Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Undirbúningur fyrirlagnar

    Hægt er að leggja lesfimi- og stuðningsprófin fyrir í september, janúar og maí eða frá fyrsta og út síðasta dag hvers mánaðar. Hægt er að breyta niðurstöðum innan fyrirlagnartímabilsins ef gerð hafa verið mistök við skráningu. Hvorki er hægt að leggja prófin fyrir eða breyta niðurstöðum eftir að fyrirlagnartímabili lýkur.

    Hluti af undirbúningi kennara fyrir próffyrirlögn er að kynna sér matstækin vel, hvaða færni þau meta og hvernig fyrirlögnin er framkvæmd. Vel undirbúin próffyrirlögn eykur líkur á að hún gangi hratt og vel fyrir sig og að niðurstöður verði áreiðanlegar og réttmætar.

    Viðmiðunarreglan er sú að leggja á stuðningsprófin fyrir nemendur sem fá mælitöluna 7 eða lægri á lesfimiprófi. Hjá yngstu nemendunum ætti einnig að leggja stuðningsprófin fyrir nemendur sem fá mælitölurnar 8 og 9 þar sem þeir eru á mörkum mælitölubila.

    Notkun stuðningsprófanna er sérstaklega mikilvæg á fyrstu stigum lestrarnáms þar sem þau geta gefið vísbendingar um ástæður slaks gengis á lesfimiprófi eða lítilla framfara milli prófa. Einnig getur verið brotalöm í grunnaðferðum lestrar hjá eldri nemendum, t.d. vegna ónógrar kennslu og þjálfunar, eða vegna lestrarvanda og þá getur verið gagnlegt að leggja stuðningsprófin fyrir. Loks geta kennarar einnig lagt stuðningsprófin fyrir þyki þeim ástæða til að fá nýrri upplýsingar um stöðu nemenda í lestri, t.d. þegar nemandi byrjar í nýjum skóla, eða til að fá nýjar upplýsingar í kjölfar íhlutunar hjá nemendum með lestrargreiningu.

    Eins og áður segir má reikna með því að þörfin fyrir að leggja stuðningsprófin fyrir sé meiri á fyrri stigum náms en meginreglan er sú að leggja stuðningsprófin fyrir til að fá skýringu á slöku gengi á lesfimiprófi hjá nemendum á öllum stigum grunnskólans.