Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Stuðningspróf MMS

    Stuðningspróf Matsferils eru tvö: Mat á lestri orðleysa og mat á sjónrænum orðaforða. Prófin veita nánari upplýsingar um stöðu grunnaðferða í lestri en markviss notkun stuðningsprófanna getur einnig gefið vísbendingar um hvaða nemendur það eru sem e.t.v. glíma við undirliggjandi lestrarvanda.

    Stuðningsprófin eru greinandi próf sem mælst er til að kennarar leggi fyrir þá nemendur sem eru undir meðaltali á lesfimiprófi eða fá mælitölurnar 1-7 á lesfimiprófi. Notkun stuðningsprófanna er sérstaklega mikilvæg fyrir nemendur á yngri stigum þar sem lestrarfærnin er að verða til og mikilvægt að kennarar hafi góðar upplýsingar um framvindu lestrarnáms hjá öllum nemendum sínum.

    Sjónrænn orðaforði er safn orðmynda þar sem nemandinn þekkir hljóðræna og sjónræna mynd orða ásamt merkingu fyrirhafnarlaust og án umhugsunar. Prófið er 40 atriða einstaklingspróf sem tekur 1-2 mínútur í fyrirlögn þar sem nemendur lesa stök, merkingarbær orð og veitir það upplýsingar um það hvort og hversu hratt nemandinn þekkir orð um leið og hann sér þau.

    Fái nemandi slakar niðurstöður á þessu prófi geta verið veikleikar í beitingu hljóðaaðferðar hjá honum eða hann þarfnast þjálfunar með aðferðum endurtekins lestrar. Góður sjónrænn orðaforði er forsenda þess að nemandi geti lesið texta af öryggi og áreynslulaust og er þar af leiðandi forsenda lesfimi. Besta leiðin til að auka sjónrænan orðaforða er að þjálfa lestur með aðferðum endurtekins lestrar.