Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Stuðningspróf MMS

    Stuðningspróf Matsferils eru tvö: Mat á lestri orðleysa og mat á sjónrænum orðaforða. Prófin veita nánari upplýsingar um stöðu grunnaðferða í lestri en markviss notkun stuðningsprófanna getur einnig gefið vísbendingar um hvaða nemendur það eru sem e.t.v. glíma við undirliggjandi lestrarvanda.

    Stuðningsprófin eru greinandi próf sem mælst er til að kennarar leggi fyrir þá nemendur sem eru undir meðaltali á lesfimiprófi eða fá mælitölurnar 1-7 á lesfimiprófi. Notkun stuðningsprófanna er sérstaklega mikilvæg fyrir nemendur á yngri stigum þar sem lestrarfærnin er að verða til og mikilvægt að kennarar hafi góðar upplýsingar um framvindu lestrarnáms hjá öllum nemendum sínum.

    Tilgangur stuðningsprófanna er að fá betri upplýsingar um mögulegar ástæður fyrir slöku gengi nemenda á lesfimiprófi. Eðlilegt er að stuðningsprófin séu notuð oftar með ungum nemendum sem eru að ná tökum á lestri á meðan forsendur þeirra til lestrarnáms eru enn að skýrast.

    Viðmiðunarreglan er sú að leggja á stuðningsprófin fyrir nemendur sem eru undir mælitölu 8 (7 eða lægri) á lesfimiprófi þar til viðunandi árangur næst eða skýring á slöku gengi í lestrarnámi liggur fyrir. Þetta á við um nemendur á öllum stigum grunnskólans því skortur á færni í grunnaðferðum lestrar kemur í veg fyrir að nemendur nái góðum tökum á lesfimi óháð aldri sem aftur getur haft áhrif á möguleika nemenda að skilja texta.

    Fái nemandi slakar niðurstöður á orðleysuprófi þarf að leggja fyrir hann stafakönnun og kanna hversu góðum tökum hann hefur náð á heiti og hljóði bókstafa ásamt ritun þeirra. Á Læsisvefnum er að finna stafakönnun sem kennarar geta notað til að kanna bókstafsþekkingu nemenda sinna með reglulegu millibili eða þar til hún er orðin fullkomlega nákvæm og sjálfvirk.

    Fái nemandinn viðunandi niðurstöður á orðleysuprófi en slakar á mati á sjónrænum orðaforða þarf að þjálfa lesfimi með aðferðum endurtekins lestrar til að efla sjálfvirkni og nákvæmni. Á Læsisvefnum, undir lesfimihluta vefsins, má finna ýmsar leiðir til að efla sjónrænan orðaforða nemenda og styrkja grunninn að lesfimi.

    Kennarar geta lagt stuðningsprófin fyrir þyki þeim ástæða til að afla upplýsinga um stöðu ungra nemenda sem eru í neðri mörkum meðaltals með mæltölur 8 eða 9 á lesfimiprófi. Loks getur notkun stuðningsprófanna verið gagnleg til að afla nýrra upplýsinga í kjölfar íhlutunar um stöðu grunnaðferða í lestri hjá nemendum með greindan lestrarvanda.