Ritunarramminn – handbók um notkun
Notkun Ritunarrammans
Kennari og nemendur þurfa að hafa sameiginlegan skilning á markmiðum náms og matsviðmiða og hvað er til marks um að tiltekinni hæfni sé náð. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að notkun á niðurstöðum námsmats og ígrundun stöðu út frá viðmiðum sé í raun mikilvægari en niðurstöður sjálfs námsmatsins. Þannig verða niðurstöðurnar vegvísir sem beina námi nemenda fram á við; gefa hugmyndir að næstu skrefum í kennslu og hvaða markmið nemendur ættu að setja sér til aukins árangurs (Nanna K. Christiansen, 2021). Tilgangurinn með náminu verður jafnframt augljósari og nemandi færari um að axla ábyrgð á því sjálfur. Þessi nálgun er í samræmi við áherslur aðalnámskrár en þar er lögð áhersla á að nemendur fái reglulega tækifæri til að velta eigin námi fyrir sér, setja sér markmið og vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í námsmati (Mennta- og barnamálaráðuneyti, 2024).
Mikilvægt er að nýta námsmatið á þann hátt að nemendur geri sér grein fyrir styrk- og veikleikum sínum. Reynslan sýnir að nemendur vilja fá endurgjöf á vinnu sína. Vel skilgreind matsviðmið gefa kennurum gott tækifæri til að veita endurgjöf sem tekur mið af þeirri færni sem nemandinn þarf að ná tökum á svo hann komist nær námsmarkmiði sínu. Því styttri tími sem líður á milli vinnu nemenda og endurgjafar því áhrifameiri verður hún. Það á til dæmis við um munnlega endurgjöf. Sé endurgjöf skrifleg og umfangsmeiri þurfa nemendur tíma og svigrúm til að vinna úr henni. Gagnlegasta endurgjöfin er sú sem tryggir nemendum nægilegan skilning á eðli hæfninnar þannig að þeir geti yfirfært hana á næstu verkefni.