu þar sem eitt leiðir af öðru. Vanir rithöfundar leika sér stundum að því fylgja ekki tímalínu og flakka fram og aftur í tíma en ekki er ætlast til að grunnskólanemar hafi tileinkað sér þá færni.
Ris sögu má útskýra sem hápunkt hennar. Atriði í sögunni leiða smám saman að ákveðnum skilum í atburðarásinni og við tekur lausn sögunnar eða niðurlag. Þar er sagt frá afdrifum sögupersóna og gengið frá lausum endum. Stundum er lesandinn skilinn eftir í lausu lofti og hann þarf sjálfur að ímynda sér málalok. Þetta á gjarnan við um smásögur.
Fræðitextar
Fræðitexti hefur það meginhlutverk að koma upplýsingum eða fróðleik um afmarkað viðfangsefni til skila. Viðfangsefnið getur verið dýrategund, einstaklingur, staður eða viðburður. Leitast er við að skilgreina mismunandi þætti viðfangsefnis og lýsa tengslum á milli þessara þátta og hvaða áhrif þeir hafa. Hefðbundin uppsetning fræðitexta byggist á inngangi, meginmáli og lokaorðum.
Framvindurammi fyrir fræðitexta

Fyrirsögn
Fyrirsögn texta gegnir því hlutverki að auðvelda lesanda að fá yfirsýn yfir efni textans og að vekja áhuga hans á innihaldinu. Þær þurfa því að endurspegla innihaldið og vera áhugaverðar svo þær grípi athygli lesenda. Dæmi: Ský eru alls konar, Áhættusamt líf fyrr á öldum, Ólík lífsgæði fólks í Asíu.
Ef fyrirsögn uppfyllir ekki þessi skilyrði má nota undirfyrirsögn, sem er höfð með heldur smærra letri en aðalfyrirsögnin. Undirfyrirsögn er ekki nefnd í matsviðmiði Ritunarrammans en ef nemandi notar undirfyrirsögn er hún metin sem hluti af fyrirsögninni. Dæmi: Úti að aka: Umferðarreglur, Afríka: Náttúran og störfin, Eldgos: orsakir og afleiðingar.
Inngangur
Þótt fyrirsögn gefi umfjöllunarefni texta til kynna er ætlast til að höfundur kynni það formlega í upphafi skrifanna. Hjá byrjendum og nemendum stutt á veg komin (á 1. og 2. þrepi) er ekki gerð krafa um formlega kynningu á umfjöllunarefni utan þess að fyrirsögn gefi vísbendingar um það. Hjá nemendum lengra á veg komnir (4. þrepi eða ofar) er ætlast til að umfjöllunarefni sé kynnt í fyrstu efnisgrein texta.
Auk þess að kynna viðfangsefni textans er innganginum ætlað að vekja áhuga lesenda og fá hann til að vilja lesa áfram. Nokkrar þekktar leiðir eru hvað þetta varðar og má þá helst nefna:
Spurningu velt upp fyrir lesandann að íhuga.
Tilvitnun sem tengist viðfangsefni textans.
Áhugaverð staðreynd um viðfangsefnið sett fram.
Lýsing
Lengd inngangs getur verið allt frá einni málsgrein til nokkurra efnisgreina. Stutt skrif hafa gjarnan stuttan inngang en langur texti langan inngang.
Meginmál
Aðalefni textans er undir meginmáli og þar eru viðfangsefninu gerð skil og heimildir notaðar. Upplýsingar um viðfangsefni textans þurfa að vera skýrar og gefa góða mynd af umfjöllunarefni. Viðfangsefni textans eru gjarnan nokkur en tengjast yfirleitt einu meginviðfangsefni. Sem dæmi mætti nefna íslenska hestinn sem meginviðfangsefni og þar undir væri umfjöllun um útlit hans, gangtegundir og sögu hans. Umfjöllun um hvern þessara þátta er þá best fyrirkomið í afmörkuðum efnisgreinum þar sem lykilsetning fremst í hverri efnisgrein segir til um viðfangsefni hennar.
Vel getur reynst að gefa dæmi til að útskýra betur ákveðna hluti eða að útskýra sérhæfðan orðaforða viðfangsefnis, til að tryggt sé að upplýsingar komist til skila. Sem dæmi um þetta mætti nefna útskýringu á nöfnum karldýra, kvendýra og afkvæmi hestsins. Eins getur hjálpað að láta skýringarmynd eða myndrit fylgja textanum, þótt slíkt sé ekki metið í þessum ramma.
Lokaorð
Lokaorð gegna því hlutverki að draga saman aðalatriði meginmáls í stuttu máli og setja formlegan endi á textann. Hjá byrjendum og nemendum stutt á veg komin (á 1.–3. þrepi) er ekki gerð krafa um formleg lokaorð. Í lokaorðum, frá 4. þrepi, er ætlast til að efni meginmáls sé dregið saman í stuttu máli með nýju orðalagi. Fyrir þá nemendur sem eru lengst komnir, á þrepi 6, er jafnframt ætlast til að þeir útvíkki umfjöllunarefnið, t.d. með spurningum eða með því að setja fram vangaveltur um efnið.
