Ritunarramminn – handbók um notkun
Niðurlag
Ritunarrammanum er ætlað að aðstoða kennara og nemendur að öðlast yfirsýn yfir þá lykilþætti sem leggja grunninn að góðri ritunarfærni. Honum er einnig ætlað að veita leiðsögn í ritunarkennslu og ritunarnámi og aðstoða við mat á ritun í anda leiðsagnarnáms.
Efnisþættir góðrar ritunarfærni eru margir. Þá þarf að flétta þannig saman að úr verði ein heild. Því getur kennsla og nám í ritun verið flókið viðfangsefni sem þarf mjög gott svigrúm í kennslu, ekki aðeins í námsgreininni íslensku heldur í öllum bóklegum greinum. Nemendur þurfa að fá mörg tækifæri til að þjálfa ritun í margvíslegum tilgangi, læra inn á einkenni textategunda, skrifa texta á fjölbreyttu formi og æfa sig að skrifa skemmtilegan og áhugaverðan texta sem fangar athygli lesandans.
Fyrsta skrefið í notkun Ritunarrammans er kynna sér efni þessarar handbókar vel áður en ramminn er tekinn í notkun. Lesturinn kann að virðast tímafrekur í fyrstu og ný hugtök mörg en þau lærast og eru mikilvægt innlegg í faglega ritunarkennslu. Því eru notendur Ritunarrammans hvattir til að hafa handbókina við höndina og tileinka sér efni hennar smám saman. Við það eykst færnin í notkun rammans.