Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils
Þjónustuaðili:
Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.
Undirbúningur fyrirlagnar
Hægt er að leggja lesfimi- og stuðningsprófin fyrir í september, janúar og maí eða frá fyrsta og út síðasta dag hvers mánaðar. Hægt er að breyta niðurstöðum innan fyrirlagnartímabilsins ef gerð hafa verið mistök við skráningu. Hvorki er hægt að leggja prófin fyrir eða breyta niðurstöðum eftir að fyrirlagnartímabili lýkur.
Hluti af undirbúningi kennara fyrir próffyrirlögn er að kynna sér matstækin vel, hvaða færni þau meta og hvernig fyrirlögnin er framkvæmd. Vel undirbúin próffyrirlögn eykur líkur á að hún gangi hratt og vel fyrir sig og að niðurstöður verði áreiðanlegar og réttmætar.
Skólastjóri hefur umsjón með og ber ábyrgð á að allir nemendur séu skráðir í réttan hóp í nemendagrunni en gögn eru keyrð úr grunninum í Matsferil. Ef nemanda vantar í hóp, eða aðrar upplýsingar varðandi hópinn eru ekki réttar, skal hafa samband við skólastjóra.
Kennarar skrá sig inn í Matsferil með rafrænum skilríkjum þegar þeir ætla að leggja próf fyrir nemendur eða skoða niðurstöður prófa. Aðeins er hægt að leggja próf fyrir í Matsferli þegar fyrirlagnartímabil þeirra er opið, en kennarar hafa alltaf aðgang að niðurstöðum prófa.
Í Matsferli má finna æfingapróf þar sem reyndir og óreyndir kennarar geta æft sig í að leggja lesfimiprófið fyrir í nýju viðmóti. Þar er hægt að æfa sig eins og þurfa þykir eða þar til kennarar telja sig örugga í að leggja prófin fyrir. Kennarar þurfa að skrá sig inn í Matsferil til að nálgast æfingaprófið.
Öll nauðsynleg prófgögn fyrir prófin má finna í Matsferli. Hægt er að fara tvær leiðir við skráningu á niðurstöðum: Að skrá þær beint í Matsferil eða með svokallaðri handvirkri skráningu þar sem kennari skráir niðurstöður fyrir hvern nemanda á blað. Ef kennari ætlar að skrá niðurstöður beint inn í Matsferil þarf hann aðeins að prenta út prófblað nemenda. Ef skrá á niðurstöður handvirkt og færa síðan inn í Matsferil þarf einnig að prenta út eitt skráningarblað fyrir hvern nemanda. Önnur prófgögn eru skriffæri og tímamælir ef um handvirka skráningu er að ræða, og upptökutæki ef taka á upp lesturinn.
Ef til stendur að prófa nemendur handvirkt allt skólaárið er óþarft að ljósrita nýtt eintak handa hverjum nemanda heldur má nota sama eintakið við allar fyrirlagnirnar en skrá t.d. villur í hverri fyrirlögn með mislitum pennum. Þannig er hægt að bera frammistöðu nemanda saman milli prófafyrirlagna þar sem eldri og nýrri upplýsingar eru á sama stað.
Mælt er með upptöku í tilviki nemenda sem sækist lestrarnámið hægar en öðrum eða glíma við lestrarvanda. Upptaka gerir kennurum kleift að hlusta aftur á lestur nemenda, greina niðurstöður og bregðast við með nákvæmari hætti. Einnig er hægt að geyma upptökur og bera síðar saman til að meta framfarir eða að leyfa nemendum að heyra hversu mikið þeim hefur farið fram í lestri.
Lesfimi- og stuðningsprófin krefjast ekki sérstaks undirbúnings af hálfu nemenda. Það er gott að tilkynna prófdag með fyrirvara svo eldri nemendur, sem lesa oftast í hljóði, geti æft raddlestur. Hann getur orðið stirður ef nemendur lesa lítið upphátt.
Þar sem kennari verður að geta heyrt lestur nemandans, og til að lágmarka áreiti á meðan nemandi leysir prófið, þarf það að fara fram þar sem næði er gott og lítið um önnur áreiti í umhverfinu. Nemandi getur fundið fyrir streitu rétt áður en prófið byrjar og ætti kennari að gefa sér góðan tíma til að hjálpa honum að koma ró á huga sinn áður en prófið hefst.