Heimildaskráning
Hjá eldri nemendum er gerð krafa um að upplýsingar í textanum séu byggðar á staðreyndum og heimildir notaðar til að sýna fram á sannleiksgildið. Eftir því sem nemendur þjálfast í heimildaritun er ætlast til að fleiri en ein heimild sé nýtt við skrifin. Einnig er ætlast til að nemendur kunni að nýta heimildir og skrá þær og tilvísanir á réttan hátt.
Rökfærslutextar
Rökfærslutexti hefur það meginmarkmið að setja fram sjónarmið, hugmynd eða staðhæfingu og sannfæra lesendur með röksemdum og dæmum. Hefðbundin uppsetning rökfærslutexta byggist á inngangi, meginmáli og lokaorðum.
Framvindurammi fyrir rökfærslutexta

Fyrirsögn
Fyrirsögn á annars vegar að gefa lesanda hugmynd um efni textans og hins vegar að vekja áhuga lesenda á honum. Hún þarf að gefa hugmynd um skoðun höfundar á viðfangsefni og vera áhugaverð svo viðtakendur vilji lesa lengra. Margar leiðir eru færar til að vekja áhuga viðtakenda, til dæmis staðhæfingar eða annað sem talið er að viðtakendur taki eftir, hafi gaman af eða jafnvel hrökkvi í kút yfir; Hafragrautur er ekki hollur, Skólabúningar skaðlegir og Frímínútur aflagðar!
Ef höfundur nær ekki að uppfylla ofan talin skilyrði í einfaldri fyrirsögn getur hann jafnframt ákveðið að nota undirfyrirsögn, sem er höfð með heldur smærra letri en aðalfyrirsögnin. Undirfyrirsögn er ekki nefnd í matsviðmiði Ritunarrammans en ef nemandi notar undirfyrirsögn er hún metin sem hluti af fyrirsögninni.
Inngangur
Hjá byrjendum og nemendum sem eru stutt á veg komnir (á þrepum 1–3) er ekki gerð krafa um inngang eða formlega kynningu á umfjöllunarefni utan þess að fyrirsögn gefi vísbendingar um það. Hjá nemendum á 4. þrepi og ofar er ætlast til þess að höfundur kynni umfjöllunarefni texta í inngangi þótt fyrirsögn geri það að einhverju leyti. Kynningin þarf að fela í sér lágmarks bakgrunnsupplýsingar um umfjöllunarefnið og skoðun höfundar á því. Auk þess er innganginum ætlað að vekja áhuga lesenda og fá hann til að vilja lesa áfram. Margar leiðir eru þekktar til að vekja áhuga lesenda og má nefna:
Spurningu velt upp fyrir lesandann að íhuga: Hefur þú velt fyrir þér hvað…?
Spurt án þess að búast við svari: Hvers vegna ættum við að gera það? Við sem …
Tilvitnun sem tengist viðfangsefni textans: Breskur skóli hefur bannað …
Áhugaverð staðreynd um viðfangsefnið sett fram: Íslendingar fá 26% af ráðlögum járnskammti úr morgunkorni.
Lengd inngangs getur verið allt frá einni málsgrein til nokkurra efnisgreina. Styttri skrif hafa almennt styttri inngang en lengri skrif.
Meginmál
Í meginmáli gerir höfundur gerir grein fyrir skoðun sinni og gefur ástæður eða dæmi sem sýna hvers vegna hann er á þessari skoðun. Hjá byrjendum er einungis gerða krafa um eina ástæðu eða eitt dæmi en ætlast er til að eldri nemendur séu með fleiri. Útskýra þarf vel hverja ástæðu eða hvert dæmi en ekki er krafist heimilda svo meðferð sannleikans er ekki alltaf í hávegum höfð við ritun rökfærslutexta. Sem dæmi um þetta eru ýkjur, skoðun breytt í sannleika og staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast.
Ætlast er til að nemendur lengra á veg komnir (á 4. –6. þrepi) séu með nákvæman rökstuðning og þeir sem lengst eru komnir (á þrepi 6) byggi rökstuðning sinn á staðreyndum, tölfræði eða tilvitnunum. Þegar rökstuðningur er byggður á staðreyndum er jafnframt ætlast til að nemendur noti sannar heimildir og réttar tilvitnanir.
Lokaorð
Hjá byrjendum og nemendum stutt á veg komin (á 1.–3. þrepi) er ekki gerð krafa um formleg lokaorð. Í lokaorðum, frá 4. þrepi, er ætlast til að skoðun höfundar sé endurtekin og rökin dregin saman í stuttu máli með nýju orðalagi. Eins er ætlast til að bent sé á lausn eða kallað eftir aðgerðum í lokaorðum. Dæmi: „Erum við tilbúin að taka þau nauðsynlegu skref sem þarf til að verða sjálfbær eða munum við halda áfram að treysta á úreltar aðferðir sem skaða plánetuna okkar?“
Segja má að málnotkun sé sá þáttur ritunar sem hvað flóknast getur verið að kenna, sá þáttur sem gerir mestar kröfur til nemenda og tekur þá lengstan tíma að ná tökum á. Málnotkun er jafnframt sá þáttur ritunar sem gefur ritverki hvað mestan lit, höfundi rödd og getur ráðið úrslitum hvort vel tekst til eða ekki.
