Ritunarramminn – handbók um notkun
Notkun Ritunarrammans
Kennari og nemendur þurfa að hafa sameiginlegan skilning á markmiðum náms og matsviðmiða og hvað er til marks um að tiltekinni hæfni sé náð. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að notkun á niðurstöðum námsmats og ígrundun stöðu út frá viðmiðum sé í raun mikilvægari en niðurstöður sjálfs námsmatsins. Þannig verða niðurstöðurnar vegvísir sem beina námi nemenda fram á við; gefa hugmyndir að næstu skrefum í kennslu og hvaða markmið nemendur ættu að setja sér til aukins árangurs (Nanna K. Christiansen, 2021). Tilgangurinn með náminu verður jafnframt augljósari og nemandi færari um að axla ábyrgð á því sjálfur. Þessi nálgun er í samræmi við áherslur aðalnámskrár en þar er lögð áhersla á að nemendur fái reglulega tækifæri til að velta eigin námi fyrir sér, setja sér markmið og vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í námsmati (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2024).
Tilgangur sjálfsmats er að nemendur læri að meta eigin styrkleika, að þeir geri sér grein fyrir því hvað þeir þurfa að læra betur og að þeir setji sér markmið í náminu. Við sjálfsmat þurfa nemendur að fá upplýsingar um þau námsmarkmið og árangursviðmið sem vinna á eftir. Þær upplýsingar er að finna í þrepunum sem eru útfærð fyrir nemendur. Hafa þarf í huga að viðmiðin er fjölmörg á hverju þrepi og getur kennari farið þá leið að leggja áherslu á einn efnisþátt í einu eða nokkur atriði, allt eftir áherslum í kennslu hverju sinni.
Í jafningjamati meta nemendur framlag, frammistöðu eða verk annarra nemenda og veita þeim endurgjöf. Þeir skoða þekkingu, skilning eða færni með það að markmiði að gera betur og skiptast á skoðunum. Rétt eins og við sjálfsmat þurfa námsmarkmið og árangursviðmið að vera skýr. Nemendur þurfa að fá góða þjálfun til að geta lagt sanngjarnt mat á frammistöðu félaga og til að geta nýtt sér mat félaga á eigin námi.