Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Undirbúningur fyrirlagnar
Hægt er að leggja lesfimi- og stuðningsprófin fyrir í september, janúar og maí eða frá fyrsta og út síðasta dag hvers mánaðar. Hægt er að breyta niðurstöðum innan fyrirlagnartímabilsins ef gerð hafa verið mistök við skráningu. Hvorki er hægt að leggja prófin fyrir eða breyta niðurstöðum eftir að fyrirlagnartímabili lýkur.
Hluti af undirbúningi kennara fyrir próffyrirlögn er að kynna sér matstækin vel, hvaða færni þau meta og hvernig fyrirlögnin er framkvæmd. Vel undirbúin próffyrirlögn eykur líkur á að hún gangi hratt og vel fyrir sig og að niðurstöður verði áreiðanlegar og réttmætar.
Þar sem kennari verður að geta heyrt lestur nemandans, og til að lágmarka áreiti á meðan nemandi leysir prófið, þarf það að fara fram þar sem næði er gott og lítið um önnur áreiti í umhverfinu. Nemandi getur fundið fyrir streitu rétt áður en prófið byrjar og ætti kennari að gefa sér góðan tíma til að hjálpa honum að koma ró á huga sinn áður en prófið hefst.