Rætur áhugaverðrar og fjölbreyttrar málnotkunar barna liggja í góðum málskilningi og reynslu þeirra af ritmáli, í gegnum lestur og rýni í fjölbreytt efni og síðar meir nægum tækifærum til ritunar. Veganesti nemenda getur verið nokkuð misjafnt og því þarf að gera ráð fyrir að mæta þeim með því að kenna og þjálfa markvisst atriði sem snúa að góðri og áhugaverðri málnotkun.
Þar sem hver textategund hefur sín séreinkenni er málnotkunin útfærð í þremur römmum. Viðmiðin eru að hluta til þau sömu í öllum römmunum en í viðmiðunum um orðaval og stílbrögð er reynt að draga fram hvað það er sem einkennir málnotkun hverrar textategundar fyrir sig.



Málfar
Málþroski, máltilfinning og reynsla barnsins af ritmáli hefur mikil áhrif á málfar og málnotkun þess. Þar sem málfar getur verið mjög einstaklingsbundið, og þau atriði sem liggja til grundvallar góðu málfari mörg, reyndist erfitt að setja fram viðmið um málfar eða málfræðiþekkingu á tiltekin þrep. Því var brugðið á það ráð að hafa aðeins eitt almennt viðmið sem minnir á mikilvægi góðs málfars. Það er síðan á hendi kennara að þoka nemendum sínum sífellt í áttina að því að beita málinu á skýran og skapandi hátt með formlegri og óformlegri leiðsögn um hvað telst vera gott mál eða áhugaverð málnotkun.
Gott mál er það sem telst vera í samræmi við reglur málfræðinnar og málvenju. Kennarar ættu alltaf að leggja áherslu á að nemendur vandi málfar sitt bæði í ræðu og riti af virðingu við eigið tungumál og viðtakanda hverju sinni.
Viðfangsefni, tilgangur og viðtakandi
Viðfangefni, tilgangur og viðtakandi ráða bæði innri og ytri formgerð texta og því er skilningur nemenda á þessum atriðum mjög mikilvægur. Innri formgerð texta snýr t.d. að einkennum og uppbyggingu textategundar og sú ytri að forminu sem getur verið ritgerð, blaðagrein, auglýsing eða leiðbeiningar. Þannig þarf höfundur að átta sig vel á viðfangsefninu, tilgangi og hverjir viðtakendur eru áður en hafist er handa við ritun texta.
Ofangreind atriði þurfa að liggja til grundvallar nálgun höfundar á verkefninu strax frá upphafi (Sedita, 2023, bls. 90). Nemendur þurfa snemma að fá leiðsögn og þjálfun í að hafa þau í huga við skrif sín, í takt við aldur og færni. Eftirfarandi spurningar geta hjálpað nemendum að átta sig betur á því hvað hvert atriði felur í sér:

Nauðsynlegar upplýsingar
Í rammanum er gert ráð fyrir að í fyrstu sé eingöngu hugað að því að lesandinn sé ekki skilinn eftir í óvissu þar sem ungum höfundum hættir til að gera ráð fyrir því að lesandinn hafi sömu vitneskju og þeir sjálfir. Hér er t.d. átt við að söguþráður í frásögn sé rökréttur og skýr og að einfaldar en fullnægjandi skýringar eða röksemdir fylgi þegar um fræði- eða rökfærslutexta er að ræða. Það er einna helst hjá ungum nemendum sem upplýsingar getur vantað þar sem sjónarhorn frásagnar er mjög oft bundið við þá sjálfa. Eins geta þeir gleymt sér ef þeir skrifa fræðitexta um eigið áhugamál og gera ráð fyrir að aðrir hafi sömu bakgrunnsþekkingu og þeir sjálfir.
Málsnið
Málsnið er sá búningur sem fólk velur í töluðu og rituðu máli út frá aðstæðum hverju sinni eða í samræmi við viðfangsefni, tilgang og viðtakendur. Málsnið getur ýmist verið formlegt, eins og þegar skrifuð er umsókn um starf, eða óformlegt, eins og þegar textaskilaboð eru send á vin. Talað mál er undantekingalítið óformlegra en ritað mál. Til að byrja með gætir oft talmálseinkenna í ritun hjá ungum börnum en eftir því sem barnið skilur betur eðli ritmálsins og öðlast meiri reynslu af því í gegnum lestur, ritun og rýni hverfa talmálseinkennin smám saman, hefðir og venjur ritmálsins verða sýnilegri og málsniðið í betra samræmi við viðfangsefni, tilgang og ætlaða viðtakendur.
