Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók um notkun lesfimi- og stuðningprófa Matsferils

Lesfimiprófið er fyrsta samræmda stöðu- og framvinduprófið sem fer inn í nýtt stafrænt viðmót Matsferils. Þrátt fyrir að notkun prófsins hafi verið og sé valkvæð hefur það að jafnaði verið lagt fyrir um 90% grunnskólanema á landinu enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu og þróun lestrarfærni nemenda. Stuðningsprófin, eða orðleysulestur og mat á sjónrænum orðaforða, verða einnig aðgengileg í Matsferli enda eiga niðurstöður þeirra að veita nánari skýringu á stöðu undirstöðuþátta í lestri ef gengi á lesfimiprófi er undir æskilegum mörkum.

    Niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófa

    Megintilgangur þess að leggja próf fyrir nemendur er að fá upplýsingar um árangur af kennslu, hver staða nemenda er og hver næstu skref þurfa að vera í lestrarnámi þeirra. Eitt meginmarkmið framsetningar á niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófanna er að uppfylla þennan tilgang með því að veita ítarlegri upplýsingar um stöðuna en áður svo hægt sé að skipuleggja lestrarkennslu einstakra nemenda, bekkjar eða á skólavísu með árangursríkum hætti. Hringrás mats og kennslu lýsir ferlinu skýrt en niðurstöður mats leggja grunninn að öðrum þáttum hringrásarinnar.

    Til að átta sig betur á því hvernig hægt er að nota niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófanna til að skipuleggja kennslu getur verið gagnlegt að skoða dæmi. Hér fyrir neðan er dæmi úr 3. bekk en á þessu stigi í lestrarnámi hefur meðalnemandinn náð góðum tökum á hljóðaaðferðinni, sjónrænn orðaforði fer hratt vaxandi og forsendur til aukinnar lesfimi komnar hjá langflestum ef kennsla hefur verið góð og þjálfun næg og markviss. Þó eru alltaf einhverjir sem enn þurfa töluverðan stuðning og eftirfylgni en þeim ætti að fara fækkandi með hækkandi aldri nemenda ef rétt er á spilum haldið.

    Í dæminu er stuðst við hlutfall nemenda á landsvísu á hverju mælitölubili. Á landsvísu fær 21% nemenda mælitöluna 1-7, 58% fær mælitöluna 8-12 og 21%mælitöluna 13 og yfir. Það þýðir að í 20 nemenda bekk eru að jafnaði fjórir nemendur sem fá mælitölurnar 1-7, 12 nemendur sem fá mælitölurnar 8-12 og fjórir nemendur sem fá mælitölurnar 13 og yfir.

    Í þessu dæmi er að hluta til stuðst við raunverulegar niðurstöður nemenda í 3. bekk og fá fjórir nemendur mjög slakar niðurstöður á lesfimi- og stuðningsprófunum. Hér koma fram vísbendingar um töluverða erfiðleika en ekkert er vitað um magn eða fyrirkomulag stuðnings sem þessir nemendur hafa fengið. Fylgjast þarf vel með öðrum fjórum nemendum en aðrir eru á góðu róli miðað við aldur.

    Hlutfall nemenda með tilteknar mælitölur í einum bekk getur vikið nokkuð frá hlutfallinu á landsvísu. Það getur til dæmis verið tímabundið háð háu hlutfalli nemenda með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn eða óvenjuháu hlutfalli nemenda sem glímir við lestrarvanda. Síðast en ekki síst þarf að hafa í huga að einn stærsti áhrifaþátturinn á gengi nemenda eru gæði lestrarkennslu og möguleikar skóla til að veita nemendum stuðning í lestrarnámi frá upphafi skólagöngu.

    Það verður ekki tæpt nægilega oft á því hversu mikilvægt það er að nýta upplýsingar úr niðurstöðum lesfimi- og stuðningsprófa, ásamt öðrum gögnum sem skólar hafa um nemendur sína, til að koma til móts við nemendur um leið og ljóst er í hvað stefnir.