Meginreglan er sú að kennari sem annast lestrarkennslu tiltekins nemanda á að leggja fyrir hann prófin. Þetta er mikilvægt þar sem lestrarkennarinn skipuleggur áherslur og viðfangsefni í lestrarnáminu og fylgist með framvindu þess frá degi til dags. Hann er því best í stakk búinn til að meta frammistöðu og túlka niðurstöður þar sem hann hefur reynslu af vinnu með nemandanum og getur t.d. metið hvort prófúrlausn sé dæmigerð fyrir færni nemanda eða ekki. Í flestum tilvikum eru þetta umsjónarkennarar á yngsta og miðstigi eða kennarar sem annast lestrarstuðning nemenda sem glíma við mismikinn lestrarvanda.
Þar sem lestrarkennsla fellur undir íslensku eru það íslenskukennarar á unglingastigi sem þurfa að huga að kennslu og stöðu nemenda í lesfimi. Þar sem þeir kenna oft mörgum árgöngum þurfa fleiri að koma að fyrirlögn lesfimiprófa á stiginu ef leggja á prófið fyrir alla nemendur. Þar er gott að hafa í huga að allir kennarar eru læsiskennarar og að auðvelt er að þjálfa kennara í að leggja prófið fyrir svo þeir geti hjálpast að við fyrirlögn þess. Minnt er á æfingaprófið í lesfimi.
Lesfimiprófið má leggja fyrir alla nemendur sem geta leyst það þannig að með fyrirlögn prófsins fái kennarar nothæfar upplýsingar um stöðu þeirra. Of þungt próf, þar sem lesturinn er mjög áreynslumikill og villur margar, gefur ekki rétta mynd af stöðu færni nemenda og því getur, í sumum tilvikum, reynst nauðsynlegt að nota tímabundið önnur lestrarpróf fyrir nemendur sem ná ekki tökum á lestri á sama hraða og jafnaldrar.
Í tilviki nemenda sem náð hafa góðum tökum á lesfimi og eru komnir á efri stig í grunnskóla geta skólar mótað sjálfstæða stefnu varðandi það hverjir fara í lesfimipróf og hverjir ekki. Færa má góð rök fyrir því að óþarft sé að prófa nemendur sem búa þegar yfir góðri lesfimi og hafa náð góðri færni. Vilji skólar hins vegar safna gögnum til að skoða hjá sér árangur af kennslu milli ára má leggja prófin fyrir alla þar sem það er ekki mjög tímafrekt og unglingar oft áhugasamir um frammistöðu sína á lesfimiprófi.
Viðmiðunarreglan er sú að leggja á stuðningsprófin fyrir nemendur sem fá mælitöluna 7 eða lægri á lesfimiprófi. Hjá yngstu nemendunum ætti einnig að leggja stuðningsprófin fyrir nemendur sem fá mælitölurnar 8 og 9 þar sem þeir eru á mörkum mælitölubila.
Notkun stuðningsprófanna er sérstaklega mikilvæg á fyrstu stigum lestrarnáms þar sem þau geta gefið vísbendingar um ástæður slaks gengis á lesfimiprófi eða lítilla framfara milli prófa. Einnig getur verið brotalöm í grunnaðferðum lestrar hjá eldri nemendum, t.d. vegna ónógrar kennslu og þjálfunar, eða vegna lestrarvanda og þá getur verið gagnlegt að leggja stuðningsprófin fyrir. Loks geta kennarar einnig lagt stuðningsprófin fyrir þyki þeim ástæða til að fá nýrri upplýsingar um stöðu nemenda í lestri, t.d. þegar nemandi byrjar í nýjum skóla, eða til að fá nýjar upplýsingar í kjölfar íhlutunar hjá nemendum með lestrargreiningu.
Eins og áður segir má reikna með því að þörfin fyrir að leggja stuðningsprófin fyrir sé meiri á fyrri stigum náms en meginreglan er sú að leggja stuðningsprófin fyrir til að fá skýringu á slöku gengi á lesfimiprófi hjá nemendum á öllum stigum grunnskólans.