Reyndir höfundar kunna að beita mismunandi málsniði á meðvitaðan hátt í verkum sínum, t.d. þegar þeir skrifa samtöl fyrir ólíkar sögupersónur eða vilja markvisst ná fram ákveðnum stíl eða blæbrigðum. Góð leið til að hjálpa nemendum að átta sig á að eðli málsniðs er að láta þá skrifa um sama viðfangsefni fyrir viðtakendur á ólíkum aldri eða með ólíkan bakgrunn. Í námsefni í íslensku fyrir mið- og unglingastig má finna góðar útskýringar á því hvað málsnið er.
Sjónarhorn í sögu
Ungir nemendur eru yfirleitt ekki meðvitaðir um val á sjónarhorni þegar þeir setja sögur sínar á blað. Þeim er í fyrstu tamt að nota fyrstu persónu frásögn þar sem sjónarhornið liggur ómeðvitað hjá þeim sjálfum og þar sem frásögnin endurspeglar hvernig þeir sjálfir bæði tala og hugsa. Með auknum lestri verða fleiri frásagnaraðferðir á vegi en nemenda en oft lærist þeim ekki að halda sig fyllilega við eina frásagnaraðferð fyrr en þeir hafa lært að greina þær hjá öðrum höfundum á síðari stigum náms. Þegar höfundur velur sér frásagnaraðferð heldur hann sig við hana út í gegnum alla söguna og það þurfa nemendur að læra að gera líka til að lesandinn haldi auðveldlega þræði við lesturinn.
Notkun tíðar
Ungir og óreyndir rithöfundar geta átt það til að ruglast í notkun tíðar í skrifum sínum. Slíkur ruglingur getur birst í því að frásögn sem byrjar í þátíð breytist án skiljanlegrar ástæðu í nútíð eða nemendur flakka fram og til baka á milli nútíðar og þátíðar innan sömu frásagnar. Önnur dæmi um mistök eru þegar nemandinn gleymir sér og notar nútíð í stað þess að skipta yfir í þátíð til að gefa til kynna breytingar í sögutíma. Loks þarf að gæta að samræmi í notkun tíðar þegar samtöl eru skrifuð þar sem verið er að vísa til liðinna atburða eða þess sem á að gerast í framtíðinni. Samræmi í notkun tíðar er nauðsynlegt til að framvinda sögunnar sé rökrétt og skiljanleg og lesandanum gangi vel að halda þræði við lesturinn.
Þrátt fyrir að það reyni e.t.v. mest á samræmi í notkun tíðar við söguskrif þarf einnig að gæta að þessu samræmi við ritun fræði- og rökfærslutexta. Þessir textar eru að stórum hluta skrifaðir í nútíð þar sem þeir lýsa fyrirbæri eða skoðun. Þó þarf oft að grípa til þátíðar þegar vísað er í liðna atburði eða sögulegar staðreyndir. Hér gildir fyrst og fremst að gæta rökrétts samræmis við notkun tíðar svo lesandinn geti auðveldlega fylgt eftir efni textans.
Orðaval og stílbrögð
Hver textategund hefur sín séreinkenni sem birtast bæði í uppbyggingu hennar og í málnotkun, og þá sérstaklega í orðavali og beitingu stílbragða. Í viðmiðum rammans eru nokkur almenn einkenni dregin fram til að hjálpa bæði kennurum og nemendum að átta sig á sérkennum hverrar textategundar fyrir sig. Orðalag viðmiðanna er ekki tæmandi og tekur alls ekki til allra atriða sem einkennt geta hverja textategund.
Sögugerð
Á þrepum 1 og 2 eru ekki sett inn nein viðmið sem lúta að orðavali eða stílbrögðum óháð textategund. Nemendur á þrepi 1 og 2 eru rétt að ná tökum á grunnþáttum ritunar, eins og að draga til stafs, að stafsetja orð rétt og koma hugsun sinni á blað í samfelldum texta. Þeir geta þó verið misfljótir að ná tökum á grunnatriðunum og því er ekkert sem mælir gegn því að t.d. bráðgerir nemendum séu hvattir til að bæta inn orðum sem lýsa umhverfi eða sögupersónum betur eða að forðast undantekningar með því að nota samheiti þrátt fyrir að ekkert slíkt viðmið sé til staðar í rammanum.
Hafi nemendur fengið góða kennslu í undirstöðuþáttum ritunar, s.s. skrift og réttritun, og fengið mörg tækifæri til að spreyta sig á sögugerð má gera ráð fyrir að þeir geti farið að huga að fjölbreyttara og blæbrigðaríkara orðavali við ritun texta á þrepi 3. Notkun blæbrigðaríkra samheita nafnorða (skrjóður, kaggi, drusla), sagnorða (ganga, rölta, rangla), lýsingarorða (sætur, fallegur, fagur) og atviksorða (skyndilega, hljóðlega, frábærlega) geta litað og skreytt frásagnir, skapað ákveðin hughrif og hjálpað höfundi að ná fram markmiðum sínum.
