Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Undirbúningur fyrirlagnar

    Hægt er að leggja lesfimi- og stuðningsprófin fyrir í september, janúar og maí eða frá fyrsta og út síðasta dag hvers mánaðar. Hægt er að breyta niðurstöðum innan fyrirlagnartímabilsins ef gerð hafa verið mistök við skráningu. Hvorki er hægt að leggja prófin fyrir eða breyta niðurstöðum eftir að fyrirlagnartímabili lýkur.

    Hluti af undirbúningi kennara fyrir próffyrirlögn er að kynna sér matstækin vel, hvaða færni þau meta og hvernig fyrirlögnin er framkvæmd. Vel undirbúin próffyrirlögn eykur líkur á að hún gangi hratt og vel fyrir sig og að niðurstöður verði áreiðanlegar og réttmætar.

    Öll nauðsynleg prófgögn fyrir prófin má finna í Matsferli. Hægt er að fara tvær leiðir við skráningu á niðurstöðum: Að skrá þær beint í Matsferil eða með svokallaðri handvirkri skráningu þar sem kennari skráir niðurstöður fyrir hvern nemanda á blað. Ef kennari ætlar að skrá niðurstöður beint inn í Matsferil þarf hann aðeins að prenta út prófblað nemenda. Ef skrá á niðurstöður handvirkt og færa síðan inn í Matsferil þarf einnig að prenta út eitt skráningarblað fyrir hvern nemanda. Önnur prófgögn eru skriffæri og tímamælir ef um handvirka skráningu er að ræða, og upptökutæki ef taka á upp lesturinn.

    Ef til stendur að prófa nemendur handvirkt allt skólaárið er óþarft að ljósrita nýtt eintak handa hverjum nemanda heldur má nota sama eintakið við allar fyrirlagnirnar en skrá t.d. villur í hverri fyrirlögn með mislitum pennum. Þannig er hægt að bera frammistöðu nemanda saman milli prófafyrirlagna þar sem eldri og nýrri upplýsingar eru á sama stað.

    Mælt er með upptöku í tilviki nemenda sem sækist lestrarnámið hægar en öðrum eða glíma við lestrarvanda. Upptaka gerir kennurum kleift að hlusta aftur á lestur nemenda, greina niðurstöður og bregðast við með nákvæmari hætti. Einnig er hægt að geyma upptökur og bera síðar saman til að meta framfarir eða að leyfa nemendum að heyra hversu mikið þeim hefur farið fram í lestri.