Ritunarramminn – handbók um notkun
Notkun Ritunarrammans
Kennari og nemendur þurfa að hafa sameiginlegan skilning á markmiðum náms og matsviðmiða og hvað er til marks um að tiltekinni hæfni sé náð. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að notkun á niðurstöðum námsmats og ígrundun stöðu út frá viðmiðum sé í raun mikilvægari en niðurstöður sjálfs námsmatsins. Þannig verða niðurstöðurnar vegvísir sem beina námi nemenda fram á við; gefa hugmyndir að næstu skrefum í kennslu og hvaða markmið nemendur ættu að setja sér til aukins árangurs (Nanna K. Christiansen, 2021). Tilgangurinn með náminu verður jafnframt augljósari og nemandi færari um að axla ábyrgð á því sjálfur. Þessi nálgun er í samræmi við áherslur aðalnámskrár en þar er lögð áhersla á að nemendur fái reglulega tækifæri til að velta eigin námi fyrir sér, setja sér markmið og vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í námsmati (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2024).
Næsta skref, til dæmis þegar kennari tekur við nýjum nemendahópi, er að leggja fyrir nemendur „kalt mat“. Það er óundirbúið ritunarverkefni sem nemendur leysa samkvæmt lágmarksfyrirmælum og án kennslu og stuðnings frá kennara. Niðurstöður geta gefið kennurum góða hugmynd um stöðu nemenda og hvað þarf að leggja áherslu á í ritunarkennslu.
Þessu næst velur kennarinn þrep út frá aldri nemenda og textategund, leggur mat á frammistöðu þeirra og gerir athugasemdir, t.d. þegar endurgjöf er veitt og við skipulagningu áframhaldandi kennslu. Ef nemandi uppfyllir engin eða fá matsviðmið fyrir aldur sinn þarf að meta hann samkvæmt þrepinu á undan. Ef nemandi nær langflestum eða öllum viðmiðum innan þrepsins þarf að meta hann samkvæmt næsta þrepi fyrir ofan. Eðlilegt getur verið að meta þurfi nemendur í sama bekk á að minnsta kosti tveimur ólíkum þrepum þar sem mikill munur getur verið á frammistöðu þeirra, sérstaklega nemenda sem eru að stíga sín fyrstu skref í lestrar- og ritunarnámi. Þar sem ramminn er ekki staðlað matstæki eru ekki sett nein töluleg viðmið um það hvenær á að meta nemendur samkvæmt þrepi fyrir neðan eða ofan heldur meta kennarar það sjálfir.
Þegar kennari hefur metið alla nemendur sína er hann kominn með haldgóðan grunn sem ætti að nota til að ákveða næstu áherslur og skref í ritunarkennslunni. Þar sem matsviðmið þrepanna eru nokkuð mörg getur verið gott að gefa sér tíma til að vinna með nokkur matsviðmið þar til nemendur hafa náð góðum tökum á þessum viðmiðum. Það getur kennarinn metið með því að veita nemendum reglulega endurgjöf, hvernig þeim tekst til út frá stökum matsviðmiðum eða öllum matsviðmiðum eins undirþáttar. Sú rýni leiðir í ljós hvort nemendur hafa náð tökum á færni og hversu tilbúnir þeir eru að glíma við næstu áskorun í ritunarnáminu.