Á þrepum 5 og 6 bætast við atriði eins og notkun fastra orðasambanda eða orðatiltækja en þau búa einnig yfir sérstökum hughrifum sem geta haft áhrif á tón eða yfirbragð texta. Á síðustu tveimur þrepunum er svo að finna viðmið sem snýr að því að viðhalda áhuga lesanda, t.d. með því að byggja upp spennu eða með notkun stílbragða. Listinn yfir þau eru nokkuð langur og því aðeins nokkur dæmi gefin í orðalagi viðmiðsins. Nánar má lesa um stílbrögð í námsefni nemenda á mið- og unglingastigi og í Hugfinni – handbók um bókmenntahugtök sem Námsgagnastofnun gaf út á sínum tíma og finna má á námsefnisvef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.
Fræðitexti
Fræðitexti er skrifaður í þeim tilgangi að upplýsa lesandann, að greina frá staðreyndum, að koma með dæmi og skýringar sem lýsa fyrirbæri eins vel og hægt er með hlutlægu orðalagi og hlutlausri og rökréttri framsetningu. Orðaval er því skýrt, hlutlaust og laust við gildihlaðin orð sem gefa til kynna afstöðu eða tilfinningar höfundar. Þetta eru skýr einkenni og því nær engar breytingar á stígandi í viðmiðum milli þrepa.
Mikilvægt er nemendur fái þjálfun í að skrifa texta sem á að veita upplýsingar eða er fræðilegs eðlis. Slík verkefni þurfa ekki að vera flókin í fyrstu en leggja þarf áherslu á að nemendur haldi eigin skoðun eða tilfinningum frá í ritverkinu en leitist við að útskýra vel, nákvæmlega og með skipulegum hætti því sem þeir vilja upplýsa lesandann um. Á seinni stigum má gera ráð fyrir að nemendur ráði við ritun flóknari fræðitexta sem byggist á heimildavinnu eins og endurspeglast í rammanum um uppbyggingu á fræðitexta. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á að nemendur komast mjög snemma í kynni við fræðitexta enda er stór hluti námsbóka í þeim flokki. Það þarf því ekki að leita langt yfir skammt til að finna texta sem hægt er að skoða, rýna og ræða til að átta sig á því hvernig fræðitexti er byggður upp og hvers konar orðaval einkennir hann.
Rökfærslutexti
Orðaval í rökfærslutexta lýtur að mörgu leyti svipuðum lögmálum og orðaval við ritun sögutexta þar sem höfundur reynir að hreyfa við lesandanum með notkun fjölbreytts orðavals og vekja þannig hjá honum tilfinningaleg viðbrögð. Það er þó gert í aðeins öðrum tilgangi eða til að fá lesandann til að íhuga afstöðu höfundar, að sannfæra og að fá lesandann til að skipta jafnvel um skoðun. Í rökfærslutexta er beitt stílbrögðum eins og ýkjum, kaldhæðni eða háði en einnig atriðum sem falla undir ræðu- eða mælskulist. Þetta eru atriði eins og beint ávarp til lesandans, húmor og notkun málamyndaspurninga, eða að höfundur ögrar með því að gefa sér afstöðu lesandans, breytir skoðun í sannleika eða kemur með aðdróttanir sem eiga ekki við rök að styðjast. Allt miðar þetta að því að hafa áhrif á lesandann og fá hann á sitt band.
Í Ritunarrammanum eru stafsetning, skrift og notkun lyklaborðs felldar saman undir heitinu Skráning enda snúa öll atriðin að því hvernig texti er skráður (Sedita, 2013, bls. 4). Þetta kann að þykja nokkuð óvenjuleg nálgun en hafa þarf í huga að megintilgangur þess að kenna skrift, innslátt á lyklaborð og stafsetningu er að gera nemendum kleift að rita skiljanlegan texta. Ef nemendur hafa ekki þessa grunnfærni á valdi sínu verður skortur á henni dragbítur á mótun, magni og gæði texta. Það má því ekki vanmeta gildi góðrar færni þegar skráningin er annars vegar.
Framvindurammi fyrir skráningu

Stafsetning
Í Ritunarrammanum er gengið út frá því að stafsetningarkennsla sé að takmörkuðu leyti sjálfstætt viðfangsefni í íslenskukennslu heldur kennd og þjálfuð í samhengi við textaritun í öllum námsgreinum. Þannig getur stafsetningarnámið orðið merkingarbærara og átt sinn þátt í því að nemendur tileinki sér réttar ritvenjur fyrr og með varanlegri hætti í vinnu með eigin texta (Alves, Limpo, Salas og Joshi, 2019).
Stafsetningarviðmiðin í rammanum byggjast á sex þrepa líkani um þróun stafsetningar. Með líkaninu gera Baldur Sigurðsson og Steingrímur Þórðarson (1987) tilraun til að lýsa því hvernig börn tileinka sér réttan rithátt orða með reynslu af ritmálinu í gegnum máltöku, lestrarnám og reynslu af því að glíma við ritmálið í gegnum lestur og ritun.