Hér er lagt til að nýkomnir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn taki lesfimipróf eigin árgangs í Matsferli innan fjögurra vikna frá upphafi skólagöngu á Íslandi enda mikilvægt að afla upplýsinga um stöðu þeirra í lestri eins fljótt og auðið er. Ef nemendur hefja skólagöngu utan fyrirlagnartímabils skal nota önnur vönduð lesfimipróf sem hafa reynst vel og veita góðar upplýsingar um stöðu nemandans. Í næsta prófaglugga taka nemendur lesfimipróf Matsferils fyrir eigin árgang.
Það er mikilvægt að niðurstöður úr lesfimiprófum fyrir nýkomna nemendur með erlendan bakgrunn séu nýttar til að skipuleggja lestrarnám þeirra. Meta skal framfarir, flæði í lestri og hvaða málhljóð þarf að þjálfa betur.
Stafainnlögn fyrir alla nýkomna nemendur frá 1. - 10. bekk er mikilvæg og tryggja þarf að nemendur fái góða kennslu í íslenska stafrófinu, íslenskum málhljóðum og hljóðfræðireglum málsins. Hefðbundin stafainnlögn fer fram í 1. bekk og því þarf að vera skýrt með hvaða hætti nýkomnir nemendur hljóta markvissa stafainnlögn í 2. - 10. bekk.
Einstaka nemendur eiga í töluverðum erfiðleikum með að ná tökum á lestri vegna lestrarvanda eða annars sem getur haft áhrif á lestrarnám. Fyrir þessa nemendur getur það reynst mikil raun að þreyta lesfimipróf árgangs síns. Þar sem prófútgáfur eru staðlaðar fyrir ákveðinn aldur á ekki að leggja fyrir þessa nemendur próf yngri árganga því þannig fæst ekki marktækur samanburður við jafnaldra og niðurstöður gefa ekki rétta mynd af færni nemanda.
Ef kennari telur að ekki fáist fullnægjandi upplýsingar um stöðu lesfimi nemanda með því að leggja fyrir hann lesfimipróf Matsferils þar sem það er of þungt þarf að ræða bæði við nemandann og forsjáraðila um að leggja annars konar próf fyrir. Hafa þarf í huga mikilvægi þess að leggja fyrir próf sem reyni ekki um of á nemandann, gefi rétta mynd af stöðu hans og góðar upplýsingar um möguleg næstu skref í kennslu og þjálfun. Jafnframt þarf að ræða með hvaða hætti niðurstöður verða settar fram og hvernig framfarir verða metnar.
Í slíkum tilvikum er lagt til að notuð séu önnur úttalin lesfimipróf sem skólinn á til að meta stöðu og framfarir. Velja ætti texta sem reynir hæfilega á nemandann og gefur góða mynd af stöðu hans í lesfimi. Einnig er mikilvægt að meta aðra þætti lesfiminnar ef mögulegt er með því að nota matsrammann fyrir lesfimi til að fá heildstæða mynd af stöðu nemandans.
Líkt og í tilviki nemenda sem leysa staðlaða prófið fyrir sinn árgang er sami textinn lagður fyrir þrisvar yfir skólaárið eða jafnvel oftar ef þörf krefur. Með því að leggja sama texta fyrir er hægt að fá góða tilfinningu fyrir breytingu á stöðu og framförum í kjölfar íhlutunar. Í kjölfarið geta nemendur svo sett sér persónubundin, raunhæf markmið með aðstoð kennara.
Niðurstöður úr öðrum prófum en stöðluðum prófum MMS er hvorki hægt að skrá í Matsferil né bera saman við upplýsingar sem þar birtast, s.s. meðaltal bekkjar eða landsmeðaltal árgangs. Það er hins vegar auðvelt að útbúa yfirlit yfir feril nemandans í Excel enda skiptir það máli bæði fyrir hann og forsjáraðila að niðurstaðan sé sett fram í skýru samhengi og með raunhæfum en hvetjandi hætti.
Það er mjög mikilvægt að nemandi missi aldrei trú á eigin getu og viðhaldi jákvæðu hugarfari til íhlutunar og þjálfunar í lestri. Framfarir eru mjög einstaklingsbundnar en nemandi sem fær markvissa íhlutun og þjálfun er í stöðugri framför og hrósa ber fyrir hvert lítið skref sem tekið er í rétta átt.