Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Undirbúningur fyrirlagnar

    Hægt er að leggja lesfimi- og stuðningsprófin fyrir í september, janúar og maí eða frá fyrsta og út síðasta dag hvers mánaðar. Hægt er að breyta niðurstöðum innan fyrirlagnartímabilsins ef gerð hafa verið mistök við skráningu. Hvorki er hægt að leggja prófin fyrir eða breyta niðurstöðum eftir að fyrirlagnartímabili lýkur.

    Hluti af undirbúningi kennara fyrir próffyrirlögn er að kynna sér matstækin vel, hvaða færni þau meta og hvernig fyrirlögnin er framkvæmd. Vel undirbúin próffyrirlögn eykur líkur á að hún gangi hratt og vel fyrir sig og að niðurstöður verði áreiðanlegar og réttmætar.

    Einstaka nemendur eiga í töluverðum erfiðleikum með að ná tökum á lestri vegna lestrarvanda eða annars sem getur haft áhrif á lestrarnám. Fyrir þessa nemendur getur það reynst mikil raun að þreyta lesfimipróf árgangs síns. Þar sem prófútgáfur eru staðlaðar fyrir ákveðinn aldur á ekki að leggja fyrir þessa nemendur próf yngri árganga því þannig fæst ekki marktækur samanburður við jafnaldra og niðurstöður gefa ekki rétta mynd af færni nemanda.

    Ef kennari telur að ekki fáist fullnægjandi upplýsingar um stöðu lesfimi nemanda með því að leggja fyrir hann lesfimipróf Matsferils þar sem það er of þungt þarf að ræða bæði við nemandann og forsjáraðila um að leggja annars konar próf fyrir. Hafa þarf í huga mikilvægi þess að leggja fyrir próf sem reyni ekki um of á nemandann, gefi rétta mynd af stöðu hans og góðar upplýsingar um möguleg næstu skref í kennslu og þjálfun. Jafnframt þarf að ræða með hvaða hætti niðurstöður verða settar fram og hvernig framfarir verða metnar.

    Í slíkum tilvikum er lagt til að notuð séu önnur úttalin lesfimipróf sem skólinn á til að meta stöðu og framfarir. Velja ætti texta sem reynir hæfilega á nemandann og gefur góða mynd af stöðu hans í lesfimi. Einnig er mikilvægt að meta aðra þætti lesfiminnar ef mögulegt er með því að nota matsrammann fyrir lesfimi til að fá heildstæða mynd af stöðu nemandans.

    Líkt og í tilviki nemenda sem leysa staðlaða prófið fyrir sinn árgang er sami textinn lagður fyrir þrisvar yfir skólaárið eða jafnvel oftar ef þörf krefur. Með því að leggja sama texta fyrir er hægt að fá góða tilfinningu fyrir breytingu á stöðu og framförum í kjölfar íhlutunar. Í kjölfarið geta nemendur svo sett sér persónubundin, raunhæf markmið með aðstoð kennara.

    Niðurstöður úr öðrum prófum en stöðluðum prófum MMS er hvorki hægt að skrá í Matsferil né bera saman við upplýsingar sem þar birtast, s.s. meðaltal bekkjar eða landsmeðaltal árgangs. Það er hins vegar auðvelt að útbúa yfirlit yfir feril nemandans í Excel enda skiptir það máli bæði fyrir hann og forsjáraðila að niðurstaðan sé sett fram í skýru samhengi og með raunhæfum en hvetjandi hætti.

    Það er mjög mikilvægt að nemandi missi aldrei trú á eigin getu og viðhaldi jákvæðu hugarfari til íhlutunar og þjálfunar í lestri. Framfarir eru mjög einstaklingsbundnar en nemandi sem fær markvissa íhlutun og þjálfun er í stöðugri framför og hrósa ber fyrir hvert lítið skref sem tekið er í rétta átt.