Þróun stafsetningarkunnáttu barna í fimm stigum

Baldur Sigurðsson (e.d.), án ártals.
Ástæðan fyrir því að þetta líkan er lagt til grundvallar matsviðmiðum í stafsetningu í stað þess að festa stafsetningarreglur inn á þrep rammans er sú að ritháttarvitund (e. orthographic knowledge) verður til á sama hátt og talmálið; með reynslu af ritmáli og fyrirmyndum. Því er nákvæmara að tala um stafsetningartöku (e. spelling acquisition) en stafsetningarnám (Baldur Sigurðsson (e.d.)).
Til að koma í veg fyrir að stafsetningarviðmiðin innan Ritunarrammans yrðu allt of löng (stafsetningarreglurnar eru yfir 90) er reynt að fanga kjarna hvers stigs fyrir sig með knöppu en skýru orðalagi. Ekki verður komist hjá því að kennarar hafi námsefni og handbækur um stafsetningu við höndina þegar þeir leiðbeina nemendum sínum um réttan rithátt.
Hafa þarf í huga að þroski ritháttarvitundar barna er ekki línulegur og að þau geta verið á fleiri en einu stigi á sama tíma. Stig þróunar stafsetningarkunnáttu barna eru fimm og hér á eftir fer lýsing á einkennum hvers stigs fyrir sig. Í Ritunarrammanum eru atriði sem falla undir setninga- og sértækt rithefðarstig felld saman í eitt viðmið.
Framburðarstig
Þrep 1 – hljóðrétt ritun orða
Á þessu stigi rita börn orð eins og þau eru borin fram, þ.e.a.s. ritun orða er hljóðrétt og í samræmi við þann framburð sem þau greina í tali. Þar sem ekki er alltaf samræmi á milli ritháttar og framburðar virðast börn gera „villur“. Ef vel er að gáð eru þau í raun að rita orð í samræmi við það sem þau heyra og þekking þeirra á hljóðkerfi tungumálsins leyfir. Ritun eins og ni fyrir enni, sgo fyrir sko, seija fyrir segja og é fyrir ég eru allt dæmi um hljóðrétta ritun og ættu ekki að teljast sem villur á fyrsta stigi þróunar stafsetningarkunnáttu hjá börnum.
Kennarar sem kenna byrjendum í lestri ættu að vanda sig sérstaklega við innlögn á hljóðlíkum bókstöfum þar sem sumir nemendur geta átt erfitt með að greina hljóðlíka bókstafi í framburði. Þessir hljóðlíku bókstafir eru b-p, d-t, f-v, g-k og þ-ð. Mikilvægt er að vanda framburð orða sem innihalda þessi hljóð til að auka líkur á að nemendur læri að greina og skrifa þau rétt. Að sama skapi geta nemendur af erlendum uppruna átt í erfiðleikum með að greina blæbrigðamun íslenskra sérhljóða eins og i-í, o-ó og u-ú . Mikilvægt er að fylgjast vel með því hvort nemendur greini muninn og nýti þekkingu sína við ritun.
Langflestir nemendur eru fljótir að tileinka sér réttan rithátt einfaldra orða í gegnum lestur. Rétt er að beina athyglinni að ritun orða sem vefjast fyrir nemendum, útskýra þau og ræða. Þá getur til dæmis verið mjög gott að leggja strax inn mjög algeng orð eins og hver, mega og segja til að taka af allan vafa um rithátt þeirra og koma í veg fyrir að nemendur temji sér rangan rithátt sem erfitt getur verið að vinda ofan af. Árangursríkasta leiðin er svo að þjálfa lestur og ritun jöfnum höndum daglega.
Almennt rithefðarstig
Þrep 1 og 2 – stór og lítill stafur
Reglur um stóran og lítinn staf eru annars eðlis en reglur sem eru háðar hljóðkerfi tungumálsins, stofni og uppruna orða. Þær eru þó margar og nemendur eru mjög ungir þegar þeir þurfa að hafa skilning á og geta notað þær allra einföldustu. Sérnöfn manna og dýra, heiti staða, mánaða og hátíða koma fljótt við sögu í skrifum nemenda og því er rétt að vekja máls á réttritun þessara orða snemma. Rýni í ritunarsýnishorn barna sýnir jafnframt að þetta eru atriði sem þau tileinka sér auðveldlega og því er einfalt viðmið um stóran og lítinn staf sett inn á þrep 1 og 2 í Ritunarrammanum. Á þrepi 3 er svo gert ráð fyrir að byrjað verði að fara í flóknari reglur um stóran og lítinn staf. Gagnlegast getur verið að kenna reglu þegar nemendur þurfa á henni að halda en þannig lærist hún best.
Þrep 2 – ritun algengra óhljóðréttra orða
Á þessu stigi eiga börn að hafa áttað sig á því að ritháttur er ekki alltaf í samræmi við framburð einstakra bókstafa, að í ritmálinu gildir ekki einn bókstafur á móti einu hljóði. Þar sem nemendur í 2. og 3. bekk eru enn að ná góðum tökum á undirstöðuatriðum í lestri, skrift og ritun er hér lagt til að kennarar veki athygli nemenda á réttum rithætti orða án þess að kenna beint eða vísa í stafsetningarreglur. Viðmiðið á þrepinu er því nokkuð opið í samanburði við viðmiðið fyrir þrep 3 og 4.
Eins og áður segir getur verið gagnlegt að skoða og ræða saman um rithátt mjög algengra orða þar sem ósamræmi er á milli ritháttar og framburðar. Það getur verið gott að ræða orð sérstaklega sem hafa eftirfarandi einkenni. Listinn er ekki tæmandi:
Orð með tvöföldum samhljóðum; finnst, skemmtilegt, alltaf, eitthvað og annars.
Hv-orð (einkum spurnarfornöfn); hvað, hver, hvers vegna og af hverju.
Orð rituð með -ng og -nk en nemendur eru fljótir að koma auga á misræmið milli ritháttar og framburðar í þessum orðum; lengi, engin/n, ganga, langt og kringum.
Algeng orð með y-ý og ey; fyrir, yfir, ykkur, fyrst, sýnir, dýr og eyra.
Orð sem byrja á samhljóðasamböndum; sk-, kr-, brj-, skrj.
Þrep 3 og 4 – misræmi milli ritháttar og framburðar; einfaldar stafsetningarreglur
Eins og sjá má á orðalagi viðmiðsins fyrir þrep 3 og 4 er reiknað með því að kennari geti farið að vísa í og gera kröfu um að ákveðin atriði séu í lagi við ritun texta og að nemendur séu tilbúnir til að ræða um stöðu sína og færni með vísun í einfaldar stafsetningarreglur. Nokkrar algengustu og einföldustu reglurnar eru hafðar með í viðmiðinu til að gefa til kynna hvers konar kunnáttu nemendur ættu að búa yfir á tilteknu aldursbili. En eins og fram kemur á myndinni sem sýnir þróun stafsetningarkunnáttu barna er þróunin ekki línuleg og einstaklingsbundið á hvaða tímapunkti nemendur hafa tileinkað sér einstakar stafsetningarreglur fyllilega.
Orðhlutastig
Íslensk stafsetning byggist í raun aðeins á fjórum meginreglum sem allar aðrar reglur eru byggðar á. Þessar reglur eru framburðarreglan, hefðarreglan, upprunareglan og orðhlutareglan. Af þessum er orðhlutareglan talin sú mikilvægasta en með henni má sjá merkingaleg tengsl milli ólíkra beygingarmynda orða þótt tengslin geti verið óljós vegna hljóðbreytinga. Kjarni hennar er sá að sérhver orðhluti helst stöðugur í stafsetningu þrátt fyrir breytilegan framburð. Orðhluti er minnsta eining í gerð orðs sem hefur ákveðið hlutverk eða merkingu og skiptast orðhlutar í rót, viðskeyti, forskeyti, stofn og beygingarendingar (Baldur Sigurðsson, 1998; Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, 2018)
Kennsla í rýni orðhluta gerir nokkrar kröfur til þekkingar og útsjónarsemi kennara en ávinningur getur verið mikill fyrir nemendur þegar þeir fá tækifæri til að skoða orð með tilliti til skyldleika og hvernig þau eru sett saman. Rannsóknir sýna að hægt er að efla orðavitund mjög ungra nemenda í gegnum orðmyndunarfræði en skilningur á því hvernig orð myndast er einkar eflandi fyrir orðaforða, lesskilning, réttritun og hæfni nemenda til að skrifa áhugaverðan texta (Henry, 2019). Með skilningi á hlutverki einstakra orðhluta öðlast nemendur jafnframt meira sjálfstæði í vinnubrögðum og komast hjá því að giska á réttan rithátt orða. Skilningur á hlutverki orðhluta nýtist til dæmis þegar:
Finna þarf fjölda og röð samhljóða í stofni (rigna-rigndi, gegna-gegndi, syrgja-syrgði).
Ákvarða hvort orð sé ritað með i–y, í-ý eða ei–ey (sonur–synir, snúa–sný, draumur–dreyma).
Ákvarða þarf hvort skrifa á n eða nn í endingum orða (t.d. minn/mín reglan, Steins-reglan; ritun n og nn í endi kvk. orða með greini og í endingum lýsingarorða, lýsingarhátta og fornafna).
Ákvarða þarf hvort rita á j eða g út frá framburði eða stofni orðs.
Setninga- og sértækt rithefðarstig
Á 6. þrepi stafsetningarinnar er gert ráð fyrir að nemendur hafi náð ágætum tökum á öllum rithefðum sem tilgreindar eru í þrepunum á undan. Á þessu þrepi bætast við atriði sem tilheyra setninga- og sértæku rithefðarstigi en þau eru sett saman í eitt viðmið í rammanum.
Setningarstigið lýsir færni nemenda til að nýta sér skilning sinn á setningafræðilegri stöðu orðs og samhengi þess í texta til að ákvarða réttan rithátt, t.d. Ósk á eina ósk – merkingu komið til skila með réttri notkun á hástaf og lágstaf. Undir sértæka rithefðarstigið falla rithefðir sem ekki verða skýrðar með vísun í framburð eða merkingu tungumálsins. Þetta geta verið bæði einföld atriði eins og að muna að skrifa tvö r í annarra eða flóknari atriði sem snúa að kyni lýsingarháttar (hundurinn var borinn í bælið eða kisan var borin í bælið). Þessi flokkur er nokkuð stór og undir hann falla atriði sem læra þarf utan bókar, leggja á minnið eða nýta sér uppsláttarrit og önnur gögn til að tryggja réttan rithátt.
Skrift, uppsetning og frágangur
Skriftin er einn af lykilþáttum góðrar ritunarhæfni. Á fyrstu þrepum ritunarnáms þarf að tryggja að nemendur fái góða skriftarkennslu og næg tækifæri til þjálfunar þar til skriftin er orðin læsileg og nægilega sjálfvirk svo hún nýtist til miðlunar. Skrift sem tekur ekki orku frá öðrum mikilvægum þáttum ritunarferlisins gerir nemendum kleift að einbeita sér að mótun hugmynda, láta textann flæða og huga að flóknari þáttum eins og uppbyggingu texta og málnotkun.
Í Ritunarrammanum eru viðmiðin um skrift mjög almenn og lúta að því sem kennari getur metið þegar hann er með stakt ritverk nemanda fyrir framan sig. Hjá yngri börnum er lögð áhersla á að þau skrifi læsilega svo merking textans komist skýrt til skila en ekki eru gerðar sérstakar kröfur um uppsetningu eða frágang fyrr en á miðstigi. Líklegt er að þá séu mörg börn þegar farin að þjálfast í notkun ritvinnsluforrita eða nota aðra stafræna tækni við ritun og ekki ósennilegt að matsviðmið um skrift, uppsetningu og frágang á skriflegum verkefnum eigi sjaldnar við. Engu að síður er mikilvægt að kröfur um uppsetningu og frágang séu samræmdar milli kennara eða innan skóla til að einfalda kennslu og rugla nemendur ekki í ríminu.
Í Handbók um skriftarkennslu (Guðbjörg R. Þórisdóttir og Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, 2025) er fjallað ítarlega um kennslufræði skriftar og efninu fylgja einnig matsrammar til að meta læsileika skriftar. Matsviðmiðin þar skýra vel hvað átt er við með „læsilegri skrift“ í viðmiði Ritunarrammans. Geta kennarar nýtt sér þau þegar þeir ákvarða hvort „skrift sé læsileg og merking texta kemst til skila“ í Ritunarrammanum. Skriftarkennslu þarf að sinna vel og þegar fram líða stundir þarf að tryggja nemendum tækifæri til að ná góðum tökum á notkun lyklaborðs til að auðvelda þeim textagerð.
Ritvinnsla
Kennarar kunna að spyrja sig að því hvers vegna viðmið fyrir ritvinnslu eða notkun lyklaborðs eru ekki sett inn fyrr í Ritunarrammann. Fyrirkomulagið sem er kynnt í rammanum er ekki meitlað í stein en mikilvægt er að hafa a.m.k. tvennt í huga. Í fyrsta lagi getur það tekið ung börn nokkur ár að ná tökum á skriftarfimi, þ.e. réttum og öruggum stafdrætti og góðri sjálfvirkni við skrift. Rannsóknir sýna að börn sem hafa náð góðum tökum á undirstöðuatriðum í lestri og ritun eru fljótari en önnur að ná tökum á lyklaborði (Stevenson og Just, 2012). Önnur ástæða er sú að það þjónar litlum tilgangi að þjálfa börn í notkun lyklaborðs ef færninni er ekki beitt á merkingarbær viðfangsefni í námi og hún hluti af daglegu skólastarfi sem gerist oft ekki fyrr en á efri stigum náms. Kennsla og þjálfun í notkun lyklaborðs þarf því að fá svigrúm í stundatöflu, alveg eins og skriftin, eða þar til nemendur hafa náð góðum tökum á öruggum og sjálfvirkum innslætti á lyklaborð og færni í ritvinnslu.
Það getur verið snúið að setja inn viðmið um ásættanlegan fjölda villna fyrir nemendur sem fá umsögnina „þarfnast þjálfunar“ eða „á góðri leið“. Þar getur skipt máli hvort um drög eða lokaafurð er að ræða eða hversu langur textinn er. Þetta verður kennari að meta en eðlilegt er að leggja áherslu á að lokaafurðin verði villulaus þar sem ritvinnsluforrit bjóða bæði upp á yfirlestur á stafsetningu og að sýna falin sniðtákn, s.s. efnisgreinarmerki og fjölda bila milli orða.